Skipulags- og samgönguráð 10. júní 2020

Skipulags- og samgönguráð
10. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu umferðaröryggisáætlunar Reykjavíkur 2019-2023, dags. 5. júní 2020:

Kynnt er skýrsla um umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023. Fjallað er um núverandi stöðu slysa og þróun sem og helstu áherslur. Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um eldri borgara og umferðaröryggi. Fram kemur að rannsóknir erlendis frá hafa sýnt að ferðum fækkar þegar fólk eldist sem er eðlilegt.  Eldri borgarar koma síður í miðbæinn eftir umdeildar framkvæmdir sem dregið hafa úr aðgengi að hinum áður vinsæla Laugavegi. Aðgengi hjólandi er gott en eldri borgarar ferðast ekki mikið um á hjólum. Eldri borgarar leggja sjaldan í bílastæðahús af ótta við að villast eða lenda í vandræðum með greiðslukerfið. Huga þarf sérstaklega að öryggi þessa hóps í umferðinni. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði því þegar heimild var veitt í umferðarlögum að fatlaðir geti ekið göngugötur. Af öðrum öryggisþáttum má benda á að lausnir við að bæta öryggi takmarkast af því sem hægt er að gera umhverfislega jafnt sem kostnaðarlega. Að aðskilja andstæðar akreinar  með vegriði er oft hægt að koma við.  Sömuleiðis ætti að byggja göngubrýr alls staðar þar sem það er hægt. Að aka á þungum bílum  veitir vernd en minnkar samsvarandi hjá þeim sem aka á léttum bílum. Til bóta væri að fækka þungum bílum innan þéttbýlasta svæði borgarinnar

Bókun Flokks fólksins við kantsteinagerð á Skólavörðustíg við Bergstaðastræti:

Fulltrúi Flokks fólksins veltir hér fyrir sér forgangsröðun og hvort að hér sé með þessari aðgerð ekki verið að loka fyrir möguleika á að snúa þessari ákvörðun um lokun þessa svæðis við. Eins og margoft hefur komið fram eru miklar deilur um þessa framkvæmd alla og ef sú staða kæmi upp að fáir eigi eftir að koma á svæðið eftir breytinguna og verslanir  komi jafnvel ekki til með að þrífast þarna er mikilvægt að geta breytt aftur til baka með litlum tilkostnaði. Þá getur komið upp sú staða að búið sé að henda 10 milljónum í ekki neitt. Flokkur fólksins leggur til að beðið sé með þessa aðgerð til að sjá hverju framvindur. Hafa skal í huga að um göngugötur eiga eftir að aka bílar, P merktir bílar og  bílar sem losa vörur. Kantsteinar og upphækkanir henta þá illa. Fulltrúi Flokks fólksins skilur ekki sjónarmiðið, hér er verið að eyða peningum að óþörfu.

Bókun Flokks fólksins við Hringbraut – Hofsvallagata, breytingar, óskað er heimildar til að ljúka, í samstarfi við Vegagerðina, undirbúningi breytinga á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu.

Skipulagsyfirvöld óska heimildar til að ljúka undirbúningi breytinga á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu. Flokkur fólksins fagnar að endurnýja á umferðarljósabúnað enda þarna búið að vera ófremdarástand. Það er almennt  erfitt að koma akandi Hringbraut og beygja til suður á Hofsvallagötu og spurning hvort að það verði nokkurn tíma gott eftir allt rask sem orðið hefur á gatnakerfinu. Umferðröryggi gangandi og hjólandi er einnig slæmt vegna þrengsla. Of lítið bil er milli bíla, hjólandi og gangandi. Hofsvallagata rúmar þetta illa.  Það á þátt í að bílar sitja fastir á þessum gatnamótum, margir á leið sinni vestur í bæ og út á Seltjarnes. Vandinn væri ekki svo mikill ef þetta væri ekki önnur helsta leið út á Seltjarnarnes. Fyrir þá sem búa fyrir vestan þessi gatnamót  hlýtur þetta að fara að hafa  áhrif t.d.  á sölumöguleika húseigna þar.

Bókun Flokks fólksins við Vesturlandsvegur, breyting á deiliskipulagi:

Reykjavíkurborg og Vegagerðin standa í sameiningu að gerð deiliskipulags fyrir Vesturlandsveg. Löngu tímabær aðgerð. Flokkur fólksins fagnar tillögum um að aðskilja akstur sem fer í sitt hvor átt með vegriðum. Einnig er tímabært að bæta við hjólastígum og göngustígum.  Gert er ráð fyrir að gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur noti hliðarvegi eða sérstakan göngu- og hjólastíg  og reiðstíga meðfram hliðarvegunum. En slíkir stígar eiga ekki að liggja meðfram fjölförnum bílavegum skyldi maður ætla og vissulega eru einhverjar reglur um það sem hlýtur að þurfa að fylgja. Slíkum stígum ætti að finna stað í einhverri fjarlægð frá bílagötunni? Hér þarf að stíga varlega til jarðar til að ekki verði sóað óþarfa fé í eitthvað sem mun síðan ekki reynast farsælt. Sýna þarf fyrirhyggju í hönnunarvinnunni og umfram allt gæta að öryggis allra ferðalanga. Fulltrúi Flokks fólksins gerir sé grein fyrir að  deiliskipulagsmörkin setja skorður. Og enn skal á það bent að hjólastígar eiga að liggja eins lárétt og unnt er. Brekkur ætti að forðast. Þarna er ekki alveg slétt og  með því að hugsa og hanna rétt má gera hjólastíginn flatan. En ef ekki er hugsað um það verður hann upp og niður og allavega.

Bókun Flokks fólksins við Seljavegur 2, (fsp) uppbygging:     

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að sú stefna meirihlutans að byggja agnarsmáar íbúðir sé á leið út í öfgar ekki síst vegna þess að þessar litlu íbúðir eru rándýrar. Vissulega er markaður fyrir litlar íbúðir og hefur hann farið vaxandi sem er vel. Verið er að byggja agnarsmáar íbúðir í stórum stíl.  Stefnan er að hafa engin bílastæði, e.t.v. deilibílastæði ef vel lætur. Fulltrúi Flokks fólksins er allur fyrir fjölbreytni og gerir kröfu um að þörfum allra verði mætt sem best.  Hér er verið að tala um að minnstu íbúðirnar eru ekki mikið stærri en 35 fermetrar. Dæmi eru um að studíóíbúð er seld á 19 milljónir. Minnstu íbúðirnar geta kostað allt að 30 milljónir á dýrustu stöðunum. Hér er því varla verið að höfða til fólks sem hefur lítið fé milli handanna. Fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá hver eftirspurnin verður eftir þessum litlu skápaíbúðum áður en lengra er haldið svo ekki verði setið uppi með óseldar, rándýrar 30 fermetra íbúðir í stórum stíl.

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Breiðholt 6.2 Seljahverfi:

Með þessum lið og tveimur öðrum eru kynningar: Hverfisskipulag, Breiðholt , Seljahverfi, Efra og Neðra Breiðholt. Í útsendri dagskrá fylgdu engin göng og því útilokað að setja sig inn í allar þær upplýsingar sem liggja fyrir í hverfisskipulagi í Breiðholti. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður kvartað yfir vinnubrögðum af þessu tagi. Það nær engri átt að kynna  svo stór og mikilvæg mál og ætla að keyra þau í gegn án þess að gefa fulltrúum ráðrúm til að skoða málin fyrirfram af einhverri dýpt. Með þessum hætti er verið að skerða möguleika minnihutafulltrúa á þátttöku og tjáningu. Þessu er enn og aftur mótmælt og krafist að allar  kynningaglærur verði í framtíðinni sendar út með dagskrá fundarins.

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Breiðholt 6.3 Efra og Neðra Breiðholti:

Hverfisskipulag þriggja hverfa í Breiðholti er kynnt á fundi skipulags- og samgönguráðs. Mikið magn upplýsinga liggur fyrir sem erfitt er að meðtaka á stuttum tíma. Kynningin vekur upp fjölmargar spurningar. Byggja á ofan á hús í stórum stíl en ekki er talað um hvernig falli  inn í umhverfið eða hugnist íbúum hverfisins.  Fulltrúi Flokks fólksins vill staldra við samráðsferli sem er skref 3 af 6 hjá skipulagsyfirvöldum. Fjöldi íbúafunda eða rýnihópa er ekki merki þess að samráð hafi tekist vel. Á fundi sem þessa komast ekki allir og boðun á þá fer fram hjá mörgum. Fjölbreyttar leiðir til samráðs eru afar mikilvægar, stundum þarf jafnvel að nota símann eða senda persónuleg bréf. Fram kemur í kynningu að reyna á að höfða til unga fólksins og reyna að fá þeirra sjónarmið, hvað leiðir á að nota til þess? Það er mat Flokks fólksins að samráð þarf að koma inn strax í upphafi ferilsins eiginlega um leið og gróf grunnhugmynd liggur fyrir. Grunnhugmyndin gæti því átt eftir að taka á sig ýmsar birtingamyndir ef allt er eðlilegt. Í þessu verkefni er sagt að einstaklega gott samráð hafi nú þegar verið haft við Breiðhyltinga og vonar fulltrúi Flokks fólksins sannarlega að Breiðhyltingar taki heilshugar undir það.

Bókun Flokks fólksins við Rauðhóla lýsing á m.a. umhverfi og gróðri:

Þar kemur fram að á svæðinu finnst  alaskalúpína sem er að dreifast um svæðið. Ljóst er  að lúpína er framandi og ágeng tegund. Við því er lítið að gera eins og staðan er nú, nema að fara að nota illgresiseyða eða að finna náttúrulega óvini lúpínunnar. Um það þarf að taka sjálfstæða ákvörðun og meta þá kosti og galla slíkra aðgerða. Í sambandi við framtíðaráform svæðisins þarf að skoða þetta.

Um vatnsfarvegi gegnir það að það á ekki að koma til greina að spilla náttúrulegri framvindu þeirra.  Flóð verða alltaf í ám og líta ber á að núverandi farvegur, sem og mögulegir farvegir flóða, sé hluti af náttúrulegri framvindu. Þess vegna má ekki þrengja að farvegunum, hvorki með byggingum, eða ,,flóðavörnum” af nokkru tagi.

Bókun Flokks fólksins við Vesturbæjarsundlaug – Hofsvallagata 54, hundagerði:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að skipulagsyfirvöld hafi séð að sér, séð að þetta hundagerði var illa hannað og skipulagt. Nú hefur verð fallið frá því. Versta er að skipulagsyfirvöld skuli ekki hafa hlustað á hundaeigendur og varúðarorð fjölmargra. Nú er búið að eyða tíma og féi borgarbúa í eitthvað sem var fyrirfram dæmt. Hönnun þessa hundagerðið var frá byrjun gölluð. Flokkur fólksins lagði fram margar bókanir og athugasemdir og hverju þyrfti að breyta til að gera gerðið  fullnægjandi, bæði um stærð, lögun og girðingu. En lengi var skellt skolleyrum við. Og hvað nú? Á ekki að setja niður hundagerði? Almennt má segja að viðhorf til hundaeigenda er áberandi neikvætt hjá skipulagsyfirvöldum í borginni. Ekki er hægt að setja upp almennilegt hundagerði en hægt er að hirða árlegt hundaeftirlitsgjald af hundaeigendum sem sannarlega er ekki notað í þágu hundaeigenda og hundanna.

Bókun Flokks fólksins við liðnum fjörulandfylling vegna skólpdælustöðvar:

Stöðin stendur afar nærri fjörukambi Arnarvogs og í ljós hefur komið að til þess að tryggja öryggi byggingarinnar þá er nauðsynlegt að fylla út í voginn aftan við hana. Lögð er fram umsókn Veitna um heimilt til að koma fyrir 105 fm. landfyllingu vestan skólpdælustöðvar til að tryggja öryggi byggingarinnar.  Fylla á fjörur enn frekar til að tryggja að bygging sem stendur nærri fjöru hrynji ekki.

Flokkur fólksins er  almennt á móti  því að ganga á fjörur innan borgarmarka.  Skipuleggjendur þessa verkefnis telja það nauðsynlegt í þessu tilfelli.  Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki sé  kominn tími til að taka meira tillit til umhverfsins þegar finna á húsum stað.  Hreinar fjörur eru mikilvæg svæði t.d. til útvistar. Í framtíðinni verður að tryggja að svona verði ekki gert. Ákveða þarf fyrirfram að friða fjörurnar. Hér er kallað á að skipulagsyfirvöld sýni einhverja fyrirhyggju við hönnun svæða við eða nærri sjónum til þess að vera ekki nauðbeygð síðar til að skemma náttúru.

Bókun Flokks fólksins við svari við tillögu um bílastæðahús borgarinnar og snjallsímaforritið Leggja.is.

Það kemur á óvart hvað bílastæðahúsin eru vanbúin þegar kemur að þjónustu. Tæknilausnir eru lítið nýttar sérstaklega þær sem auka við þjónustu. Bílastæðahús eru vannýtt af ýmsum orsökum. Mörgum finnst þeir ekki öruggir í þeim og óttast að lenda í vandræðum ekki síst með greiðslukerfið. Upplýsingar um opnunartíma eru ekki nógu sýnilegar, í það minnsta lokast fólk inni með bíl sinn vegna þess að það hefur talið að bílastæðahúsið sé opið lengur eða opið allan sólarhringinn. Lendi fólk í vandræðum eftir lokun geta þeir hringt í Reykjavíkurborg. Þá svarar símsvari sem segir fólki að sé neyðartilvik skuli það hringja í 112, sé beðið lengur á línunni (sem hringjandi veit ekki að þarf að gera) fær hann upplýsingar um að hægt er að ýta á neyðarhnapp og komast þá í samband við þjónustuaðila. Hvergi eru í raun leiðbeiningar um þetta og á sjálfri greiðsluvélinni er agnarsmár  hnappur sem fáir taka eftir sem stendur á aðstoð. Allt er þetta með öllu ófullnægjandi enda líður varla sú vika að ekki berist sögur af neikvæðri reynslu fólks í bílastæðahúsum borgarinnar. Reynt hefur verið að benda bílastæðasjóði á þessa vankanta en ekki virðist sem það hafi skilað sér.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um vistvæna bíla, að tvískiptir bílar verði aftur teknir inn á lista vistvænna bíla sem fá frítt í stæði í 90 mínútur. Tillagan er felld.

Tillaga Flokks fólksins um að metanbílar verði aftur teknir á lista yfir visthæfa bíla hefur verið felld en með nýjum reglum sem tóku gildi 1. 1. 2020 voru metanbílar teknir af lista vistvænna bíla og geta ökumenn þeirra ekki lagt gjaldfrjálst í 90 mín. í gjaldskyld stæði. Ekki eru rök hér að baki en í umsögn um tillöguna er skoðun samgöngustjóra reifuð. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að skoðun samgöngustjóra sé ekki marktæk enda er hún er án rökstuðnings.  Skoðun hans skiptir ekki máli hér. Tvískiptir bílar með  metan eða rafmagn sem aðalorkugjafa eru með bensín til vara.  Bílaeigendur fá sér metan- eða rafmagnsbíla til að nota þá orkugjafa. Það er umhverfinu og íslensku hagkerfi til bóta og eitthvað sem borgin í öllu sínu tali um að draga úr útblæstri ætti að skilja og virða. Litlu skiptir þótt í undantekningartilfellum þurf að brenna bensíni. Með þessari aðgerð eru skipulagsyfirvöld í mótsögn við sjálfa sig sem skerðir trúverðugleika þeirra.  Nú er engin hvatning til að kaupa tvískipta metan og rafbíla og er það miður. Hvatning skiptir máli og ef lögð væri áhersla á að selja metan í stað þess að brenna því, sóa því eins og hverju öðru drasli  væri mikið unnið í umhverfismálum

Fyrirspurn Flokks fólksins  um að hvaða marki kostnaðaráætlanir hafi staðist á þessu kjörtímabili og hvaða þættir valda mestum frávikum?   

Nýlega hafa götur verið endurnýjaðar og þörf er víða á slíkum framkvæmdum. Áætlanir hafa oft alls ekki staðist. Tímamörk hafa heldur ekki staðist og óvæntir og kostnaðarliðir bæst við.  Svo virðist að það tengist oft gömlu lagnakerfi. Flokkur fólksins vill spyrja  að hvaða marki kostnaðaráætlanir hafi staðist á þessu kjörtímabili og hvaða þættir valda mestum frávikum?

Fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda stæða og sleppistæða við leikskóla og grunnskóla borgarinnar og hvað mörg eru yfirbyggð:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fjölda stæða og sleppistæða við leikskóla og grunnskóla borgarinnar og hvað mörg eru yfirbyggð. Í ljósi þess að borgarmeirihlutinn er að fækka stæðum við einstaka leikskóla í ákveðnu deiliskipulagi er vísað í Reglur um fjölda bílastæða í Reykjavík.  Í þeim segir m.a. að gera eigi ráð fyrir 0,2 – 0,5 bílastæði á starf, og gera þarf ráð fyrir mun fleirum stæðum eða sleppistæðum við leikskóla og lægri deildir grunnskóla þar sem meiri líkur eru á að börnum í neðri deildum er skutlað í skólann. Mælt er með því að helmingur stæða sé yfirbyggð. Fjöldi stæða skal vera 0,4 stæði/starfsmann og 20 stæði/100 börn. Við Grunnskóla er stæði fyrir starfsmenn plús sleppistæði allt að 60 á 100 nemendur. Fulltrúa Flokks fólksins hefur borist ábendingar frá foreldrum um að stæði fyrir framan suma leikskóla eru of fá og stundum myndist vandræðaástand á álagstímum.

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort það sé reglulega borinn saman kostnaður við að nota sterk steinefni t.d. frá Noregi eða veikari íslenska steinablöndu í malbik í Reykjavík

Flokkur fólksins fýsir að fá upplýsingar um hvort það sé reglulega borinn saman kostnaður við að nota sterk steinefni t.d. frá Noregi eða veikari íslenska steinablöndu í malbik í Reykjavík? Það er mikilvægt  að gæði malbiks séu ávallt þau bestu og ef til vill ætti víðar að notast við sterkari gerð steinefnis í malbikið það sem flutt er inn frá Noregi. Venjulega er notast við sterkara malbik aðeins á mestu umferðargötunum eftir því sem fram kemur í kynningu. Nota ætti sterkara malbikið miklu víðar. Þá verður minna um slit og auknar líkur eru á að dregið verði úr svifryksmengun af völdum slits.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

Fyrirspurn Flokks fólksins um Eflu og hvort öll verk sem Efla hefur fengið hafi verið boðin út

Fulltrúi Flokks fólksins hefur tekið eftir því að skipulagsyfirvöld skipta mikið við Eflu, verkfræðistofu. Hér er um að ræða milljónir árlega. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort öll þessi verk hafi verið boðin út?

Athuga ber að ekki þarf að ná viðmiði um útboðsreglur innkauparáðs til að geta boðið verk út. Eina sem ávallt ber að hafa í huga er að fara vel með fé borgarbúa. Eins veltir fulltrúi Flokks fólksins því fyrir sér hvort allur sá aragrúi af hámenntuðu starfsfólki borgarinnar geti ekki sinnt einhverjum af þeim verkum sem Efla fær inn á sitt borð? Til hvers er að ráða starfsfólk, hámenntað og fært í flestan sjó ef það fær svo ekki að nýta færni sína vegna þess að verkefni á þeirra sviði eru boðin út?

Fyrir þá sem ekki vita og lesa fundargerð skipulags- og samgönguráðs þá er Efla  alhliða verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á öllum sviðum verkfræði, tækni og tengdum greinum. En þetta er einmitt lýsing á starfsgetu og færni margra sérfræðinga á skipulagssviði sem gætu án efa sinnt fjölmörgum verkum sem Eflu er falið.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Fjármálaskrifstofu.

Fyrirspurnir Flokks fólksins um mælingar á umferð á Laugavegi og hvort mæld hafi verið áhrif göngugatna á verslun?

Það hefur verið mikil óánægja með hvernig meirihlutinn hefur gengið fram í að loka ákveðnum götum fyrir umferð í miðbænum. Nú er liðið á annað ár frá því að það kom í ljós að lokun umferðar hafði verulega slæm áhrif á verslun í miðbænum. Heimsóknum Íslendinga sem búa annars staðar í miðbænum hefur snarfækkað. Framkvæmdir og breytingar á aksturstefnu Laugavegar settu strik í reikninginn. Á meðan ferðamannastraumur var mikill þrifust barir, veitingastaðir og minjagripi vel en verslanir sem höfðuðu meira til landans fundu áþreifanlega fyrir vaxandi áhugaleysi á komum í miðbæinn. Einar þrjár kannanir hafa verið gerðar og allar sýna þær sama mynstur. Spurningar voru m.a. hvort viðkomandi var hlynntur göngugötum og hvort hann væri minna eða meira líklegur að heimsækja miðbæinn eftir að loka væri fyrir umferð.  Niðurstöður eru skýrara. Fólki líkar ekki þessar breytingar. Í framhaldinu vill fulltrúi Flokks fólksins leggja fram fyrirspurnir:

  1. Hefur verið gerð rannsókn á því hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur á umferð um íbúagöturnar í kring, Grettisgötu, Njálsgötu og Bergþórugötu?
  2. Hefur umferð um þessar götur verið mæld?
  3. Liggja fyrir einhver töluleg gögn sem styðja þá fullyrðingu um að mannlíf og verslun aukist með fleiri göngugötum?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Tillaga Flokks fólksins leggur  að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum,  skólalóðum og útivistarsvæðum.

Fulltrúi Flokks fólks leggur til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum,  skólalóðum og útivistarsvæðum. Hér er aftur staðfest, og nú í ályktun íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur,   hvernig samráð er hunsað. Fólki er boðið upp á að koma með tillögur og athugasemdir sem síðan er varla litið á. Í ályktuninni  er lýst áhyggjum af hvernig þéttingastefna meirihlutans er farin að ganga á græn svæði borgarinnar. Segir í ályktuninni að  „íbúar hafi ítrekað bent á þessa þróun í gegnum athugasemdir sínar við deiliskipulagsvinnu borgarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga ber þess merkis að vera eingöngu formlegs eðlis þar sem íbúum gefst í reynd ekki tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Réttur til athugasemda er lítils virði ef einungis er tekið mark á athugasemdum frá opinberum aðilum en látið hjá líða að taka mark á athugasemdum íbúa. Samráðsleysið við borgarbúa sem ítrekað benda á hvernig auka megi gæði almenningsrýma er áberandi.“  Svo virðist sem engin takmörk séu þegar þétta á byggð. Ofuráhersla á þéttingu byggðar má aldrei vera gerð á kostnað grænna svæða í borginni.

Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er fráleitt að leggja fram „tillögu“ um hvaða stefnu aðrir kjörnir fulltrúar eigi að hafa um hin og þessi mál. Tillögur eiga að snúast um hvað stjórnvaldið Reykjavíkurborg eigi að gera ekki aðrir kjörnir fulltrúar. Tillögunni er vísað frá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ljóst að þessi tillaga er viðkvæm fyrir skipulagsyfirvöld og þegar svo er, er gjarnan gripið til hneykslunar. Þessi tillaga er byggð á skoðun margra sem hafa áhyggjur af grænu svæði borgarinnar. Það er sérkennilegt hvað skipulagsyfirvöld sem gefa sig út fyrir að vera græn vilja engu að síður ganga á náttúru, græn svæði og fjörur borgarinnar. Hér er kallað eftir samkvæmni frá meirihlutanum. Nýjasta dæmið eru grjótarhrúgu sem finna má á grasbletti út á Eiðsgranda. Hér er eitthvað óljóst á ferðinni sem engin virðist geta svarað en ekki er af þessu prýði svo mikið er víst.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólks  lagði til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum,  skólalóðum og útivistarsvæðum. Tillagan hefur verið felld.  Kvartanir hafa borist frá m.a. íbúðaráði og einnig einstaklingum að skipulagsyfirvöld séu æ meira að ganga á græn svæði og eyðileggja náttúru. Fólki finnst sem ekki sé á það hlustað þótt boðið sé upp á að koma með tillögur og athugasemdir. Að það sé meira til málamynda og til að geta sagst hafa gefið borgarbúum tækifæri til að tjá sig. Ætla má að ábendingar um þetta berist ekki borginni að ósekju. Það kann að vera að meirihlutinn sé kominn með þéttingarstefnu sína út í öfgar. Ef svo er þá er það miður. Eyðilegging á grænu svæði er oftast nær óafturkræfanleg. Hugsa þarf til framtíðar og þeirra sem erfa eiga borgina og landið. Hver vill búa í borg sem er lítið annað en steinsteypa.

Fyrirspurn  Flokks fólksins um hvort ekki er ástæða til að fresta öllum byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer?

Fram hefur komið í drögum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar skipulag byggðar í Skerjafirði að umfang landfyllinga er minnkað. Samt eru forsendur landfyllingar fyrir annan áfanga uppbyggingar á svæðinu eftir því sem fram kemur í drögum.  Fyrir liggur að flugvöllurinn verður á þessum stað næstu 15 árin samkvæmt því sem borgarstjóri segir.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr eftirfarandi:

Er ekki ástæða til að fresta öllum byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer? Þá verður hægt að hanna byggingar án takmarkana á hæð,  öryggissvæðis og margt fleira.  Við brotthvarf flugvallarins verður einfaldlega allt annað umhverfi í boði, og lítil ef nokkur þörf verður þá á landfyllingum.

Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:  

Tillögunni er vísað frá. Fyrirspurnir eru fyrir kjörna fulltrúa til þess að óska eftir faglegum upplýsingum um gögn og stöðu verkefna en ekki til að spyrja aðra kjörna fulltrúa um sína pólitísku afstöðu.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Spurt er um hvort ekki sé ástæða til að fresta öllum byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer úr Vatnsmýrinni enda verður þá allt annað umhverfi í boði. Þessum fyrirspurnum er vísað frá með þeim rökum að verið sé að spyrja um pólitísku afstöðu kjörinna fulltrúa eins og segir í svari. Hér er ekki spurt um pólitíska afstöðu heldur um skipulagsmál enda er umhverfi flugvallarins fyrst og fremst skipulagsmál. Vissulega eru skipulagsmál oft afar pólitísk enda ákvörðuð á pólitískum vettvangi. Fimmtán ár í sögu Reykjavíkur er brot af sögu borgarinnar og þessi 15 ár mega vel líða án framkvæmda. Þegar flugvöllurinn fer, fari hann þ.e.a.s. opnast allt aðrir  möguleikar á byggðaþróun. Þeim möguleika á ekki að spilla með því að byggja í sérhverjum útnára flugvallarins. Þessi fyrirspurn á því algerlega rétt á sér og hefur ekkert að gera við að verið sé að spyrja aðra um pólitíska afstöðu þeirra. Miklu máli skiptir hvort flugvöllur sé á svæðinu eða ekki þegar horft er til byggingaáforma. Ef hann er ekki, eru ekki um sömu takmarkanir á hæð bygginga eða öryggisgirðingar svo eitthvað sé nefnt. Þess vegna er skoðandi hvort ekki sé rétt að bíða með að skipuleggja svæðið þar til að flugvöllurinn fari.

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvað séu mörg  verslunarrými við göngugötur í miðbænum, sem losnað hafa sl. eitt og hálft ár.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað séu mörg  verslunarrými við göngugötur í miðbænum, sem losnað hafa sl. eitt og hálft ár. Spurt er um rými sem hafa losnað við bæði varanlegar göngugötur og tímabundnar? Spurt er vegna þess að fjölmargir rekstraraðilar sem ráku verslanir við þessar götur hafa flutt verslanir sínar annað eða lagt niður rekstur sinn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhuga á að vita hvað mörg rými þar sem áður voru verslanir á þessu tímabili standa nú auð.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skipulagsfulltrúa.

 

Tillaga Flokks fólksins að  Reykjavíkurborg hafi neyðarnúmer/þjónustusíma sem hægt er að hringja í eftir hefðbundinn opnunartíma þjónustuvers.

Tillagan er heimilislaus, hvorki meðtekin í skipulagsráði né borgarráði. Hafnað í fyrra ráðinu og vísað í borgarráð, hafnað þar og vísað í skipulagsráð

Fulltrúi Flokks fólksins gerir það að tillögu sinni að Reykjavíkurborg hafi neyðarnúmer/þjónustusíma sem hægt er að hringja í eftir hefðbundinn opnunartíma
Það er bagalegt hvað margt fólk hefur lent í ómældum vandræðum t.d. í bílastæðahúsum borgarinnar þegar það hefur lokast inni með bílinn sinn. Almennt séð er það ólíðandi að fólk geti ekki hringt í neitt númer, neyðar- eða þjónustunúmer þegar það lendir í vandræðum í einhverjum af stofnunum Reykjavíkurborgar eftir að lokar. Nýtt  dæmi er að kona lokaðist inni í bílastæðahúsi á Laugavegi þar sem hún varð innlyksa með lítið barn en kom bílnum sínum ekki út. Hún hringdi í borgarfulltrúa sem reyndi að ná í einhvern hjá bílastæðasjóði en árangurslaust. Þetta er ekki fyrsta tilfellið þar sem fólk lendir í vandræðum í bílastæðahúsum og hringir í angist sinni. Í þessu tilfelli voru slárnar  uppi og enginn miði kom ef kallað var eftir honum. Þegar konan mætti aftur til að ná í bílinn höfðu slárnar verið settar niður og engin leið fyrir konuna að koma bílnum sínum út þar sem hún var ekki með miða. Hér þarf að bæta úr hið snarasta. Það myndi breyta miklu að hafa þjónustu/neyðarsíma sem fólk hefur aðgang að ef það lendir í vandræðum í borginni.

Greinargerð
Bílastæðahúsin eru nú þegar hálftóm og tilfelli sem þessi hvorki eykur nýtingu þeirra eða vinsældir. Fleiri hafa nefnt að það sé bagalegt að ná ekki í aðstoð þegar fólk hefur lent í þeim aðstæðum að bílastæðahús hafa lokað og bíllinn situr fastur inni en þá virðist enginn vera til að aðstoða. Það getur bæði endað vanlíðan fólks  sem og mikinn tilkostnað.  Bílastæðahús mætti hafa opin eftir venjulega gjaldskyldu bílastæða. Það hvetti til notkunar þeirra og leysti mörg vandamál.

Fyrirspurn um kostnað við gerð hundagerðis við Vesturbæjarlaug:

Hundagerðið var frá upphafi ófullnægjandi fyrir ýmsar sakir og skellt var skolleyrum við ábendingum og varnarorðum hundaeigenda. Engu að síður var haldið áfram með verkefnið. Flokkur fólksins óskar eftir að vita hvað þetta hundagerði kostaði borgarbúa?