Borgarstjórn 15. mars 2022

Borgarstjórn Reykjavíkur
15. mars 2022

Greinargerð með umræðu borgarfulltrúa Flokks fólksins um aðkomu Reykjavíkur að fjölþættri aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu

Inngangur

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir umræðu í borgarstjórn um aðkomu Reykjavíkurborgar að fjölþættri aðstoð og stuðningi (fjárhagsaðstoð, áfallahjálp, sálfræðiaðstoð, tækifærum til menntunar, frístunda og tómstundastarfs) fyrir úkraínsk börn og foreldra þeirra sem setjast að í Reykjavík vegna innrásar Rússahers í land þeirra.

Staðan í dag

Nú þegar hafa á annað hundrað flóttamenn frá Úkraínu óskað eftir hæli hérlendis frá því að innrásin hófst og fjölgar þeim með degi hverjum. Búist er við að tekið verði á móti allt að 2.000 manns frá Úkraínu næstu vikur og mánuði. Sumir munu dvelja hér tímabundið (a.m.k. eins lengi og innrásin stendur yfir) en aðrir munu setjast hér að til lengri tíma og jafnvel aldrei snúa aftur heim.

Stór hluti flóttafólks mun setjast að með börn sín í Reykjavík. Fjöldi úkraínskra barna sem koma til Reykjavíkur á næstu dögum og vikum gæti orðið allt að 200. Nú þegar hefur stórum hópi flóttamanna verið boðið húsnæði í Reykjavík af borgarbúum og einkaaðilum/fyrirtækjum sem hafa aukarými eða hafa yfir að ráða lausu húsnæði. Þak yfir höfuðið er frumskilyrði. Spurt er í því sambandi hvort Reykjavíkurborg geti lagt til húsnæði en mikill húsnæðisskortur er nú í borginni.

Flóttamennirnir koma hingað til landsins allslausir og í miklu áfalli. Þau þarfnast áfallahjálpar og persónulegrar, einstaklingsmiðaðrar aðstoðar fagfólks. Fólkið þarfnast fjárhagsaðstoðar til að geta keypt sér mat og aðrar nauðsynjar. Börnin þurfa að geta komist sem fyrst í leik- og grunnskóla, í frístund og tómstundir. Það er mikilvægt að þau geti farið að lifa eðlilegu lífi í öruggum aðstæðum sem allra fyrst.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fram fari ítarleg umræða í borgarstjórn um hvernig Reykjavík ætlar að haga víðtækri og yfirgripsmikilli aðstoð sinni við flóttafólkið og börnin þeirra. Þessi umræða er mjög brýn nú ekki síst í ljósi þess að nú þegar eru langir biðlistar eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík og biðlistinn eftir félagslegu og sértæku húsnæði er langur. Nú bætist við stór hópur flóttamanna í mikilli þörf og þessu fólki má Reykjavík ekki bregðast. Á sama tíma er ekki hægt að ætlast til að þeim sem beðið hafa vikum og mánuðum saman eftir nauðsynlegri þjónustu, börn, öryrkjar, fátækir, heimilislausir og eldra fólk, verði ýtt til hliðar og þau látin bíða enn lengur.
Það er þess vegna ekki seinna vænna en að Reykjavíkurborg setji sig í stellingar og hugsi þessi mál upp á nýtt. Sú staða sem nú er komin upp kallar á endurskoðun á fjölmörgu. Endurskoða þarf útdeilingu fjármagns. Kallað er eftir nýrri hugsun og nýrri nálgun sem setur fólk í fyrsta sæti. Fólkið fyrst og svo allt hitt.

 

Bókun Flokks fólksins undir  umræðunni:

Flóttamennirnir koma hingað til landsins allslausir. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að veita flóttafólkinu fjárhagslega og félagslega aðstoð. Börnunum er nauðsyn að komast sem fyrst í leik- og grunnskóla og í frístund.

Nú þegar fjöldi stríðshrjáðs fólks streymir til landsins hlýtur borgarmeirihlutinn að verða endurskoða útdeilingu fjármagns úr borgarsjóði. Fresta ætti fjárfrekum framkvæmdum sem geta beðið betri tíma. Geislabaugurinn sem fyrirhugað er að rísi á Lækjartorgi verður að fara á ís. Sama gildir um mörg önnur sambærileg verkefni sem ekki eru nauðsynleg og jafnvel engin er að biðja um.

Flokkur fólksins hefur talað ítrekað um að breyta þurfi forgangsröðun þegar fjármagni er útdeilt. Með komu úkraínsku barnanna bætist í hóp barna sem þarfnast aðstoðar af ýmsu tagi. Þótt fjármagn komi frá ríkinu í einstök verkefni ber sveitarfélagið sína fjárhagslegu ábyrgð sem og siðferðislega.

Kallað er eftir nýrri hugsun, nýrri nálgun í borgarstjórn enda ekki vanþörf á. Langir biðlistar eru eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík. Í biðlistaborginni Reykjavík bíða nú 1804 börn eftir fagþjónustu skóla.

Ef spilin verða ekki endurstokkuð með þarfir fólks í forgangi, er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrg sína um að veita lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um tillögur stýrihóps um uppbyggingu leikskóla, sbr. 16. lið borgarráðs frá 3. mars sl:

Að taka á móti börnum frá 12 mánaða aldri á leikskóla borgarinnar var kosningaloforð Samfylkingarinnar 2018. Skortur á leikskólaplássum er ekki nýr vandi í Reykjavík heldur áralangur. Á kjörtímabilinu hefur ríkt mikil óvissa í þessum málum. Haustið 2021 voru margir foreldrar settir í ólíðandi aðstæður því þeir vissu ekki hvenær börn þeirra fengju leikskólapláss. Nú er lofað að spýta í lófana og minnka bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að fjölga leikskólarýmum. Skortur á leikskólarýmum hefur m.a. verið rakinn til erfiðleika með að spá fyrir um fjölgun barna. Nú bíða mörg hundruð börn eftir plássi. Einnig er von á 300 leik- og grunnskólabörnum frá Úkraínu, kannski fleirum. Hefði staðan í þessum málum verið betri yrði ekki vandkvæðum bundið fyrir úkraínsku börnin að hefja skólagöngu um leið og þau eru tilbúin. Skortur á starfsfólki er annar stórvandi sem hefur verið viðvarandi vandi í leikskólum í mörg ár. Þessum og síðasta meirihluta hefur mistekist að leysa þann vanda. Í áætluninni er ekki minnst á dagforeldra og hvernig sú stétt kemur inn í þessar tillögur. Kallað er eftir heildarmyndinni. Fagna ber hverju skrefi, loforði sem staðið er við og hrósið fær starfsfólk leikskóla fyrir vinnu sína oft í erfiðum og óboðlegum aðstæðum.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um skólaskil:

Tillagan kveður á um að auka sveigjanleika milli skólastiga við upphaf og lok grunnskólans. Tillagan tekur ekki á hvort eða hvernig meta eigi hvort barn sé tilbúið að hefja skólanám ári fyrr. Það er flóknara að finna út hvenær barni hentar að hefja skólagöngu heldur en að ljúka henni, þegar barn á að stunda nám með eldri krökkum. Mikill munur getur verið á vitsmunalegum, félagslegum, tilfinningalegum sem og líkamlegum þroska barna sem fædd eru á sama ári. Ákvæði laga um að börn skuli hefja skyldunám á því almanaksári sem þau verða 6 ára er sett til að reyna að tryggja jafna stöðu. Eigi barn að byrja ári fyrr í skóla er gert mat á þroskastöðu þess samkvæmt ákveðnum viðmiðunarreglum til að kanna hvort það komi til með að standa undir þeim fjölmörgum kröfum, stundi það nám með eldri börnum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að í tillöguna vanti hver hafi lokaorð um hvort barn er tilbúið að stunda nám með eldri krökkum. Flýtingar í námi hafa alltaf verið og eru við lýði en þó aðeins að undangengnu mati sálfræðings og umsögnum þeirra sem þekkja vel til barnsins s.s. leikskólakennara og hjúkrunarfræðinga. Hagsmunir barns eiga að stýra för í þessu sem öðru.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Miðflokksins um að öll ljósastýringarmál fari til Vegagerðarinnar:

Tillagan gengur út á að færa framkvæmd ljósastýringa frá borginni til Vegagerðarinnar og/eða Betri samgangna ohf. Það er rökrétt þar sem þá verður yfirsýn yfir alla ljósastýringu í gatnakerfinu á einni hendi, að því gefnu að önnur sveitarfélög feli einnig Vegagerðinni og/eða Betri samgöngum ohf. sambærilegt verk.

 

Bókun Flokks fólksins við tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að Reykjavík beiti sér gegn spilakössum í Reykjavík:

Spilafíkn veldur samfélagslegum skaða. Þrátt fyrir það eru reknir spilakassar í Reykjavík. Umræða um hvort rétt sé að banna rekstur spilakassa hefur skapast fyrir tilstilli Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem hafa staðið fyrir átakinu lokum.is. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til árið 2021 að Reykjavíkurborg endurskoðaði reglur og samþykktir borgarinnar með það að markmiði að minnka rekstur spilakassa. Tillagan var felld. Reykjavík getur takmarkað rekstur spilakassa og hefur ýmsar heimildir til að setja reglur sem gætu komið í veg fyrir áframhaldandi rekstur spilakassa í borginni eða í það minnsta dregið úr slíkri starfsemi. Lögreglusamþykkt Reykjavíkur kveður m.a. á um að enginn megi reka leiktækjastað eða þess háttar starfsemi gegn borgun nema með leyfi lögreglustjóra að fenginni umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Jafnvel þótt engar reglur hafi verið settar um rekstur spilakassa þá eru í gildi ýmsar samþykktir sem hægt er að breyta og gera þar með ítarlegri kröfur til rekstraraðila. Ef horft er til skipulags borgarinnar væri t.d. góð byrjun að gera kröfu um að ekki megi selja áfengi eða veitingar í spilasölum eða að ekki megi reka spilakassa í rými þar sem fari fram veitingasala eða áfengissala. Það má að minnsta kosti hefja skoðun á því hvort slík reglusetning myndi rúmast innan heimilda borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við  umræðu að aðkomu Reykjavíkur að fjölþættri aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu:

Flóttamennirnir koma hingað til landsins allslausir. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að veita flóttafólkinu fjárhagslega og félagslega aðstoð. Börnunum er nauðsyn að komast sem fyrst í leik- og grunnskóla og í frístund. Nú þegar fjöldi stríðshrjáðs fólks streymir til landsins hlýtur borgarmeirihlutinn að verða að endurskoða útdeilingu fjármagns úr borgarsjóði. Fresta ætti fjárfrekum framkvæmdum sem geta beðið betri tíma. Geislabaugurinn sem fyrirhugað er að rísi á Lækjartorgi verður að fara á ís. Sama gildir um mörg önnur sambærileg verkefni sem ekki eru nauðsynleg og jafnvel enginn er að biðja um. Flokkur fólksins hefur talað ítrekað um að breyta þurfi forgangsröðun þegar fjármagni er útdeilt. Með komu úkraínsku barnanna bætist í hóp barna sem þarfnast aðstoðar af ýmsu tagi. Þótt fjármagn komi frá ríkinu í einstök verkefni ber sveitarfélagið sína fjárhagslegu ábyrgð sem og siðferðislegu. Kallað er eftir nýrri hugsun, nýrri nálgun í borgarstjórn enda ekki vanþörf á. Langir biðlistar eru eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík. Í biðlistaborginni Reykjavík bíða nú 1804 börn eftir fagþjónustu skóla. Ef spilin verða ekki endurstokkuð með þarfir fólks í forgangi er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrgð sína um að veita lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.

 

Bókun Flokks fólksins við 13 lið  fundargerðarinnar frá 3. mars; svar fjármála- og áhættustýringarsviðs við erindi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga varðandi ársreikning 2020:

Flokkur fólksins lýsir sérstökum áhyggjum yfir því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfél:aga telji ástæðu til þess að óska sérstaklega eftir upplýsingum um reikningsskilaaðferð á fasteignum Félagsbústaða hf. í samstæðureikningi Reykjavíkurborgar. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og að hafa eftirlit með því að fjármálastjórn sveitarfélaga sé í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Leiði athugun nefndarinnar í ljós að afkoma sveitarfélags sé ekki í samræmi við ákvæði laganna eða að fjármál sveitarfélagsins stefni að öðru leyti í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarstjórn og kalla eftir skýringum. Þær ábendingar sem koma fram í bréfi nefndarinnar til Reykjavíkurborgar, dags. 3. desember 2021, eru þess eðlis að óhjákvæmilegt er að fá skorið úr öllum álitamálum í þessu efni. Jafnframt skal bent sérstaklega á að í bréfi nefndarinnar kemur skýrt fram hve mikilvægt eftirlitshlutverk kjörinna fulltrúa er með fjármálum borgarinnar og hve þýðingarmikið það er að því sé komið á framfæri í sambandi við undirritun ársreiknings ef vafi leikur á um einstök atriði við uppsetningu eða útfærslu ársreiknings. Það hvetur fulltrúa minnihlutans til dáða við að vera óhrædda við að gera það sem fært er til að fá skorið úr álitamálum er varða reikningsskil Reykjavíkurborgar og frágang ársreiknings hennar.

 

Bókun Flokks fólksins við 9. lið við fundargerð og velferðarráðs frá 2. mars:

Fulltrúi Flokks fólksins harmar viðbrögð og afgreiðslu meirihluta velferðarráðs við tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta á fundi velferðarráðs 2. mars sl. Tillaga ungmennaráðsins var að aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu í öllum grunnskólum yrði bætt. Án nokkurs samráðs við fulltrúa í minnihluta velferðarráðs var lögð fram breytingartillaga sem er með öllu óraunhæf og til þess fallin að slá ryki í auga tillöguflytjanda. Meirihlutinn leggur til að velta vinnunni yfir á heilsugæslusálfræðinga og vill ræða við heilsugæsluna um að heilsugæslusálfræðingar fari út í skólana og veiti grunnskólanemum að sálfræðiþjónustu. Þetta er fráleitt. Heilsugæslusálfræðingar starfa á heilsugæslunni og sinna fjölbreyttum hópi. Til þeirra er langur biðlisti. Í breytingartillögu meirihlutans er gengið svo langt að segja að „skoða hvort og hvernig sálfræðingar Heilsugæslunnar fái afnot af skólahúsnæði til að geta veitt nemendum meðferð líkt og skólahjúkrunarfræðingar hafa haft um langa hríð“. En það eru sálfræðingar skólaþjónustunnar sem eiga að sinna þessum hópi samkvæmt lögum. Þeirra aðsetur er hins vegar á þjónustumiðstöðvum en ekki út í skólum. Ítrekað hefur verið lagt til að færa aðsetur skólasálfræðinga út í skólanna án árangurs. Hins vegar hikar velferðarráð ekki við að leggja það til að finna stað fyrir heilsugæslusálfræðinga í skólum borgarinnar til að sinna vinnu skólasálfræðinganna.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Í samráði við ungmennaráðsfulltrúann var lögð fram breytingartillaga sem var samþykkt af öllum fulltrúum í velferðarráði nema fulltrúa Flokks fólksins.