Borgarstjórn 1. september 2020

Óundirbúnar fyrirspurnir
Fyrirspurn Flokks fólksins:

Löngu fyrir Covid og þau efnahagslegu áföll sem faraldurinn hefur leitt af sér voru borgarbúar farnir að taka eftir hnökrum í þjónustu borgarinnar. Biðlistar eftir þjónustu hafa um áraraðir verið alltof langir. Nú horfir fram á skertar tekjur borgarinnar ásamt aukinni þörf borgarbúa fyrir aðstoð. Það er öllum augljóst að átaks er þörf til að koma í veg fyrir að biðlistar eftir þjónustu lengist til muna og í kjölfarið þarf að stytta þá í eðlilegt horf.

Hefur borgarstjóri og hans fólk áhuga á að ráðast í slíkt átak? Ef svo, hvernig telur borgarstjóri best að ráða bót á vandanum?

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að umhverfis- og skipulagsyfirvöld kynni sér starfshætti hjá fleiri þjóðum varðandi myglu og rakaskemmdir

Tillaga Flokks fólksins um að umhverfis- og skipulagsráð/svið Reykjavíkurborgar kynni sér starfshætti hjá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum og Dönum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði. Loftgæðamál vegna rakaskemmda og annara ástæðna er stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar og fer stækkandi. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð og þegar verið er að vinna í menguðum rýmum við hlið rýma sem eru í notkun. Einnig eru þau notuð til þess að bæta líðan nemenda og starfsfólks og gefa sérfræðingum meira svigrúm til að meta skemmdir og grípa til aðgerða. Þá eru menguðu rýmin innsigluð og aðskilin frá öðrum rýmum og loftefnahreinsitækin notuð til aðstoðar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg skoði þessar aðferðir með opnum hug. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur kynnt sér þá var þessi leið farin í einum af skólum borgarinnar og tókst vel til. Loftefnahreinsitækin virkuðu og ættu því að virka samhliða viðgerðum í öðrum skólum Reykjavíkurborgar til að bæta líðan og minnka kostnað.

Greinargerð:

Loftgæðavandinn í skólum og öðrum byggingum í eigu borgarinnar er ekki nýr. Vandinn er mikið tilkominn vegna áralangrar vanrækslu borgaryfirvalda að viðhalda húsakosti skóla og fleiri bygginga borgarinnar. Afleiðingar hafa verið slæmar fyrir fjölda nemenda og starfsfólks. Nemendur hafa mátt dúsa of margir í litlum loftgæðum og jafnvel þótt skólastjórnendur hafi ítrekað kvartað hefur verið brugðist seint og illa við í mörgum tilfellum. Nemendur og starfsfólk hafa kvartað yfir slappleika, höfuðverk, auknu mígreni og annarri vanlíðan vegna ástandsins í sumum skólum. Spurning er hvort bestu aðferðum hafi verið beitt í glímunni við raka og myglu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fulltrúar umhverfismála borgarinnar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði.
Hér er um að ræða aðferðir sem skilað hafa góðum árangri í öðrum löndum eins og Danmörku og Þýskalandi. Einnig hafa þessar aðferðir verið notaðar hér á landi í öðrum sveitarfélögum og á vegum Ríkiseigna eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Ekki þarf að rýma heilu byggingarnar, heldur er hægt að einangra ákveðin skemmd svæði og halda starfsemi áfram með sem minnstu raski. Þessar aðferðir bæta líðan nemenda og starfsfólks á undan og á meðan framkvæmdatíma stendur auk þess að geta minnkað kostnað.
Auðvitað koma loftefnahreinsitæki aldrei í staðinn fyrir viðgerðir en virka vel sem aðstoð á framkvæmdatíma og einnig fyrir mjög næma einstaklinga þó loftgæði teljist almennt í lagi. Sérfræðingar borgarinnar á þessu sviði þurfa endilega að kynna sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum og ekki trúa í blindni á aðferðir einstaka verkfræðistofa hér á landi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að borgaryfirvöld skoði þetta með opnum hug. Hér eru á ferðinni aðferðir sem virðast skila árangri og kosta minna.

Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Markmiðið hjá Flokki fólksins er að borgaryfirvöld leiti allra leiða til að finna bestu og hagkvæmustu leiðirnar í aðgerðum gegn myglu og raka í skólabyggingum. Margir hafa glímt við veikindi vegna vanrækslu meirihlutans á að viðhalda byggingum með eðlilegum hætti. Rökin fyrir frávísun eru að sérfræðingar borgarinnar viti þetta allt. Engu að síður kemur fram í framsögu formanns umhverfis- og heilbrigðisráðs að sérfræðingar borgarinnar og fyrirtæki sem þeir skipta við þegar upp koma myglu- og rakaskemmdir noti aðrar aðferðir en þessa sem Flokkur fólksins er að leggja til að heilbrigðisyfirvöld skoði enda hafi þær gefið árangur. Tillögunni er því vísað frá. Halda mætti að tillagan ógni einhverjum eða einhverju. Hefur eitthvað fyrirtæki sem borgin skiptir við setið eitt að kjötkötlunum í aðgerðum gegn raka- og myglu? Ef talið er að fyrirtæki sé ógnað með tillögu Flokks fólksins má spyrja hvort það fyrirtæki teljist óháður aðili til að meta myglu- og rakaskemmdir þar sem að það í framhaldi fær vinnu við hönnun mannvirkja sem þarf að breyta vegna rakaskemmda. Eftir situr að umhverfis- og heilbrigðisyfirvöld virðast ekki spennt fyrir að nota öflugan viðurkenndan loftefnahreinsibúnaður til að bæta ástand á meðan beðið er eftir viðgerðum og meðan á viðgerðum stendur.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins staðhæfir í bókun sinni að formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs hafi sagt í ræðu að „… sérfræðingar borgarinnar og fyrirtæki sem þeir skipta við þegar upp koma myglu- og rakaskemmdir noti aðrar aðferðir en þessa sem Flokkur fólksins er að leggja til að heilbrigðisyfirvöld skoði enda hafi þær gefið árangur.“ Þetta er rangt með farið. Formaðurinn sagði hins vegar réttilega að notast er við staðlaðar aðferðir á landsvísu og að þessar samræmdu leiðbeiningar byggi á leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar. Eins kom fram í sömu ræðu að séu notuð einhvers konar tæki þá sé það gert í samráði og samtali fagfólks á sviðinu sem eru í þéttu samstarfi við kollega sína víða um heim og hefur sérþekkingu á loftgæðamálum. Formaðurinn margumtalaði í bókun Flokks fólksins talaði hins vegar aldrei um nein fyrirtæki sem borgin skiptir við í störfum sínum enda átti slík umræða ekkert erindi í umfjöllun um þessa tillögu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er ekki rétt það sem meirihlutinn segir í gagnbókun sinni, en hún nefndi sérstaklega í andsvari sínu hvað aðferðir sérfræðingar borgarinnar notast við og það var ekki sú aðferð sem lögð er til að sérfræðingar borgarinnar kynni sér heldur eitthvað allt annað.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ef raki eða leki kemur upp er fyrst og fremst farið í það að uppræta orsökina, fjarlægja mögulega skemmt byggingarefni og þrífa. Á vef Reykjavíkur eru gefnar leiðbeiningar um hvernig fólk og fyrirtæki geti skoðað húsnæði sitt bæði fyrir rekstraraðila og einkaaðila sem og heimili. Um þetta verklag gilda samræmdar leiðbeiningar Umhverfisstofnunar á landsvísu sem eru byggðar á leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Hjá Heilbrigðiseftirlitinu starfar fagfólk í m.a. loftgæðamálum og er það í nánu samstarfi við erlendar eftirlitsstofnanir og kollega sína og sinnir símenntun sinni og störfum af alúð og fagmennsku. Tillaga Flokks fólksins bætir engu við það verklag eða störf þeirra sem sinna loftgæðamálum í borginni. Henni er því vísað frá.

 

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að öll börn fái sambærileg tækifæri til þátttöku í skóla- og frístundatengdum viðburðum
Tillögunni er frestað

Lagt er til að tryggt verði að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillagan lýtur að verkefnum og viðburðum sem grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða börnum að taka þátt í gegn greiðslu þátttökugjalds. Til að mynda afþreying utanhúss, heimsóknir á ýmsa staði og styttri ferðalög. Samkvæmt gögnum hjá skóla- og frístundasviði sitja börn í reykvískum grunnskólum ekki við sama borð þegar kemur að þátttöku í hinum ýmsu verkefnum/viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi þetta ítarlega á borgarstjórnarfundi þann 16. júní sl. þegar hann lagði fram tillögu um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin. Fjölskyldur í efnahagsþrengingum geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki að bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í aðalnámsskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Skólabörn eiga að sitja við sama borð þegar kemur að skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að Reykjavíkurborg taki þátt í að stofna opinbert hlutafélag, Betri samgöngur ohf.

Tillaga um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. borgarlínu er lögð fram af meirihlutanum. Uppbygging á samgönguinnviðum er vissulega brýnt verkefni. Í þessu félagi hins vegar verða stjórnendur ekki fulltrúar kjósenda. Nokkra þætti í þessum sáttmála styður Flokkur fólksins ekki. Álagning veggjalda er röng og óttast er að meirihlutinn nýti sér veggjöld til að hamla notkun fjölskyldubílsins og refsa þeim sem kjósa bíl sem aðal ferðamáta. Það eru aðrar leiðir til en að setja á veggjöld. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur rökstutt vel að lestur á kílómetrastöðu bíls við árlega skoðun sé ódýr kostur ef leggja þarf gjald á akstur. Í sáttmálanum er ekki hugsað til viðkvæmustu hópanna, efnaminna fólks. Áhyggjuefni er að þétting byggðar meðfram borgarlínu þrengi að grænum svæðum borgarinnar þótt finna megi staði sem sannlega mætti þétta. Tillögur að hverfisskipulagi í Breiðholti bera þessu merki en þar á að byggja 3000 íbúðir á kostnað grænna svæða og bílastæða. Bílastæði eiga almennt ekki að fylgja nýjum íbúðum sem dregur úr eftirspurn. Ef sveitarfélög þurfa að gera sáttmála um fjölmörg atriði eiga þau þá ekki frekar að sameinast? En þangað til þarf að tryggja íbúum ríka aðkomu og gefa kjörnum minnihlutafulltrúum kost á að greiða atkvæði í stórum málum.

 

Bókun Flokks fólksins við 18.-20. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að viðaukar undir lið 12 yrðu bornir upp í sitthvoru lagi þar sem sumir snúa beint að þörfum fólks en aðrir að skreytingum torga. Ekki var orðið við því. Fulltrúi Flokks fólksins styður þá þætti sem lúta að hækkun fjárheimilda til skóla- og velferðarmála. Grynnka verður á biðlistum barna til fagaðila með því að fjölga fagaðilum. Til að skapa atvinnu ætti að hækka fjárheimildir til fasteignaverkefna eins og viðhald skóla og annarra fasteignaverkefna sem snúa beint að grunnþáttum og þjónustu við borgarbúa. Meirihlutinn vill hins vegar setja framkvæmdir við Þingholt-torg efst á lista og hækkar fjárfestingaheimildina um 20 m.kr. Afkoma borgarinnar hefur versnað stórum vegna COVID eins og nýafgreiddur sex mánaða árshlutareikningur sýnir. Rekstur ýmissa málaflokka hefur heldur ekki gengið nógu vel m.a. sem snýr að grunnþjónustu í samfélaginu. Borgin var engan vegin nógu vel undirbúin til að mæta áfalli sem COVID-19 er alla vega ekki þegar horft er til skuldastöðunnar. Afkoma dótturfyrirtækja hefur auk þess versnað. Auknar lántökur eru um 11 milljarðar og hafa skuldir aukist um 33 milljarða á sl. 6 mánuðum. Af hverju hefur borgin ekki notað góðæri til að greiða niður skuldir í stað þess að auka þær?

 

Bókun Flokks fólksins við 13. lið í fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. ágúst:

Á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs var lögð fram skýrsla: Tillögur að aðgerðum gegn matarsóun, dags. júní 2020. Ýmsar framtíðartillögur voru kynntar og tiltekið á hvers ábyrgð þær myndu vera, stjórnvalda eða atvinnulífsins. Framtíðartillögurnar hefði mátt greina nánar, hvað væri t.d. á könnu sveitarfélaganna. Skólar eru á ábyrgð sveitarafélaga og þegar kemur að baráttunni við „matarsóun“ þá er ótal margt sem skólar og börnin vilja gera. Í ljós hefur komið í rannsóknum að mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Virkja ætti öll leik- og grunnskólabörn með því t.d. að bjóða þeim að skammta sér sjálf þegar þau hafa aldur og þroska til og skrá niður hvað og hversu mikið þau leifa. Í sumum skólum er þetta í boði og sumir skólar eru einnig Grænfánaskólar. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 2018 að borgin myndi beita sér m.a. fjárhagslega fyrir því að allir skóla í Reykjavík yrðu Grænfánaskólar og hvernig stemma megi stigu við matarsóun. Tillögunni var hafnað. Í framtíðartillögum skýrslunar sem hér um ræðir hefði mátt leggja meiri áherslu á þátt barnanna. Börn hafa almennt séð afar gaman að verkefnum af þessu tagi þar sem þau sjá mælanlegan ávinning af því sem þau gera.