Fundur velferðarráðs 15. febrúar 2023

Tillaga Flokks fólksins um að ræða við og taka stöðuna hjá foreldrum 2290 barna sem bíða á biðlista eftir sérfræðiaðstoð skóla s.s. sálfræðiaðstoð og aðstoð talmeinafræðings.

Biðlistinn hefur lengst stöðugt og lengist enn þrátt fyrir breytt skipulag, Betri borg verkefnið sem komið er í gang í sumum hverfum borgarinnar. Biðlistinn hefur lengst stöðugt þrátt fyrir umfangsmiklar aðgerðir við að innleiða BBB. Tafir hafa orðið á verkefninu enda ferlið flókið. Skipaðir voru fimm starfshópar til að koma verkefninu af stað. Skipaður var eigendahópur verkefnisins með sviðsstjórum, formanni verkefnastjórnar og fulltrúi miðstöðva. Settur var á laggirnar stýrihópur innleiðingar. Skipaðir voru verkefnisstjórnir BBB á hverri miðstöð sem samanstóðu af röð stjórna með ýmsum titlum. Og öll þessi hersing var svo í samvinnu við ÞON. Það skal því ekki undra að ekki hefur tekist að spyrna fótum við fjölgun á biðlista barna. Viðurkennt er að þetta reyndist allt þyngra en reiknað var með og að fundarálag sé mikið sem ekki er skrýtið. Það er mikilvægt að kanna stöðuna hjá þessum fjölskyldum og heyra í foreldrum barnanna sem hafa sum beðið mánuðum saman eftir aðstoð. Eru þeir jafn ánægður með BBB eins og sagt er að starfsfólkið sé og “deildir”?

Frestað.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að rætt verði við þá foreldra barna með tilfinningavanda sem á að bjóða á HAM námskeið (hugræn atferlismeðferð) þegar námskeiði líkur og þeir spurðir hvort þeir telji námskeiðið hafa gagnast sér til að hjálpa börnum sínum með tilfinninga- og kvíðavandamál sín:

Óskað er eftir að rætt verði við þá foreldra barna með tilfinningavanda sem á að bjóða á HAM námskeið (hugræn atferlismeðferð) þegar námskeiði líkur og þeir spurðir hvort þeir telji námskeiðið hafa gagnast sér til að hjálpa börnum sínum með tilfinninga- og kvíðavandamál sín. Það er áhugavert að fá upplýsingar hvernig Hugræn atferlismeðferð fyrir foreldra nýtist foreldrum barna með tilfinningar og kvíðavandamál. Þau börn sem hér um ræðir eru eftir því sem best er vitað á biðlista eftir sálfræðingi.

Frestað.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn að fá upplýsingar um hversu mörgum skólaforðunar málum var vísað til Barnaverndarnefndar árið 2022? Í apríl 2022 kom fram í svari sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölda tilkynninga til Barnaverndar vegna skólasóknar eða sem tengjast skólaforðunar málum:

Flokkur fólksins óskar að fá upplýsingar um hversu mörgum skólaforðunar málum var vísað til Barnaverndarnefndar árið 2022? Í apríl 2022 kom fram í svari sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölda tilkynninga til Barnaverndar vegna skólasóknar eða sem tengjast skólaforðunar málum. Fjöldi tilkynninga vegna vanrækslu varðandi nám eins og það er orðað var árið 2019 67 mál en er árið 2021 46 mál talsins. Fjöldi tilkynninga vegna erfiðleika með skólasókn var árið 2019, 77 mál og árið 2021, 72.
Nú er spurt um árið 2022. Óskað er eftir sömu upplýsingum og liggja fyrir fyrri ár. Viðmiðunarflokkum vegna skólaforðunarmála er skipt í þrjú stig eftir alvarleika. Langvinn, alvarleg skólaforðun á við þegar hún hefur staðið yfir lengur en eitt ár og flokkast þá sem stig 3. Þegar á 3. stig er komið er þörf á sértækri íhlutun og nauðsynlegt getur verið að vísa málinu til Barnaverndar. Þetta á við um nemendur sem hafa ekki svarað þeim inngripum sem hafa verið reynd og vandinn því orðinn langvinnur og alvarlegur.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort borgarmeirihlutinn hyggist grípa til einhverra sértækra aðgerða til að mæta vaxandi fjölda barna sem búa við fátækt í Reykjavík. Er hafin vinna við að móta stefnu eða áætlun til að uppræta fátækt í Reykjavík. Engin slík stefna er til í Reykjavíkurborg:

Í nýlegri könnun Gallup kom fram að það er erfiðara nú en áður að ná endum saman í Reykjavík. Hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman fjárhagslega hefur ekki verið jafn hátt hérlendis síðan fyrir sjö árum og hlutfall þeirra sem ná að safna sparifé hefur ekki verið lægra um sex ára skeið. Um þriðjungur þekkir fátækt af eigin raun eða í sínu nærumhverfi. Leigjendur eiga sérlega erfitt með að ná endum saman ef samanborið við húsnæðiseigendur eða þau sem búa í foreldrahúsum. Í ljósi þessara og fleiri sambærilegra niðurstaðna spyr fulltrúi Flokks fólksins: Hyggst borgarmeirihlutinn grípa til einhverra sértækra aðgerða til að mæta vaxandi fjölda barna sem búa við fátækt í Reykjavík. Er hafin vinna við að móta stefnu eða áætlun til að uppræta fátækt í Reykjavík. Engin slík stefna er til í Reykjavíkurborg.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort Reykjavíkurborg sé með þjónustusamning við einkarekin vistheimili fyrir börn með fjölþættan og flókinn vanda? :

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort Reykjavíkurborg sé með þjónustusamning við einkarekin vistheimili fyrir börn með fjölþættan og flókinn vanda? Ef svo er hvernig er eftirliti háttað með þessum heimilum? Einnig er spurt um hvort fylgst sé með öryggi skjólstæðinga og starfsfólks og hvort það sé tryggt? Er gerð krafa á að vistheimilin séu með fagfólk sem kann að veita börnum meðferð og aðstoð? Hér er um að ræða börn sem eru veik, mörg með alvarlegan geðrænan vanda og hljóta því að þurfa sértæka meðhöndlun. Er fylgst með arðgreiðslum hjá þessum einkareknu vistheimilum, ef þær eru til staðar?