Borgarstjórn 2. mars 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 10. febrúar 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. febrúar 2021 á tillögu um aðgerðir til að bæta íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál en íslensku, ásamt fylgiskjölum, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. febrúar 2021:

Sú viðbót sem hér er veitt fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku er góð og er í samræmi við tillögu Flokks fólksins sem nýlega var lögð fram í borgarstjórn. Í þeirri tillögu var einnig nefnt að gera þarf meira, finna ólíkar leiðir til að hjálpa börnum af erlendum uppruna til að komast hraðar og betur inn í samfélagið. Það er ekki nóg að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi í grundvallaratriðum eins og tungumálakennslu. Það hlýtur að vera markmiðið að þau standi ekki hallari fæti en önnur börn þegar kemur að námi eða öðru sem þau kunna að vilja taka sér fyrir hendur. Börn innflytjenda eru mörg einangruð. Þau hafa ekki verið að fá næga aðstoð í íslensku vegna fjárskorts skóla. Það þarf meira fjármagn til að hægt sé að hjálpa þeim börnum sem eru verst sett. Margir skólar eru verulega fjárþurfi, hafa glímt við fjárskort árum saman eins og sjá má í skýrslu innri endurskoðunar frá 2019. Fleira þarf að koma til, þar með talið faglegur stuðningur við starfsfólk og nauðsynlegar fjárveitingar.

 

Bókun Flokks fólksins við umræða um Sundabraut:

Kynnt hefur verið skýrsla starfshóps Vegagerðarinnar um kosti Sundabrautar. Þar er mælt með að byggð verði brú frekar en göng, enda sé það mun ódýrari kostur. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það að Sundabraut þarf að vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar og að gangandi og hjólandi geti notað hana. Ef vel tekst til með hönnun brúa sem byggja þarf getur Sundabraut, með glæsilegum brúarmannvirkjum, orðið prýði í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. febrúar 2021 á tillögu að aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum árin 2021-2025:

Í loftlagsáætluninni er margt gott en þar eru einnig atriði sem ekki tengjast beint loftslagi svo sem að efla skuli flóðvarnir meðfram strandlengjunni til að búa til útivistarsvæði og strandgarða. Þýðir þetta að bráðum verði ekkert eftir að náttúrulegum fjörum? Allt er að verða manngert og fátt að verða um náttúruleg útivistarsvæði í borgarlandinu. Steypa á kostnað náttúru. Fjallað er um tæknilausnir og um einfaldar leiðbeiningar um bætta hegðun en ekki tekið á aðalmálunum sem er orkuskiptin og notkun metans í stað þess að brenna því. Auðvitað á að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti en nota innlenda orkugjafa í staðinn, metanið. Talað er um urðun. Vandséð er að það að hætta urðun bæti loftgæði. Hringrásarhagkerfið stuðlar að því að minnka sóun náttúrugæða, en ekki að bæta loftgæði sérstaklega. Það liggur í augum uppi að draga á úr allri sóun og endurnýja sem mest. Draga á úr ferðum erlendis. Ekki var hlustað á að auka ívilnanir fyrir raf- og metanbíla til að flýta fyrir orkuskiptum. Ekki var hlustað á að hvetja til að styrkja björgunarsveitir án skoteldakaupa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur oft rætt hjólastíga en þeir eru víða í borginni stórhættulegir enda ekki hannaðir sem slíkir og því varla alvöru viðbót við samgöngukerfið.

Stefna Flokks fólksins í loftlagsmálum.

Flokkur fólksins lítur á loftlagsbreytingar af mannavöldum sem grafalvarlegan, hnattrænan umhverfisvanda enda virðir mengun engin landamæri.

  • Við viljum að Íslendingar taki virkan þátt í baráttunni gegn þessari vá í alþjóðlegu samstarfi. Endurheimt votlendis, rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipa, framleiðsla á endurnýjanlegri orku og aukin skógrækt er þær mótaðgerðir sem liggur beinast við Íslendingar ráðist í.
  • Við leggjum mikla áherslu á að Ísland axli ábyrgð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum án þess að aðgerðir í þágu umhverfisverndar bitni á almenningi sem hefur úr litlu að moða fjárhagslega. Það hafa t.d. ekki allir efni á því að skipta yfir í rafbíla.
  • Við munum því beita okkur gegn grænum sköttum sem auka misskiptingu og fátækt. Þeir greiði mest sem menga mest.
  • Við viljum nýta hreinar orkulindir landsins af skynsemi svo draga megi úr mengun, samhliða náttúruvernd.
  • Þar sem hálendisþjóðgarður hefur verið tengdur loftslagsumræðu, er vert að taka fram að við styðjum ekki takmarkanir á ferðafrelsi almennings innanlands til að njóta eigin náttúru. Hálendið er unaðsreitur sem má ekki stofnanavæða í formi þjóðgarðs með tilheyrandi ráðherraræði á kostnað almannaréttar. Við treystum heimamönnum í nærliggjandi sveitarfélögum vel til að halda utan um hálendismálin.
  • Það hafa ekki allir efni á utanlandsferðum og því er gríðarlega mikilvægt að almenningur hafi greiðan aðgang að þessari endurnærandi paradís hálendisins án gjaldtöku. Íslendingar hafa notið hennar lengi, til dæmis innan vébanda útivistarfélaga, og almennt gengið vel um. Við treystum þessu fólki til að njóta hálendisins, virða það áfram og vernda í senn.

Bókun Flokks fólksins við umræðu borgarfulltrúi Flokks fólksins um atvinnumál eldri borgara í Reykjavík leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er nú bara í áfalli yfir að enginn úr meirihlutanum sýndi umræðunni um sveigjanleg starfslok áhuga. Ærandi þögn og áhugaleysi gagnvart málefninu er þrúgandi. Enginn setti sig á mælendaskrá frá meirihlutanum. Hvernig á að skilja þetta? Borgin ætti að hætta að nota aldursviðmið og leyfa þeim sem það geta og vilja að halda áfram að sinna starfi sínu þótt sjötugsaldri sé náð. Borgin ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afnumið alfarið. Í kjarasamningi segir að yfirmanni sé heimilt að „endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris.“ Einnig segir að ákvörðun um ráðninguna skal tekin af borgarstjóra að fenginni umsögn yfirmanns viðkomandi stofnunar.“Þetta minnir á  bænaskjal eins og Íslendingar sendu til einvaldskonungana í Kaupmannahöfn fyrr á öldum. Borgin hlýtur að geta gert betur en þetta í stað þess að losa sig við fólk úr störfum aðeins vegna þess að það hefur náð ákveðnum aldri og vill síðan ekki einu sinni ræða málið í borgarstjórn.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Því ber að halda til haga að borgarfulltrúarnir Rannveig Ernudóttir og Alexandra Briem tóku báðar til máls undir þessum lið.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Þeir tveir fulltrúar meirihlutans sem tóku loks til máls í umræðunni um atvinnumál eldri borgara í Reykjavík komu upp í andsvari. Fulltrúi Flokks fólksins man ekki eftir að nokkurn tímann hafi verið sýnt eins mikið áhugaleysi og kuldi gagnvart máli hér í borgarstjórn eins og þessari umræðu Flokks fólksins um atvinnumál aldraðra í Reykjavík.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Því ber að halda til haga að Alexandra Briem kom upp í andsvari en Rannveig Ernudóttir fór á mælendaskrá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það eigi að klappa fyrir því?

 

Bókun Flokks fólksins við umræða um húsnæði Fossvogsskóla:

Staðan í Fossvogsskóla er með öllu óásættanlegt. Þarna eru börn látin vera við afar mengandi aðstæður. Ákalli hefur ekki verið sinnt. Minnist borgarfulltrúi Flokks fólksins þess að hafa fengið skammir frá Heilbrigðiseftirlitinu í febrúar 2020 þegar sendar voru inn fyrirspurnir um málið. Fulltrúi Flokks fólksins var sakaður um dylgjur af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Svo mikið fyrir þær dylgjur þegar horft er til ástandsins nú. Kannski er ekki að vænta góðs þegar í svörum frá embættismönnum er farið fram með slíkum pirringi þegar verið er að ganga erinda borgarbúa og spyrja spurninga. Reynt var að þagga málið og sagt að viðgerð væri lokið. Fengið var verktakafyrirtæki til að gera við húsið. Þegar litið er yfir ferlið er ekki annað hægt en að komast að þeirri niðurstöðu að verkið var ekki unnið með viðhlítandi hætti. En hvar voru eftirlitsmennirnir? Hver ber ábyrgð á þessu? Myglu- og rakavandi í skólum er stórt vandamál, afleiðingar áralangrar vanrækslu á viðhaldi með tilheyrandi mygluskemmdum. Þetta ástand hefur haft djúpstæð áhrif á börn, foreldra og starfsfólk, líkamlega og andlega. Margir hafa veikst og sumir ekki náð sér að fullu og munu kannski seint gera ef nokkurn tímann. Hvernig ætlar borgarmeirihlutinn að taka á þessu alvarlega máli og öðrum sambærilegum?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu við fundargerð borgarráðs 18. febrúar undir 1. og 9. lið fundargerðarinnar:

Liður 9. Starfshópur um börn innflytjenda skilaði skýrslu sinni og ágætum tillögum í maí 2020. Veigamesta tillagan var hins vegar hunsuð af meirihlutanum en hún er sú að tekjutengja gjald fyrir vistun á frístundaheimili. Grípa þarf til sértækrar aðgerðar eins og að tekjutengja gjöld ef hægt á að vera að auka jöfnu. Of mörg dæmi eru um að efnalitlir foreldrar séu nauðbeygðir til að grípa til frístundakorts barna sinna til að greiða gjald frístundaheimilis og þar með notar barnið ekki kortið í íþróttir. Rannsóknir sýna að börn frá tekjulágum heimilum stunda síður skipulagðar íþróttir og annað tómstundastarf.

Liður 1. Aðalskipulag Reykjavíkur, nýr Skerjafjörður; Með þetta mál hefði átt að bíða enda liggja ekki öll gögn fyrir. Það er mikil andstaða við fyrirhugaða landfyllingu. Fjörur í Reykjavík eru í útrýmingarhættu vegna landfyllinga meirihlutans. Fjörur eru ekki einkaeign skipulagsyfirvalda borgarinnar. Ef markmið með þéttingu byggðar Nýs Skerjafjarðar er eyðilegging á núverandi Skerjafirði þá þarf að hugsa skipulagsmál á svæðinu upp á nýtt. Að mati Náttúrufræðistofnunar er landfylling vestan við flugvöllinn óþörf þegar og ef flugvöllurinn verður lagður niður. Umhverfisstofnun gerir athugasemdir við áformaða landfyllingu. Raska á sem minnst náttúrulegri strandlengju. Minnt er á að Skerjafjörður er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.

 

Bókun Flokks fólksins við undir 9. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs:

Sjálfsagt er að uppfæra og endurnýja þjónustustefnu eftir því sem tækninni fleygir fram. En hér er gengið of langt í fjáraustri. Milljarðar streyma frá sviðinu til einkafyrirtækja hérlendis og erlendis fyrir alls konar hugmynda- og nýsköpunarverkefni sem aðeins þröngur hópur sérfræðinga skilur til hlýtar. Þjónustu hefur verið útvistað án þess að sýna fram á betri þjónustu. Í opnu bókhaldi sviðsins má sjá að aðkeypt þjónusta til Capacent og Gartner group er 90 milljónir og er farið langt fram úr áætlun. Í gögnin vantar greiðslur til Advania, Opinna kerfa og Origo. Í yfirliti yfir stafræna umbreytingu 2021 á að setja rúma 3 milljarða. Ekki er séð að verið sé að reyna að hagræða. Er t.d. ekki hægt að sameina eitthvað af skrifstofum s.s. „skrifstofu þjónustuhönnunar“ og „skrifstofu gagnaþjónustunnar“ og „stafræn Reykjavík“ – á þetta ekki allt heima undir upplýsingatækniskrifstofu? Varla er hagræðing í að brjóta þetta upp í margar skrifstofur? Flokkur fólksins vill að innri endurskoðun rýni í þessar tölur. Reykjavík hefur boðist til að vera leiðandi í upplýsingatækni fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sveitarfélögin. Borgin kostar þessa vinnu og færir Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hana á silfurfati. Hafa borgarbúar samþykkt að borga brúsann fyrir önnur, sum hver stöndug sveitarfélög?