Borgarstjórn 18. september 2018

Bókanir:

Umræða um tillögu meirihlutans um borgarlínu tók á 4. klukkustund í borgarstjórn. Bókanir Flokks fólksins við tillögu meirihlutans er eftirfarandi:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður frávísunartillöguna á þeim grundvelli að eðlilegt og réttlátt er að gefa borgarbúum tækifæri til að taka afstöðu til borgarlínu með sérstakri kosningu enda er málið umdeilt.

Hvað felst í þessari risavöxnu framkvæmd og útfærslu hennar er ekki öllum ljóst. Ekki er hægt að segja að það liggi fyrir nægjanlega skýr vilji borgarbúa um að hefja eigi þessa dýru framkvæmd sem borgarlína er. Í tillögu borgarmeirihlutans sem nú hefur verið lögð fram í borgarstjórn er ekki stafkrókur um kostnað, skiptingu hans milli ríkis og borgar og hlutfall annarra sveitarfélaga í verkefninu. Skýr vilji borgarbúa þarf að koma fram hvað varðar þessa dýru ákvörðun enda mun bygging borgarlínu koma við pyngju þeirra og hafa það af leiðandi mögulega áhrif á aðra veitta þjónustu í borginni?

Frávísunartillaga var síðan felld og tillaga meirihlutans var samþykkt með þeirra meirihlutaatkvæðum. Flokkur Fólksins greiddi atkvæði á móti og lagði fram aðra bókun til skýringar: Hún er eftirfarandi:

Það er ljóst að borgarmeirihlutinn ætlar að hefja uppbyggingu borgarlínu þrátt fyrir að mörg önnur brýn verkefni sem varða grunnþarfir borgarbúa hafa ekki verið leyst. Er ekki nær að byrja á fæði, klæði og húsnæði fyrir alla áður en ráðist er í slíkt mannvirki sem borgarlína er? Að koma þaki yfir höfuð allra í Reykjavík og eyða biðlistum svo börn fái þá þjónustu sem þau þurfa. Að setja þarfir borgarbúa í fyrsta sæti. Fólkið fyrst!

Í tillögu meirihlutans er ekki stafkrókur um kostnað, skiptingu hans milli ríkis og borgar og hlutfall annarra sveitarfélaga í þessari risaframkvæmd. Og enn skal þenja báknið með ráðningu nokkurra verkefnastjóra. Það er virðingarvert að ætla að efla almenningssamgöngur í borginni en Flokkur fólksins vill vita hvar á að taka þessa. Hvað segja borgarbúar? Vita þeir út á hvað þetta verkefni gengur, hvernig það muni koma við pyngju þeirra og hvaða áhrif það kann að hafa á aðra þjónustu í borginni?

Áður en ráðist verður í þetta verkefni er það lágmarksvirðing við borgarbúa að þeir verði upplýstir af óháðum aðilum um hvert einasta smáatriði þessu tengdu og í kjölfarið gefist þeim kostur á að kjósa um hvort hefjast eigi handa við þetta verkefni í samræmi við tillögu bogarmeirihlutans.

Bókun vegna afgreiðslu meirihlutans við tillögu Flokks fólksins um biðlistalaust aðgengi barna að skólasálfræðingum

Viðbrögð meirihlutans við tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um biðlistalaust aðgengi að skólaþjónustu og að sálfræðingar hafi aðsetur í skóla er að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins veikburða málflutningur með útúrsnúningaívafi. Það er ekki verið að biðja um mikið með þessari tillögu, aðeins að sálfræðingar skóla sæki vinnu sína í skólana þar sem þeirra rétti staður er, við hliðina á börnunum og starfsfólkinu. Tillögunni er vísað til velferðarráðs þar sem borgarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins vona að fulltrúar í ráðinu, allir sem einn, láti verkin tala í þágu barnanna með því að gera þær breytingar sem tillagan gengur út á.

Umræða lögð fram af borgarmeirihlutanum um stöðu mönnunar á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Vetrarstarfið er nú hafið í leik- og grunnskólum og enn vantar í margar stöður. Eftir er að ráða í 38 stöðugildi í leikskólum, í frístundinni vantar í rúmlega 64 stöðugildi. Á biðlista eftir leikskólaplássi eru 186 börn. Þessi staða er enn með öllu óásættanleg. Mannekla í leikskólum er ekki nýtt vandamál og því sætir það furðu að borgin hafi ekki getað tekið á því með mannsæmandi hætti fyrir löngu. Álagið sem þessu fylgir hefur ekki verið og er ekki boðlegt börnunum og foreldrum þeirra hvað þá starfsfólki leikskólanna. Allt of lengi hefur borgin hunsað þetta vandamál eða í það minnsta ekki tekið það nægjanlega föstum tökum. Veigamestu atriðin sem skipta máli hér eru launamálin sem eru óviðunandi. Inn í þetta spilar starfsálag sem hefur verið enn frekar íþyngjandi vegna langvarandi manneklu. Allt spilar þetta saman. Það er ekkert sem skiptir meira máli en börnin okkar og allt sem varðar þau á borgin að setja í forgang þegar kemur að úthlutun fjármagns. Hækka þarf launin enn frekar og breyta vinnutímafyrirkomulagi til að létta á og jafna álag á starfsmönnum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna tillögu um að valdefla skólana þannig að þeir ráði sjálfir til sín sálfræðinga 

Í minnisblaði skóla- og frístundaráðs sem fylgir rökstuðningi meirihlutans fyrir að fella þessa tillögu kemur fram að hún hafi verið óljós. Borgarfulltrúa þykir þetta útúrsnúningur þar sem hringt var í hann þegar tillagan var í vinnslu til að fá nánari útskýringar sem voru veittar með fullnægjandi hætti eftir því sem best var skilið. Í tillögunni felst að þeir sálfræðingar sem fyrir eru dreifist til skólanna í 40% stöðugildi og til að það næðist myndi án efa þurfa að ráða fleiri sálfræðinga. Enn og aftur vill Flokkur fólksins leggja áherslu mikilvægi þess að sálfræðingar séu sýnilegir á göngum skólanna og að börnin og foreldrar þeirra viti hverjir þeir eru.

Flokkur fólksins leggur til að borgin og skipulagsyfirvöld í borginni gangi í það verk  að einfalda byggingarreglukerfið.

Sveitarstjórnir hafa skipulagsvaldið og ættu að geta einfaldað kerfið ef þær vilja. Margir kvarta yfir hversu þungt í  vöfum umsóknarferlið  er t.d. er ekki hægt að senda öll gögn rafrænt. Afgreiðsla umsókna tekur oft langan tíma og framkvæmdaraðili veit oft ekki hvenær hann fær leyfið og getur því ekki skipulagt sig. Setja þyrfti skýr tímamörk um hvenær afgreiðsla liggur fyrir eftir að umsókn berst.

Tillaga Flokks fólksins um að allir leik- og grunnskólar í Reykjavík verði grænfánaskólar

Lagt er til að öllum leik- og grunnskólum borgarinnar verði gert kleift m.a. fjárhagslega sem og hvattir til að taka þátt í verkefninu skólar á grænni grein (grænfáninn). Vissulega geta skólar verið grænir, heilsueflandi og í miklu umhverfisstarfi þótt þeir séu ekki grænfánaskólar. Fáninn er engu að síður góður og skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Borgin ætti því hiklaust að nota þennan mælikvarða sem nú þegar hefur verið búinn til og þróaður og styðja og styrkja alla skóla til að taka upp græna fánann.

Eitt af markmiðum skóla á grænni grein er að fræða börnin um matarsóun og mikilvægi þess að hætta notkun einnota plasts s.s. plastpoka. Að vera skóli á grænni grein gefur örnunum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum sem vekur þau til vitundar um umhverfið og hvernig þau geta hlúð að því. Verkefnin hjálpa börnunum að skynja mikilvægi þess að sporna gegn matarsóun í nærumhverfinu og setja sér skýr markmið í umhverfismálum.

Greinargerð:

Að gerast grænn skóli er ferli. Áhuga barna og foreldra þarf að glæða og viðhalda. Mikilvægt er að gera eitthvað sem er áþreifanlegt og sem börnin geta fundið strax áhrifin af. Dæmi eru um verkefni er að skólar kanni matarsóun í mötuneyti skóla sinna t.d. með því að nemendur vigti mat sem er hent í hverjum árgangi í heila viku. Niðurstöður má nota til að reikna út hversu miklum mat er hent á heilu skólaári. Með því að fá upplýsingar hjá matráði hvað einn matarskammtur kostar er hægt að reikna út hversu miklum verðmætum er hent á einu skólaári.

Börn hafa almennt séð afar gaman að verkefnum af þessu tagi þar sem þau sjá mælanlegan ávinning af því sem þau gera. Að gefa öllum börnum í Reykjavík tækifæri til að vinna í umhverfismálum í enn ríkari mæli en nú er er skylda okkar og ábyrgð. Þessi mál varða framtíðina og framtíðin er barnanna. Ef börn fá tækifæri til að snerta sjálf á málum, koma með tillögur og leiðir er líklegt að þau muni beita sér enn frekar fyrir málstaðinn. Þátttaka í verkefni um matarsóun er hvetjandi á marga vegu. Barnið finnur að hér er um áskorun að ræða, það er að taka þátt í keppni um að lágmarka matarsóun. Barni sem þykir maturinn góður, fær að skammta sér sjálft, fær nægan tíma og næði til að borða er afar líklegt til að klára af disknum sínum.

Í Reykjavík eru 43 grunnskólar (34 almennir grunnskólar, 2 sérskólar og 6 sjálfstætt starfandi grunnskólar) og 79 leikskólar (62 borgarreknir leikskólar og 17 sjálfstætt starfandi leikskólar). Fjöldi grænfánaskóla eru 14 grunnskólar og 23 leikskólar eftir því sem næst er komist. Kostnaður við að gerast grænfánaskóli er 135 krónur á hvern nemanda skólans en þó að lágmarki 25.000 kr. á skóla og að hámarki 75.000 kr. Ef skólar eru á fleiri en einni starfsstöð, eru greiddar 10.000 krónur fyrir hverja starfsstöð en hámarksgreiðslan aðeins greidd einu sinni.

Tillaga Flokks fólksins um biðlistalaust aðgengi barna að sálfræðingum borgarinnar

Flokkur fólksins leggur til að borgin tryggi öllum börnum sem þess þurfa biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Ástandið hefur lengi verið slæmt í þessum efnum. Í nýrri skýrslu Embættis landlæknis kemur fram að almenn vanlíðan barna hefur aukist og aukning hefur orðið á tíðni sjálfskaða og sjálfsvígshugsana stúlkna. Borginni ber skylda til að tryggja öllum börnum biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Borgin getur axlað ábyrgð hér í mun ríkari mæli, annars vegar með því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum í stað þjónustumiðstöðva og hins vegar með því að fjölga sálfræðingum í skólum.

Greinargerð:

Biðlistar eftir viðtölum og greiningum hjá skólasálfræðingum í borginni eru allt frá nokkrum vikum upp í marga mánuði. Það er aðallega tvennt sem hefur áhrif á aðgengi og að biðlistar myndist, annars vegar að aðsetur sálfræðinga er ekki í skólunum sjálfum heldur á þjónustumiðstöðvum og hins vegar að sálfræðingar skóla eru ekki nógu margir. Slakt aðgengi og biðlistar eru því ekki sálfræðingunum sjálfum að kenna. Nýlegar voru birtar niðurstöður skýrslu Embættis landlæknis um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna. Fram kemur að sjálfskaði stúlkna hefur aukist og tengsl milli sjálfskaða og sjálfsvígshugsana og sjálfsvígs eru óyggjandi. Rúmlega 9% ungmenna á Íslandi hafa gert tilraun til sjálfsvígs.

Í dag eru fleiri stúlkur en drengir sem segjast hafa hugleitt sjálfsvíg og er aukning frá árinu 2010. Fleiri drengir en stúlkur eru á skrá yfir dauðsföll vegna sjálfsvíga á aldrinum 16-20 ár. Hlutfall drengja sem gera tilraun til sjálfsvígs er stöðugt á meðan hlutfall stúlkna hefur aukist úr 9% árið 2000 í 12% árið 2016 eins og fram kemur í ofannefndri skýrslu. Þetta er kjaftshögg fyrir okkur öll. Í ljósi þessara upplýsinga er ljóst að staða margra barna er ekki góð hvað varðar andlega líðan. Orsakir geta verið fjölmargar og margslungnar og verða ekki reifaðar hér. Til að ná utan um svo viðamikið vandamál þarf ríki og borg að vinna saman. En á vettvangi borgarinnar er hægt að gera betur bæði á sviði forvarna og aðgengi barna að sálfræðingum þarf að vera miklu betra.

Við eigum að geta gert kröfu um að börn hafi biðlistalaust aðgengi að sálfræðingum á vegum borgarinnar. Aðsetur sálfræðinga ætti skilyrðislaust að vera í skólunum sjálfum eins og áður var til að auðvelda aðgengi barnanna að þeim. Enda þótt sálfræðingar séu hluti af þverfaglegu teymi skólaþjónustunnar ættu þeir engu að síður að geta haft aðsetur í skólunum. Hlutverk þjónustumiðstöðva er mikilvægt t.d. til að tryggja jafnræði ýmissa verkefna milli hverfa. Milliganga þeirra milli skóla og skólasálfræðinga hefur hins vegar gert það að verkum að aðgengi að sálfræðingunum er lakara og líkur á að biðlistar myndist þar af leiðandi meiri. Fyrir börnin og foreldrana skiptir sýnileiki sálfræðinga og aðgengi að þeim mestu máli.

Börnin og foreldrar þeirra þurfa að þekkja skólasálfræðinginn, vita hvar hann er að finna og vita að þau geti leitað til hans með skömmum fyrirvara og jafnvel fyrirvaralaust. Með því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum geta þeir unnið þéttar með námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðingi. Saman geta þessi fagaðilar myndað öflugt teymi sem sinnir forvarnarstarfi og verið til taks fyrir börnin, starfsfólkið og foreldrana allt eftir atvikum og þörfum. Barn sem þarf að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila eða fær ekki aðstoð við hæfi er í mun meiri áhættu með að grípa til örþrifaráða eins og sjálfskaða og jafnvel sjálfsvígstilraunar. Slakt aðgengi að fagþjónustu getur kostað líf.