Borgarstjórn 15. desember seinni umræða fjárhagsáætlunar

Framlagðar tillögur Flokks fólksins

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, afnám hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021

Tillaga um að afnema hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að afnema hagræðingarkröfu 0.50% á  skóla- og frístundarsvið og velferðarsvið árið 2021 vegna slæmra afkomu þessara sviða á tímum COVID-19.

Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 235.196 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um 142.385 þ.kr. Samanlagt felur tillagan í sér aukin útgjöld sem nemur 377.581 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum Ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem eru verst sett í íslensku.

Tillaga um hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem eru verst sett í íslensku.

Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 43.800 þ.kr. sem felur í sér að úthlutað verði sem nemur 130 þ.kr. vegna barna sem falla undir rautt og gult viðmið skv. Milli mála málkönnunarprófi. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Fjármagni er sérstaklega úthlutað til skólanna vegna kennslu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Milli mála málkönnunarprófinu er ætlað að greina þörf fyrir stuðning við nám á íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í þrjá flokka, grænan, gulan og rauðan, og metið er að þau börn sem fá gula eða rauða niðurstöðu úr prófinu þurfi aðstoð.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að úthlutað verði að lágmarki 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða og gula niðurstöðu. Báðir hópar eru illa staddir. Börn með gula niðurstöðu geta fengið rauða ári seinna.
Árið 2018 tóku málkönnunarprófið  2.294 nemendur. Rauða niðurstöðu fengu 1.997 og  gula  327. Niðurstöður fyrir 2020 liggja ekki fyrir. Um  45% af börnunum sem fengu rauða niðurstöðu 2018 eru fædd á Íslandi af erlendum foreldrum. Ef tekin eru með börnin sem fengu gula niðurstöðu er líklegt að milli 50 og 60% barnanna séu fædd á Íslandi.

Greinargerð

Tillaga sú sem hér er lögð fram gengur lengra en tillagan sem Flokkur fólksins lagði til í  borgarstjórn 3. nóvember. Þá var lagt til hækkun úthlutunar í 130 þús. kr. fyrir hvert barn með rauða niðurstöðu og að börn með gula niðurstöður fengju  hlutfall þeirrar fjárhæðar eins og skóla- og frístundasvið hafði sjálft lagt til 2019.

Sú tillaga sem hér er lögð fram gengur út frá því að úthlutað verði að lágmarki 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða og gula niðurstöðu á Milli mála málkönnunarprófi. Báðir þessir hópar, börn með rauða og gula niðurstöðu er illa sett í íslensku jafnvel þótt meira en helmingur þeirra sem þreyttu málkönnunarprófið séu fædd á Íslandi. Segja má að þau standa á krossgötum. Tryggja þarf með vissu að þeim fari fram en staðni ekki eða fari aftur.

Reykjavíkurborg fær ekki úthlutað úr Jöfnunarsjóði jöfnunarframlag vegna nemenda sem hafa íslensku sem annað tungumál. Ástæður eru flókin deila ríkis og borgar. Á meðan niðurstaða er ekki fengin í málið þarf Reykjavíkurborg engu að síður að sinna með fullnægjandi hætti nemendum af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku. Börn eiga ekki að þurfa að líða fyrir deilumál milli ríkis og borgar. Hér er því um að ræða fjármagn sem verður að koma úr borgarsjóði.

Fram kom í svari borgarstjóra við óundirbúinni fyrirspurn um málið á fundi borgarstjórna 3. nóvember að til standi að undirbúa nýtt úthlutunarlíkan fyrir grunnskóla. Hér er augsýnilega um einhverja framtíðarmúsík að ræða sem skilar sér varla til barnanna næstu mánuði eða misseri. Hver dagur er dýrmætur þegar kemur að því að tileinka sér tungumálið.

Ef litið er enn lengra til baka eða til ársins 2017- 2018 var 190,7 m.kr. úthlutað til þessa verkefnis og því skipt milli skóla. Nokkur þúsund króna hækkun varð á framlagi til sérhvers barna  2018-2019 sem náði þó ekki 10 þús. krónu. Þetta er einfaldlega ekki nóg til að hægt sé að koma þessum börnum til hjálpar með íslenskuna.

Á vorönn 2018 voru töluð 63 tungumál í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Börn af erlendu bergi brotin eiga oft erfitt uppdráttar á Íslandi. Þau kunna íslenskuna ekki nógu vel og þurfa meiri aðstoð við námið heldur en íslenskir bekkjarfélagar þeirra en fá jafnvel ekki næga aðstoð vegna fjárskorts skólans.

Börnin sem hér um ræðir eru bæði börn kvótaflóttamanna og hælisleitenda. Þetta eru börn sem hafa oftast upplifað erfiða hluti í heimalandinu og leggja síðan í erfitt ferðalag til framandi lands. Það er að mörgu leyti haldið vel utan um þessi börn fyrsta árið. Þau fá þjónustu sálfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna sem kostuð er af ríkissjóði. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá stuðning greiddan af ríkinu þann tíma þar til mál þeirra hafa verið afgreidd, en kvótaflóttamenn hafa fengið greiddan stuðning fyrsta árið eftir komu. Eftir það falla þau í sama flokk og önnur börn af erlendu bergi brotin í skólunum. Úthlutað er fjármagni úr potti vegna nemenda af erlendum uppruna.

Staðreyndin er sú að börn af erlendu bergi brotin fá ekki næga aðstoð í íslensku vegna fjárskorts skóla. Það þarf meira fjármagn til að hægt sé að hjálpa þeim börnum sem eru verst sett. Margir skólar eru verulega fjárþurfi, hafa glímt við fjárskorts árum saman eins og sjá má í skýrslu Innri endurskoðunar 2019.
Það eru allir sammála um að gera þarf betur í móttöku barna af erlendum uppruna og í leik- og grunnskólastarfi. Það er ekki nóg að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi.  Það hlýtur að vera markmiðið að þau standi ekki hallari fæti en önnur börn þegar kemur að námi eða öðru sem þau kunna að vilja taka sér fyrir hendur. Til að draumar þeirra geta ræst eins og annarra barna á Íslandi þarf margt að koma til svo sem faglegur stuðningur við starfsfólk og viðeigandi fjárveitingar.

 

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um afnám tekjutengingar við húsnæðisstuðning

Tillaga Flokks fólksins um afnám tekjutengingar húsnæðisstuðnings

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg setji inn bráðabirgðaákvæði í reglugerð um sérstakan húsnæðisstuðning þess efnis að tekjur vegna eingreiðslu til örorku- og endurhæfingalífeyrisþega í desember 2020, desemberuppbótar TR til örorku- og ellilífeyrisþega og desemberuppbótar Vinnumálastofnunar til atvinnulausra leiði ekki til skerðinga á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Launafólk fær greidda desemberuppbót og sú greiðsla er endanleg og hjálpar fólki að halda jólin án þess að hafa áhyggjur af auknum útgjöldum. Seinna meir kemur þetta síðan í “hausinn” á fólki. Þegar framtöl liggja fyrir á næsta ári þá klípur borgin þetta af fólki.  Lífeyrisþegar og atvinnulausir fá einnig greidda desemberuppbót. Það sem skilur að er að lífeyrisþegar og atvinnulausir þurfa ekki aðeins að greiða skatta af sinni uppbót heldur getur hún einnig leitt til skerðinga á réttindum. Þeir sem eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi frá Reykjavíkurborg og jafnframt rétt á desemberuppbót mega því búast við því að sú eingreiðsla leiði til þess að Reykjavíkurborg skerði sérstakan húsnæðisstuðning til þeirra síðar á næsta ári.

Þetta fengu margir að upplifa þegar lögum um félagslega aðstoð var breytt árið 2019. Þá fengu öryrkjar loksins nauðsynlega kjarabót. Sú kjarabót leiddi þá til víxlverkunar vegna reglna Reykjavíkurborgar sem leiddi til lækkunar á sérstökum húsnæðisstuðningi til þeirra.

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurn um málið 2019 og síðar tillögu um að Reykjavíkurborg aðlagaði viðmið sín til þess að leiga hækkaði ekki hjá Félagsbústöðum. Það var mörgum leigjendum Félagsbústaða áfall þegar velferðarráð brást ekki við breyttum lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar. Tillögu Flokks fólksins var hafnað og var leiga hjá rúmlega 1.100 manns hækkuð umtalsvert. Þá kom ekki til greina að endurskoða reglurnar. Stærstu áhyggjur velferðarráðs er að breytingar á reglunum séu útfærðar þannig að þær komi þeim til góða sem á þarf að halda en opni ekki fyrir nýja hópa. Þar sem ekki hefur verið vilji til að ráðast í reglugerðarbreytingar þá halda þeir sem verst eru settir áfram að líða fyrir þessa ósanngjörnu reglu.

Þær auknu tekjur sem frumvarpið skilaði örorkulífeyrisþegum þurrkuðust út hjá þessum hópi. Það hefði aðeins kostað Reykjavíkurborg 18 milljónir að horfa fram hjá þessu, varla dropi í hafið, en mikil búbót hjá yfir 1.100 manns. Þetta hefði Reykjavíkurborg ekki þurft að gera enda aðeins bundin af lágmarkskröfum laganna og leiðbeiningum ráðuneytisins varðandi það hvernig reglur Reykjavíkur um sérstakan húsnæðisstuðning eigi að vera. Þær reglur og þær leiðbeiningar koma ekki í veg fyrir að Reykjavík gangi lengra en almennt gerist og kveði á um að desemberuppbót lífeyrisþega skuli ekki leiða til skerðinga á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Það ætti því ekki að þurfa að breyta lögum til þess að tillaga verði samþykkt um að breyta reglugerðinni þannig að desemberuppbót skerði ekki sérstakan húsnæðisstuðning. Nú er þetta að gerast aftur þegar öryrkjar fá smávægilega uppbót í desember. Þá á að skerða húsaleigubætur þeirra. Við verðum að koma í veg fyrir slíkar víxlverkanir í kerfinu.  Það er verkefni Alþingis að sjá til þess að desemberuppbótin skerði ekki lífeyrisgreiðslur, atvinnuleysisbætur eða húsnæðisbætur. Það er verkefni Reykjavíkur að sjá til þess að desemberuppbótin skerði ekki sérstakan húsnæðisstuðning. Hér er um einskiptisaðgerð að ræða sem gagnast mest þeim sem fátækastir eru. Þessi tillaga felur í sér tiltölulega lítinn kostnað en myndi skila margföldum ábata til þeirra íbúa Reykjavíkurborgar sem þurfa mest á aðstoð að halda. Ef þetta er réttlæti þessa meirihluta, hvernig er þá ranglætið!

Bókun við afgreiðslu meirihlutans á ofangreindum tillögum:

Flokkur fólksins lagði til breytingatillögur sem hafa verið felldar, þær eru: Að afnema skuli hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021. Sviðin eru nú þegar að sligast fjárhagslega. Kostn.: 377.581 þ.kr. Að sett verði inn bráðabirgðaákvæði í reglugerð um sérstakan húsnæðisstuðning til að sporna við að eingreiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega leiði ekki til skerðingar á sérstökum húsnæðisstuðningi og þar með hækkun húsaleigu hjá Félagsbústöðum. Kost: 15.000 þ.kr. Að vannýttar fjárhæðir Frístundakortsins vegna COVID færist yfir á næsta ár, 2021, vegna niðurfellingar/skerðingar frístundastarfs. Kostn. 16.000 þ.kr. milljónir. Að stöðugildum talmeinafræðinga hjá borginni verði fjölgað um tvö en 210 börn eru á biðlista eftir þjónustu þeirra. Kostn.: 28.100 þ.kr. Að stöðugildum sálfræðinga hjá borginni verði fjölgað um þrjú en um 800 börn eru á biðlista eftir skólaþjónustu, flest sálfræðiþjónustu. Kostn.: 42.000 þ.kr. Að styrkir til dagforeldra verði hækkaðir um 15% en dagforeldrar berjast fyrir lífi stéttar sinnar. Kostn.: 61,4 m.kr. Að hækka skuli úthlutun fjárhæðar í 130 þ.kr. á barn af erlendum uppruna, en yfir 2000 grunnskólabörn af erlendum uppruna fædd á Íslandi eru afar illa stödd í íslensku samkvæmt mælingum. Kostn.: 43.800 þ.kr. Tillagan felld en samskonar tillaga lögð fram af meirihlutanum.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu frumvarps að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. desember.

Ekkert í fimm ára áætlun sýnir að taka eigi á biðlistavanda barna sem fá þjónustu á vegum borgarinnar t.d. hjá talmeinafræðingum  eða sálfræðingunum. Biðlistar eru í sögulegu hámarki og hafa lengst í tengslum við COVID. Samfylkingin sem segist jafnaðarflokkur hefur stjórnað  borginni í mörg ár. Formaður Samfylkingarinnar sýndi það í auglýsingu  þegar hann fer inn úr kuldanum og fær sér heitan drykk að hann hefur áttað sig á því að slíkur munaður stendur ekki öllum til boða. Engu að síður, á vakt Samfylkingarinnar, eru um 5000 börn sem búa við fátækt í Reykjavík og sum við sára fátækt. Foreldrar þeirra eiga ekki fyrir mat. Borgarstjóri er í Samfylkingunni en hann studdi ekki tillögu Flokks fólksins um fríar skólamáltíðir í leik-og grunnskólum Reykjavíkur og var einnig gegn tekjutengingu gjalda vegna skólamáltíða og frístundaheimila. Endurskoða á viðmiðunarfjárhæðir í reglum fjárhagsaðstoðar og er það gott. Hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar er hins vegar skammarlega lág. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Til dæmis hækka grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu vegna barna í 16 gr. a úr 16.671 kr. á mánuði í 17.071 kr. á mánuði. Þessi hækkun nær ekki þúsund krónum. Hér má gera betur ef vilji væri til.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að græna planinu – sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til 2030 sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. desember.

Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu græna plansins af þeirri einföldu ástæðu að borgarstjórnarmeirihlutinn notar hugtakið „grænt“ of frjálslega. Orð og athæfi fara ekki saman. Sagt er að standa eigi vörð um störf en á sama tíma er fólk rekið úr störfum. Það samræmist ekki hinni svokölluðu „samfélagslegu vídd græna plansins“. Sagt er að útvista eigi verkum í hagræðingarskyni. Það fær varla staðist. Verktakakaup borgarinnar eru löngu komin út yfir eðlileg mörk sem er alvarlegt mál og efni í aðra bókun. Fulltrúar borgarmeirihlutans segjast vera náttúruunnendur en hafa engu að síður samþykkt að leggja þriðja áfanga Arnarnesvegar þannig að vegurinn mun kljúfa Vatnsendahvarfið eftir endilöngu og takmarka framtíðarmöguleika væntanlegs Vetrargarðs. Ekki liggur fyrir hvernig mengunarmál verða leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik- og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum. Miklir möguleikar eru á að byggja þarna upp gott útivistarsvæði enda hæsti punktur borgarinnar. Fleira mætti telja til sem ekki er í neinu samræmi við græna planið sem er í grunninn hin ágætasta hugmynd. Ef grænt plan á að vera trúverðugt og sannfærandi nálgun þurfa að felast í því samkvæmni og heilindi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu að fjármála- og fjárfestingastefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. desember.

Óvenjulegar aðstæður ríkja nú. Áhersla borgarstjórnar ætti að vera á að fólkið komi fyrst. Ef fólk heldur ekki heilsu, líkamlegri og andlegri, getur það ekki stundað vinnu eða notið lífsins að neinu leyti. Í þeirri fjárhagsáætlun sem nú er lögð fram er talað um endurreisn og græna planið. Atvinnuleysi er meira en 10% í Reykjavík og fer vaxandi. Nú ríður á að taka skynsamleg skref, tryggja fullnægjandi grunnþjónustu og leggja alla áherslu á að sinna þeim verst settu svo fólk geti komið út úr veirukreppunni með von í hjarta. Tryggja þarf störf við skynsamlegar fjárfestingar. Ekki allir eiga heilt og gott heimili sem er hvorki heilsuspillandi né óleyfishúsnæði. Byggja þarf fleiri hagkvæmar íbúðir, hjúkrunarheimili, húsnæði fyrir fatlað fólk og gera átak í viðhaldi á rakaskemmdu húsnæði borgarinnar, ekki síst skólabyggingum. Fleira spilar inn í sem gera málin flóknari. Ávöxtunarkrafa á nýjum grænum skuldabréfaflokki borgarinnar er 4,5%. Þetta eru verri kjör en borgin fékk í útboði í maí en þá var tilboð að nafnvirði 2.6 milljarðar króna með ávöxtunarkröfunni 2,99%. Álag á skuldir borgarinnar hefur því hækkað á þessu ári og vaxtakjör versnað um meira en 50%. Fjármögnun hins svokallaða græna plans á næsta ári er orðin dýr.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi SORPU bs., dags. 27. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarstjórn veiti samþykki fyrir lántökum vegna rekstraráætlunar 2021-2025

Erindi frá SORPU hefur borist þar sem óskað er samþykkis fyrir lántökum vegna rekstraráætlunar samlagsins fram til 2025. SORPA er það byggðasamlag sem farið hefur verst með Reykjavík af öllum byggðasamlögum. Gjaldskrá SORPU hækkar nú um 24% að jafnaði og grundvallast á þeirri reglu að sá sem afhendir SORPU úrgang greiðir fyrir meðhöndlun hans. Loksins er einhver hreyfing á metansölu sem þakka má öflugum markaðsstjóra. Aldrei datt stjórn áður í hug að reyna að gera eitthvað í markaðssetningu metans. Nú á að framlengja yfirdráttarheimild að upphæð 1.100 m.kr. og jafnframt að fá nýtt lán allt að 300 m.kr. til 10 ára. Bs. kerfið er í eðli sínu stórgallað kerfi og það ætti að stefna að því að leggja slíkt kerfi niður. Til að bæta það þarf að auka áhrif kjósenda og minnihlutaflokka, ekki aðeins með því að bjóða þeim meiri aðkomu, það þurfa að vera alvöru áhrif. Leiðir sem mætti skoða eru: Fulltrúafjöldi í samræmi við íbúafjölda í þeim sveitarfélögum sem eiga félagið. Fulltrúar í samræmi við styrk flokka í sveitarstjórnum. Í stað byggðasamlagskerfis gætu komið samningar um einstök verkefni, ef það er hagkvæmt.

 

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðarinnar frá 3. desember og 10. lið fundargerðarinnar frá 10. desember:

Fulltrúi Flokks fólksins styður viðauka sem lúta að aukinni og bættri þjónustu við borgarbúa og vegna COVID. Ekki er hægt að samþykkja deiliskipulag Elliðaárdalsins enda sumt fyrirkomulag þar ekki í nógu mikilli almennri sátt. Elliðaárdalurinn er mörgum afar kær jafnvel þótt varla sé hægt að tala um hann sem ósnortna náttúru lengur. Hann er manngerð náttúra. Þar með er þó ekki sagt að gildi hans sé ekki mikið, þvert á móti. Skort hefur á samráð við borgarbúa varðandi deiliskipulagið. Það hefði verið hægt að vinna þessa borgarperlu miklu meira með fólkinu, með notendum dalsins og aðdáendum hans.

 

Bókun Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið og 10. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:

Umsögn vegna Arnarnesvegar: Þessi umsögn tekur ekki á einum mikilvægasta þættinum í tengslum við lagningu 3. áfanga Arnarnesvegar. Með framkvæmdinni er lokað fyrir frekari nýtingu svæðisins, lokað fyrir framtíðarmöguleika! Þegar er komin hugmynd um Vetrargarð, en hægt er að gera miklu meira í kringum hann ef rými er til staðar. Þetta er hæsti punktur borgarinnar. Þarna má setja upp lágan útsýnispall sem hefur afþreyingargildi. Ef Vetrargarðurinn verður vinsæll þarf hann einhverja möguleika á þróun, stækkun, útisvæði, gönguleiðir o.fl. Vegagerð þarna mun hindra annað sem hefði mun meira jákvætt í för með sér, en að fólk úr austurhluta Kópavogs geti ekið hratt frá Kópavoginum.

Bókun við fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs:
Listi yfir samþykkt hundaleyfi: Það er afar undarlegt að sjá svona lista lagðan fram í ljósi tillögu stýrihóps um endurskoðun gæludýrareglna að fella niður hundaleyfisskyldu. Ef leggja á niður hundaleyfisskyldu er ekkert sem réttlætir lengur hundaeftirlitsgjald. Samt á að halda áfram að innheimta eftirlitsgjald þ.e. af þeim  sem láta skrá hunda sína hjá Reykjavíkurborg sem eru í mesta lagi eigendur 2.000 hunda af áætluðum 9.000 hundum í borginni. Loksins voru vinnuskýrslur birtar sem staðfesta að hundaeftirlitið hafði nánast ekkert að gera. Allt árið í fyrra voru málin aðeins 21 fyrir utan desember, þetta er ein eftirlitsferð á viku fyrir hvorn hundaeftirlitsmann.