Borgarstjórn 15. júní 2021

Tillaga Flokks fólksins að borgarstjórn samþykki að setja á laggirnar Vinnumiðlun eftirlaunafólks í Reykjavík

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík stofni Vinnumiðlun eftirlaunafólks. Um er að ræða hugmynd að sænskri fyrirmynd, þar sem eftirlaunafólk getur skráð sig og tekið að sér afmörkuð verkefni tímabundið. Sambærileg hugmynd er nú til skoðunar á Húsavík og hefur verið fjallað um verkefnið í tímariti LEB (Landssamband eldri borgara). Hugmyndin er að nýta þekkingu og verkkunnáttu eldri borgara og eftirlaunafólks og vinna í leiðinni gegn einmanaleika sem margir þeirra upplifa. Þótt fólk sé komið á ákveðinn aldur þýðir það ekki að það geti ekki gert gagn lengur. Aðstæður þessa hóps eru afar ólíkar. Stór hópur eftirlaunafólks hefur verið á vinnumarkaði á öllum sínum fullorðinsárum og hefur haft mikla ánægju af vinnunni enda er hún oft einnig áhugamál fólks. Allt samfélagið myndi stórgræða á að nýta þekkingu og kunnáttu eldra fólks eins lengi og fólk hefur vilja til að vinna.

Greinargerð.

Oft kemur upp sú staða að fyrirtæki vanti starfskraft með stuttum fyrirvara, eða tímabundið. Hægt er að hugsa sér alls konar birtingamyndir í þessu sambandi. Vinnumiðlun eftirlaunafólks myndi virka þannig að fólk sem vill vinna skráir sig og síðan geta einstaklingar og fyrirtæki leitað til vinnumiðlunarinnar, vanti þau fólk í ákveðin verkefni. Þegar búið er að skrá sig er farið yfir hvað viðkomandi hefur gert áður, við hvað þeir hafa starfað og hvar færni þeirra og áhugi liggur. Sá sem skráir sig til vinnu ræður því hvenær hann vinnur og hversu mikið. Sumir vilja ráða sig í starf hálfan daginn, aðrir geta hugsað sér að starfa tvo daga í viku og svo framvegis. Nú er hægt að vinna sér inn 100 þúsund krónur á mánuði án þess að ellilífeyrir skerðist. Úrræðið myndi að sjálfsögðu virka betur ef dregið er úr skerðingum vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Eftirlaunafólk á að fá að vinna eins og því sýnist án skerðinga og njóta afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Meirihlutinn í borgarstjórn getur ef hann vill ákveðið að fylgja ekki almanntryggingarkerfinu og boðið eldra fólki upp á úrræði til að auka virkni og auka tekjur.

Vinnumiðlunin yrði milliliður. Vinnumiðlunin myndi rukka fyrirtæki/stofnun þar sem viðkomandi vinnur og greiða svo laun til starfsmannanna. Fjölmörg störf koma til greina fyrir þennan hóp. Mannauður er mikill enda fólk með langa menntun og  reynslu og ekki hvað síst  lífsins reynslu sem er ómetanleg og getur komið sér vel í flestum störfum. Fyrirkomulagið gengur vel í Svíþjóð og er auk þess til skoðunar á Húsavík eins og framan greinir. Því ætti Vinnumiðlun eftirlaunaþega að geta blómstrað í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að aðrir kjörnir fulltrúar sjái kostina við þessa tillögu og vísi henni þar sem hún á heima til frekari skoðunar og þróunar.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að borgarstjórn samþykki að setja á laggirnar Vinnumiðlun eftirlaunafólks í Reykjavík.

Tillagan er felld en á sama tíma er sagt að mál af þessu tagi sé í skýrum farvegi. Hvaða farvegi er það?
Þessi tillaga byggir á sænskri fyrirmynd, þar sem eftirlaunafólk getur skráð sig og tekið að sér afmörkuð verkefni. Hugmyndin er að nýta þekkingu og verkkunnáttu eldri borgara og eftirlaunafólks og vinna í leiðinni gegn einmanaleika sem margir þeirra upplifa. Þótt fólk sé komið á ákveðinn aldur þýðir það ekki að það geti ekki gert gagn lengur. Aðstæður þessa hóps eru afar ólíkar. Stór hópur eftirlaunafólks hefur verið á vinnumarkaði á öllum sínum fullorðinsárum og hefur haft mikla ánægju af vinnunni enda er hún oft einnig áhugamál fólks. Allt samfélagið myndi njóta góðs af því að nýta þekkingu og kunnáttu eldra fólks eins lengi og fólk hefur vilja til að vinna tímabundið. Það eru mannréttindi að fá að vinna eins lengi og kraftar leyfa og áhugi er fyrir hendi og auðvitað án skerðinga og njóta umfram allt afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem málefni eldri borgara fái ekki mikið vægi í borgarstjórn og sjaldan en minnst á þennan aldurshóp t.d. í mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráði.
Mikilvægt er að auka tækifæri eldra fólks til að starfa og að samfélagið njóti krafta þeirra og þekkingar. Draga ætti örar úr  skerðingum og jaðarsköttum sem leggjast þungt á eldri borgara og öryrkja.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Verkefnið sem tillagan fjallar um er ekki talið á ábyrgð borgarinnar. Ber að nefna að í ráðum borgarinnar hafi fulltrúar ráðanna tillögurétt og málfrelsi. Því eru verkefni mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og það sem tekið er fyrir þar afurð þess sem fulltrúarnir leggja til. Ráðið hefur ekki sjálfstæðan vilja óháð fulltrúum þess.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Það kann að vera rétt að tillagan um vinnumiðlun eftirlaunafólks sé ekki verkefni mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs. Fulltrúi Flokks fólksins vildi aðeins koma því að í þessu sambandi að sjaldan ef nokkurn tímann er fjallað um eldri borgara í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja það til að bragabót verði gerð á því.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki fæst séð að það sé hlutverk borgarinnar að taka að sér vinnumiðlun fyrir fólk sem komið er á eftirlaunaaldur. Fjöldi fyrirtækja og stofnana ráða til sín fólk á öllum aldri, þ.m.t. Reykjavíkurborg.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um velferðarstefnu Reykjavíkur til 2030, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní sl.:

Velferðarstefna er hin fínasta en stefna gagnast fáum nema hún komist í framkvæmd. Hefðu þessi mál verið í forgangi hjá þessum og síðasta meirihluta væri stefna af þessu tagi komin í innleiðingu og orðin virk. Dýrmætur tími hefur tapast sem bitnar ekki síst börnum sem í hundraða tali hafa á þessu kjörtímabili beðið eftir t.d. þjónustu fagfólks í skólaþjónustu. Ekki orð er um biðlista í stefnunni. Börn sem fá ekki nauðsynlega aðstoð eiga á hættu að þeim hraki. Með biðinni er líðan þeirra ógnað enn frekar, jafnvel til frambúðar. Langir biðlistar, fátækt og ójöfnuður er eitt stærsta velferðarvandamálið í borginni. Í borginni er vaxandi fátækt, vaxandi vanlíðan barna og biðlistar í sögulegu hámarki og um 800 manns bíða eftir húsnæði. Áætlaður kostnaður við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar er um 350 m.kr. en endanlegt kostnaðarmat liggur fyrir í október. Ósennilegt er hvort eitthvað af þessum tillögum verði komnar í virkni fyrr en á næsta kjörtímabili. Sú upphæð sem hér um ræðir er ekki há ef samanborið sem dæmi við 10 milljarða sem ráðstafað er nánast á einu bretti í stafræna umbreytingu. Það segir í raun allt um forgangsröðunina hjá meirihlutanum.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um málefni GAJA – gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs.:

GAJA var dýr framkvæmd og illa skipulögð og kemur nú í bakið á eigendum sem eru að stærstum hluta borgarbúar. Þegar hún var í bígerð og byggingu var talað um að frá henni kæmu söluvörur, metan og molta. Enn er verulegur hluti metans brenndur á báli, þrátt fyrir grænt plan og tal um umhverfisvænar áherslur. Meira að segja Strætó bs. er að skoða að kaup á rafvagni um þessar mundir en ekki metanvagn. Þessi tvö bs-fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar geta ekki átt samvinnu um þessi mál. Og moltan, þar er staðan verri. Moltan er ekki frambærileg, full af gleri og plasti en engu að síður sögð „ágætis molta“ af stjórnarmanni borgarinnar í SORPU. Ekki var minnst á þessa mögulega stöðu í áætlunum GAJU. Fulltrúi Flokks fólksins bókaði 2. júní 2020 eftirfarandi: „Margt bendir til þess að væntanleg molta verði ekki söluvara þar sem verkun verður ekki nógu góð. SORPA leggur ekki áherslu á flokkun við heimili heldur treystir á jarðgerðarstöðina.“ En málið er að lítið hefur verið gert til að losna við plastið. Tæknibúnaður er notaður til að skilja plastið frá sem dugar skammt. Nú liggur fyrir það sem blasti við frá upphafi að flokkun þarf að eiga sér stað þar sem sorpið verður til.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um skýrslu stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir:

Verkefnið betri borg fyrir börn var sett á laggirnar 2019. Nú á að innleiða verkefnið betri borg fyrir börn um alla Reykjavíkurborg. Engar árangursmælingar liggja fyrir um hvernig verkefni hefur reynst í Breiðholti. Biðlistar þar hafa ekkert styst en nú bíða 309 börn eftir fyrstu og frekari þjónustu í hverfinu en í allri borginni bíða 1577 börn. Segir á vef borgarinnar að verkefnið miði að því að færa þjónustu í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna og þétta samstarf skóla- og velferðarsviðs í þjónustumiðstöð hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað er átt við með að „þétta“ því ekki á að færa aðsetur skólasálfræðinganna inn í skólana. Hvernig á þá að færa þjónustuna nær? Eiga sálfræðingar að hitta börnin einhversstaðar á milli þjónustumiðstöðva og skóla? Fulltrúa Flokks fólksins finnst að það hefði átt að byrja að mæla árangur af verkefninu áður en ákveðið er að innleiða verkefnið um alla borg í þessari mynd. Árangursmat ætti að vera haft til hliðsjónar við útfærslu verkefnisins frá fyrstu stigum. Ef sífellt er farið af stað með verkefni án þess að undirbúa það m.a. með því að beita viðeigandi mælingum er hætta á að fjármagni sé eytt út í loftið alla vega að einhverju leyti.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu  að hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. júní sl.:

Markmiðið er að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá meginstofnleiðum borgarinnar. Það er mikilvægt að hvetja börn og ungmenni til að hjóla og samhliða verður að tryggja öryggi þeirra sem best. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður minnst á mikilvægi þess að taka fræðslu um reglur á hjólastígum (hjólakennslu) inn í skólana og hefur verið vel tekið í það. Fulltrúa Flokks fólksins finnst einnig mikilvægt að hjólastígar séu flokkaðir eftir öryggi þeirra og gæðum þannig að hægt sé að skoða á netinu hvaða hjólastígar væru öruggir og hverjir jafnvel hættulegir. Víða eru stígar blandaðir, hjóla- og göngustígar sem eru upphaflega hannaðir sem göngustígar. Þá þarf að lagfæra til að þeir verði öruggir fyrir bæði hjólandi og gangandi. Yfirleitt er ekki vöntun á rými og hægt að breikka stígana og búa til aflíðandi beygjur og minnka brekkur. Áhyggjur eru af fjölgun slysa þeirra sem nota minni vélknúin farartæki sem kallar ekki aðeins á aukna fræðslu heldur einnig aukið eftirlit með umferð á blönduðum stígum. Þess utan þá gengur, hleypur og hjólar fólk gjarnan með tónlist í eyrunum og heyrir ekki ef t.d. hjólandi nálgast. Fulltrúi Flokks fólksins nefndi í fyrri bókunum að fjarlægja þurfi járnslár og nú hefur skipulags- og samgönguráð samþykkt að það verði gert.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósíalistaflokks Íslands um útvistun:

Tillaga er um að hætta útvistun. Strætó bs. er eitt af þessum bs.-kerfum þar sem stjórnir taka ákvarðanir sem ekki þjóna endilega notendum og starfsmönnum. Tilviljanleg útvistun getur skemmt starfsanda sem svo leiðir til verri vinnubragða. Borgarstjórn þarf að taka ákvörðun um hvort hún styðji útvistun verkefna yfir höfuð.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Miðflokksins um að tryggja veru Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli til framtíðar.:

Enda þótt ekki sé hægt að tryggja neitt þá eru allar líkur á að flugvöllurinn í Vatnsmýri komist hvorki lönd né strönd. Veðurfarsmælingar svo sem á Hólmsheiði og Hvassahrauni eru í skötulíki og nú kann að vera að eldgos mitt á milli Hvassahrauns og Reykjanesbæjar setji einnig strik í reikninginn.

Bókun Flokks fólksins við svohljóðandi tillögu Kristínar Soffíu Jónsdóttur að börn sem útskrifast af leikskóla snúi ekki aftur á leikskólann eftir sumarfrí heldur taki þátt í starfi frístundaheimilis fram að skólasetningu.:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta að mörgu leyti góð tillaga. Þó má nefna að núverandi fyrirkomulag hentar mörgum börnum mjög vel. Einhverjum börnum kann að finnast það vera nokkuð stórt stökk að byrja í frístund í heilan dag í 2 vikur með nýju fólki og nýju umhverfi. Frístundin getur verið krefjandi fyrir 6 ára börn, mikill fjöldi barna og kannski fáir starfsmenn. Þetta er ekki róleg stund með börnunum til að aðlagast. Gæti jafnvel verið mjög erfitt fyrir sum börn. Síðan er auðvitað vandamál að manna frístund á sumrin og haustin. Hvaða lausnir liggja fyrir í þeim efnum?  Kostir eru þeir að þau börn sem væru að byrja ný í leikskóla komast þá fyrr að sem myndi mögulega eyða óvissutíma og millibilsástandi hjá þeim börnum.

 

Bókun Flokks fólksins við við fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. júní. undir 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. júní:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum 10 milljörðum sem þjónustu- og nýsköpunarsviði er veitt í stafræna umbyltingu og hefur farið þess á leit við innri endurskoðun að skoða hvort skynsamlega sé verið að verja þessu gríðarmikla fjármagni og að skoðaðar verði fjármálahreyfingar sviðsins aftur í tímann. Fulltrúi Flokks fólksins hefur beint ýmsum fyrirspurnum til sviðsins en ekki fengið öll svör. Enn bíða fyrirspurnir vegna brottreksturs fólks af sviðinu og nýráðningum og hvort lögbundnu ráðningarferli hafi ávallt verið fylgt. Einnig hefur verði spurt um launamál. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekkert á móti því að borgin snjallvæðist en þessi skref þarf að taka í samræmi við þann veruleika sem borgin býr við nú. Hagkvæmni þarf skilyrðislaust að vera leiðarljósið. Borgin er ofurskuldsett, er auk þess að vinna sig út úr COVID og þjónustu við börn er verulega ábótavant. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að þegar á heildina sé litið er umhverfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs komið langt út fyrir það sem eðlilegt mætti teljast um aðkomu, umfang og fjársýslu einnar einingar í borgarkerfinu. Fulltrúi Flokks fólksins er fyrst og síðast áhyggjufullur yfir þessu og minnir aftur á biðlista barna eftir aðstoð, s.s. fagþjónustu skólanna, en á biðlista eru nú 1577 börn.

Bókun Flokks fólksins við  undir 2.-5. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. júní:

Meirihlutinn leggur til að samþykkt verði 140 m.kr. aukafjárheimild til að vinna niður biðlista. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta allt of lága upphæð, bara dropi í hafið. Hér þarf meiri innspýtingu enda 1577 börn á biðlista núna. Þegar börn eru annars vegar þarf að taka hærra stökk. Með þessu áframhaldi tekur of langan tíma að ná niður biðlistum og börn hafa ekki þann tíma. Bernskan bíður ekki frekar en annað tímaskeið. Þessar tillögur hefði átt að leggja fram á fyrsta ári þessa kjörtímabil. Annað verkefni sem hefur legið á láginni er að auka jöfnuð milli barna. Þeim er jafnvel mismunað eftir því hvar þau búa en fyrst og fremst er mismununin tilkomin vegna mismunandi aðstæðna og fjárhags foreldra. Í COVID hefur fátækt aukist. Vanlíðan barna hefur einnig aukist sbr. niðurstöður nýrrar könnunar Háskólans í Reykjavík og Rannsóknar og greiningar. Í tillögum meirihlutans er snemmtæk íhlutun reifuð eins og um sérstakt úrræði sé að ræða. Börn eiga ávallt að fá strax aðhlynningu og viðeigandi úrræði ef vart verður við vandamál eða frávik. Samhliða eiga börn að fá þær skimanir og greiningar sem foreldrar og kennarar hafa sammælst um að þörf sé á. Eftir slíku úrræði á ekkert barn að þurfa að bíða.