Borgarstjórn 20. júní 2023

Umræða um íslenskukennslu barna og fólks af erlendum uppruna að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Greinargerð Móttaka barna og fullorðinna af erlendum uppruna er eitt stærsta verkefnið sem blasir við íslensku samfélagi. Innflytjendum hefur fjölgað mikið undanfarið í Reykjavík. Það er því mikil áskorun framundan við að aðstoða þessa nýju borgarbúa að skilja og tala íslensku svo þeir geti aðlagast sem best íslensku samfélagi. Flokkur fólksins telur sérstaklega mikilvægt að fá góða og gagnlega umræðu um hvernig við eflum íslenskufærni barna og fullorðinna af erlendum uppruna. Það er mikilvægt fyrir alla þjóðfélagsþegna að geta skilið og tjáð sig á íslensku. Það er forsenda þess að þeir geti tekið þátt í lýðræðislegu þjóðfélagi og látið til sín taka. Íslenskukunnátta fólks af erlendum uppruna er lykillinn að farsæld, hamingju og framgangi þeirra í þjóðfélagi okkar. Það að efla íslenskukunnáttu fólks af erlendum uppruna er ekki eingöngu mikilvægt fyrir fólkið til að verða fullgildir borgarar heldur er það liður í að við varðveitum íslenska tungu og menningu. Þetta verkefni er gríðarleg áskorun vegna mikillar fjölgunar innflytjenda undanfarið. Innflytjendur eru nú rúmlega 20% af íbúum í Reykjavík og fjölgar stöðugt. Við viljum öll taka vel á móti nýjum borgurum og að þeim líði vel í samfélagi okkar. Mikilvæg forsenda til að svo geti orðið er að fólk skilji það tungumál sem talað er í samfélaginu. Ábyrgðin er ekki bara hjá skólunum og stjórnvöldum heldur er ábyrgðin hjá okkur öllum, þ.e hverjum og einum einstaklingi. Hvernig mætum við fólki sem ekki talar íslensku og komum þeim skilaboðum til þeirra að það sé mikilvægt að læra íslensku og síðast en ekki síst hvernig leiðbeinum þeim í þeirri vegferð að læra íslensku? Ábyrgð Reykjavíkurborgar er mikil. Í skólum borgarinnar fer fram íslenskukennsla fyrir börn af erlendum uppruna og hana þarf að styrkja og efla. Starfsfólk Reykjavíkurborgar er mjög fjölbreyttur hópur sem endurspeglar litríka flóru samfélagsins. Reykjavíkurborg hefur þá stefnu að starfsfólk borgarinnar, með annað móðurmál en íslensku, skuli eiga kost á hagnýtum íslensku námskeiðum.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðunni um íslenskukennslu barna og fólks af erlendum uppruna að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Móttaka barna og fullorðinna af erlendum uppruna er eitt stærsta verkefnið sem blasir við íslensku samfélagi. Innflytjendum hefur fjölgað og okkar bíður að sú áskorun að aðstoða þennan hóp að skilja og tala íslensku svo þeir geti aðlagast sem best íslensku samfélagi. Innflytjendur eru nú rúmlega 20% af íbúum í Reykjavík. Flokkur fólksins vill taka taka vel á móti nýjum borgurum og til þess að þeim geti liðið vel þurfa þeir að skilji tungumálið sem talað er í samfélaginu. Íslensku kunnátta er LYKILLINN að farsæld og framgangi þeirra í þjóðfélagi okkar. Það er ekki eingöngu mikilvægt fyrir innflytjendurnir heldur er það liður í varðveislu íslenskra tungu og menningar. Áskorunin er stærri en svo að ekki er hægt að setja ábyrgðina eingöngu á skólana heldur þarf þjóðarátak til og aðeins þannig náum við samstilltu átaki. Helsta áskorunin er að gefa fólkinu tækifæri til að tala íslensku. Þjálfun í að tala er lykilatriði. Íslenskukunnáttan mun auka möguleika á framgangi í íslensku samfélagi. Það mun auðvelda fjölmartg s.s. samskipti við einstaklinga og stofnanir. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er stórt og það þarf að vinna með sameiginlegu átaki og í samvinnu við nýja borgara.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um loftgæði, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. júní 2023.

Umræða um loftgæði er þörf. Halda þarf svifryksmengun innan lögbundinna marka. Of hægt hefur gengið að breyta bílaflota Reykjavíkur yfir í vistvæna bíla. Aðeins um fjórðungur bíla sem borgin notar eru knúnir af vistvænum orkugjöfum. Flokkur fólksins hefur lagt fram nokkrar góðar tillögur til að draga úr útblæstri og bæta loftgæði og má þar helst nefna aukna skógrækt. Svifryk er einatt til vandræða og plöntun trjáa er einföld aðgerð sem hefur góð áhrif. Flokkur fólksins er á móti því að banna nagladekk eða setja á þau sérstakt gjald. Ekki má gleyma hvar við búum og við hvaða veðurskilyrði. Öryggi þarf ávallt að vera í forgrunni. Ferðavenjur eru persónubundnar hvort heldur það er bíll, hjól eða almenningssamgöngur. Almenningssamgöngur eru því miður ekki nógu góðar í Reykjavík. Bílum fer fjölgandi og taka þarf á umferðarteppum enda menga þær hvað mest. Eitt af því sem mengar hvað mest er flugvélaútblástur. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að draga skuli úr utanlandsferðum. Slíkt fordæmi hefur nú þegar verið sett af hálfu innviðaráðuneytisins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: Borgarstjórn samþykkir áskorun til dómsmálaráðherra annars vegar og innviðaráðherra hins vegar um að þeir hafi frumkvæði að því að breyta viðeigandi ákvæðum laga svo að frá og með sveitarstjórnarkosningum vorið 2026 verði borgarstjórinn í Reykjavík kjörinn beinni kosningu:

Það eru gallar og kostir við allt stjórnskipunarfyrirkomulag en gallar við að kjósa borgarstjóra beint eru fleiri en kostir. Með því að kjósa borgarstjóra beint er vikið frá lýðræðishefðum sem hafa verið ríkjandi lengi. Það er áhætta að kjósa borgarstjóra beint því að baki slíkum borgarstjóra og verkum hans er enginn kjörinn hópur sem ber ábyrgð nema þeir sem kusu viðkomandi. Vissulega er það rétt að það er auðveldara fyrir borgarstjóra sem er kjörinn beint að taka erfiðar ákvarðanir sem eru nauðsynlegar fyrir velferð íbúa og framtíð borgarinnar. En skýra þyrfti valdmörk hans ítarlega. En hvað ef ákvarðanir hans skaða íbúana? Hvað ef dómgreind þessa borgarstjóra brestur? Borgarstjóri sem kosinn er beint verður sannarlega aldrei leiðtogi allra, ekki nema hann sé kosinn af öllum sem ekki er líklegt. Í stuttu máli er þetta mikil áhætta og höfum við séð dæmi um það víða. Flokkur fólksins er einnig afar ósammála því að fjölgun borgarfulltrúa hafi verið mistök. Fjölgun borgarfulltrúa gerir það að verkum að borgarbúar eiga fleiri raddir í borgarstjórn. Tilkoma Flokks fólksins í borgarstjórn er lifandi sönnun þess. Benda má á að þegar fulltrúum var fjölgað var hætt að setja menn sem ekki voru kosnir í nefndir sem var til sparnaðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um stöðu sviðslista og sjálfstæðra menningarhópa í Reykjavík:

Mikil eftirspurn er eftir sviðslistafólki og nú virðist staðan vera þannig að sviðslistafólk vantar hentugt og öruggt húsnæði. Tjarnarbíó annar ekki eftirspurn og lítið er um annað húsnæði í boði. Ef borgin hefur yfir að ráða húsnæði með stórum opnum rýmum ætti að skoða hvort hægt væri að nýta slíkt. Þetta þarf að kanna. Leita þarf allra leiða til að skapa sviðslistum góðar aðstæður eins og öðrum listgreinum ef því er að skipta.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. júní. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerð borgarráðs frá 15. júní:

Mannekla hefur verið vandamál árum saman og lengst af lítið verið gert til að leysa þennan vanda. Þungar byrðar hafa verið lagðar á foreldra og mikið hefur mætt á starfsfólki, ekki síst við að reyna að manna leikskólana. Fullyrt er að margt sé búið að reyna en Flokkur fólksins spyr þá: Hvað nákvæmlega er búið að reyna? Fulltrúi Flokks fólksins hefur sent inn tugi bókana um mannekluvandann sem og tillögur til lausnar. Vandann má rekja að mestu til tveggja þátta, lágra launa og álags í starfi en aðstæður í sumum leikskólum eru bágbornar. Þrengsli eru víða og ekki bætti úr skák þegar hvert myglu- og rakamálið rak annað. Í tillögum meirihlutans felst uppgjöf. Lagt er til að ráða mannauðsstjóra, enn eitt nýtt stöðugildi sem skýtur skökku við þegar ekki hefur verið til fjármagn til að bæta kjör leikskólastarfsfólks. Nú þegar eru átta slíkir ráðgjafar á sviðinu sem mætti nýta. Afleysingastofa hefur verið ónýtt í þessu verkefni en nú á að virkja hana. Samtök vinnandi fólks hafa lýst mikilli andstöðu við þá tegund samninga sem liggja til grundvallar ráðningum Afleysingastofu, svokallaðra núll-samninga, og vill Flokkur fólksins að þetta sé sérstaklega skoðað áður en lengra er haldið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerð borgarráðs frá 8. júní og Fundargerð borgarráðs frá 15. júní: Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 16. júní og 5. liðar fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. júní:

Liður 6:  Aðgerðaáætlunin er góð eins langt og hún nær en vandinn er að það er ekki verið að fara eftir henni nema að hluta til. Brotið er á börnum og viðkvæmum hópum daglega í Reykjavík, t.d. með því að láta börn svo tugum skiptir bíða á biðlistum. Það stríðir gegn barnasáttmálanum sem borgin hefur ekki enn innleitt. Jafnrétti og almenn sanngirni ríkir heldur ekki í launamálum. Einnig má nefna að laun ungmenna í Vinnuskólanum hafa ekki fylgt almennum launahækkunum. 5. liður: Flokkur fólksins lagði til að framkvæmd yrði úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst grunnskólum í Reykjavík til að fylgjast með fjölda þeirra tilvika þar sem nemendur forðast skóla. Tillagan var lögð fram fyrir 14 mánuðum og nú fyrst kemur hún fyrir skólaráðið og er vísað frá. Fullyrt er í bókun meirihlutans að búið sé að þaulgreina „fyrirbærið“ og að góð vitneskja sé um miðlægt verklag. Í raun eru þessi vandi að aukast og vísbendingar eru um að sviðið hafi sofnað á verðinum. Biðlistatölur (2.500 börn) sýna það. Á þeim lista eru án efa börn sem glíma við misalvarlegan vanda, þ.m.t. skólaforðunarvanda.