Borgarstjórn 2. febrúar 2021

Tillaga Flokks fólksins um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir fólk á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að stofna sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja. Kannanir sýna mikla notkun geðlyfja hjá öldruðum á Íslandi án þess að formleg geðgreining liggi fyrir. Ekki eru heldur skýr tengsl milli geðsjúkdómsgreininga og geðlyfjanotkunar meðal íbúa hjúkrunarheimila.[1]

Notkun geðlyfja er oft nauðsynleg. Ef marka má gögn eru eldri borgurum þó gefin geðlyf án þess að greining liggi fyrir. Í Reykjavík eru engin skipulögð sálfélagsleg meðferðarúrræði til fyrir fólk á hjúkrunarheimilum. Oft er geðlyfjameðferð eina meðferðarúrræðið sem eldri borgurum býðst.
Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna minnkar, auk þess sem aðstæður geta breyst t.d. vegna ástvinamissis. Töframáttur samtalsins og félagslegrar samveru er óumdeildur. Samtalið hefur frá örófi verið álitið árangursríkt meðferðarúrræði. Samtalsmeðferð þar sem á sér stað gagnkvæm hlustun, nærvera, ráðgjöf og stuðningur í málum skjólstæðingsins getur í sumum tilfellum leyst geðlyf af hólmi, fyrirbyggt eða seinkað notkun þeirra. Í innihaldsríku samtali er hægt að milda tilfinningar, veita viðbrögð við hugsunum, áhyggjum, vonum og væntingum; gefa fólki tækifæri til að segja sögu sína og sögu niðja.

Greinargerð

Enda þótt margt sé gert fyrir eldri borgara þá er það almenn vitneskja að líði fólki illa á efri árum er gjarnan byrjað að gefa geðlyf jafnvel án þess að geðsjúkdómsgreining liggi fyrir. Tillaga Flokks fólksins miðar að því að fyrsta úrræði sem gripið verði til sé ekki að gefa fólki geðlyf heldur veita því sálfélagslega samtalsmeðferð. Markmiðið er að draga úr óþarfa geðlyfjanotkun í þessum aldurshópi. Lyfjanotkun er aldrei án aukaverkana. Aldraðir eru einnig viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Andleg líðan er beintengd líkamlegri líðan og öfugt. Þeim sem líður illa andlega kenna frekar líkamlegra verkja. Að sama skapi draga líkamlegir verkir úr andlegu þreki.

Ekki hefur enn verið gerð heildræn rannsókn á geðsjúkdómagreiningum og geðlyfjanotkun íbúa á íslenskum öldrunarstofnunum. Þróun þessara þátta hefur heldur ekki verið lýst. Fram hefur komið í rannsóknum að algengt er að finna þunglyndi og kvíða meðal íbúa hjúkrunarheimila. Þá er gripið til þess að gefa geðlyf sem meðferðarúrræði. Þeim er jafnvel ávísað án þess að geðsjúkdómagreiningar hafi verið gerðar.

Ekki kemur á óvart að kvíði, þunglyndi og önnur geðræn vandamál geri vart við sig þegar komið er á þetta æviskeið. Tengja má andlega vanlíðan við skerta færni til athafna daglegs lífs og sjúkdóma sem fylgja efri árum og ævikvöldi. Auk þess er um að ræða að fólk á andlega erfitt vegna einmanaleika, einangrunar og þrá eftir ástvinum ásamt því að sakna þess sem liðið er.

Í COVID-faraldrinum síðustu mánuði hafa þróast tæknilausnir eins og samskipti með viðræðum gegnum tölvuskjái. Slíkar „skjáheimsóknir“ geta þó aldrei komið í staðinn fyrir persónuleg tengsl og spjall þar sem fólk talar saman maður við mann og geta varla flokkast sem sálfélagslegt meðferðarúrræði.

Sú tillaga sem hér er lögð á borð í borgarstjórn er nálgun sem felur í sér að samtalið er sett í forgrunn:  virk hlustun, skilningur, stuðningsviðbrögð og ráðgjöf til að bæta líðan ákveðins hóps án þess að til komi þörf á notkun geðlyfja.

Gefa ætti því aðeins geðlyf að undangenginni greiningu þar sem fram kemur með óyggjandi hætti að viðkomandi þarfnast geðlyfja samhliða öðru úrræði eins og sálfélagslegri samtalsmeðferð, hreyfingu, birtu, samveru við gæludýr, svo fá dæmi séu nefnd.
Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar hugi að því að stofna með formlegum hætti úrræði sem byggist ekki aðeins á ávísun lyfja heldur skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu.

Auk aldurstengdra vandamála á fólk fortíð, sumir erfiða reynslu og jafnvel óuppgerð mál eins og gengur.  Að eiga þess kost að eiga reglulegt samtal fagaðila getur komið í staðinn fyrir geðlyfjanotkun. Markmiðið með samtalsþjónustunni er að hjálpa eldri borgurum, í gegnum samtal við fagaðila, að finna til öryggis, ekki síst séu þeir í nýjum og ókunnum aðstæðum og draga að sama skapi úr þörf á neyslu geðlyfja. Í viðtalsmeðferðinni gefst skjólstæðingum kostur að ræða á persónulegum forsendum um tilfinningar sínar, erfiða reynslu, áföll, sársauka, ótta og aðlagast breyttri stöðu þeirra í lífinu og vissulega mun meðferðaraðilinn í samráði við lækni meta hvort þörf sé á lyfjameðferð samhliða samtalsmeðferðinni.

[1] Sjá t. d. þessa grein: Páll Biering og Ingibjörg Hjaltadóttir. Algengi og þróun geðraskana og geðlyfjanotkunar meðal íbúa íslenskra hjúkrunarheimila frá 2003 til 2018. Læknablaðið 1. tbl. 107. árg. 2021. (https://www.laeknabladid.is/tolublod/2021/01/nr/7580).

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar sem vísað var til velferðarráðs:

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir fólk á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum  til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja er vísað til velferðarráðs til frekari skoðunar. Sátt er um það í borgarstjórn. Aðgengi að samtalsmeðferð skiptir þennan hóp miklu máli. Staðan í dag er sú að reykvísk hjúkrunarheimili bjóða ekki upp á sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir íbúana. Þeim sem búa heima stendur heldur ekki til boða sálfélagsleg meðferð. Gripið er  til geðlyfja þegar ekkert annað úrræði býðst oft án þess að greining liggi fyrir.  Lyfjanotkun er aldrei án aukaverkana og eru aldraðir viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna daglegs lífs minnkar. Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar stofni með formlegum hætti sitt eigið úrræði byggt á skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu. Farsóttin hefur ekki bætt úr skák og bitnað illa á eldri borgunum sem hafa einangrast enn frekar. Hvað sem tæknilausnum líður þá geta þær ekki komið í staðinn fyrir tengsl fólks þegar það talar saman, maður við mann.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að markvissum vinnu- og virkniaðgerðum vegna stöðunnar á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. janúar:

Þetta eru mikilvæg og nauðsynleg verkefni og styður fulltrúi Flokks fólksins tillöguna um markviss vinnu- og virkniaðgerðir vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19. Um nauðsyn þessara verkefna er sannarlega ekki deilt. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgarmeirihlutann til að leita eftir samstarfi og samvinnu við þá sem nú þegar eru að sinna þessum verkefnum til að læra af reynslu þeirra. Samnýting og samvinna er mikilvæg í þessu sem öðru enda erum við öll í þessum óvenjulegu aðstæðum saman. Um er að ræða nokkuð stóra vinnumiðlun sem hér er lagt til að verði sett á laggirnar, með all stórri yfirbyggingu. Ráðið verður í 9 stöðugildi sérfræðinga. Auk kostnaðar við laun og launatengd gjöld er kostnaður við fjölmargt annað. Með samvinnu og samnýtingu við aðrar vinnumiðlanir og þá sem hafa reynslu á þessu sviði má sjá fyrir sér hagræðingu í mörgum þáttum og skilvirkni við vinnslu aðgerðanna.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Svifryk er sannarlega vandamál í borginni. Áhrifarík aðgerð til að bæta loftgæði er að minnka umferð bíla sem menga. Væri gjald lágt, helst ekkert gjald fyrir raf-, metan og tvinnbíla myndi bílum sem menga fækka enn hraðar. Með nýjum farartækjum svo sem raf-hjólum og skutlum er dregið úr bílaumferð, án allra þvingana, en þá þarf að sinna hjólastígum betur. Sinna þarf göngu- og hjólreiðastígum hvað viðkemur snjómokstri, söltun og almennu viðhaldi ef þeir eiga að vera alvöru hluti af samgöngukerfi borgarinnar. Það væri einnig góð ákvörðun að hafa frítt í Strætó þegar svifryksdögum er spáð. Það kostar lítið enda eru vagnar sjaldan fullir og bílaakstur myndi minnka. Götuþvottur hlýtur að vera til bóta og þvottur vörubíla sem eru að aka frá byggingarstað. Ekki er hægt að líta fram hjá niðurstöðum rannsókna á svifryksmengun af völdum nagladekkja. Veðurfar spilar stórt hlutverk og borgarbúum sem ferðast um landið, við afmarkaðar aðstæður, finnst þeir ekki öruggir nema á nagladekkjum. Þá er full ástæða til að minnka notkun flugelda en styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi án þess að kaupa skotelda. Reykjavíkurborg hefur ekki sýnt ábyrgð, t.d. með því að hvetja borgarbúa til að finna aðrar leiðir til að styrkja björgunarsveitir en að kaupa skotelda.

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir fundargerðir borgarráðs frá 21. og 28. janúar,

  1. og 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar:

Borgarráð 21. janúar, liður 1: Furugerði/deiliskipulag. Óánægja íbúa í þessu máli er vel skiljanleg. Þétting byggðar hefur leitt til þrengsla víða og er áætlað að auka byggingarmagn. Ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða en þegar er skortur á bílastæðum fyrir íbúana.

Borgarráð 21. janúar, liður 14: Stytting vinnuvikunnar. Stytting vinnuvikunnar hefur verið lengi í deiglunni og er nú orðin að veruleika. Eðlilega er mikil ánægja með að stytta vinnuvikuna sem gefur starfsmönnum færi á að vera meira með fjölskyldum sínum. Það sem er miður er að ekkert fjármagn fylgdi breytingunni, hún mátti hvorki fela í sér aukinn kostnað né skerðingu á þjónustu. Þetta gæti verið erfitt að samræma. Starfsfólk hefur m.a. afsalað sér hvíldarhléum til þess að þetta megi ganga upp. Gangi þetta ekki upp vofir yfir að styttingin verði dregin til baka. Það vill enginn. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gerð verði skoðun á áhrifum breytinganna á líðan barna, starfsfólks og starfsemina en tillögunni var hafnað. Ekki er séð hvaða áhrif breytingin mun hafa á sumaropnanir leikskólanna. Vel kann að vera að einhverjir leikskólar verði að ráða starfsmenn inn tímabundið og þeir munu þá jafnvel ekki eiga rétt á styttingu vinnuvikunnar.

 

Bókun Flokks fólksins við  fundargerðir forsætisnefndar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. og 5. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs og 5. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs 20. janúar, liður 7: Listi yfir samþykkt hundaleyfi. Fulltrúi Flokks fólksins gerir athugasemdir við framlagningu lista yfir samþykkt hundaleyfi og vill að persónuverndarfulltrúi og Persónuvernd skoði hvort þetta stríðir mögulega gegn persónuverndarlögum. Birting listans með nöfnum og heimilisföngum fólks kann að vera með öllu ólöglegt eða í það minnsta á gráu svæði.

Fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs 20. janúar, liður 5: Skotsvæði í Álfsnesi. Fulltrúi Flokks fólksins skilur vel vonbrigði og óánægju og áhyggjur ábúenda og landeigenda í Kollafirði/Kjalarnesi vegna málefna sem tengjast skotsvæðinu. Það er ólíðandi að skotsvæði sé við fjöru og á „rólegum stað“. Þarna er bæði hávaðamengun, blýmengun og vanvirðing við náttúru og mannlíf.

Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 26. janúar, liður 5: Sumaropnun leikskóla. Mikilvægt er að foreldrum leikskólabarna standi til boða sveigjanleiki og val um sumarleyfi fyrir börn sín þannig að fjölskyldan geti verið í sumarfríi á sama tíma. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með áheyrnarfulltrúa leikskólastjóra sem hefur áhyggjur af auknu álagi á stjórnendur sem er ekki á bætandi þegar skólastigið býr við kennaraskort og mikla starfsmannaveltu. Hvernig stytting vinnuvikunnar mun koma inn í sumaropnunina er með öllu óljóst.