Forsætisnefnd 17. apríl 2020

Bókun Flokks fólksins vegna úrsagnar Einars S Hálfdánarsonar úr endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar:

Það hlýtur að vera áfall fyrir meirihlutann að einn af fjórum endurskoðendum í endurskoðunarnefnd borgarinnar hafi sagt sig úr nefndinni. Rök hans fyrir brotthvarfinu eru alvarleg og hljóta að rýra traust almennings á nefndinni. Nú er það staðfest sem áður hefur komið fram m.a. hjá fulltrúa Flokks fólksins að reikningskilaaðferð Félagsbústaða við uppgjör á tæpum 2000 íbúðum er vafasöm. Flokkur fólksins lagði fram tillögu árið 2018 um að gerð yrði úttekt á rekstri félagsins m.a. til að skoða reikningskilaaðferðir en félagið sýnir í uppgjöri bæði hagnað og tap þar sem íbúðir eru gerðar upp á gangvirði en ekki kostnaðarvirði. Fyrirtækið er stórskuldugt og hefur árum saman ekki getað sinnt lágmarksviðhaldi á eignum. Að gera upp á gangvirði stenst hvorki skoðun né lög að mati Einars sem ráðfært hefur sig við Stefán Svavarsson prófessor. Félagsbústaðir er óhagnaðardrifið félag. Önnur ástæða fyrir brotthvarfi hans er að nefndin hafi verið meðvirk með braggabrotunum og snúið blindu auga að innihaldi braggaskýrslunni en að í henni hafi mátt ráða að sum brotin kynnu að varða við ákvæði hegningarlaga um umboðssvik. Tekur Einar svo djúpt í árina að segja að nefndinni sé ekki sómi að hafa ekki fylgt skýrslunni eftir eins og ábyrgum endurskoðendum ber að gera.