Borgarstjórn 26. apríl 2022 Fyrri umræða ársreikning frá 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu samantekins ársreiknings A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2021, dags. 22. apríl 2022, ásamt fylgigögnum:

Ástæða er til að hafa áhyggjur af fjármálastjórnun og rekstrarstöðu A-hluta borgarsjóðs. Veltufé frá rekstri (það sem er til greiðslu afborgana og til nýfjárfestinga) er einungis rúmlega 300 milljónir króna. Það verður sem sagt að taka lán til að greiða allar afborganir lána og taka lán fyrir öllum nýfjárfestingum. Sú er niðurstaðan þegar heildartekjur A-hluta hafa hækkað um 11% frá fyrra ári. Til að rekstur borgarinnar væri í ásættanlegu jafnvægi þá þyrfti veltufé frá rekstri að vera milli 12 og 13 milljarðar króna. Langtímaskuldir hafa hækkað um 33% milli ára. Afborganir lána og leiguskulda hafa hækkað um 35% milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar hafa hækkað um 17% milli ára. Fjárhagsstaða Strætó bs. er veik. Ofan í kaupið er reynt að bæta fjárhagsstöðu samstæðunnar með bókhaldskúnstum hjá Félagsbústöðum. Verkefni af ýmsu tagi hafa notið ákveðins forgangs, verkefni sem engin brýn þörf er á, meðan grundvallarviðhald skólahúsnæðis og nýbygging leikskóla hefur setið á hakanum sem og þjónusta við börn, eldra fólk og öryrkja. Flokkur fólksins leggur áherslu á að þörf er á grundvallarbreytingu á forgangsröðun verkefna í þágu fólksins og þjónustu við það. Endurskoða verður fjármálastjórn Reykjavíkurborgar ef ekki á að stefna fjárhag borgarinnar í óefni.

 

Bókun Flokks fólksins undir 41.-48. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl:

Stafrænar lausnir eru framtíðin, um það er ekki deilt. Búið er að veita til þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar um 13 milljörðum á 3 árum. Farið hefur verið með fjármagnið af lausung. Ómældu fé hefur verið veitt í ráðgjöf sem ekki er séð hvernig skilaði sér. Þetta er óásættanlegt miðað við nútímakröfur um skilvirkni og árangursstjórnun. Í stað þess að setja þær stafrænu lausnir sem liðka fyrir t.d. umsóknarferlum eins og umsókn um leikskólapláss strax í forgang og hefja samvinnu við Stafrænt Ísland frá upphafi, hefur stór hluti þessa fjármagns farið í að belgja út sviðið sjálft. Hver skrifstofan á fætur annarri hefur verið sett á laggirnar á sviðinu og fjöldi fólks úr einkageiranum ráðið til starfa. Búið er að halda úti tilraunateymum sem miða að því að uppgötva stafrænar lausnir sem víða eru til. Hamast er við að finna upp hjólið. Hér má nefna rafrænar undirskriftir sem enn eru í þróun hjá borginni. Nýtt skjalastjórnunarkerfi hefur verið að malla í þrjú ár en er ekki enn komið í fulla notkun. Flokkur fólksins harmar vinnubrögð af þessu tagi en flokkurinn berst fyrir að börn fái þá þjónustu sem þau þarfnast, að fátækt og efnalítið fólk fái þak yfir höfuðið og mat á diskinn sinn.

 

Bókun Flokks fólksins undir 16. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs:

Bókun vegna svars þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 24. mars 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um félagið I Ráðgjöf slf. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lengi gagnrýnt það hversu glannalega þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur farið með fjármuni borgarbúa. Það að segja upp reyndu starfsfólki með mikla sérfræðiþekkingu á stafrænum innviðum og þjónustu Reykjavíkurborgar og kaupa í staðinn mun dýrari þjónustu af ytri aðilum er í raun aðför að útsvarspeningum borgarbúa. Það er alveg augljóst að þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur tekið ákvarðanir sem hafa haft stóraukinn kostnað í för með sér fyrir Reykjavíkurborg. Í svari sviðsins kemur fram að borgarsjóður hefur þurft að greiða um 740 milljónir í aðkeypta þjónustu fyrir sviðið árið 2021 fyrir þjónustu sem brottreknir starfsmenn sáu um áður. Fulltrúi Flokks fólksins spurði einnig um tengsl sviðsstjóra við fyrirtækið I Ráðgjöf sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur haft viðskipti við en því er ekki svarað. Það er mat Flokks fólksins að það sé í raun með ólíkindum að fyrirtæki sem tengist stjórnanda/embættismanni hjá Reykjavíkurborg hafi átt viðskipti við sviðið sem viðkomandi embættismaður stýrir.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur hér enn eina bókunina fram sem samanstendur af fullyrðingum sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Það sem kemur fram um útboð hefur annað hvort verið útskýrt skriflega eða á fundum sem fulltrúinn hefur setið. Afgangurinn virðist byggja á sögusögnum frá ónefndum sérfræðingum og upplýsingum sem virðast túlkaðar á rangan hátt. Þessi málflutningur er ekki svaraverður og dæmir sig sjálfur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur litið í opið bókhald Reykjavíkurborgar og fengið upplýsingar þaðan.