Borgarstjórn 19. janúar 2021

Tillaga um að skólasálfræðingar hafi aðsetur í skólum og heyri undir skólastjórnendur

Flokkur fólksins leggur til að sálfræðingar skólaþjónustu hafi aðsetur í þeim skólum sem þeir sinna. Einnig er lagt til að skólasálfræðingar heyri undir skólastjórnendur sem ákvarði í samráði við nemendaverndarráð verkefnalista sálfræðings án miðlægra afskipta.

Fjarlægð skólasálfræðinga frá skólunum dregur úr skilvirkni. Biðlisti til skólasálfræðinga er í sögulegu hámarki. Nú í janúar 2021 bíða 837 börn ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu. Barn bíður mánuðum saman eftir að hitta skólasálfræðing og foreldrar hafa upp til hópa ekki hugmynd um hver sálfræðingur skólans er.

Með því að færa aðsetur sálfræðinga til skólanna væru þeir í daglegri tengingu við börnin og kennara og yrðu hluti af skólasamfélaginu. Skilvirkni yrði meiri og þjónusta við börnin betri. Þverfaglegt samstarf sálfræðinga á þjónustumiðstöð gæti haldið áfram engu að síður, nú t.a.m. einnig í gegnum fjarfundabúnað.

Lagt er jafnframt til að yfirboðarar skólasálfræðinga verði skólastjórnendur en ekki þjónustumiðstöðvar. Enda þótt nemendaverndarráð hafi áhrif á verkefnalista sálfræðingsins, er nærtækast að skólastjórnendur og nemendaverndarráð stýri beiðnum til skólasálfræðingsins. Fram hefur komið hjá einstaka skólastjórnendum að þeir upplifi að þeir fái litlu ráðið um forgang mála til sálfræðings, jafnvel í brýnum málum.

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í upphafi kjörtímabils tillögu um að aðsetur skólasálfræðinga færðist út í skólana og hefur margrætt þetta allar götur síðan. Umræðan hefur engu skilað. Skólasálfræðingar koma ekki oftar út í skólanna til að vera hluti af skólasamfélaginu. Nær öll snerting skóla við skólasálfræðinga er í gegnum Þjónustumiðstöðina.

Skólasálfræðingarnir þurfa að komast í mun betri tengsl við börnin bæði í tíma og rúmi og einnig þurfa samskipti þeirra og tengsl við skólastjórnendur og skólasamfélagið að verða nánara. Allt of langt er á milli skólastjórnenda og kennara og skólasálfræðinga. Alls konar flækjustig er í gangi. Ef skólastjóri er sem dæmi ósáttur, kvartar hann við sinn yfirmann sem ræðir við yfirmann skólasálfræðings o.s.frv. Þetta skapar óþarfa hindrun og lengir samskiptaleiðir sem bitnar fyrst og síðast niður á börnunum. Með því að fá skólasálfræðingana inn á gólf er flestum svona hindrunum rutt í burt. Sáfræðiþjónusta skóla getur aldrei verið almennilega með puttann á púlsinum á meðan fyrirkomulagið er með þessum hætti.

Börnin og foreldrar þekkja ekki skólasálfræðinginn. Dæmi eru um að foreldrar og börn hafi aldrei séð skólasálfræðinginn. Dæmi er einnig um að foreldrar vissu ekki að sálfræðingar væru í leik- og grunnskólum borgarinnar. Til að sinna verkefnum koma þeir í flugumynd og ná þar af leiðandi ekki að vera sýnilegir börnum og foreldrum. Halda mætti allt eins að það væri markmið skóla- og frístundasviðs og þjónustumiðstöðva að fela skólasálfræðinga, kannski til að hlífa þeim við frekara áreiti sem er sannarlega mikið í ljósi þess að 800 börn eru á biðlista. Ef upp koma brýn mál þar sem óskað er eftir því að skólasálfræðingur sitji fundi með foreldrum með skömmum fyrirvara er það oft einfaldlega ekki hægt.

Í þessari tillögu leggur fulltrúi Flokks fólksins jafnframt til að skólinn sjálfur (skólastjórnendur og nemendaverndarráð) haldi utan um verkefnalistann og stýri alfarið röðun tilvísana. Framkvæmdin nú er þannig að umsjónarkennari/foreldra vísa máli barns til nemendaverndaráða telji þeir að barn þurfi sérstaka aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika. Það er því nærtækast að nemendaverndarráð stýri sjálft beiðnum til sálfræðinga eða annarra fagfólks sem sinnir viðkomandi skóla en ekki utanaðkomandi aðili.

 

Lang eðlilegasta fyrirkomulagið er að skólarnir forgangsraði sjálfir málum sínum til fagaðila skólanna frekar en það sé gert á þjónustumiðstöðvum eða miðlægt. Enginn þekkir betur barnið, líðan þess og atferli en foreldrar og kennarar, sem og starfsfólk skólans. Skóli á ekki að þurfa að eiga það við einhverja utan skólans ef barn þarf að komast strax til skólasálfræðings. Miðlægt vald getur aldrei áttað sig eins vel á þróun mála barns en skólinn sjálfur sem er í beinu og milliliðalausu sambandi við foreldra.

Fjölga þarf sálfræðingum í skólum

Til að taka á biðlistavandanum fyrir alvöru þarf stöðugildum sálfræðinga skóla að fjölga. Öðruvísi verður ekki tekið á mörg hundruð barna biðlista. Tilvísunum hefur fjölgað með tilkomu COVID-19. Tillaga Flokks fólksins um að fjölga stöðugildum skólasálfræðinga um þrjú og einnig talmeinafræðinga um tvö, var AFTUR felld í desember s.l. Fyrir skóla með meira en 400 nemendur er þörf fyrir allt að 100% sálfræðingi.

Hlutverk skólasálfræðinga er fjölþætt þótt þeir stundi ekki hefðbundna meðferð. Þeir annast skimanir og  greiningar sem  kennari, skólasálfræðingur og foreldrar telja nauðsynlegt að framkvæma til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvaða og hvernig náms- og félagslegt úrræði barnið þarf í hverju tilviki. Önnur verkefni, ekki síður mikilvæg sem þeim ber að sinna, er stuðningur og ráðgjöf til barna, kennara og foreldra auk fræðslu eftir ósk skólans. Í núverandi fyrirkomulagi virðist sem skólasálfræðingar sinni aðeins greiningarþættinum. Börnum er vísað annað í viðtöl og þá tekur aftur við bið. Hluti af starfi skólasálfræðings á að vera að sinna viðtölum bæði fyrir og eftir greiningar í þeim tilfellum sem greininga er þörf. Það eru engin meðferðarúrræði eins og t.d. viðtöl af hálfu þjónustumiðstöðvar, eingöngu skilafundur eftir greiningar.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu árið 2019 um að skólasálfræðingar í skólum færist undir skóla- og frístundarsvið til að komast í betri tengingu við skólasamfélagið, börnin og kennarana. Eðlilegast væri því að skólasálfræðingar skólanna heyrðu undir undir skóla- og frístundaráð en ekki velferðarráð/svið sem hún er í dag. Með því að skólasálfræðingar heyri undir skóla- og frístundaráð/svið yrði hlutverk skólaþjónustu gagnvart skólum og starfsfólki þeirra eflt enda stuðningur við börn og ungmenni í skólastarfi og allt utan um hald þá undir sama þaki ef svo má segja. Tillagan var felld.

Meirihlutinn í borgarstjórn, velferðarráði og skóla- og frístundaráði hunsar ákall skólastjórnenda sem kom skýrt fram í  skýrslu innri endurskoðunar sem kom út í júlí 2019. Þar segir að skólastjórnendur upp til hópa vilja að  sálfræðingar komi meira inn í skólanna til að styrkja formlegar stoðir og innviði skólakerfisins til að hægt sé að sinna börnum og kennurum betur og ekki síst til að eiga betri möguleika á að stytta biðlista. Nærvera þeirra myndi létta álagi á kennara. Í raun má segja að það sé engin haldbær rök fyrir því að skólaþjónusta tilheyri ekki því sviði sem rekur skólanna.

Nokkrir hagnýtir þættir

Pláss:
Í einhverjum skólum þar sem húsnæði er sprungið gæti reynst erfitt að finna skólasálfræðingnum aðstöðu. En það er vandamál sem vel er hægt að leysa ef allir leggjast á eitt. Skólasálfræðingur þarf stól og borð og dæmi eru um að sálfræðingur noti aðstöðu hjúkrunarfræðings þegar hann er ekki í skólanum.

Samstarf við heilsugæslu:
Sálfræðingar eru vissulega á heilsugæslustöðvum en þar er margra mánaða bið. Í flestum skólum eru því miður mjög takmörkuð samskipti við heilsugæsluna þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingur af heilsugæslustöð sé um leið skólahjúkrunarfræðingur.

Í fjölmörgum tilfellum hafa börn sem nauðsynlega hafa þurft sálfræðiþjónustu, eða greiningu sem aðeins sálfræðingar mega framkvæma, ekki fengið slíka þjónustu á grunnskólaárum sínum. Foreldrar sem gefist hafa upp á að fá aðstoð fyrir barn sitt hjá skólasálfræðingi hafa stundum þurft að kaupa sálfræðiþjónustu, þar með talda greiningu frá sálfræðingi úti í bæ. Eins og skilja má eiga ekki allir foreldrar þess kost að fjármagna slíkt, og því sitja börnin ekki við sama borð hvað kemur að tækifærum til að fá þá þjónustu sem þau þarfnast.

Vandinn er þess utan mismikill eftir hverfum sem þýðir að það fer eftir því í hvaða hverfi þú býrð hvort barnið þitt komist til skólasálfræðings eftir mánuð eða eftir eitt ár. Með þessu er verið að mismuna börnum eftir því hvar þau búa. Er komið að því að foreldrar þurfi að huga að hvort þessi þjónusta sé til staðar fyrir barnið þeirra þegar ákveða skal hvar í borginni fjölskyldan vill búa ? Aðgengi að sálfræðiþjónusta barna á hvorki að vera háð efnahag eða búsetu.

Afgreiðsla málsins

Ákveðið er að vísa málinu í stýrihóp sem vinnur heildstætt að málefni barna og skóla

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillögu Flokks fólksins um að skólasálfræðingar hafi aðsetur í skólum og heyri undir skólastjórnendur hefur verið vísað í stýrihóp. Af reynslu líður fulltrúa Flokks fólksins ekki nógu vel með það því venjulega hefur slík vísun engu skilað. Undrun sætir að ekki skuli hafa verið hlustað á ákall skólastjórnenda sem fram kom í skýrslu innri endurskoðunar 2019 um að fá sálfræðinga meira út í skólana. Til hvers er innri endurskoðun að skrifa skýrslu sem þessi meirihluti tekur síðan ekki mark á? Nær öll snerting skóla við skólasálfræðinga er í gegnum þjónustumiðstöð og lúta þeir miðlægu valdi. Sálfræðiþjónusta skóla getur ekki verið með puttann á púlsinum á meðan fyrirkomulagið er með þessum hætti. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt þessi mál ótal sinnum en engu skilað. Ekkert hefur breyst árum saman, biðlistinn lengist og lengist. Viðbrögð meirihlutans við tillögunni bera vott um áhugaleysi og andvaraleysi. Foreldrar sem hafa efni á, leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga eftir aðstoð fyrir börn sín. Börn efnaminni foreldra verða bara bíða og óvíst er hvort þau komist nokkurn tímann að. Þess utan er biðlistinn misjafn eftir hverfum. Með því er vissulega verið að mismuna börnum eftir því hvar þau búa. Aðgengi að sálfræðiþjónustu barna á hvorki að vera háð efnahag né búsetu.

Bókun Flokks fólksins við fyrri umræða um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum árin 2021-2025:

Flokkur fólksins telur að hægt sé að styðjast við margt í aðgerðaáætluninni. Í henni hefði mátt nefna mun fleiri atriði s.s. mengunarsvæði/skotsvæði og fjörufyllingar. Einnig fleiri atriði sem hjálpa til við að gera samgöngur skilvirkar til að draga úr heildarlosun. Hugur er til að nýta metan sem orkugjafa í samgöngum, efni sem nú er brennt á báli. Nú glittir í einhver tækifæri í markaðsmálum. Ekkert er minnst á að í almenningssamgöngum er hægt að beintengja farartækin við rafmagnslínur sem sést víða í Evrópu. Þá þarf ekki að flytja rafmagn með farartækinu í rafgeymum. Hvatt er til hjólreiða og þarf fólk víða að hjóla á göngustígum sem vegna legu sinnar geta ekki orðið góðir hjólreiðastígar. Taka má dæmi um stígana í Breiðholti sem eru margir í grunninn göngustígar en sem nú má einnig hjóla á. Margir eru með þröngu vinkilhorni en fyrir hjólreiðar þarf beygjuradíus að vera 6-8 metrar að lágmarki. Við nýbyggða göngu- og hjólreiðabrú yfir Breiðholtsbraut er t.d mjög þröng beygja. Þarna eru einnig mót stíga og götu sem eru hættuleg þar sem stígaleiðin liggur beint út á götuna en útsýnið takmarkað af stígnum. Ef fólk á að hjóla verður að skapa því öruggar hjólreiðaaðstæður.

Bókun Flokks fólksin svið tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Keldnalandið hentar mjög vel sem íbúasvæði og er jafnvel enn dýrmætara svæði en M22. Á þessu svæði verður að vera mikið af fólki, fjölbreytni og fullt af lífi, eins og gaman væri að sjá í öllum hverfum borgarinnar. Tengja má Keldnalandið við Grafarholt og Úlfarsárdal með göngum eða brúm yfir Vesturlandsveginn. Talsvert er um atvinnusvæði í Höfðahverfinu sem tengist Keldnalandinu vel. Margt styður íbúðabyggð í Keldnalandi, s.s. veðursæld og nálægð við atvinnu á Höfðanum. En almennt á að reyna að blanda saman atvinnu- og íbúðasvæði ásamt samgöngumiðstöðvum í hverfum borgarinnar. Að skipuleggja stórar atvinnulóðir í Keldnalandinu sem kalla á stóra vinnustaði á þessu svæði er varhugavert að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar:

Tillagan að breyttri vinnutilhögun mátti ekki fela í sér aukinn kostnað eða skerðingu á þjónustu eins og meirihlutinn lagði hana upp. Það er ámælisvert að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem líklegt er að álag verði meira á starfsfólk jafnvel þótt reynt verði að finna leiðir til að finna betri nýtingu á vinnutíma. Talað er um eins og nýting vinnutímans hafi verið slæm. Þetta er í andstöðu við boðun meirihlutans sem er að halda vel utan um starfsfólk og gæta þess að ofgera því ekki. Stytting vinnuvikunnar er kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð og þess vegna lagði fulltrúi Flokks fólksins til að áhrifin verði skoðuð. Eftir þessu hefur lengi verið beðið en ekki var reiknað með að styttingin mætti ekki kosta neitt. Því er ekki hægt að stóla á að foreldrar sæki börn sín fyrr enda er stytting á vinnuviku ekki alls staðar og þar sem hún er, er útfærslan ólík milli stétta og stofnana.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1., 10. og 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. janúar:

Liður 1, skýrsla um tónlistarnám; skýrslan um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík er ágætlega unnin. Fulltrúi Flokks fólksins telur þó að það hefði verið nauðsynlegt að taka samhliða inn í vinnu hópsins uppbyggingu tónlistarkennslu í grunnskólum til að skoða leiðir til að draga úr ójöfnuði. Þegar kemur að tónlistarnámi á ójöfnuður rætur sína að rekja aðallega til bágs efnahags foreldra og skorts á eftirspurn. Flokkur fólksins tekur ekki undir að mismunandi áhugi barna á tónlist sé grundvöllur ójöfnuðar.

Liður 10, frístundaheimili og vanskil, á haustönn 2020 voru sendar út 39 uppsagnir vegna vanskila á frístundavistun. Foreldrar 10 barna athuguðu ekki með frekari aðstoð og hefur börnum þeirra verið vísað úr frístundaheimilisdvölinni. Ekki er vitað hvar þessi börn dvelja nú eftir skóla. Finna þarf leið, gera samning eða veita sérstaka aðstoð til þess að opna aftur fyrir möguleika þessara barna að koma í frístundina að nýju óski foreldrar þess.

Liður 11, biðlisti í sérskólaúrræði, á þriðja tug barna bíða eftir sérskólaúrræði. Í Klettaskóla er sagður enginn biðlisti en fulltrúi Flokks fólksins telur það vera vegna þess að inntökuskilyrðin eru of ströng/stíf sem fælir foreldra frá því að sækja um.