Borgarstjórn 21. janúar 2020

Umræða um niðurstöður PISA 2018 og frammistöðu íslenskra nemenda í lesskilningi (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

Grein lögð til grundvallar málflutningi:

Leshraði á kostnað lesskilnings?

Frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkvæmt niðurstöðum PISA hefur ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA árið 2015 en þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega. Þriðji hver drengur og fimmta hver stúlka mælast ekki vera með grunnhæfni í lesskilningi. Áleitin spurning er hvort læsisstefna stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga og metnaðarfullar áætlanir séu byggðar á réttum forsendum og áherslum? Hvað er verið að gera rangt?

Lesfimi/hraði

Lestrarferlið er byggt á mörgum samverkandi þáttum þ.m.t. tungumálinu. Vitað er að ef börn sem byrjuð eru að lesa, þjálfa ekki lestur reglulega er hætta á að þau tapi lestrartækni. Kanna þarf með reglubundnum hætti hvort árangur sé ekki ávallt að batna. Slíkar mælingar þurfa ekki að vera miðstýrðar. Markmiðið er að börn verði læs og skilji,  til að hafa gagn og gaman af lestri.

Nú leggur Mennta­mála­stofn­un (MMS) mikla áherslu á leshraða (lesfimi) og mælingar á honum. Frá því í september 2017 hefur Mennta­mála­stofn­un (MMS) mælt með að skólar mæli leshraða hjá börnum í 1. til 10. bekk. Rökin eru þau að nemendur með góðan leshraða hafi yfirleitt góðan lesskilning. En þetta er kannski ekki alveg svo einfalt því árangur á hraðlestrarprófi segir ekkert til um lesskilning einstaklings. Niðurstöður sýna aðeins hversu hratt lesandinn getur bunað út orðum. Leshraði er til lítils ef barn skilur ekki efnið sem það les. Barnið sem ekki skilur efnið er verr sett en barn sem les hægt en hefur ágætan lesskilning. Hjá stofnuninni (MMS) var einnig byrjað að vinna lesskilningspróf en þeirri vinnu var víst aldrei lokið.

Lesskilningur

Lesskilningur byggir á samspili fjölda ólíkra vitsmunaþátta og er samtengdur tungumálinu. En það gefur augaleið að til að skilja lesefni þarf að geta lesið það. Fyrst er því að ná tökum á umskráningu. Umskráning er færni til að breyta bókstöfum orða í viðeigandi málhljóð og tengja þau saman til að mynda orð. Án umskráningar verður enginn lestur. Ekki ber öllum saman um hvenær nákvæmlega í lestrarferlinu sé best að leggja áherslu á lesskilning. Einhverjir tala um að lesskilningur sé  lokatakmark þess sem les sem er afar sérkennilegt. Lesskilningur er auðvitað ekkert lokatakmark heldur má segja að lesskilningur hefjist um leið og barnið fæðist enda byggir hann á tungumálinu.

Eins mikið og búið er að rannsaka lestur finnast ekki margar rannsóknir á  undirstöðuþáttum lesskilnings og hvaða þættir vega þar þyngst. Á meðan hvatt er til að skólar mæli leshraða er e.t.v. ekki  eins mikil áhersla á samræmdar mælingar á orðaforða, stafsetningu og lestur á sjónrænum orðaforða. Í það minnsta er ekki verið að semja lesskilningspróf um þessar mundir að vitað sé.  Því má spyrja hvort áherslan sé meira á mæla lesfimi á kostnað áherslu og mælinga á lesskilningi? Það er einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir að lesskilningur „bara komi“ hjá börnum þegar þau ná auknum hraða.

Hraðlestrarpróf valda sumum börnum kvíða og álagi

Menntamálastofnun hefur sett ákveðin lesfimiviðmið sem sýna  fjölda rétt les­inna orða á mín­útu. Ung­ling­ur sem hef­ur lokið 10. bekk hef­ur farið í gegn­um 30 mæl­ing­ar á les­hraða á 10 ára skóla­göngu. Spyrja má hvaða áhrif slík­ar end­ur­tekn­ar mæl­ing­ar hafi á lestraráhuga. Enda þótt lesefnisviðmiðin séu e.t.v. almennt ekki ósanngjörn eru þau of há fyrir mjög mörg börn. Í hópi barna er lestrarfærni þeirra mismikil. Sum börn ná einfaldlega ekki miklum hraða í lestri og ná ekki hraðaviðmiðunum Menntamálastofnunar. Vandamál með lestur geta átt rætur að rekja til ótal þátta þ.m.t. undirliggjandi leshömlunar eða annarra frávika.

Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Strax og börnin hefja skólagöngu er því hægt að hefja einstaklingsmiðaða íhlutun/þjónustu þar sem þess er þörf. Hraðlestrarsamanburður getur almennt séð verið vafasamur, ekki einungis fyrir börn sem standa höllum fæti heldur einnig þá sem ná viðmiðum. Börn sem standa höllum fæti fá sífellt þau skilaboð að frammistaðan sé ekki nægilega góð jafnvel þótt hún batni. Að sama skapi getur verið að börn sem standa vel að vígi upplifi að þar sem þau séu búin að ná markmiðum þurfi þau  ekki að bæta sig frekar.

Eggið eða hænan

Hægt er að vera sammála um að til að læra að lesa þarf þjálfun og til að lestur gagnist þarf skilning. Reynsla mín af þessum málum er að það verður að byrja að þjálfa lesskilning um leið og umskráningartækni er náð án tillits til hraða eða lestrarlags. Því fyrr sem barnið skilur lesefnið því meiri áhuga hefur það á lestri og mun lesa meira sem eykur enn frekar hraða og skilning. Barn finnur síðan þann hraða sem passar fyrir það.  Þegar barn byrjar að læra að lesa þarf að hefja tengingu við skilning. Lesi barnið orðið sól þá þarf að spyrja: hvaða orð varstu að lesa og hvað merkir það? Og svona gengur þetta koll af kolli. Barn hljóðar sig í gegnum orð og setningar og athygli þess er strax beint að inntaki textans.

Hvað skiptir máli þegar upp er staðið?

Hvað þarf að gera til að auka lesskilning íslenskra barna? Svarið er að leggja meiri áherslu á lesskilning og að Menntamálastofnun vinni lesskilningspróf. Þessi mál væru ekki í umræðunni nema vegna þess að íslensk börn eru að koma ítrekað illa út úr PISA. Þetta er óásættanlegt ekki síst vegna þess að á Íslandi getum við státað okkur af stórkostlegu kennaraliði auk þess sem við eigum gagnreynt kennsluefni eins og Leið til Læsis með tilheyrandi skimunarprófum. Það gæti hins vegar verið vöntun á enn frekara kennsluefni með mismunandi erfiðleikastig. En ráðandi öfl eru einfaldlega ekki á réttri leið. Auðvitað má velta fyrir sér hvort hlustað sé á rétta fólkið?

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins
Greinin var birt í Fréttablaðinu 17. janúar 2020

Umræða um styttingu á opnunartíma leikskóla (að beiðni borgarfulltrúa Miðflokks, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins).

Bókun Flokks fólksins við umræðu um niðurstöður PISA:

Frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkv. niðurstöðum PISA hefur ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA. Nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings hefur fjölgað hlutfallslega. Í nýrri menntastefnu til 2030 eru lausnir á þessum vanda ekki ávarpaðar. Augsýnilega hefur eitthvað brugðist í les- og lesskilningsstefnu og framkvæmdum í því sambandi hjá ríki og borg. Skóla- og frístundarsvið veit að lesskilningur er ekki ófrávíkjanlegt framhald af leshraða. Í hópi barna er lestrarfærni mismikil. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Strax og börnin hefja skólagöngu er því hægt að hefja einstaklingsmiðaða þjónustu við börn sem þess þurfa. Mæla þarf árangur með reglulegum hætti. Samvinna skólasviðsins við heilsugæslu liggur ekki fyrir. Leggja þarf meiri áherslu á lesskilning og slaka á með áherslu á hraða og í því sambandi þarf skólasvið borgarinnar að leggja skýrar línur. Þjálfun er vissulega forsenda alls þessa en hvert barn finnur sér sinn hraða. Veita þarf kennurum svigrúm, sveigjanleika og næði til að nýta það efni sem þó er til og fylgja nemendum sínum eftir.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokks um fallið verði frá skerðingu á þjónustutíma leikskóla og opnunartími settur í hendur leikskólanna sjálfra:

Tillaga Sjálfstæðismanna um að opnunartími leikskólanna verði á ábyrgð leikskólann með þarfir foreldra í huga er erfið í framkvæmd. Flokkur fólksins sat því hjá við málsmeðferðartillögu meirihlutans um frávísun. Flokkur fólksins var með breytingartillögu þess efnis að fresta skuli ákvörðun sem þessari og nota tímann til að leysa mannekluvandann með því að bjóða starfsmönnum betri kjör. Aðstæður eru ólíkar hjá foreldrum og hætta á mismunun nema öllum standi til boða sami opnunartíminn. Rót vandans er mannekla vegna þess að launin eru lág og álagið mikið. Væri launin hækkuð og störfin t.d. vaktaskipt myndi álagið minnka. Fleiri myndu sækja um og mannekluvandi væri úr sögunni. Þá fyrst gætu leikskólar sinnt sínu hlutverki í þágu barna og foreldra og hagað mönnun þess vegna þannig að opnunartími haldist eins þrátt fyrir styttingu á vinnuviku, t.d. með því að hluti starfsmanna mætti fyrr og hætti snemma og hluti mæti seint og hætti við lokun. Eins og breytingartillaga Flokks fólksins fjallar um þá er leiðin ekki að setja þetta á herðar leikskólanna heldur fresta ákvörðun sem þessari þar til stytting vinnuviku liggur fyrir. Nota á tímann til að vinna í launamálum, vaktamálum og gera störf leikskóla enn meira aðlaðandi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi breytingartillögu sem miðast að því að fresta ákvörðun skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur þar til ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar liggur fyrir og leggi þess í stað áherslu á að leysa mannekluvanda leikskólanna með því að bjóða starfsmönnum þar betri launakjör:

Að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að fresta ákvörðun um skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur þar til ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar liggur fyrir og leggi þess í stað áherslu á að leysa mannekluvanda leikskólanna með því að bjóða starfsmönnum þar betri launakjör. Vitað er að það eru hagsmunir barna og foreldra að vera sem mest saman. Hópur foreldra, ekki síst einstæðra, munu lenda í vandræðum þegar opnunartími leikskólanna styttist um hálftíma. Ekki allir geta unnið vinnu sína með sveigjanlegum hætti. Líkur eru því að með þessari ákvörðun munu einhverjar foreldrar missa vinnu sína eða lækka í launum. Ekki dugar að setja ábyrgðina um sveigjanleika á herðar leikskólanna eins og Sjálfstæðisflokkur leggur til heldur þarf borgin fyrst að vinna þessa tillögu í samvinnu við atvinnulífið t.d. samhliða ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar. Rót vanda leikskólanna er mannekla og rót mannekluvandans eru kjör leikskólakennara. Lítið pláss og mannekla einkennir leikskóla og það hefur neikvæð áhrif á börn og starfsfólk. Það ætti að vera áherslan að tryggja að slíkar aðstæður séu aldrei til staðar í leikskólastarfi. Þetta þarf að vinnast í frekari sátt við foreldra. Safna þarf meiri gögnum og vinna undirbúningsvinnuna betur. Ríkuleg gæðasamvera barna og foreldra er mikilvæg en það þýðir ekki að fjarvera barns frá foreldrum sé slæm. R20010279

Breytingatillagan kom ekki til afgreiðslu þar sem málsmeðferðartillaga meirihlutans var að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins frá.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um styttingu opnunartíma leikskóla að beiðni allra flokka í minnihluta:

Er meirihlutinn að guggna á þessari ákvörðun sinni? Það væri óskandi enda ákvörðun sem tekin er undir fölsku flaggi. Börnunum og samverustund þeirra með foreldrum sínum er beitt til að fela vangetu og skort á vilja meirihlutans að leysa mannekluvanda leikskólanna. Meirihlutinn vill ekki fjármagna bætt laun og aðstæður leikskólakennara. Foreldrana átti bara að hunsa. Svona breyting þarf að vera tekin í takt við atvinnulífið og umræðuna um styttingu vinnuvikunnar sem nú er eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú standa yfir. Rökin fyrir ákvörðunni er sett í tilfinningalegan búning, hvað sé barninu fyrir bestu. Um það er einfaldlega enginn ágreiningur. Sjái foreldrið að 9 tímar eru erfiðir barninu bregðast margir foreldrar við því með því að sækja það fyrr alltaf þegar þau geta. Skóla- og frístundarráð á ekki að ala upp foreldra. Aðstæður foreldra eru mismunandi. Þess vegna er rúmt val nauðsynleg. Þessar kerfisbreytingar munu leiða til aukins ójafnvægis og álags ekki síst hjá einstæðum foreldrum sem þurfa að leita annarra leiða ef daglegur vinnutími fellur ekki nákvæmlega að opnunartíma leikskólans.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar:

Þétting byggðar er aðaláhersla meirihlutans í miðju umferðaröngþveiti miðbæjarins. Er ekki nær að byrja á umferðarmálunum áður en byggð eru síldartunnuhverfi, hverfi sem fólk kemst varla inn eða út úr. Fólk lokast af á sama bletti, kemst orðið illa inn og út úr miðbænum því ekki eru allir svo heppnir að vinna við hliðina á heimili sínu. Fólk hefur ólíkar þarfir og væntingar. Enn eru þeir til sem ala þá von í brjósti að fá lóð til að byggja sitt eigið hús. Er það liðin tíð? Einnig er ómögulegt að fá iðnaðarhúsnæði í Reykjavík annars staðar en á Esjumelum. Í dag er ekki til húsnæði fyrir alla. Síðastliðinn október voru 267 á biðlista eftir hjúkrunarými á höfuðborgarsvæðinu, 560 bíða eftir hvíldarinnlögn. Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða enn 162. Aðeins er um 99 rými að ræða við Sléttuveg fyrir eldri borgara og á áætlun er að byggja 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þetta dugar bara ekki til. Þjóðin er að eldast og þessi rými rétt taka biðlistann sem nú er. Sama gildir um húsnæði fyrir fatlað fólk. Nú bíða yfir 160 manns eftir slíku húsnæði en á áætlun er að byggja aðeins um helminginn af því sem þarf.


Bókun Flokks fólksins við tillögu Miðflokksins um að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á stofnbrautum:

Flokkur fólksins styður þessa tillögu. Umferðarmannvirki í borginni hafa tekið litlum sem engum breytingum um árabil og engann vegin verið tekið tillit til þeirra auknu umferðar á öllum sviðum ásamt fjölgun íbúa. Meirihlutinn sýnir í þessum málum fullmikinn hroka. Flokkur fólksins leggur til að stórátak verði gert í að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á stofnbrautum. Hjá því verður ekki litið að bifreiðafloti borgarbúa hefur aukist til muna og hjólreiðar að sama skapi. Meirihluti borgarinnar hefur ekki séð neina ástæðu til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda með því að bæta umferðarmannvirki um helstu þveranir stærstu umferðaræða borgarinnar. Enn fremur eykur það slysahættu og mengun í borginni að meirihlutinn vill ekki greiða fyrir umferðinni með bættri ljósastýringu á helstu umferðartoppum. Það þolir enga bið að hugað sé að velferð gangandi vegfarenda. Þar á meðal eru sérhvern dag fjöldi barna og eldri borgara. Er það raunverulega stefna meirihlutans í borginni að hunsa þennan vanda sem og hunsa jafnan rétt fólks til að komast á milli staða af öryggi og án óþarfa tafa?

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósialistaflokksins um könnun á kerfislegri áhættu vegna kvótakerfis:

Flokkur fólksins styður tillögu um könnun á kerfislegri áhættu vegna kvótakerfisins. Það er mikilvægt að vita um mögulegar hættur. Könnun sem þessi gæti varpað ljósi á hagnað útgerðar og hvert arðurinn fer? Það þarf ekki alltaf að bíða eftir að teikn séu á lofti heldur þarf að vera alltaf á tánum og vel vakandi þegar mikið er undir eins og í þessum málum.

Bókun Flokks fólksins við fundargerðum borgarráðs þ.m.t. ábyrgð á lántöku Félagsbústaða:

Meirihlutanum í borginni finnst ekkert tiltökumál að fljúga til útlanda á kostnað borgarbúa. Dæmi eru um að hópur embættismanna og borgarfulltrúa allt frá sama ráði/sviði og jafnvel að forseti borgarráðs og formaður úr öðru ráði skelli sér með til gamans í margra daga skoðunarferð. Hvernig væri að fara að sýna samfélagslega ábyrgð og það að þessu sinni í verki? Sambærileg tillaga liggur fyrir þinginu og býður fjármálaskrifstofa þingsins þingmönnum aðstoð sína við kolefnisjöfnuð. Kostnaður við kolefnisjöfnuð nemur um 1000 krónur per ferð. Auðvitað eiga borgarfulltrúar að greiða þetta úr eigin vasa og sýna með því viðhorf sitt í verki til mikilvægis umhverfisverndar. Ekki hefur heyrst í einum einasta þingmanni kvarta. Með þessari lántöku eru skuldir Félagsbústaða komnar í 44.5 ma.kr. Árum saman var trassað að kaupa íbúðir og lengi voru um 1000 fjölskyldur á biðlista. Á sama tíma og lítið var keypt var íbúðum heldur ekki haldið við nema til bráðabirgðar. Nú er sannarlega keypt og hefur biðlistinn eitthvað styst en leigan hefur hins vegar hækkað. En er viðhald ábótavant og kvörtunum vegna heilsuspillandi húsnæðis hefur ekki fækkað. Stjórn Félagsbústaða og velferðarsvið verður að fara að horfast í augu við ímyndavanda fyrirtækisins og almennt séð taka betur utan um leigjendahópinn.

Bókun Flokks fólksins við ýmsa liði hinna ýmsu fundargerða sem lagðar eru fram í borgarstjórn:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 16. desember, 19. lið fundargerðar skipulags og samgönguráðs frá 11. desember og 16. lið frá 15. janúar og 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 14. janúar:

Tillaga um endurskinsmerki felld. Flokkur fólksins leggur áherslu á mikilvægi þess að leita leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Flokkur fólksins fagnar stýrihópi um frístundarkort sem vonandi tekur á agnúum kortsins þannig að það fái aftur sinn upphaflega tilgang en sé ekki notað sem gjaldmiðill fyrir pláss eða skuld við frístundaheimili. Af hverju skyldu skipulagsyfirvöld ekki vilja bæta ljósastýringu og auka flæði umferðar? Hér er um öryggi allra borgarbúa að ræða auk þess sem stórlega myndi draga úr mengun. Ljósastýring er víða í borginni í miklum ólestri. Er aðgerðarleysið af ásetningi, til að fæla þá frá sem hyggjast koma akandi í bæinn? Sú tillaga sem hér um ræðir var unnin í samvinnu við framkvæmdastjórn Kolaportsins sem saknar íslendinga sem fjölmenntu áður í Kolaportið. Hugsunin með tillögunni var að laða að fólk sem öllu jafna treystir sér ekki til að fara með bíl sinn í bílastæðahús og fá þá e.t.v. leiðsögn um greiðslukerfið. Rök skipulagsyfirvalda gegn tillögunni eru að bílastæðasjóður yrði fyrir tekjutapi. Halda þau virkilega að með því að samþykkja þessa tillögu myndu eldri borgarar fjölmenna í bæinn um helgar í slíkum mæli að rekstrargrundvelli bílastæðasjóðs væri ógnað?