Forsætisnefnd 3. desember 2021

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að forsætisnefnd samþykki að ganga til samstarfs um tilraun til að rauntímatexta fundi borgarstjórnar á tímabilinu janúar-júní 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins styður að gengið sé að tilboði Tiro ehf. í rauntímatextun borgarstjórnarfundar og að gengið verði til samstarfs við fyrirtækið um að prófa tæknina á næsta borgarstjórnarfundi eins og þeir bjóðast til að gera. Fram kemur að hér er um sanngjarnan kostnað að ræða og því ekkert að vanbúnaði að hefja tilraun sem þessa. Að tilraunatíma loknum mun forsætisnefnd leggja mat á reynsluna og ákvarða framhaldið. Hér er um tækni að ræða sem gæti nýst mörgum sem vilja fylgjast með borgarstjórnarfundum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. júní 2021, sbr. vísun borgarstjórnar frá 11. júní 2021 á tillögu Báru Katrínar Jóhannsdóttur, fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta, um að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem ungmenni leggja fram á árlegum borgarstjórnarfundi og að upplýsingar um úrvinnsluferlið verði aðgengilegar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst að það taki ráð og nefndir  Reykjavíkurborgar almennt  séð allt of langan tíma að afgreiða og vinna tillögur þ.m.t. tillögur minnihlutafulltrúa borgarstjórnar. Dæmi eru um að meira en eitt ár og jafnvel eitt og hálft ár hafi liðið frá því að tillaga er lögð fram og þar til hún kemur til afgreiðslu á fundi.  Þess vegna styður fulltrúi Flokks fólksins heilshugar tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem ungmenni leggja fram á árlegum borgarstjórnarfundi og að upplýsingar um úrvinnsluferlið verði gerðar aðgengilegra. Vonandi mun afgreiðslutími almennt séð styttast hvort sem um er að ræða tillögur eða erindi sem berast Reykjavíkurborg.