Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að hundagjald hundaeiganda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður og að þessir hópar þurfi ekki að greiða slíkt gjald:
Flokkur fólksins leggur til að hundagjald hundaeiganda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður og að þessir hópar þurfi ekki að greiða slíkt gjald. Ekki fást upplýsingar frá borginni um hvað margir eru eldri borgarar sem eru skráðir hundaeigendur í Reykjavík. Sagt var að tölvukerfið byði ekki upp á að greina hundeigendur eftir aldri eða stöðu þeirra í samfélaginu. Þessi tillaga hefur það markmið að auðvelda öryrkjum og eldri borgurum sem þess óska að halda hund og á sama tíma hvetja þá sem gælt hafa við möguleikann að eiga hund til að fá sér hund. Árlegt eftirlitsgjald er 19.850 kr. Afsláttur er veittur hafi eigandi sótt hundahlýðninámskeið og er upphæðin þá 9.925 kr. Skráning eftir að frestur er útrunninn er 31.700 kr. Skráningargjald er 20.800. Þetta eru umtalsverðar upphæðir þegar annar kostnaður við að halda hund er talinn með, fóður, dýralæknisgjöld o.fl. Flokkur fólksins leggur til að hundaeigendur sem eru eldri borgarar og hundaeigendur sem eru öryrkjar verði leystir undan því að greiða árlegt hundagjald vegna hundsins síns. Það er sérstakt að á Íslandi þurfi fólk að greiða árlegt hundaleyfisgjald og þekkist það ekki annars staðar. Þetta er eitt af óþarfa skilyrðum og reglum sem borgin leggur á borgarbúa að mati Flokks fólksins.
Greinargerð
Það þykir flestum sjálfsagt að greiða skráningargjald fyrst þegar hundur er skráður og er það algengt í nágrannalöndum. Sú upphæð er reyndar mun lægra en hér á landi. Hvað varðar árlegt gjald, eftirlitsgjald er annað mál. Það tíðkast ekki í öðrum löndum.
Þetta gjald er 18.900 kr á hverju ári – per hund. Margir velta því fyrir sér í hvað þessir peningar eru notaðir, í þágu hverra? Í nágrannalöndum okkar er þessi peningur gjarnan notaður sem dæmi til að halda uppi gagnagrunni sem dýralæknar hafa aðgang að. Fyrir þann sem á t.d. tvo hunda á Íslandi sem lifa í 15 ár þá gæti hann þurft að greiða um 600.000 kr. í hundaleyfisgjöld. Ef borið saman við Danmörku myndi sambærilegt vera um 5.000 krónur.
Gæludýr hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Á síðustu áratugum hefur áhugi á áhrifum dýra á líðan fólks aukist. Margar rannsóknir hafa bent á að gæludýr auka lífsgæði fólks og hafa jákvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan eigenda sinna. Gæludýr draga úr einangrun.
Áhugi á áhrifum dýra á fólk hefur aukist mikið hin síðari ár og ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum sem dýr geta haft á manneskjur. Að minnsta kosti tvær rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á áhrifum gæludýra á líðan fólks þar með talið eldri borgara. Ein rannsókn kannaði áhrif heimsóknarhunda og eigenda þeirra á líðan heilabilaðra sjúklinga á öldrunarsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss. Í rannsókninni kom fram að samskipti sjúklinga við hundana létti á einangrun þeirra og þeir tjáðu sig við hundana og aðra sem í kringum þá voru og í flestum tilfellum náðist gott samband á milli fólks og hunds.
Félagsskapurinn er helsti ávinningurinn sem dýrin gefa eigendum sínum og í fjölmörgum tilfellum er hundurinn eini vinurinn. Tengsl manneskju og hunds geta verið mjög sterk jafnvel jafn sterk og þau ættu við annað fólk. Hundar gefa eigendum sínum oft hlutverk, það þarf að sjá um þá, fæða þá, hreyfa og gæla við þá. Dýr virðast því uppfylla þörf fólks til að annast annan aðila. Það eru sterk tilfinningaleg bönd milli fólks og dýra sinna. Dýrin sýna eigendum sínum hlýju, traust og umhyggju án skilyrða. Þessi hlýja, traust og umhyggja fullnægir þörfum eigenda þeirra fyrir nálægð við aðra. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu auðvelda öryrkjum og eldri borgurum sem þess óska að eiga og halda hund enda ávinningurinn mikill.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að lagfæringar verði gerðar á hundsvæðinu í Geirsnefi við Elliðaárvog og sá peningur sem innheimtur er með hundaskatti verði nýttur til þess:
Flokkur fólksins leggur til. Hér er um að ræða útileikvang sem hundaeigendum er ætlaður í Reykjavík. Geirsnefið er til skammar fyrir borgina vegna hirðuleysis. Það er ekkert gert til að betrumbæta þetta svæði. Þarna er vaðandi drulla og engin aðstaða fyrir fólk sem er að viðra hundana sína, svo sem bekkir og annað, til að tilla sér á, og göngustígar sem í rigningatíð eru eitt forarsvað. Hundaeigendur eru upp til hópa mjög ósáttir við að vera rukkaðir um tæp 19 þúsund á ári, fé sem rennur beint í borgarsjóð. Innheimta þessa gjalds er einsdæmi og þekkist ekki í nágrannalöndum. Það er því lágmark að gjaldið sé notað í þágu dýranna og notað m.a. til að betrumbæta aðstöðu hundaeigenda. Gjaldið er notað að stóru leyti í yfirbyggingu og rekstur hundaeftireftirlitsins. Fjölmargir telja að árlegt hundaleyfisgjald sé barn síns tíma og það eigi að fella niður með öllu. Sagt er að gjaldið sé notað til að þjónusta alla borgarbúa en engu að síður eru hundaeigendur aðeins rukkaðir. Í þessu er engin sanngirni. Reykjavík er ekki hundavinsamleg borg og tímabært að færa dýrahald borgarinnar til nútímans og í þeim efnum taka þá mið af hvernig málum er háttað í nágrannalöndum okkar. R20010132
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.
Fyrirspurnir er varða hundaeftirlitið og hundaeftirlitsmenn, hundagjaldið og fleira sem tengist þessum málaflokki í Reykjavíkurborg.
Fyrirspurnirnar eru unnar í samstarfi við Hundasamfélagið á fb
Fyrirspurnir Flokks fólksins um hundaeftirlitið og störf hundaeftirlitsmanna. Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar. Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Óskað er eftirfarandi upplýsinga um hundaeftirlitið, hundaeftirlitsmann og verkefni hans: Beðið er um að fá tímaskýrslur hundaeftirlitsmanna fyrir árið 2018 og 2019. Spurt er hvort aukin rafræn samskipti hafi dregið úr og breytt umfangi starfs hundaeftirlitsmanns. Ef svo er hvernig þá, með hvaða hætti og í hvað miklum mæli? Ástæða spurningarinnar er sú að með tilkomu netsins hefur almenningur tekið við mörgum verkefnum eins og að koma týndum/fundnum hundum til síns heima. Hefur verið gerð óháð úttekt á fjármálum hundaeftirlitsins t.d. af innri endurskoðanda? Hvar er hundaeftirlitið til húsa, hver á húsnæðið og hver er leigan? Í ljósi þess að kvartað hefur verið yfir hundaleyfisgjaldi Reykjavíkurborgar og það jafnvel talið vera hærra en nemi þeim kostnaði sem borgin hefur af hundahaldi er spurt um hér í hvað hundaeftirlitsgjöldin fara. Óskað er eftir sundurliðun fyrir árið 2018 og 2019. hundaeftirlitið hefur fræðsluskyldu. Hvernig er þeirri fræðslu háttað til hundaeigenda? R20010132
Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar.
Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Með hvaða hætti hefur hundaeftirlitið beitt sér til að fækka óskráðum hundum í borginni? Hversu oft hefur hundaeftirlitinu verið tilkynnt um lausagöngu hunda sl. 2 ár? Hversu oft og hversu margir hundar sl. 2 ár verið færðir í geymslu vegna óþæginda sem þeir valda, vegna óþrifnaðar eða vegna þess að þeir hafa raskað ró manna? Komið hefur fram að það taki mörg ár að leysa sum mál sem koma inn á borð hundaeftirlitsins. Hvernig mál eru það sem tekur fleiri ár að leiða til lykta? Ef hundaeftirlitið er með hund í geymslu getur eigandinn leyst út hund sinn og fengið reikninginn í heimabanka? Ef ekki, hverjar eru ástæðurnar? Hversu margir af þeim hundum sem hundaeftirlitið hefur haft afskipti af með einhverjum hætti eru ekki skráðir? Hversu margir af þeim hundum sem hundaeftirlitið hefur haft afskipti af með einhverjum hætti eru skráðir en hafa farið á hundanámskeið? R20010132
Framhald á fyrirspurnum er varða hundamál í borginni
Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Óskað er upplýsinga um önnur verkefni hundaeftirlits svo sem: Hver er kostnaðurinn við að framleiða og senda ártalsmerki út á hverju ári til allra skráðra hundaeigenda og hver er raunverulegur tilgangurinn með þeim? Hver er fjöldi innkominna erinda, þ.m.t. kvartanir, á ári hverju sl. 2 ár? Hvernig eru verklagsreglur hundaeftirlitsins við vinnslu kvartana? Hver er fjöldi símtala varðandi hundamál í gegnum þjónustuver? Hver er fjöldi símtala í farsíma hundaeftirlitsmanna? Hvers vegna auglýsir hundaeftirlitið ekki fundna hunda á netinu? Hvernig er eftirlitsferðum háttað? Samkvæmt ársskýrslu heilbrigðiseftirlitsins voru kvartanir 79 árið 2018 og fer fækkandi samkvæmt skýrslunni og 84 árið 2019. Það kemur því á óvart að í fjárhagsáætlun sem lögð var fram í desember 2019 má sjá að árið 2019 var fjöldi kvartana 1300 og reiknað er með að árið 2020 verði þær 1400. Óskað er útskýringar á þessu. R20010132
Frekari fyrirspurnir Flokks fólksins um hundaeftirlitið og störf hundaeftirlitsmanna. Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar.
Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Fyrirspurnir er varða hundaeigendur: Hversu margir eiga fleiri en einn hund? Hvernig er aldursdreifing hundaeigenda og hversu margir eru í hópi eldri borgara?Svar frá hundaeftirlitinu í janúar 2020: Tölvukerfið býður ekki upp á að greina hundeigendur eftir aldri. Flokkur fólksins er ekki tilbúinn að sætta sig við að ekki sé hægt að greina hundaeigendur eftir aldri og spyr því aftur um aldursdreifingu? Hversu margir eigendur hafa farið á hundahlýðninámskeið með hund sinn og fá þ.a.l. helmings afslátt af árlegu hundaeftirlitsgjaldi? Samkvæmt gildandi gjaldskrá og hundaeftirlitssamþykkt miðar afslátturinn við hvort leyfishafi hafi sótt hundahlýðninámskeið. Þess vegna er spurt af hverju þarf eigandi að fara á námskeið með hvern hund til að fá afslátt vegna þeirra allra? Eru heimilisföng og skráningar hundaeigenda með hundaleyfi uppfærðar reglulega? Ef svo er hversu tíð er sú uppfærsla? R20010132
Öllum fyrirspurnum er varða hundamál er vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um margir skólar í Reykjavík nýta sér Leið til læsis?
Leið til læsis er stuðningskerfi sem er unnið af sérfræðingum á sviði læsis. Eins og sjá má á niðurstöðum úr nýrri PISA-könnun þá fer íslenskum börnum enn aftur hvað varðar lestur og lesskilning. Slök lestrarkunnátta og lesskilningur hefur áhrif á árangur í öðrum greinum og því er grundvallaratriði að bæta lesskilning meðal íslenskra barna.
Óskað er eftir upplýsingum frá skóla- og frístundasviði um hvað margir skólar í Reykjavík nýta sér Leið til læsis, úrræðin í handbókinni og skimunarprófin sem námsefninu fylgja, sér í lagi þegar grípa þarf til snemmtækrar íhlutunar vegna sýnilegs vanda barns með lestur og lesskilning? Leið til læsis, handbókin og skimunarprófin er gagnreynt námsefni. Rannsóknir sýna að með réttum aðferðum er hægt að draga úr eða jafnvel koma í veg fyrir námsörðugleika. Námsefnið er úrræði fyrir nemendur sem eru í áhættu í málskilningi, orðaforða, hljóðkerfisvitund, hljóðvitund og stafaþekkingu. Leið til læsis er í eigu Menntamálastofnunar sem setti prófið inn sem hluta af Lesferli sem er samheiti yfir próf sem stofnunin hefur gefið út. Með þetta gagnreynda verkfæri er hægt að bæta lestur og lesskilning íslenskra barna fái kennarar stuðning og svigrúm til að nýta það í kennslustofunni í samvinnu við fullnægjandi sérfræðiþjónustu og teymisvinnu. R20010129
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samstarf skóla og heilsugæslu vegna skimunar barna hjá heilsugæslu?
Fyrirspurnir um samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í tilfellum barna sem skimast með vísbendingar um lesvanda. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistarnir Brigance og spurningalistinn PEDS. Í niðurstöðum kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Hægt er að hefja íhlutun með þessi börn strax á þessu tímaskeiði. Á Íslandi er til gagnreynt námsefni s.s. Leið til læsis, ásamt handbók og skimunarprófum. Til að hægt sé að setja íhlutun í gang þurfa upplýsingar úr skimun heilsugæslu að berast skóla og skólinn að grípa til viðeigandi aðgerða/íhlutunar. Fyrirspurnir:
1. Eru skólar í Reykjavík í formlegu samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þegar og ef í ljós kemur í þroskamati vísbendingar um að barn komi til með að glíma við les- og lesskilningsvanda?
2. Ef svo er, hvernig er því samstarfi háttað hvað þetta atriði varðar nákvæmlega?
3. Hvernig er stuðningur og eftirfylgni við þessa nemendur tryggður í skólum Reykjavíkur? R20010131
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 5. desember 2019 til að minna á ný umferðarlög er varðar akstur P merktra bíla á göngugötum:
Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér og minna aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks á að nú hafa ný umferðarlög tekið gildi. Meðal nýmæla er undantekning frá akstursbanni um göngugötur sem felur í sér að bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Flokkur fólksins spyr hvort borgin sé ekki að öllu leyti að virða þessi lög þegar vika er liðin síðan þau tóku gildi og hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa nú heimild til að aka þar?
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð fjölmenningarráðs frá 5. desember 2019 til að minna á að hatursorðræða beinist einnig gegn öryrjum og eldri borgurum:
Hatursorðræða birtist með margskonar hætti og beinist að ólíkum hópum. Hatursorðræða og fordómar birtast nú hvað helst með rafrænum leiðum á síðum undir fölskum prófílum. Einhverjir taka þátt og dreifa og þannig berst hatur og fordómar hratt út. Það sem gerir rafræna hatursorðræðu erfiðari er að ekki er oft vitað hver stendur á bak við hana. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af börnunum í þessu sambandi sem sjá og heyra hatursumræðu á netinu. Eitt af meginmarkmiðum ætti því að vera að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu til að vara og vernda börn og ungmenni. Við þurfum að kenna þeim mikilvægi miðlalæsis og styðja þau í að verja mannréttindi á netinu og utan þess og auka almenna vitund gegn hatursáróðri á netinu. Hatursorðræða beinist einnig gagnvart hópum eins og öryrkjum (fólk með fötlun) og eldri borgurum sem og öðrum minnihlutahópum. Þegar rætt er um þessi mál er mikilvægt að hafa alla þessa hópa í huga.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar frá 11. desember sem viðbrögð við bókun meirihlutans sem fullyrðir að tillögur Flokks fólksins í umferðrmálum miði að því að auka umferð:
Það er augljóst á gagnbókun meirihlutans við þessum lið sem er afgreiðsla tillögu Flokks fólksins um umbætur á svæði Geirsgötu og Kalkofnsvegar móts við Hörpu að meirihlutinn leggur allt í sölurnar til að strípa miðbæinn af bílum og þar með því fólki sem kemur akandi á þetta svæði. Tillagan var felld. Segir í gagnbókun þeirra að til að skapa mannvæna borg verður að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna að það er engin bær ef ekki er þar fólk, nema þá bara draugabær. Gera þarf öllum jafn hátt undir höfði og sjá til þess að draga úr töfum allra sama hvaða ferðamáta þeir nota. Tryggja þarf einnig öryggi allra eins og hægt er án tillits til ferðamáta. Meirihlutinn og skipulagsyfirvöld hans virðast hins vegar gera í því að viðhalda umferðarteppu og gera akandi eins erfitt fyrir og mögulegt er til að halda þeim frá bænum. Halda mætti að það væri ásetningur meirihlutans að útiloka akandi fólk, fólk sem býr í efri byggðum, er utan af landi og verður að nota bíl sinn til að komast langar leiðir þar með til að sinna erindum eða vinnu í bænum. Þetta er upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Til þess að skapa mannvæna borg og styrkja fjölbreytta ferðamáta er grundvallaratriði að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Tillögur Flokks fólksins miða flestar að því sama, að auka „flæði“ bílaumferðar á kostnað gangandi og hjólandi. Við erum ósammála þeirri hugmyndafræði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun til að leiðrétta misskilning meirihlutans og minna á að til að kallast bær þarf að vilja koma í hann fólk:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins er knúinn til að segja það sama því meirihlutinn í borgarstjórn leitast stöðugt við að misskilja og snúa út úr skrifum flokka í minnihlutanum. Hér er vísað í bókun í borgarráði 9. janúar undir lið 16 þar sem meirihlutinn fullyrðir að tillögur Flokks fólksins í umferðarmálum miði að því að auka bílaumferð á kostnað gangandi og hjólandi. Þetta er ekki rétt. Fólk í Flokki fólksins gengur líka og hjólar og sumir eru hreyfihamlaðir og í hjólastól. Allir þurfa að komast leiðar sinnar og hver og einn ákveður sjálfur eftir þörfum og vilja hvernig hann ferðast um. Allar tillögur Flokks fólksins miðast að því að minnka tafir fyrir alla og vill að meirihlutinn sýnir öllu fólki sömu virðingu óháð því hvernig það velur að ferðast eða þarf að ferðast. Umferðartafir eru slæmar fyrir fjölmargar sakir, ekki bara vegna tafa heldur einnig vegna mengunar sem umferðarteppur valda. Allir líða fyrir stjórnleysi meirihlutans á umferðarmálum borgarinnar. Af hverju vill meirihlutinn ekki auka flæði umferðar t.d. með því að bæta ljósastýringar. Fjölmargt er hægt að gera og hefur Flokkur fólksins lagt fram margar hugmyndir en þeim er jafnhraðan fleygt.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu bréfs þrótta- og tómstundasviðs, dags. 9. desember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samningi um tónleikahald í Laugardal í júní 2020.
Á fundi borgarráðs 5. september 2019 var samþykkt að tónleikar Secret Solstice verði haldnir í Laugardal dagana 26.-28. júní 2020 með sambærilegu sniði og 2019 ef samningar nást um tónleikahaldið eins og segir í framlagningu málsins. Borgarfulltrúi vill minna á ályktun íbúasamtaka Laugardals um að gerð verði viðhorfskönnun meðal íbúa um hvort halda eigi hátíðina aftur í dalnum. Eftir þeim niðurstöðum þarf að bíða og heyra þarf einnig í öllum foreldrafélögum á svæðinu. Allir voru sammála um að betur gekk 2019 en 2018 enda mun meiri fyrirbyggjandi vinna viðhöfð. Engu að síður komu upp 40 fíkniefnamál og umsögn barst frá Þrótti að tónleikahald á grassvæðinu undanfarin ár hafi skemmt völlinn og var sagt að svæðið væri í raun ekki hæft undir keppni í knattspyrnu í kjölfar hátíðarinnar. Flokkur Fólksins lagði til á fundi borgarráðs fyrir hátíðina í fyrra styttingu á vínveitingaleyfi um hálftíma, 23 í stað 23:30 en tillagan var felld af meirihlutanum. Borgarfulltrúi hefur ekki atkvæðisrétt í borgarráði en vill í þessari bókun viðra þá skoðun að betra væri að fundinn yrði hentugri staður fyrir tónleikahátíð af þessari stærðargráðu heldur enn inn í miðju íbúahverfa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 26. nóvember 2019 á tillögum starfshóps um snjalltækjanotkun og skjátíma í skóla- og frístundastarfi:
Fram kemur í bókun kennara og skólastjóra í framlögðum gögnum að í starfshópnum hafi ekki setið fulltrúar kennara í Reykjavík þótt þeir séu lykilaðilar þegar kemur að þessum þætti skólastarfs sem öðrum. Það er óskiljanlegt að lykilaðilum sé ekki boðið til samstarfs í hópi sem þessum. Hér er reyndar komin skýr staðfesting á því sem fram kemur í skýrslu innri endurskoðanda sem fram kom í júlí 2019 að ekki sé nægjanlega hlustað á skólastjórnendur og kennara. Af reglum í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins segja að leiðbeinandi reglur verði að sjálfsögðu að vera án miðstýringar. Það er einmitt það sem felst í því að vera „leiðbeinandi“ . Leiðbeinandi reglur eru ávallt af hinu góða.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari við framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um heildarkostnað við blað um uppbyggingu íbúða í borginni sbr. 44. lið fundarg. borgarráðs 5. des. 2019:
Svarið er áhugavert fyrir margar sakir en mest vegna þess að í því segir að allar þessar upplýsingar séu einfaldlega að finna á netinu. Flokkur fólksins spyr því, til hvers var þessi bæklingur gefin út ef allar upplýsingar í honum er að finna á netinu? Segir einnig að „viðbótin -flokkunin- sem er í bæklingnum hefði einnig mátt fara á netið“ . Í svarinu segir því að 9 milljóna bæklingur var óþarfur. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvað varð um yfirlýst sjónarmið meirihlutans um að draga úr sóun og óþarfa eyðslu, gæta að kolefnissporum o.s.frv. Með útgáfu þessa bæklings virðist sem þau sjónarmið hafi gleymst. Þessi bæklingur er ekkert annað en „montblað“ borgarstjóra sem vill sýna með þessu að loksins er nú farið að byggja eftir margra ára lognmollu. Vandinn er hins vegar sá, alla vega enn sem komið er, að allt of mikið er af rándýru húsnæði sem ekki selst. Þess vegna þarf borgarstjóri og meirihlutinn að bregða sér í hlutverk fasteignasala og gefa út bækling sem þennan. En borgarfulltrúi Flokks fólksins vill þakka þeim sem svaraði og gerir sér grein fyrir að það hlýtur að vera erfitt að vera starfsmaður borgarinnar og þurfa að verja svona lagað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari frá Strætó bs. dags. 28. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort Strætó muni hugsanlega nota metan sem orkugjafa, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019:
Borgarfulltrúi þakkar svarið sem er frekar rýrt. Að vera aðeins með tvo metanvagna í umferð er sérstakt, þegar umfram metani er brennt í stórum stíl, engum til gagns. En eins og framkvæmdarstjóri veit þurfa þessi tvö fyrirtæki borgarinnar Strætó og SORPA að fara að tala meira saman og svsvo virðist sem það í farvatninu og það fljótt. Vandinn með allar framkvæmdir liggur í rekstrarformi fyrirtækis eins og Strætó bs. sem er þetta byggðarsamlagsform. Reykjavík ræður náttúrulega litlu ef tekið er mið af því að sveitarfélagið Reykjavík er langstærsti eigandinn. En það er ekki við framkvæmdarstjórann að sakast í þeim efnum heldur núverandi og fyrrverandi meirihluta sem ekki hafa treyst sér að skoða breytingar á þessu kerfi. Ef Reykjavík á að geta áorkað einhverju í byggðasamlögum sem borgin er jafnframt aðili að og stærsti eigandi þarf að tryggja ákvarðana- og stjórnunarvægi borgarinnar í samræmi við íbúatölu og tryggja að minnihlutum í sveitarstjórnum sé boðið að borðinu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari frá trætó bs., dags. 12. september 2019, við fyrirspurn Flokks fólksins um rafmagnsstrætisvagna, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019.
Rafmagnsstrætisvagnar eru nú 14 talsins í dag. Athyglisvert er að í svari segir að fyrstu vagnarnir komu 2018 og einnig þeir síðustu. Þýðir þetta að ekki komi fleiri slíkir vagnar? Ef svarið er já og það þýði að í framhaldinu komi aðeins vagnar í flotann sem verða metanvagnar þá er það gott. Setning í svarinu: „áfram verður haldið við að gera flotann umhverfisvænan eins og fjárveiting leyfir“ er afar óljós. Hvað er verið að segja hér? Það er nefnilega hægt að vera umhverfisvænn með ýmsum hætti og hægt er að vera mis- umhverfisvænn. Vonandi velur Strætó umhverfisvænstu og hagkvæmustu leiðina til að gera flotann eins umhverfisvænan og kostur er. Ekki veitir af til að bæta upp fyrir slaka nýtingu á almenningsvögnum og á þeim vanda hafa ekki enn fundist lausnir.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við savri frá Sorpu bs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vindvél sem aðskilur plast frá öðru sorpi, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. nóvember 2019:
Enn og aftur kemur í ljós hversu undarlegt og erfitt þetta „byggðarsamlagsform“ er. Það er alltaf að taka á sig sérkennilegri myndir. Nú virðist, ef svarið er skilið rétt, að það sé í alvöru þannig að sérhvert sveitarfélag geti komið með ,,séróskir“. Vindvélin er keypt jafnvel þótt vitað er að tvö sveitarfélög vilja hana ekki en öll sveitarfélög þurfa samt að borga. Þetta virkar eins og sveitarfélag þótt stærst sé, sé haldið í gíslingu meirihluta byggðarsamlagsins sem samanstendur af litlu sveitarfélögunum. Stærsta sveitarfélagið segir nei en verður engu að síður að borga hlutfallslega mest. Flokkur fólksins hefur margrætt ókosti byggðarsamlagakerfis í borgarstjórn. Heyrast raddir minnihluta í borgarstjórn einhvern tíma í Sorpu? Ef allt væri rétt og eðlilegt í þessu máli þá ættu þau sveitarfélög sem vildu þessa vél að greiða hana sjálf en ekki hin sem ekki vildu hana. Skemmst er að minnast 1.6 milljarða bakreiknings vegna mistaka hjá Sorpu sem Reykjavík þurfti að bera hitann og þungann af. Reykjavík greiddi það möglunarlaust eins og ekkert væri eðlilegra. Flokkur fólksins vill minna á hvaðan peningarnir koma þ.e. úr vasa borgarbúa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari borgarstjóra, dags. 6. janúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins um greiðslur úr miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar til Miðborgarinnar okkar, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. október 2019:
Bókun Flokks fólksins við svari um greiðslur úr Miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar til samtakanna Miðborgarinnar okkar. Þessi samtök hafa fengið 50 milljónir sl. 3 ár. Þetta eru háir styrkir. Flokkur fólksins vill fá að sjá umsóknir sem liggja að baki þessum styrkveitingum til að sjá hvaða forsendur liggja að baki því að veita þessum samtökum 11 milljónir þetta ár og 50 milljónir s.l. 3 ár. Óskað er eftir að sjá umsóknir til að hægt sé að átta sig á hvaða skilyrði þessi samtök uppfylla umfram aðra sem mögulega sóttu um í þessum sjóði. Hér er verið að greiða úr sameiginlegu sjóðum borgarinnar. Bara Miðborgin okkar eru að fá 11 milljónir sem er kannski helmingur af öllum sjóðnum? Óskað er eftir að fá að vita hverjir fengu styrki sl. 3 ár, sundurliðun og ástæður fyrir þessum styrkveitingum. Óskir þessar eru settar fram í formlegri fyrirspurn.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að upplýsingar um atkvæðaskiptingu fylgi fréttatilkynningum um afgreiðslur úr borgarráði og borgarstjórn, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019.
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Það kemur ekki á óvart að meirihlutinn hafi vísað tillögunni frá þar sem kappsmál er lagt á að sem oftast haldi borgarbúar að allir séu sammála og að vel fari á með meiri- og minnihluta borgarstjórnar. Flokkur fólksins er í raun ekki að leggja annað til en að það að upplýsa borgarbúa með sem nákvæmasta hætti og í þessu tilfelli að þeir fái að vita hvernig atkvæðagreiðsla skiptist í hverju máli. Flokki fólksins finnst alltaf sérstakt þegar stjórnvald spyrnir fótum við að veita nákvæmar upplýsingar og vill frekar leggja það á almenning að þurfa sérstaklega að hafa fyrir því að fá sem mestar og bestar upplýsingarnar. Upplýsingar sem eru í óhag meirihlutans vill hann ekki að sé flíkað. Upplýsingar sem henta og eru í hag meirihlutans eru hins vegar kyrfilega auglýstar og kynntar af upplýsingafulltrúa borgarstjóra.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Upplýsingar um það sem gerist á fundum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg liggja fyrir í opinberum fundargerðum ásamt því hvernig atkvæði falla um einstaka mál. Þetta er í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar en þar kemur fram að ferar við ákvarðanatöku eigi að vera ,,gagnsæir og rekjanlegir“. Hver sem er getur kynnt sér þær upplýsingar.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar kvartanir Félags leikskólakennara yfir starfsaðstæðum og hvað borgin hyggst gera í þeim málum í kjarasamningu:
Félag leikskólakennara hefur kvartað yfir starfsaðstæðum leikskólakennara. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver sé stefna borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og hvernig kjarasamninganefnd borgarinnar hefur útfært stefnuna í samningaviðræðum hvað varðar eftirfarandi þætti: 1. Skilgreina kjarasamning leikskólakennara starfs- og vinnutíma og samræma að fullu við grunnskólann. 2. Skilgreina og búa til betri ramma um kennsluskyldu leikskólakennara og ramma inn tíma fyrir faglegt starf fyrri part dags í kjarasamningi. 3. Útfæra vinnutímaskipulag leikskólakennara í kjarasamning með sama hætti og grunnskólakennara þannig að á skólaári leikskóla séu leikskólakennarar búnir að vinna sér inn rétt á sömu fríum og í grunnskólum. Sárlega skortir betri ramma um faglegt starf í leikskólum. R20010127