Borgarstjórn 15. september 2020

Óundirbúnar fyrirspurnir. Beint til borgarstjóra:

Áformað er að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi, sem yrði 1.3 km. langur þjóðvegur í þéttbýli. Hann var samþykktur á samgönguáætlun fyrir 2021 og áætlaður kostnaður skv. samgönguáætlun er 1.6 miljarðar. Áætlanir fyrir veginn byggja á umhverfismati frá 2003, en síðan þá hafa forsendur breyst verulega. Meðals annars þá er byggð í kringum veginn mun þéttari, umferð hefur aukist og áherslur í umhverfismálum hafa breyst. Þessi hluti Arnarnesvegar, sem upphaflega var hugsaður sem ofanbyggðavegur þegar hann var settur á skipulag fyrir 40 árum, mun koma til með að skera í tvennt náttúrulegt útivistar- og útsýnissvæði, sem mikið er nýtt af íbúum borgar og nágrennis. Vegurinn mun koma til með að breyta ásýnd og notagildi þessa dýrmæta græna svæðis til frambúðar
 

Spurning: 

Liður 1

Nýjustu áætlanir af veginum sýna að kostnaður við veginn hefur þegar nær tvöfaldast í tæpa 3 milljarða og hann mun skerða fyrirhugaðan Vetrargarð sem er á nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt. Ef tekið er mið af þeim náttúruspjöllum sem vegurinn mun valda, þessum aukakostnaði og breyttra áherslna í umhverfis- og samgöngumálum er spurt hvernig er það siðferðislega verjandi fyrir borgina sem framkvæmdaleyfishafa að fara ekki fram á nýtt umhverfismat?

Liður 2

Breiðholtsbrautin er þegar sprungin umferðaræð og nú á að bæta við (eða færa til) umferð allt að 20.000 bíla inn á Breiðholtsbrautina í gegnum þenna nýja kafla af Arnarnesvegi. Formaður skipulagsráðs sagði nýlega “að það sé löngu kominn tími á það að meta kolefnislosun af öllum framkvæmdum á samgönguáætlun og forgangsraða þeim sem draga mest úr losun fyrst.” Spurt er hvaða rök eru fyrir því að Arnarnesvegur eigi að vera í forgangi á undan öðrum samgönguverkefnum borgarinnar, eins og t.d. tvöföldun Breiðholtsbrautar, og á hvaða skýrslum byggja þessi rök? 

 

Tillaga Flokks fólksins um að börn fái sambærileg tækifæri til þátttöku í skóla- og frístundatengdum viðburðum

Lagt er til að tryggt verði að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald.
Tillagan lýtur að verkefnum og viðburðum sem grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða börnum að taka þátt í gegn greiðslu þátttökugjalds. Til að mynda afþreying utanhúss, heimsóknir á ýmsa staði og styttri ferðalög.
Samkvæmt gögnum hjá skóla- og frístundasviði sitja börn í reykvískum grunnskólum ekki við sama borð þegar kemur að þátttöku í hinum ýmsu verkefnum/viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi þetta ítarlega á borgarstjórnarfundi þann 16.6.2020 þegar hann lagði fram tillögu um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Þeirri tillögu var hafnað.  Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin. Fjölskyldur í efnahagsþrengingum geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki að bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í aðalnámsskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Skólabörn eiga að sitja við sama borð þegar kemur að skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar.

Greinargerð

Á bilinu 18-35 þúsund einstaklingar búa við fátækt hverju sinni eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru 7-10 þúsund einstaklingar í mikilli neyð. Stærstur hluti þeirra eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og fólk af erlendum uppruna, hælisleitendur, flóttafólk og innflytjendur.

Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 239.000 kr. á mánuði eiga á hættu að búa við fátækt. Foreldrar þessara barna hafa ekkert aukreitis og þurfa því stundum að neita börnum sínum um þátttöku í félagsviðburðum á vegum skóla- og frístundar vegna fjárskorts. Fátækt fólk getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis spurt hvernig sé háttað með börn sem búa við fátækt þegar skólatengd verkefni, viðburðir eða ferðir kalla á óvænt útgjöld hjá foreldrum sem eiga ekki krónu aukalega?

Sé boðið upp á slíkt í tengslum við skólann fyrir gjald er ekki víst að allir foreldrar geti greitt það gjald. Þessi börn fá þar af leiðandi ekki sömu tækifæri til íþrótta og tómstunda og börn foreldra sem eru fjárhagslega sterkari.

Það er vitað að allur gangur er á hvernig þessum málum er háttað í skólum og frístund og allur gangur er á hvernig síðan tekið er á  málum þegar upp koma tilfelli sem hér er lýst.

Árið 2019 lagði borgarfulltrúi  fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau, foreldrar eða skóli. Á fundi borgarráðs 2. maí 2019 kom svar þar sem fram kom að sviðið leitaði eftir svörum frá 36 skólum. Niðurstöður eru að einhverjir skólar greiða yfirleitt kostnað vegna ferðalaga og viðburða. Foreldrar standa hins vegar einir straum af ferðum nemenda í 5 skólum og í 10 skólum standa þeir straum vegna aðgengis á árshátíð og í þremur tilfellum greiða foreldrar fyrir sumarhátíð.

Meirihlutinn í borgarstjórn og skóla- og frístundayfirvöld hafa sagt m.a. í bókun sinni við tillögu Flokks fólksins í júní sl. um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum,  að fyrirkomulagið í þessum málum sé með ýmsum hætti. Fram kemur í bókun þeirra að skólinn greiði oftast fyrir viðburði en fjáröflun er engu að síður í gangi þótt mismunandi sé milli skóla. Stundum er um að ræða samstarf foreldra, nemenda og skóla, með eða án fjáröflun fyrir ferðalög með eða án gistingu. Einnig er það þannig að innheimta skal gjöld af foreldrum vegna gistiferða samkvæmt leiðbeiningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins eins og segir í bókun meirihlutans. Í þeim tilfellum sem fjárhagur foreldra er hamlandi þáttur þá er reynt að grípa til einhverra annarra ráða til að leysa málin farsællega.

Af þessu má sjá að hér er um  hálfgerðan frumskóg að ræða.

Það er skoðun fulltrúa Flokks fólksins að mikilvægt sé að fá upplýsingar um hvernig staðan er nú, hvort þessi mál hafi færst til betri vegar því samkvæmt þessu eru börn ekki að njóta jafnræðis. Þessa þætti þarf að samræma til að auka möguleika barna á jöfnum tækifærum eins og kveður á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Aðalnámskrá og jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar. Kortleggja þarf þetta nánar til að sjá hvort börn sitji við sama borð án tillits til efnahags foreldra.

En sú tillaga sem hér er lögð fram fjallar ekki um að gerð verði könnun heldur að borgarmeirihlutinn og skóla- og frístundaráð tryggi að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald.

Þær greiningar sem nú liggja fyrir hjá skóla- og frístundasviði um heildarkostnað við ýmis konar viðburði innan skólanna í borginni er takmörkuð og gefur ekki fullnægjandi mynd. Taka þarf þessi mál alla leið og sjá til þess að öll börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra í skólatengdum verkefnum.

Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

 

Bókun vegna afgreiðslu tillögunnar:

Á vorönn lagði fulltrúi Flokks fólksins fram sambærilega tillögu þ.e. að gerð yrði jafnréttisskimun á hvort börn eru að fá sambærileg tækifæri til þátttöku í skóla- og frístundatengdum viðburðum. Þeirri tillögu var líka vísað frá. Öll vitum við að börn sitja ekki við sama borð í þessum máli og er ekki hægt að sætta sig við það. Nóg er að fögrum fyrirheitum hjá þessum meirihluta en minna um aðgerðir og framkvæmdir í þágu barna í borginni. Skóla- og frístundasvið hefur viðurkennt að fyrirkomulag þar sem foreldrar eru krafðir sérstakrar greiðslu vegna viðburða eða ferða sé með ýmsum hætti en málin eru sögð óljós. Einhver óreiða er í þessum málum. Þegar upp koma erfið mál þar sem foreldrar hafa ekki ráð á að greiða aukagjöld er reynt að leysa þau með einhverjum reddingum. Oft þarf að leita í einhverja varasjóði.  Hvernig skyldi þeim foreldrum og þeim börnum líða í þessum sporum? Fullnægjandi greiningar liggja ekki fyrir hvernig þessu er háttað. Sagt er að skólinn greiði en að fjármögnun milli skóla geti verið mismunandi. Hvað er átt við? Svo eiga fjáraflanir að redda málum. Það á ekki að þurfa að treysta á slíkt. Skóla- og velferðarkerfi borgarinnar treystir um og of á að aðrir bjargi málum, hjálparsamtök og safnanir.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Stöðu barna í Reykjavík:

Staða flestra barna í Reykjavík er góð. Engu að síður eru ótal hlutir sem mættu vera betri þegar kemur að þjónustu við börn í Reykjavík. Það er miður að ekki skuli vera búið að bæta þar úr en sami meirihluti í skóla- og velferðarmálum hefur ríkt lengi. Meirihlutinn hefur hafnað fjölda tillagna Flokks fólksins sem lúta að bættri þjónustu við börn og foreldra þeirra.  Fyrst skal nefna biðlistavandann. Mánaða ef ekki áralanga bið er eftir sálfræðiþjónustu, þjónustu talmeinafræðinga og fleira fagfólks. Enn eru reglur um frístundakort stífar og ósveigjanlegar sem bitnar á fjölda barna. Þjónusta við börn hefur verið skert sbr. ákvörðun um að stytta opnunartíma leikskóla. Á hverju hausti eru alltaf einhver börn sem ekki geta hafið leikskólagöngu eða dvöl í frístund vegna þess að ekki tekst að ráða í stöðugildi. Reykjavík er eftirbátur annarra sveitarfélaga með margt t.d. gjald skólamáltíða. Biðlistar eru í sérskóla. Inntökuskilyrði í sérskóla eru of ströng. Börn hafa verið látin stunda nám í raka- og mygluskemmdum skóla með alvarlegum afleiðingum.  Margir foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifa uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Hér er bara brot af því sem verður að laga. Síðast en ekki síst, þá vantar sárlega  fleiri bjargráð fyrir tvítyngd börn.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um friðlýsingu í Álfsnesi og við Þerneyjarsund til verndar miðaldahafnar í Reykjavík:

Það er sjálfsagt að styðja friðlýsingu. Rök Minjastofnunar eru sterk. Minjastofnun vísar til almannahagsmuna sem hlýtur að hafa meira gildi en sérhagsmunir. Meðal raka meirihlutans fyrir að hafna tillögu Minjastofnunar Íslands um friðlýsingu menningar- og búsetulandslags við Þerneyjarsund er að „vegstæði Sundabrautar sé undir“.  Lega Sundabrautar hefur ekki einu sinni verið ákveðin. Fleirum finnst þessi rök borgarstjóra ekki halda og er það sjálfur forstöðumaður Minjastofnunar. Í viðtali við forstöðumann Minjastofnunar kemur fram að friðlýsing skerði ekki vegstæði Sundabrautar og að varðveisla minja og lagning brautarinnar geti vel farið saman. Það hlýtur að vera hægt að skoða aðrar leiðir, vissulega þarf Björgun stað en fleiri staðir koma án efa til greina ef út í það væri farið. Meirihlutinn í borgarstjórn á að vera þakklátur nákvæmri vinnu Minjastofnunar. Okkur ber öllum að huga að minjum landsins og vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu á að borgarmeirihlutinn eigi gott samstarf við Minjastofnun í þessu máli sem öðru. Það hefur komið skýrt fram að það megi ekki veita heimild til neins konar framkvæmda á svæðinu án þess að ákvörðun Minjastofnunar Íslands um minjarnar liggi þar fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að breytingar verði gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til að mæta þeim sem geta ekki leitað annað vegna framfærslu á meðan á námi stendur:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu enda hefur verið með sambærilega tillögu í velferðarráði 2019 þar sem henni var synjað. Lagt var til að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að námsmenn sem stunda lánshæft nám en sem eru ekki lánshæfir geti engu að síður sótt um fjárhagsaðstoð. Í tillögunni var vísað í greinargerð umboðsmanns borgarbúa í máli nemanda sem synjað var um fjárhagsaðstoð á þeim rökum einum að hann stundaði nám sem er lánshæft. Viðkomandi, af öðrum ástæðum, uppfyllti ekki skilyrði til að eiga rétt á námsláni, segir í greinargerð umboðsmannsins og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins taka undir það sem stendur þar: „Fyrir liggur að möguleikar viðkomandi á því að stunda nám í þeim mæli sem reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna áskilja eru verulega takmarkaðir og fær viðkomandi því ekki notið þeirra réttinda sem í því felast að stunda lánshæft nám.“ Það segir sig sjálft að þar með eru möguleikar viðkomandi til náms verulega takamarkaðir ef nokkrir. Í þessu tilfelli hlýtur viðkomandi að þurfa að eiga þess kost að sækja um fjárhagsaðstoð og fara í sérstakt mat. Nám leiðir til aukinna möguleika á að fá vinnu, aukins stöðugleika og hærri launa en ella.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. september:

Kynning um fyrirhugaðan Arnarnesveg hefur átt sér stað tvisvar en kynningargögnum er haldið leyndum. Farið var yfir 3 útfærslur, allar óásættanlegar, þar sem allar kljúfa vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði sem og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Útfærsla 1 var sögð ekki koma til greina, væri ekki gerleg og auk þess gríðarlega kostnaðarsöm. Útfærsla 2 er sú sem skipulagsyfirvöld sjarmera greinilega fyrir og leið 3 með mislægu gatnamótin er draumaútfærsla bæjarstjórnar Kópavogs. Allt er þetta byggt á löngu úreltu umhverfismati. Sú staðreynd að skipulagsyfirvöld borgarinnar ætla að taka þátt í þessari eyðileggingu er sérkennilegt því nú er kynnt nýtt skipulag með Vetrargarði einmitt þar sem vegurinn á að liggja. Það þarf að gera nýtt umhverfismat. Annað er ekki siðferðislega verjandi. Augljóslega er hægt að tengja frá Arnarnesvegi-Rjúpnavegi í Kópavogi yfir í Tónahvarf.  Hægt væri að leggja afrein frá Breiðholtsbraut  inn í Víkurhvarf-Urðarhvarf í Kópavogi.  Einnig stækka hringtorgin á þessum leiðum og að gera stórt og greiðfært hringtorg á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs.  Vegurinn yrði þá að mestu innan bæjarmarka Kópavogs. Sjálf Vatnsendahæðin gæfi  þá möguleika á að nýtast enn frekar sem útivistarsvæði. Þar myndi Vetrargarðurinn njóta sín og svæðið vera einstakt og eftirsótt af öllum.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs og 3. og 9. lið í fundargerð velferðarráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir öllum gjaldskrárhækkunum á þessum tímapunkti  í samfélaginu enda aðstæður afar óvenjulegar. Fulltrúi Flokks fólksins styður að sjálfsögðu hækkun greiðslna til stuðningsfjölskyldna. Með öðrum gjaldskrárhækkunum er höggvið í þá sem minnst mega sín á sama tíma og segir í bréfi borgarstjóra „það er varhugavert við þær aðstæður sem nú eru uppi að fara í niðurskurð  til þess að koma rekstri borgarinnar í jafnvægi til skamms tíma“.

Hér er um mótsögn að ræða.  Seilst er í vasa þeirra viðkvæmustu. Á sama tíma mælist Samband íslenskra sveitarfélaga til þess með yfirlýsingu dags. 27. mars 2020 að sveitarfélög haldi aftur af sér við gjaldskrárhækkanir í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðfélaginu. Fundargerð skólaráðs. Stytting opnunartíma leikskóla kemur sér  illa fyrir marga. Ástæðan fyrir styttingu er að það þarf að sótthreinsa skólana. Þetta er gert þrátt fyrir að nýlegt jafnréttismat sýni neikvæð áhrif sem breytingin hefur á jafnrétti kynjanna. Skertur opnunartími mun ekki síður koma niður á foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika í starfi og þeirra sem koma langa leiðir til að sækja vinnu. Hægt hefði verið að finna aðrar lausnir t.d. að ráða inn fólk eftir lokun sem annaðist sótthreinsun.