Borgarstjórn 23. apríl 2024

Borgarstjórn Reykjavíkur
23. apríl 2024

Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræðu um tjarnir í Reykjavík og umhirðu þeirra
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill hvetja meirihlutann til að marka sér stefnu um framtíð tjarna í Reykjavík. Í Reykjavík eru margar tjarnir, flestar manngerðar. Stærsta tjörnin er Reykjavíkurtjörn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins kallar eftir umræðu í borgarstjórn um tjarnir og hvernig hægt er að bæta umhirðu þeirra. Í tjörnum í borgarlandinu er rusl og þar er plast mest áberandi. Einnig er kallað eftir umræðu um hvernig hlúa megi betur að fuglalífinu t.d. með því að fjölga hólmum sem gefa fuglsungum öryggi og frið fyrir köttum. Tjarnir í borgarlandinu mætti nýta og njóta betur með því að setja upp aðstæður í kringum þær sem gefur fólki kost á að staldra við þær, tylla sér á bekk og njóta umhverfisins.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum umræða um tjarnir í borgarlandinu:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill hvetja meirihlutann til að marka stefnu um framtíð tjarna í Reykjavík. Engin slík er til. Í því felst m.a. að skilgreina ferli sem lýsir áætlun um hvernig breytingum frá núverandi ástandi skuli náð og hver sé æskileg eða viðunandi staða eftir tilsettan tíma. Bæta þarf umhirðu tjarna ekki síst Reykjavíkurtjarnar. Það er dapurlegt að sjá í henni og í kringum hana rusl sem er helst plastrusl. Þetta má sjá víða í öðrum tjörnum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill auk þess að hlúð sé betur að fuglalífi við tjarnir með gerð fleiri hólma en flestar tjarnir eru manngerðar. Stór hluti unga eru étnir af köttum og er eina leiðin til að sporna við því er að gera fleiri hólma á Tjörninni og tjörnum almennt.  Flokkur fólksins vill sjá borgarstjórn sýna meiri metnað þegar kemur að Reykjavíkurtjörn og öðrum helstu tjörnum í borgarlandinu. Almennt mætti huga betur að því að gera aðstæður við tjarnir í borgarlandinu betri, að þær biðu upp á áningu svo hægt sé að njóta þeirra. Til dæmis að setja fleiri bekki og jafnvel borð í kring sem gefur fólki kost á að staldra við þær, tylla sér á bekk og jafnvel borða nesti á meðan það nýtur umhverfisins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um stöðu löggæslumála í Reykjavík.

Flokki fólksins finnst hugmyndafræðin um samfélagslöggæslu sem leggur áherslu á að lögreglumenn byggi upp jákvæð tengsl við samfélög sem þeir þjóna mjög góð. Enda þótt Reykjavíkurborg hafi ekki vald í löggæslumálum getur meirihlutinn beitt sér með margs konar hætti til að gera borgina öruggari. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað um mikilvægi þess að setja upp öryggismyndavélar t.d. við leiksvæði barna og þar sem börn koma saman til náms og leikja. Borgarfulltrúa Flokks fólksins er umhugað um börnin í borginni. Öryggismyndavélar eru í raun það eina sem bæði hefur fælingarmátt og hjálpar til við að upplýsa mál. íbúaráðin mörg hver eru sama sinnis. Hins vegar strandar á stefnumörkun til framtíðar um eftirlitsmyndavélar í borginni. Borgarráð samþykkti tillögu borgarstjóra á fundi sínum 19. október 2023 um að fela þjónustu- og nýsköpunarsviði ábyrgð á utanumhaldi og eftirliti með rafrænni vöktun öryggismyndavéla sem settar eru upp á vegum Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að þetta eigi eftir að taka mörg misseri jafnvel ár eins og mörg önnur stafræn verkefni í borginni. Hvorki er til stefna né heildstæðar verklagsreglur innan Reykjavíkurborgar um hvernig standa skuli að ákvörðun um uppsetningu og rekstur öryggismyndavéla eins og segir í svari borgarritara um málið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um leikskóla- og daggæslumál í Reykjavík.

Ástandið í leik- og daggæslumálum borgarinnar er óásættanlegt. Enginn mótmælir því, ekki einu sinni meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Foreldrar hafa liðið lengi fyrir óvissuna og fulltrúar leikskólastjóra hafa komið með alvarlegar athugasemdir um stöðuna. Nánast allir borgarreknir leikskólar voru í halla, frá janúar-september 2023 og er hallareksturinn 1.959 m.kr. Gríðarlegt álag hefur verið á starfsfólki leikskóla vegna undirmönnunar, heilsuspillandi starfsumhverfis og óvissu um húsnæðismál. Vegna alls þessa hafa margir starfsmenn farið í langtímaveikindi. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur verið iðinn við að lofa en öðru máli gegnir um efndir. Bréf frá örvæntingarfullum foreldrum berast til borgarfulltrúa reglulega. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskólum sem á eftir að byggja. Mönnunarvandinn kemur sérlega illa niður á foreldrum sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ástandið hefur þess utan skapað annað misrétti. Foreldrar sem ekki fá inni fyrir börn sín í borgarreknum leikskólum þurfa að leita til einkageirans þar sem niðurgreiðsla frá borginni er lægri. Þetta þarf að jafna út. Flokkur fólksins hefur lagt til að borgarráð samþykki að hækka niðurgreiðslu Reykjavíkurborgar hjá einkareknum ungbarnaleikskólum þegar barn nær 18 mánaða aldri, í þeim tilvikum þegar barn er með virka umsókn en fær ekki pláss hjá dagforeldrum eða á borgarreknum leikskóla.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Hugsunin að baki þessari tillögu er góð. Það er sannarlega í anda stefnu Flokks fólksins þ.e. að tryggja öllum þak yfir höfuðið og hlúa sérstaklega að þeim sem minna mega sín. Félagsbústaðir eru til staðar og þá er spurning hvernig Byggingarfélag Reykjavíkur virkar samhliða. Það sárvantar húsnæði í borginni, um það er ekki deilt. Byggja þarf miklu meira en gert hefur verið undanfarin ár. Verði byggt nógu mikið mun það leysa húsnæðisvanda flestra hópa. Biðlisti eftir húsnæði um þessar mundir telur nokkur hundruð manns. Þessum biðlista þarf að eyða. Vandi húsnæðismarkaðarins er slíkur nú að hann teygir sig í alla þjóðfélagshópa nema kannski þá efnamestu. Ástandið kemur verst niður á fátækum og efnalitlu fólki sem jafnvel leita skjóls í ósamþykktu og hættulegu húsnæði. Sjálfsagt er að skoða fleiri lausnir, alls konar lausnir og getum við lært heilmikið af nágrannaþjóðum okkar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að gatnaþrif verði aukin í Reykjavík í því skyni að bæta hreinlæti í borginni og draga úr svifryksmengun. Stofnbrautir og tengigötur verði þvegnar a.m.k. nokkrum sinnum á ári til viðbótar hefðbundinni götusópun.

Reykjavíkurborg er grútskítug og mikilvægt er að auka þrifatíðni verulega. Tekið er undir tillögu um aukin gatnaþrif í Reykjavík. Götur sem eru þaktar fínum sandi og gúmmíögnum eru óholl blanda. Stefna ætti að því að þvo götur með vatni eins oft og unnt er eða þegar veðurfar leyfir. Sú lausn er alla jafna betri en að rykbinda með magnesíum klóríði. Hvert sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer um borgina er kvartað yfir skítugri borg. Hér þarf að gera miklu betur. Flokkur fólksins hefur einnig áður talað um hvað veggjakrot er áberandi í miðborginni. Gera þarf átak í að hreinsa veggjakrot af eignum sem borgin á og ber ábyrgð á. Sagt er að virkt eftirlit sé í gangi en fulltrúa Flokks fólksins þykir það ósennilegt. Fleirum þykir það ekki trúverðugt því stöðugt berast ábendingar um mikið veggjakrot. Kostnaður borgarinnar vegna veggjakrots var um 13,5 m.kr. árið 2022. Ekki er vitað um kostnað á síðasta ári 2023 en vert er að kalla eftir þeim upplýsingum. Eins má spyrja hvort það komi ekki til greina að hafa háar sektir við veggjakroti. Kostnaður við að þrífa veggjakrot er verulegur og stundum illgerlegt er að þrífa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 11. og 19. apríl. MSS24010001. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðarinnar frá 11. apríl um kirkjugarð í Úlfarsfelli:

Óskað er eftir að borgarráð heimili að boðnar verði út áframhaldandi framkvæmdir við kirkjugarð í Úlfarsfelli sem felast m.a. í móttöku moldar á væntanlegum kirkjugarði í Úlfarsfelli. Loksins, segir borgarfulltrúi Flokks fólksins enda mikil þörf á. Það eru um fjögur ár síðan ljóst varð að grafarsvæði í Reykjavík myndu brátt klárast og ekki verði til skiki til að jarða í Reykjavík. Leita hefur þurft á náðir Kópavogsbæjar til að fá pláss þegar tilvistinni á þessari jörðu lýkur. Ástæðan er sú að borgar- og skipulagsyfirvöld hafa dregið lappirnar í að fullklára nýjan kirkjugarð við Úlfarsfell. Þetta ferli hefur gengið allt of hægt og brösuglega. Þess utan vantar fjármuni til að viðhalda eldri kirkjugörðum og þá sérstaklega Hólavallakirkjugarði. Eftir hrun var skorið hressilega niður hjá kirkjugarðsumdæmunum og aldrei hefur sá niðurskurður gengið til baka þrátt fyrir góðærisárin undanfarið. Hólavallakirkjugarður hefur fengið að drabbast niður. Flokkur fólksins lagði til fyrir um 2 árum að gera gangskör í framkvæmdum að nýjum kirkjugarði við Úlfarsfell til þess að Reykvíkingar sem hafa valið að vera jarðsettir í kistu frekar en keri fái að hvíla innan borgarmarkanna þegar þeirra tími kemur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð stafræns ráðs frá 10. apríl og fleiri fundargerðir:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar stafræns ráðs:

Lagt er fram svar við fyrirspurn um uppsagnir, niðurlagningu starfa og andrúmsloft á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Af svari má ráða hversu gríðarlegar sviptingar eiga sér stað á þessu sviði. Starfsfólk hlýtur að vera á tánum alla daga, vita aldrei hvenær það fær reisupassann. Síðan er sagt að „öllum lögum sé framfylgt“ eins og það breyti einhverju. Látið er að því liggja að Flokkur fólksins hafi skapað vanlíðan með gagnrýni á stjórnunarhætti og því hvernig farið hefur verið með almannafé. Það er pólitísk skylda kjörinna fulltrúa að láta í sér heyra þegar þeim finnst óskynsamlega farið með fjármagn með bruðli og sóun. Sviðsstjóri ber alla fjárhagslega og framkvæmdarlega ábyrgð á því fjármagni sem hann hefur óskað heimildar að fá og hefur fengið. Það blöskrar mörgum að horfa upp á hvernig meirihlutinn hefur gagnrýnislaust opnað peningakrana til sviðsins og virðist sem stjórn þess og sýsl með peninga lúti engu eftirliti að heitið geti. Flokkur fólksins hefur aldrei ásakað starfsfólk þessa sviðs eða annarra um neitt misjafnt heldur frekar haft samúð með því. Það er ófaglegt af stjórnanda að nota starfsfólk sitt sem persónulegan hlífðarskjöld. Það er löngu tímabært að farið verði í óháða úttekt á sviðinu og hefur Flokkur fólksins þegar lagt fram slíka tillögu sem vísað var til borgarráðs.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er rétt að það er mikilvægt hlutverk kjörinna fulltrúa að veita aðhald og spyrja spurninga og fyrirspurnir eru nauðsynlegur þáttur í því. Þegar því er misbeitt dregur það úr áhrifum fyrirspurna sem verkfæris, en fyrirspurnir Flokks fólksins hafa verið margar, óskýrar, stundum síendurteknar, rætnar í framsetningu, gefa sér rangar forsendur og dylgja um störf embættismanna og starfsfólks. Eins gerir síendurtekin gagnrýni, sem hefur ítrekað verið svarað, býr ekki bara til mikið álag, heldur gerir það einnig erfiðara að veita réttmætt aðhald þar sem þess gerist þörf, með því að taka upp það rými sem kjörnir fulltrúar hafa fyrir það samtal. Því skal haldið til haga að það sem fulltrúi Flokks Fólksins gerir athugasemd við er minnisblað ritað af starfsfólki, en þar er einnig vísað í könnun á starfsanda innan sviðsins á vegum Sameykis, sem hluti af könnun á stofnun ársins, en þar fékk sviðið almennt háar einkunnir, nema helst í þeim liðum sem snúa að ímynd og ytri umræðu. En einnig er bent á að starfsfólk upplifi að gagnrýni Flokks Fólksins beinist að þeim og þeirra störfum og það hafi áhrif á starfsánægju.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Flokkur fólksins hefur aldrei misbeitt sér í þessu máli og fengið þvert á móti mikinn stuðning frá fólki úr ýmsum geirum sem þakkar Flokki fólksins fyrir að hafa staðið á þessari vakt meðan aðrir sváfu. Hér er um að ræða almannafé og er það skylda kjörinna fulltrúa að benda á ef verkefni eru illa skilgreind og ekki sé leitað hagkvæmustu leiða og aðferða. Fulltrúi Flokks fólksins hefur miklar áhyggjur af öllum uppsögnum á sviðinu. Tugum starfsfólks hefur verið sagt upp á á örfáum árum. Svo er talað um að það þurfi að vera í einhverskonar mótvægisaðgerðum til þess að koma í veg fyrir atgervisflótta starfsfólks og stjórnenda vegna fyrirspurna frá Flokki fólksins. Fulltrúinn ítrekar að skoða þarf heildarmynd þessara mála áður en settar eru fram einhliða fullyrðingar sem skauta algjörlega framhjá margvíslegum afleiðingum þeirra miklu öfga sem einkennt hafa starfsmannahald sviðsins sjálfs.