Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að fyrirkomulag neyðarstjórnar verði endurskoðað þannig að kjörnir fulltrúar fái að sitja fundi neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum neyðarstjórnar:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að fyrirkomulag neyðarstjórnar verði endurskoðað þannig að kjörnir fulltrúar fái að sitja fundi neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum neyðarstjórnar. Við vissar aðstæður er kostur að mynda neyðarstjórn sem hefur þá heimildir til að taka ákvörðun með hraði. Slíkt fyrirkomulag er þekkt einkum þegar vá er fyrir höndum.
Fulltrúi Flokks fólksins telur að við slíkar aðstæður þurfi þó að tryggja lýðræðislega kjörnum fulltrúum yfirsýn yfir störf neyðarstjórnar svo að þeir geti sinnt eftirlitsskyldum sínum. Ef borgarfulltrúar fá að sitja fundi neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fá jafnframt aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem neyðarstjórn byggir ákvarðanatöku sína á þá geta þeir gengið úr skugga um það hvort neyðarstjórn starfi eftir lögum og reglum. Núverandi neyðarstjórn hefur haldið yfir 60 fundi án þess að fundargerðir hafi borist minnihlutanum. Leynd hvílir yfir neyðarstjórninni, leynd gagnvart borgarráði, kjörnum fulltrúum og almenningi. Á neyðartímum er fátt verra en leynd og að halda upplýsingum frá þeim sem kosnir eru til ábyrgðar. Tímabært er að endurskoða þessa skipan og skoða trygga aðkomu kjörinna fulltrúa að neyðarstjórninni.
Greinargerð
Núverandi fyrirkomulag hefur annmarka. Neyðarstjórn var sett á laggirnar með samþykkt borgarráðs 16. ágúst 2018 á grundvelli erindisbréfs þar sem hlutverk hennar var skilgreint. Í skilgreiningu segir m.a.:
„Neyðarstjórn hefur heimild til að taka ákvarðanir og stofna til útgjalda umfram það sem segir í fjárhagsáætlun í neyðartilfellum enda sé um slík tilfelli að ræða að afgreiðsla þeirra þoli enga bið. Borgarráð veitir aðrar nauðsynlegar heimildir vegna sérstakra fjárútláta og er á neyðarstigi í viðbragðsstöðu þar sem nauðsynlegt getur verið að kalla til aukafundar.
Starfsmaður hópsins ber ábyrgð á fundarboðun, undirbúningi funda, fundarritun og úrvinnslu í samráði við borgarstjóra.“
Eins og staðan er núna er upplýsingaflæði frá Neyðarstjórn svo lítið að erfitt er fyrir minnihlutafulltrúa að meta aðgerðir Neyðarstjórnarinnar og hvort nauðsynlegt sé að taka ákvarðanir án þess að leggja þær í lýðræðislegan farveg. Ef kjörnir fulltrúar fá aðgang að fundum og gögnum Neyðarstjórnar þá geta þeir gengið úr skugga um það hvort aðgerðir og ákvarðanir Neyðarstjórnar séu nauðsynlegar eða hvort þær gangi of langt.
Slíkt fyrirkomulag myndi ekki draga úr skilvirkni Neyðarstjórnar, enda myndi áheyrn ekki trufla fundi. Þá þarf ekki að óttast það að trúnaðargögn fari í dreifingu, enda hafa kjörnir fulltrúar þegar aðgang að ýmsum trúnaðargögnum og bera sömu ábyrgð og aðrir við meðferð á trúnaðargögnum.
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins um endurskoðun á fyrirkomulagi neyðarstjórnar hefur verið felld. Rök borgarstjóra fyrir því að vilja ekki minnihlutafulltrúa í neyðarstjórn sem áheyrnarfulltrúa standast engan skoðun. Borgarstjóri segir að tillagan sé misskilningur á hlutverki neyðarstjórnunar. Misskilningur hvers? Sú tillaga sem hér var felld var nú ekki róttækari en svo að borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði aðeins til að í endurskoðun fælist að kjörnir fulltrúar sætu á fundum neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum neyðarstjórnarinnar. Neyðarstjórnin gegnir mikilvægu hlutverki og þar er unnið ómetanlegt starf. Um það er ekki deilt. Fulltrúum minnihlutans hefur verið haldið utan við ákvarðanir og fá stundum upplýsingar fyrst úr fjölmiðlum. Á það er minnt að kjörnir fulltrúar hafa ríka eftirlitsskyldu og bera ábyrgð enda er borgarstjórn fjölskipað stjórnvald. Kjörnir fulltrúar eru kosnir til áhrifa og ábyrgðar en ekki til að vera settir til hliðar og það á neyðartímum. Neyðarstjórnin er aðeins skipuð embættismönnum og borgarstjóra. Embættismenn eru ekki í umboði borgarbúa. Neyðarstjórn með kjörnum fulltrúum er í umboði borgarbúa og gæti hún verið í góðum tengslum ef hún væri skipuð í samræmi við kjörfylgi. Þá hefðu meirihluti sem og minnihluti aðild að neyðarstjórninni. Sama gildir um viðbragðsáætlun, að henni hafa minnihlutafulltrúar heldur enga aðkomu.
Óundirbúnar fyrirspurnir Flokks fólksins lýtur að þjónustunni aðstoð við böðun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um velferðarmál. R20080128:
Sveitarafélög reka hjúkrunarheimilin. Í umræðunni nú er rætt um þörf fyrir mismunandi útfærslur á „hjúkrunar“ –umönnunaraðstæðum Staðfest er að fjöldi hjúkrunarheimila eru í húsnæði sem ekki standast nútímakröfur Eftir plássi er samt löng bið. Þeir eru ófáir sem kvíða að fara á hjúkrunarheimili og fara ekki nema tilneyddir. Það er draumur lang flestra að þurfa ekki að eyða ævikvöldinu á stofnun heldur geta verið heima hjá sér. Til að fólk geti verið heima sem lengst þarf að bæta þjónustuna til muna og bæta við nýjum þjónustuþáttum. Þjónustuþörf er mismunandi eins og gengur en stundum vantar ekki mikið upp á til að viðkomandi geti búið lengur og lengi á heimili sínu.
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í velferðarráði 19. ágúst 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum tillögunum nema fjórum var hafnað. Frávísun var m.a. á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill væru settar af starfsmönnum velferðarsviðs og væru því ekki á ábyrgð velferðarráðs.
Ein af tillögunum var að gera breytingar á verkferlum sem lúta að aðstoð við böðun fólks sem þurfa þá aðstoð. Ýmislegt er ábótavant t.d. að að þeir sem njóta aðstoðar við böðun fái aðstoðina þrátt fyrir að áætlaður baðdagur þeirra lendi á rauðum degi.
Nú líður að jólum. Ákveðinn hópur eldri borgara sem búa heima eru orðnir áhyggjufullir þar sem baðdagur þeirra lendir á rauðum degi og óttast þeir að fara inn í jólin án baðs. Á þessu þarf að finna lausn, það eru jú mannréttindi að komast í bað.
Hyggst borgarstjóra beita sér fyrir að finna lausn á þessu ákveðna máli?
Í beinu framhaldi vill ég einnig spyrja borgarstjóra hvort hann muni beita sér fyrir því að bæta þjónustu við eldri borgara sem búa heima og fjölga þjónustuþáttum til að gera þeim mögulegt að búa heima hjá sér sem allra lengst?
Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir til viðspyrnu vegna heimsfaraldurs COVID-19 ásamt aðgerðartillögum í stafliðum A-E:
Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að flestar þessara tillagna eru of almennar. Kallað er eftir sértækari tillögum sem miðast að því að hjálpa þeim sem eru verst settir en ekki veita peningum til þeirra sem eiga nóg af þeim. Sjálfsagt er að fresta gjalddögum og bjóða upp á greiðsludreifingar. Um borgargjöfina. Hvað hefur efnað fólk að gera með 3000 kr. gjöf úr borgarsjóði. Nær væri að skoða sértækar aðgerðir hér og aðeins þeir verst settu fengju slíka gjöf, einnig liður í að verja störf. Mörg þessara fyrirtækja sem Sjálfstæðisflokkur leggur til að fái ívilnanir eru ekki á vonarvöl og sem hafa tekið inn mikinn hagnað fram að COVID. Þeir sem byggja rað-, par-, tvíbýlis og/eða keðjuhús eru almennt verktakafyrirtæki sem mörg standa vel. Ráðgjöf: Í byrjun COVID lagði Flokkur fólksins fram tillögu um aukna ráðgjöf enda var þörf á því en var sagt að ráðgjafarmál væru í góðum farvegi. Hugmynd að netspjalli er góð en hún er nú þegar kannski komin í gagnið? Hvað varðar matarþjónustu á tímum COVID. Ekkert barn á að þurfa að vera svangt í skólanum. Til að tryggja það eiga skólamáltíðir að vera fríar eins og Flokkur fólksins hefur lagt til en ekki hlotið áheyrn meirihlutans.
Bókun Flokks fólksins við tillögu um að fela menningar-, íþrótta og tómstundaráði og íþrótta- og tómstundasviði að útfæra breyttar reglur um frístundakort í samræmi við tillögur starfshóps um endurskoðun á regluverki um frístundakort frá október 2020.
Tillögur stýrihóps um endurskoðun frístundakorts ganga allt of skammt. Krafa er um að námskeið verði að vera 8 vikur til að nota kortið. Lengd námskeiða er flöskuháls, lengri námskeið eru dýrari og meiri mismunur sem foreldrar greiða. Áfram á að taka réttinn til notkunar kortsins af barninu í þeim tilfellum sem foreldrar vegna fátæktar verða að nota það til að greiða gjald frístundaheimilis í stað þess að styðja foreldra sérstaklega með það. Megintilgangur kortsins er þar með fyrir bí. Segir í skýrslu stýrihópsins þessu til skýringar „að ef heimild til að borga fyrir frístundaheimili með frístundakortinu yrði afnumin er hætta á að foreldrar hefðu börnin sín eftirlitslaus heima“. Ekki er nú mikil trú meirihlutans á foreldrum. Ekki skárri eru þau rök að „það sé ekkert tryggt að allir foreldrar/forráðamenn myndu nýta styrkinn í annað frístundastarf ef ekki væri hægt að nýta á frístundaheimili.“. Að taka réttinn af barni til notkunar frístundakorts til að borga nauðsynjar eins og frístundaheimili er óafsakanlegt. Rök meirihlutans eru: „Kostnaður við gjaldfrjálst frístundaheimili er mikill og ekki lagt til að fella niður aðild þeirra að frístundakortinu að svo stöddu.“ Slök nýting í sumum hverfum er á ábyrgð meirihlutans. Stefna ætti að því að kortið verði fullnýtt í öllum hverfum.
Bókun Flokks fólksins undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember er varðar græna plan meirihlutans í skugga fyrirhugaðs lagningar Arnarnesvegar:
Græna planið lítur vel út á blaði. Það sem fer fyrir brjóstið á fulltrúa Flokks fólksins og fleirum varðandi þetta græna plan er skortur á samkvæmni. Samkvæmnin er ekki meiri en svo að það á að byggja hraðbraut við væntanlegan Vetrargarð. Skipulagning hraðbrautar á þessum stað er stórfelld landníðsla, óafturkræf og getur því varla flokkast undir grænt plan. Hraðbraut sem kljúfa á Vatnsendahvarf að endilöngu mun draga úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild. Borgarmeirihlutafulltrúar segjast vera náttúruunnendur en ætla engu að síður að sprengja fyrir hraðbraut á grænu svæði með fjölbreyttri náttúru og fuglalífi þegar við blasir önnur betri leið sem er að láta veginn liggja um Tónahvarf í Kópavogi. Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum? Vatnsendahvarfið, sem þessi 3. áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum þegar umhverfismatið var gert. Virði svæðisins er meira nú. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla, svo sem lóur, hrossagaukar og spóar verpa þar á hverju ári. Hvernig skyldi hinn græni meirihluta ætla að standa vörð um náttúru- og dýralífið á meðan á framkvæmdum stendur og í kjölfar þeirra?
Bókun Flokks fólksins undir 10. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 29. október er varða athugasemdir við tillögur stýrihóps um reglur um þjónustu við dýraeigendur:
Í sameiginlegri skýrslu Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands gagnrýna félögin tillögur stýrihóps borgarinnar. Innheimta árlegra eftirlitsgjalda, án virks eftirlits er mögulega ólögmætt. Eftirlitsgjald er þjónustugjald sem óheimilt er að innheimta án þess að sinna þjónustunni. Fram kemur í skýrslu stýrihópsins að meginverkefni hundaeftirlitsins í dag felst í að taka við ábendingum um óskráða hunda sem og að fá óskráða hunda á skrá og sinna afskráningum á móti.“ Þetta á ekkert skylt við eftirlit. Ekki er eðlilegt að þeir sem borga skráningargjöld af hundum sínum standi undir kostnaði við eftirlit á því hvort aðrir skrái hunda sína? Heimildir til eftirlits eru ekki ótakmarkaðar sbr. lög um opinberar eftirlitsreglur nr. 27/1999. Af ca. 9000 hundum í Reykjavík eru 2000 skráðir. Eigendur skráðra hunda greiða skráningargjald og árlegt eftirlitsgjald og þegar hundurinn deyr er ekki hægt að afskrá hann nema framvísa vottorði hjá dýralækni sem fólk þarf að greiða fyrir. Um 20% af hundaeigendum borga 100% af eftirlitinu og er gjaldið líka hugsað til að að gæta hagsmuna þeirra sem ekki eru dýraeigendur. Þarna er viðurkennt að innheimta gjaldsins er ekki þjónustugjald heldur skattheimta. Hundaeigendur eru einu dýraeigendurnir í borginni sem greiða skráningar- og eftirlitsgjöld. Hér er hvorki gætt meðalhófs né jafnræðis.