Borgarstjórn 18. janúar 2022

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað þurfi til til að Reykjavík geti farið í  innleiðingaferli á  Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna líkt og gert var í Kópavogi. Í kjölfarið verði stefnt að því að fá afhenta viðurkenningu og vera þar með komin í  hóp Barnvænna sveitarfélaga en hugmyndafræði þeirra byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum. Verkefnið er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins.

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögfestur með lögum nr. 19/2013 og hefur hann lagagildi hér á landi og bein réttaráhrif. Reykjavíkurborg ber því að fara að ákvæðum sáttmálans við ákvörðunartöku og í athöfnum sínum.

Það er mikilvægt að vinna ítarlega greiningarvinnu á högum og aðstæðum barna í Reykjavík. Nokkur brýn mál þarfnast úrbóta. Þau snúa m.a. að aðbúnaði barna og  öryggi í leik- og grunnskólum, rétt þeirra til sálfræði- og talmeinaþjónustu og þátttöku þeirra í ákvörðunum er varða þau sjálf þar sem þess er kostur. Innleiðing Reykjavíkur á Barnasáttmálanum skiptir sköpum þegar kemur að málefnum barna, sérstaklega nú þegar fátækt fer vaxandi og kannanir sýna aukna vanlíðan barna. Tilkynningum til barnaverndaryfirvalda hefur fjölgað.

Greinargerð

Borgarfulltrúi mun nú reifa þau mál sem hafa verið í umræðunni og þar sem sýnt þykir að ekki sé verið að fylgja ákvæðum Barnasáttmálans.

  1. Börn eru látin bíða mánuðum saman eftir nauðsynlegri sálfræðiþjónustu. Að láta börn bíða eftir nauðsynlegri þjónustu stríðir gegn Barnasáttmálanum.
  2. Foreldrum er refsað fyrir að vera í vanskilum í Reykjavíkurborg og bitnar það mest á börnunum. Málefni fátækra foreldra sem eru í vanskilum við Reykjavíkurborg hafa verið í umræðunni. Nokkur fjöldi barna sem bú­sett eru í Reykja­vík­ eiga á hættu að fá ekki boðaða vist í leik­skóla eða eiga jafnvel von á uppsögn á vistunarsamningi við leikskóla.
  3. Nýlega voru árskort ungmenna í strætó hækkuð. Sýnt er að breytingarnar hafa mest áhrif á börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður.
  4. Málefni Fossvogsskóla hafa verið í hámæli en ekki er vitað um áhrif þess á nemendur. Umboðsmaður barna hefur einnig bent á mikilvægi þess að ferlar og verklag sem byggt verði á feli í sér skýra upplýsingagjöf til barnanna og rétt þeirra til þátttöku og áhrifa.

Umboðsmaður barna hefur beitt sér í öllum þessum málum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis rætt þessi mál (biðlista eftir talmeinafræðingi og sálfræðiþjónustu; áhrif og afleiðingar myglu í leik- og grunnskólum; foreldrum refsað fyrir að vera í vanskilum og hækkun námskorta strætó)  í ræðu og riti og lagt fram tillögur til úrbóta sem og bókað um þessi mál í fjölmörgum tilfellum.

Verður nú vikið nánar að ofangreindum málum.

Fossvogsskóli, áhrif og afleiðingar myglu á andlega og líkamlega heilsu barna og starfsfólks

Þann 28. maí 2020 sendi umboðsmaður barna bréf til borgarstjóra Reykjavíkur vegna erinda sem embættinu höfðu borist þar sem greint var frá áhyggjum nemenda í Fossvogsskóla vegna ástands húsnæðis skólans og framkvæmda vegna myglu og raka. Í þeim erindum kom jafnframt fram að Reykjavíkurborg, skóla- og frístundasvið hafi ekki haldið upplýsingafundi fyrir nemendur og að þeir hafi fyrst og fremst fengið upplýsingar um framgang verkefnisins og stöðu mála í gegnum foreldra sína. Í bréfi umboðsmanns barna voru Reykjavíkurborg og stjórnendur Fossvogsskóla hvött til þess að huga sérstaklega að rétti barna til upplýsinga, þátttöku og besta mögulega heilsufars samkvæmt ákvæðum Barnasáttmálans, við töku ákvarðana um skólahúsnæði Fossvogsskóla. Það er ekki hvað síst á vettvangi sveitarfélaga sem sinna fjölþættri þjónustu við börn að tryggja að réttur barna til þátttöku í ákvörðunum sem varða þau sjálf sé ítrekað áréttaður og virtur í hvívetna.

Málefni Fossvogsskóla er áfall. Foreldrar reyndu ítrekað að ná eyrum skóla- og frístundasviðs og Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, borgarstjóra og meirihlutans alls til að lýsa yfir áhyggjum vegna stöðu skólans og áhrifa myglu á heilsu nemenda. Skellt var skollaeyrum við.

Aðstandendur barna lýstu jafnframt ítrekað yfir óánægju sinni um aðgerðir,  framkomu og viðbragðsleysis skóla- og frístundasviðs og borgaryfirvalda. Ljóst var að reyna átti að þagga málið alla vega á einhverjum tímapunkti. Nú er viðurkennt af borgaryfirvöldum að bregðast hefði átt við fyrr og hlustað hefði átt betur.

Ef horft er til ákvæða Barnasáttmálans má ljóst þykja að fjölmörg ákvæði hans voru brotin í þessu máli og fleirum sambærilegum. Ástandið vegna myglu hefur valdið nemendum og foreldrum þeirra streitu og áhyggjum með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum á líkamlega og andlega líðan barnanna. Ráðstafanir líkt og þær að færa starfsemi skóla í önnur hverfi borgarinnar raskar verulega lífi nemenda og foreldra þeirra. Ásakanir um að skóla- og borgaryfirvöld upplýsi ekki nemendur um gang mála og veiti þeim tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og taki tillit til þeirra í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 eru alvarlegar. Umboðsmaður barna hefur kallað eftir að Reykjavíkurborg láti framkvæma óháða úttekt á viðbrögðum og aðgerðum skóla- og borgaryfirvalda vegna ástands húsnæðis Fossvogsskóla og kynni þær niðurstöður fyrir skólasamfélaginu. Í þessu sambandi mun borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja á borðið svör Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur við fyrirspurnum borgarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð þegar ljóst var að ekki hafði tekist að leysa vandann. Í svörum frá Heilbrigðisnefndinni var fulltrúa Flokks fólksins úthúðað og hann sakaður um dylgjur.

Hægt er að læra mikið af þessu máli þegar farið er í að skoða hvað þarf að bæta til að hægt sé að innleiða Barnasáttmálann í Reykjavík. Einnig er tímabært að skoða hvað þarf að bæta til að Reykjavík geti innleitt Barnasáttmálann þegar kemur að rétti barna til upplýsinga og þátttöku. Skólar eru vinnustaðir barna og þess vegna eiga þau að fá upplýsingar um stöðu mála hverju sinni og næstu skref. Börn eiga að hafa greiðan aðgang að skólayfirvöldum og að öllum þeim sem fara með og taka ákvarðanir um þeirra mál í stjórnkerfi borgarinnar.

Hækkun ungmennakorta í gjaldskrá Strætó

Fulltrúi Flokks fólksins hefur mótmælt hækkun á verði ungmennakorta í gjaldskrá Strætó enda ljóst að hækkunin muni hafa mest áhrif á börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður.

Margir treysta á þjónustu Strætó til að komast til og frá skóla og vinnu. Ungmennaráð Hafnarfjarðar hefur tjáð sig opinberlega um þessar hækkanir og er þeim mótmælt harðlega. Með breytingunni hækkaði verðið á árskorti fyrir ungmenni 12-17 ára úr 25.000 í 40.000 krónur, eða um 60%.

Umboðsmaður barna hefur einnig sent bréf á Strætó BS. vegna nýtilkominna breytinga á verðskrá fyrirtækisins. Í bréfi umboðsmanns kemur fram að honum hafi meðal annars borist ábending frá foreldri sem hafi þrjú ungmenni á framfæri og þurfi nú að borga 120.000 krónur fyrir almenningssamgöngur barna sinna. Að greiða slíka upphæð er ekki á færi allra foreldra, ekki síst einstæðir foreldrar, foreldrar í láglaunastörfum og foreldrar utan vinnumarkaðar. Þá er einnig ljóst að í þó nokkrum tilvikum eru það ungmennin sjálf sem þurfa að standa straum af kostnaði vegna strætóferða og því mun umrædd hækkun koma sér afar illa fyrir þann hóp, sem mun því verða af ýmsum tækifærum og hafa minni möguleika til að stunda nám, tómstundastarf og eiga í félagslegum samskiptum, segir í bréfi umboðsmanns.

Foreldrum refsað vegna vanskila og bitnar refsingin mest á börnunum

Nokk­ur fjöldi barna sem bú­sett eru í Reykja­vík­ur­borg eiga á hættu að fá ekki boðaða vist í leik­skóla vegna van­skila for­eldra við sveit­ar­fé­lagið. Þá hef­ur einnig komið fram að dæmi séu um að for­eldr­ar hafi fengið til­kynn­ing­ar um upp­sögn á vist­un­ar­samn­ingi við leik­skóla af sömu ástæðum sem eykur enn á erfiðleika for­eldra og dreg­ur úr lík­um á að skuld sé greidd. Ákvörðun sveit­ar­fé­lags um að synja for­eldr­um í erfiðri stöðu um vist­un fyr­ir barn í leik­skóla er ein­göngu til þess fall­in að auka á erfiðleika viðkom­andi heim­il­is með því að gera for­eldr­um síður kleift að stunda vinnu utan heim­il­is og fram­færa börn sín. Þannig minnka sömu­leiðis lík­urn­ar á því að skuld­ir for­eldra við viðkom­andi sveit­ar­fé­lag verði greidd­ar.

Umboðsmaður barna hef­ur sent er­indi til skrif­stofu borg­ar­stjóra vegna vist­un­ar barna í leik­skól­um borg­ar­inn­ar og van­skila for­eldra. Í erindinu segir að þessi staða sem nú er uppi í ís­lensku sam­fé­lagi mun vafa­laust hafa al­var­leg áhrif á mörg börn og lík­legt sé að vanskil for­eldra aukist. Því þarf að leita nýrra leiða til að tryggja börn­um þá nauðsyn­legu þjón­ustu sem þau eiga rétt á og for­eldr­um í erfiðleik­um stuðning og ráðgjöf, seg­ir í bréfi umboðsmanns barna. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir þá ósk umboðsmanns barna að verklag borgarinnar í þessu máli verði endurskoðað.

Hlúa þarf sér­stak­lega að börn­um sem búa við fá­tækt á heim­ili sínu á öllum sviðum daglegs líf.  Bent er á að sam­kvæmt leik­skóla­lög­um, nr. 90/​2008, er leik­skól­inn fyrsta skóla­stigið í skóla­kerf­inu. Meg­in­mark­mið leik­skóla­starfs­ins er að hlúa að börn­um í sam­ræmi við þarf­ir hvers og eins svo að börn fái notið bernsku sinn­ar. Það barn sem ekki fær vist­un í leik­skóla verður því af mennt­un, fé­lags­leg­um sam­skipt­um og þroska og á hættu á að upp­lifa tengsl­arof og höfn­un með til­heyr­andi nei­kvæðum af­leiðing­um fyr­ir lífs­gæði þess og þroska.

Vísað er til erindis umboðsmanns barna:

„Umboðsmaður barna skor­ar á Reykja­vík­ur­borg að taka verklag borg­ar­inn­ar í um­rædd­um mál­um til end­ur­skoðunar þannig að tryggt sé að börn fái í öll­um til­vik­um, óháð aðstæðum for­eldra þeirra, notið rétt­ar síns til fram­færslu, mennt­un­ar og þroska.“

Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins einnig nefna afgreiðslu vanskilamála vegna skólamáltíðar. Um þetta hefur Flokkur fólksins bókað eftirfarandi:
Það er léttir að fá það staðfest að engum áskriftum á skólamáltíðum er nú sagt upp vegna vanskila sem þýðir þá að börn fá að borða þótt foreldrar séu með áskriftina í vanskilum.

Af 9.514 útgefnum reikningum í hverjum mánuði fóru 4,2% til innheimtufyrirtækisins á síðasta ári og voru 1,5% ennþá ógreiddir þann 1. nóvember 2021. Ef foreldrar geta ekki greitt safnast dráttarvextir sem elta fátæka foreldra næstu árin.

Biðlistar rótgróið mein í Reykjavík

Hinn 1. nóvember 2021 voru 400 börn á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings. Heildarbiðlisti telur nú 1680 börn og bíða flest börn eftir sálfræðingi.
Umboðsmaður barna hefur tjáð sig um þetta mál og segir að borist hafi fjölmargar kvartanir vegna fyrirkomulags þjónustu á þessu sviði hjá Reykjavíkurborg.

Ábyrgð borgarinnar er mikil og byggir m.a. á samkomulagi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn frá árinu 2014. Reykjavíkurborg á samkvæmt samkomulaginu að veita börnum með vægari frávik þjónustu innan leik- og grunnskóla sveitarfélaga enda telst það hluti af þeirra menntun. Börn með stærri frávik er vísað í þjálfun hjá talmeinafræðingum sem eru hluti af rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands.

Börn eiga rétt á sálfræðiþjónustu á vegum skólaþjónustu en þar hefur gengið illa að grynnka á biðlistanum. Tugir barna bíða þess utan eftir annars konar fagþjónustu sem borginni ber skylda að veita þeim samkvæmt sveitastjórnalögum.

Lokaorð

Tillaga Flokks fólksins sem hér er lögð fram er að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað þurfi til til að Reykjavík geti farið í  innleiðingaferli á  Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna líkt og gert hefur verið í Kópavogi. Í kjölfarið verði stefnt að því að Reykjavík fái afhenta viðurkenningu og vera þar með komin í  hóp Barnvænna sveitarfélaga en hugmyndafræði þeirra byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum. Verkefnið er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins.

Hér er vitnað í orð umboðsmanns barna um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna:

„Meðal þess sem sáttmálinn gerir kröfu um, er að allar ákvarðanir sem varða börn, byggi á því sem þeim er fyrir bestu, að undangengnu mati á bestu hagsmunum þeirra og áhrifum þeirrar ákvörðunar sem til stendur að taka hverju sinni. Þá gerir önnur meginregla Barnasáttmálans kröfu um að öll börn njóti réttinda Barnasáttmálans, án mismununar af nokkru tagi eða tillits til félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu foreldra þeirra“ segir umboðsmaður.

Þau mál sem hér hafa verið reifuð stríða gegn ákvæðum Barnasáttmálans og samræmist þar með í engu hagsmunum barna. Af ofangreindu að dæma er víða pottur brotinn þegar kemur að réttindum barna í Reykjavík.

Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst liggur nú fyrir borgarráði erindi frá UNICEF þar sem Reykjavíkurborg er boðið að taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Það erindi var sent til umsagnar skóla- og frístundasviðs sem átti að leita liðsinnis velferðarsviðs og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu við gerð umsagnarinnar. Ekki er vitað hvar í kerfinu erindið liggur. Því hefur enn ekki verið tekin nein ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar um að taka þátt í verkefninu. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að nauðsynlegar umsagnir frá fagsviðunum berist hið snarasta.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins:

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað þurfi til til að Reykjavík geti farið í innleiðingaferli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna líkt og gert var í Kópavogi hefur verið vísað til borgarráðs. Tillagan gengur út á að skipa starfshóp en erindinu er vísað inn í lægra sett stjórnvald sem er borgarráð og þar sem fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki atkvæðarétt. En eins og kom fram í ræðu fulltrúa Flokks fólksins þá liggur erindi í borgarráði frá UNICEF þar sem Reykjavíkurborg er boðið að taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Það erindi var sent til umsagnar skóla- og frístundasviðs sem átti að leita liðsinnis velferðarsviðs við gerð umsagnarinnar. Fram kemur hjá meirihlutanum að erindið sé ekki „ ofan í skúffu“ en samt hefur ekki bólað á neinni ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar um að taka þátt í verkefninu. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að nauðsynlegar umsagnir frá fagsviðunum berist hið snarasta. Faglegast hefði verið að samþykkja þessa tillögu og vísa erindi UNICEF í þann hóp. Það er undarlegt að Reykjavík skuli vera eftirbátur mun minna sveitarfélags í þessu mikilvæga máli. Staðreyndin er sú að ákvæði Barnasáttmálans eru brotin víða í málefnum barna Reykjavík.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að horfið verði frá þéttingu við gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar í ljósi mikillar andstöðu við skipulagsáformin þar, eins og skýrt kom fram í könnun Gallup sem gerð var fyrir borgaryfirvöld.

Í kjölfar birtingar niðurstöðu Gallup var send út fréttatilkynning þar sem fram kom að borgarstjórn hafi ákveðið að leggja til hliðar hugmyndir um þéttingu byggðar við Bústaðaveg vegna mikillar óánægju og leita eigi nýrra leiða. Þetta er sannarlega nýjung að gerist á þessu kjörtímabili en allir vita að kosningar eru í nánd. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort átt sé við allar vinnutillögurnar sem snúa að Bústaðavegi eða aðeins sumar. Þetta er óljóst. Er hætt við allt eða bara sumt? Mikil óánægja kom einnig fram með aðrar tillögur sem snúa að Múlum, Háaleiti, Gerðum, Hvassaleiti og Smáíbúahverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins skilur vantraust fólks í garð skipulagsyfirvalda í ljósi sögunnar á þessu kjörtímabili. Rauði þráðurinn er ótti fólks við að þétta eigi of mikið og ekki sé gert ráð fyrir nægjanlegu svigrúmi fyrir fólkið sem þarna býr og mun búa í framtíðinni. Það þarf að taka mið af þörfum allra en ekki bara sumra. Umfram allt á fólk að geta ráðið sínum lífsstíl í samgöngumálum. Þeir eru ansi margir sem upplifa að verið sé að þrýsta þeim inn í einhvern samgöngumáta sem hentar þeim ekki en sem meirihlutinn vill að sé viðhafður. Endurvinna þarf hverfisskipulagið frá grunni með athugasemdirnar að leiðarljósi að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins við umræða um framtíðarfyrirkomulag íbúaráða að loknu tilraunaverkefni.

Margar breytingar sem lagðar eru til eru góðar en ná kannski ekki nógu langt. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um mikilvægi þess að öll íbúaráðin séu framhandleggur íbúa hverfisins inn í „kerfið“ og borgarstjórn og gæti þess ávallt að rödd fólksins heyrist. Þetta hefur reyndar ekki verið upplifun af íbúaráðum sem eru jú reyndar afar misjöfn. Stundum hefur þurft að berjast fyrir að koma máli sem brennur á íbúum á dagskrá íbúaráðs. Þetta mátti sjá með mál eins og þriðja áfanga Arnarnesvegar. Ítrekað var óskað eftir að íbúaráð Breiðholts fjallaði um málið. Þar leit svo út sem formaðurinn reyndi hreinlega að hindra að málið kæmist á dagskrá. Sjá mátti í færslu formannsins að málið væri komið í góðan farveg og allir gætu verið glaðir. Lagningu Arnarnesvegar sem kljúfa mun Vatnsendahvarf, aðgerð sem byggð er á 18 ára umhverfismati, hefur verið mótmælt harðlega af mörg hundruð manns, af þeim sem vilja standa vörð um náttúru og dýralíf og vilja ekki mengandi hraðbraut ofan í Vetrargarðinn, leiksvæði barna. Íbúaráðin hvorki mega né eiga að vera smærri útgáfa af borgarstjórn þar sem meirihlutinn ræður dagskránni. Sennilega er of mikil tenging við borgarstjórn. Á þessum vettvangi á að ræða mál í þaula og forðast allt hóplyndi og meðvirkni. Íbúðaráðin eru ekki saumaklúbbar.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalista um að fara í fjárfestingu til að útvega húsnæði fyrir fólk sem nú bíður eftir húsnæði hjá borginni.

Biðlistinn eftir félagslegu húsnæði er ólíðandi. Hann hefur jú styst en samt bíða tæplega 900 einstaklingar og fjölskyldur eftir húsnæði hjá borginni sé litið til félagslegs leiguhúsnæðis eins og segir í tillögu Sósíalistaflokksins. Fulltrúi Flokks fólksins styður að sjálfsögðu þessa tillögu að fjárfesta gegn húsnæðiskreppu. Reykjavíkurborg þarf að sjá til þess að allir hafi öruggt skjól, húsnæði sem hægt er að kalla heimili sitt. Gera þarf betur, taka þarf á þessu meini sem biðlistar almennt eru í Reykjavík. Sjá þarf til þess að byggð sé blönduð og til séu fjölbreyttar eignir svo allir hafi þak yfir höfuðið. Af hverju hefur þessi meirihluti, góður hluti hans sem ríkt hefur í á annan tug ára, ekki endurreist verkamannabústaðakerfið? Meirihlutinn hefur rómað það kerfi og skammast yfir að það hafi verið lagt niður en hefur síðan ekkert gert til að endurreisa það. Sífellt er bent á önnur sveitarfélög, hvað þau standi sig illa. Skammast er út í ríkið. En hvað eiga minnihlutafulltrúar að gera til að snúa upp á hendur annarra sveitarfélaga? Hefur borgarstjóri tekið samtal við nágrannasveitarfélögin um þetta, alvöru samtal? Af hverju er málið ekki rætt á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga? Þar hefur borgarstjóri gullið tækifæri til að skipa öðrum stjórnum sveitarfélaga að girða sig í brók. Á borgarstjóri aldrei samtal við ríkisvaldið þar sem hann getur sagt þeim að girða sig í brók? Það er ekki nóg að skammast í minnihlutafulltrúum fyrir að koma með tillögur til úrbóta en klappa síðan bara nágrannasveitarfélögum og ríkisvaldinu á „öxlina“.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að opna í úthverfi Reykjavíkur grænt svæði, almenningsgarð með afþreyingu, svo sem kaffihúsi, þar sem frætt verður um umhverfisgildi ræktunar og að minnka sóun:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að opna í úthverfi Reykjavíkur grænt svæði, almenningsgarð með afþreyingu, svo sem kaffihúsi, þar sem frætt verður um umhverfisgildi ræktunar og að minnka sóun. Núverandi meirihluta er tíðrætt um „græna borg“ sem er af hinu góða. Ekki veitir af. Fulltrúi Flokks fólksins vill efla og styrkja Reykjavík sem græna borg og þá ekki bara með grænum þökum á þéttingarsvæðum. Lagt er til að í almenningsgarðinum verði tré og runnar merkt og þar skrifaðar upplýsingar um gildi plantnanna; hvaða áhrif þær hafa á umhverfið. Í kaffistofu (græn kaffistofa) yrðu upplýsingaspjöld og leiðbeiningar sem unnar yrðu af fagfólki m.a. um gildi náttúrunnar í umhverfismálum og hvernig minnka mætti sóun. Taka mætti hér undir svæði í Elliðaárdal, jafnvel við Landbúnaðarskóla Íslands á Keldnaholti og þar sem væri líklega hægt að fá leiðsögn um slík svæði, allt út frá umhverfissjónarmiðum, skógi og fallegu umhverfi. Hafa mætti samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur eða jafnvel íþróttafélög auk samráðs við íbúana á hverjum stað. Þetta framtak myndi opna skemmtilegt útivistarsvæði í nærumhverfi ytri byggðar og minnka þannig þörf á því að sækja afþreyingu annað með tilheyrandi kolefnisspori.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22010215

Frestað.

Fundargerðir lagðar fram:

Bókun Flokks fólksins við 12. og 13. lið fundargerðar 6. janúar:

12. liður: Stækka á gjaldsvæði 1 sem er dýrasta gjaldskyldusvæðið. Verið er að þrengja sífellt meira að þeim sem þurfa að nota bíl til að fara ferða sinna. Fólk getur ekki lengur valið sér þann ferðamáta sem því hentar, svo erfitt er þeim gert fyrir af meirihlutanum. Nóg er komið af álögum á borgarbúa sem í þessu tilfelli koma verst niður á þeim sem búa fjarri miðbænum og langar að heimsækja miðbæinn endrum og sinnum.

13. liður: Hækkun gjalda bílastæðahúsa mun hafa frekari fælingarmátt. Mörg eru nú þegar vannýtt, sérstaklega á ákveðnum tímum. Lækka ætti frekar gjöldin og reyna að gera bílastæðahúsin meira aðlaðandi, t.d. með því að hafa þar meiri þjónustu sem myndi laða að eldra fólk en margt eldra fólk forðast bílastæðahús, finnst þau dimm og greiðslukerfið flókið. En hvað sem öllu þessu líður hlýtur það að vera markmiðið að fá sem flesta bíla inn af götunni. Óttast er að með því að hækka gjöldin fækki enn frekar þeim sem leggja leið sína í miðbæinn, fólki sem býr í úthverfum og velur frekar að sækja þjónustu þar sem aðgengi er betra og frí bílastæði.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. janúar, liður 9:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst svarið við fyrirspurnum um sviðsmyndir framtíðarskipan skóla í Laugarness- og Langholtshverfi frekar útþynnt. Vísað er í fund sem var haldinn 1. desember. Þar kom fram að foreldrafélagið hafi til 1. febrúar til að skila umsögnum. Vita foreldrar af því? Varðandi leikskólann Hof þarf að koma betri staðfesting á að taka eigi í alvöru tillit til umsagna foreldra varðandi þá þróun. Standa þarf vörð um góða sátt og samstarf milli stjórnenda Hofs og Lauganesskóla (LNSK) enda er ákvörðun um stækkun Hofs og framtíðarþróun LNSK órjúfanleg. Eins hefur komið fram að ekki allir eru sáttir við breytt skipulag. Hvað varðar íþróttahúsið þá líður íþróttastarfið í hverfinu fyrir endalausa töf. Reynslan hefur sýnt að íþróttaiðkun barnanna þarf endurtekið að víkja úr húsunum fyrir íþróttakeppnum, tónleikum og viðburðum í Laugardalshöll. Varðandi frístundina finnst fulltrúa Flokks fólksins að gert sé lítið úr gönguleiðinni því þetta er erfið ganga fyrir börn með þungar töskur sem þurfa að ferðast til/frá æfingum og annarri iðju, þá fá þau ekki fylgd. Annað sem ekki liggur fyrir varðandi þessa sviðsmyndir er kostnaðargreining en ein af ástæðunum fyrir fyrirhuguðum breytingum er hvað er fjárhagslega best og líka faglegt. Ef horft er til Dalheima þá hefði verið lag að sjá hlutfall nemenda eftir aldri. Þátttaka nemenda í 4. bekk Laugarnesskóla er t.d. lítil.