Borgarstjórn 3. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að selja metan á kostnaðarverði:

Tillögunni var vísað frá

Tillagan um að söluverð metans verði lækkað og miðist við flutningsverð hefur verið felld. Ofgnótt er af metani, á því er offramleiðsla. Hvað varðar þennan orkugjafa hefur borgarmeirihlutinn þessi og síðasti haldið einstaklega illa á málum. Í stað þess að finna leiðir til að nýta metan hefur því verið brennt á báli til að menga ekki andrúmsloftið. Hvar er forsjálni og fyrirhyggja þeirra sem stýrt hefur borginni og Sorpu. Í engu tilliti hefur verið reynt að markaðssetja metan nema síður sé. Nú vill borgarfulltrúi Flokks fólksins að það sé selt á flutningsverði í þeirri von að það leiði til fjölgunar metanbíla á götum. Með þessari aðgerð er vel hugsanlegt að stórt stökk verði tekið í orkuskiptaferlinu. Nú blasir við að Sorpa er í slæmum fjárhagsvanda sem leiða má til lélegrar stjórnunar. Hvorki metan né molta mun bjarga Sorpu sem skuldar. 4.1 milljarð. Það yrði en ein vond ákvörðunin að ætla að fara að verðleggja metan hátt, það mun enfaldlega þýða að engin mun kaupa það. Betra er að nánast gefa það en sóa því á báli. Hugsa þarf út fyrir boxið og muna að Sorpa er í eigu borgarinnar að stórum hluta og það er Strætó bs líka sem gæti haft einungis metanvagna og nýtt metnið frá Sorpu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan er vanhugsuð. Með henni er borgarfulltrúi Flokks fólksins að leggja til að SORPA bs. gefi metan þar sem aðeins væri rukkað fyrir flutning. Það er engan veginn kostnaðarlaust að framleiða metan og geyma og koma upp viðeigandi yfirbyggingu í kringum starfsemina. Þar fyrir utan gæti tillagan, ef hún næði fram að ganga, brotið í bága við samkeppnislög sem banna fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að selja vörur undir kostnaðarverði og raska þannig samkeppni.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að vísa skýrslum vegna Nauthólsvegar 100 og Skýrslu Borgarskjalavarðar í opinbera rannsókn (héraðssaksóknara og/eða lögreglu eftir atvikum).

Tillögunni var vísað frá. Sjálfstæðismenn og Sósialistar sátu hjá:

Flokkur fólksins telur það sérstakt að borgarstjórn hafi ekki áhuga á að fá lúkningu í braggamálið en til þess að svo megi verða þarf að vísa því til héraðssaksóknara og lögreglu eftir atvikum. Málinu er vísað frá. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn lögðu fram sambærilega tillögu árið 2019 og var sú tillaga þá felld. Þá lá skýrsla borgarskjalavarðar ekki fyrir. Sú skýrsla kom út nýlega og segir í niðurstöðum að eftir að Innri endurskoðun hefði fjallað um málið í fyrra, hefðu starfsmenn Reykjavíkurborgar gerst sekir um að brjóta lög um skjalavörslu. Með tilkomu seinni skýrslunnar er enn ríkari ástæða til að fá málið í heild sinni fullrannsakað og fullupplýst. Óumdeilt er að málið allt er klúður og illa hefur verið farið með fé skattgreiðenda. Á þessu vill meirihlutinn ekki axla ábyrgð. Það er mjög mikilvægt að báðar þessar skýrslur fari í opinbera rannsókn annars vegar til héraðssaksókna og hins vegar lögreglu til að rannsaka hvort framið hefur verið embættisbrot og/eða brot í opinberu starfi. Það er eins og borgarstjóri og skipulagsyfirvöld vilji helst að þetta mál gleymist sem fyrst, segja það einstakt tilvik. En er það einstakt tilvik? Borgarstjóri vill að borgarlögmaður rannsaki málið en sú rannsókn og niðurstöður munu aldrei geta orðið trúverðugar.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósilista um stofnun matarbanka:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf eðlilegast að fólk sem þarfnast aðstoðar til að kaupa mat fái einfaldlega viðskiptakort með þeirri upphæð sem það fær til ráðstöfunar og getur kortið gilt í helstu matvöruverslunum. Þá þarf viðkomandi ekki að koma á einhvern stað til að fá mat hvort sem það er hjálparsamtök eða matarbanki ef því er að skipta til að fá mat heldur getur viðkomandi haft sjálfdæmi um hvar hann vill versla og hvað. Matarbanki eins og hér er lagt til þarfnast yfirbyggingu og utanumhald. Afhending matarkorts er einfaldara fyrirkomulag og tíðkast í mörgum löndum sem við berum okkur saman við.  Flokkur fólksins vill styðja þessa tillögu því hún er lögð fram að hug sem samræmist stefnu Flokks fólksins. Ef framhaldið verður að fólk fái kort til að kaupa sér sjálft mat þá væri það það allra besta.

 

Bókanir Flokks fólksins við liðum er varða verkfall Eflingar og afleiðingar þess:

Borgarstjóri og samninganefndin í hans umboði bera ábyrgð á verkfallinu og hvernig komið er nú þegar afleiðingar þess eru farnar að hafa áhrif á öryggi. Er borgarmeirihlutinn bíða eftir að öryggisstigið nái slíkum hæðum að setta verði lög á verkfallið? Það er tvískinnungsháttur í orðræðu borgarmeirihlutans þegar hann segist hafa áhyggjur af öryggi vegna þess að ekki er þrifið þar sem rekin er þjónusta fyrir þá viðkvæmustu. Ganga á að kröfum Eflingar enda eru þær hóflegar og sanngjarnar. Verkfallið hefur staðið á þriðju viku og spurt er í hvað mikla hættu ætlar borgarstjóri að stefna borgarbúum í þegar kemur að öryggisatriðum vegna umönnun þeirra viðkvæmustu og sorphirðu? Í bókun borgarráðs 2.3. má lesa að borgarstjóri vill kenna starfsfólki um, gera Eflingu að sökudólgi um hvernig komið er, fólki sem nær ekki

Mánudaginn 2.3  var haldinn sérstakur fundur í borgarráði þar sem rætt var um Covit 19 en daglega berast upplýsingar um málið frá sérfræðingum sem halda samfélaginu eins vel upplýstum og hægt er. Borgarfulltrúi vill nefna þá bókun sem gerð var í borgarráði í gær en til fundarins var sérstaklega boðað til að ræða Covit 19. Í bókun samin af meirihlutanum var upphafið um Covit 19,  eitthvað sem allir geta tekið undir. Síðari hluti bókunarinnar var hins vegar um afleiðingar verkfallsins. Í þann hluta bókunarinnar var laumað inn ásökunum í garð Eflingar eins og það sé þeim, láglaunafólkinu í borginni  að kenna að öryggi vegna sorpmála sé ógnað. Borgarfulltrúi Flokks fólksins harmar að varaborgarfulltrúi sem sótti fundinn hafi sett nafn sitt við slíka bókun, þann hluta sem snýr að orðræðu meirihlutans um verkfallið. Það er borgarstjóri sem ber ábyrgð á slakri stöðu sorpmála í borginni og öllum þeim alvarlegu afleiðingum sem orðin eru af verkfallinu. Þetta verkfall er á hans ábyrgð en hann reynir samt að gera Eflingu að sökudólgi, fólki sem óskar eftir að fá laun sem möguleiki er að lifa af.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir, annars vegar vegna óforskammaðrar ályktunar meirihluta  og Sósialistaflokks gagnvart starfsmanni sundlaugar og hins vegar vegna óþarfa ógegnsæi og seinkunar á fundargerðum:

Liður 7 fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs 24. febrúar

Flokkur fólksins tekur undir bókun Miðflokksins að draga eigi umrædda álytkun meirihlutans til baka vegna atviks í sundlaug Grafarvogs sem sagt var frá í fréttum.  Það má teljast dómgreindarbrestur að meirihlutinn í mannréttindaráði sameinist í að ráðast á starfsmann borgarinnar þegar aðeins hefur verið birt  önnur hliðin á málinu og það í einum fjölmiðli. Flokkur fólksins í mannréttinaráði reyndi að vara við þessu og benti á að skortur væri á staðfestum upplýsingum en náði ekki eyrum formanns mannréttindaráðs.

Liður 15 fundargerð mannréttinda, lýðræðis og nýsköpunarráðs 13. febrúar:
Umræða um meðferð trúnaðargagna. Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir því að kynningar og skýrslur sem ekki hafa að gera með persónugreinarleg gögn eða viðkvæmar fjárhagslegar upplýsingar  séu skráð sem trúnaðarmál á fundi mannréttindaráðs. Það er mat Flokks fólksins að þetta sé gert í þeim tilgangi að fela óþægilegar upplýsingar og staðreyndir fyrir borgarbúum. Flokkur fólksins gerir einnig athugasemd við hvað fundargerðir mannréttinda, lýðræðis og nýsköðunarráðs berast seinnt, jafnvel allt að viku eftir fund. Þetta gerir þeim sem sátu fundinn erfitt fyrir að yfirfara afgreiðslu mála að loknum fundi ef rifja þarf upp afgeiðslur og bókanir þ.m.t. hvaða mál voru mögulega trúnaðarmál.

 

Tillaga Flokks fólksins um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað Sorpu við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað

Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela fulltrúa sínum í stjórn Sorpu að leggja fram tillögu um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað Sorpu við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað.
Metanbílar hafa verið teknir af lista vistvænna bíla af því að  ekki er hægt að tryggja að þeir aki á vistvæna orkugjafanum eins og segir í rökum. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur, en samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um bíla mega þeir sem teljast vistvænir leggja gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þessar reglur hvetja ekki fólk í orkuskiptin. Á sama tíma er Sorpa, sem er byggðasamlag, að brenna metani á báli í stórum stíl. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á mikilvægi þess að nýta þennan vistvæna orkugjafa sem nóg er til af og verður enn meira þegar ný jarðgerðarstöð í Álfsnesi er komin í virkni. Til að selja metan á hinn almenna bílaflota í Reykjavík þarf það að vera samkeppnishæft við aðra örkugjafa svo bíleigendur kaupi bíla sem ganga fyrir metani. Það er betra að fá lítið fyrir það en ekki neitt og þurfa að brenna því.  Að nota metan sparar auk þess innflutning á jarðefnaeldsneyti.

Greinargerð

Offramboð er af metani og þess vegna er því brennt á söfnunarstað. Mikilvægt er að koma því út fyrir lágt verð. Að öðrum kosti mun það ekki seljast. Nú er ljóst að Sorpa er á hvínandi kúpunni. Einhver umræða  er komin í gang um að hefja sölu á metani og selja það dýrt, „til að bjarga Sorpu“. Ef reyna á að selja metan dýrt mun það hafa  letjandi áhrif á fjárfestingu fólks á metanbílum. Það mun þá einfaldlega ekki seljast.  Metansala mun að sjálfsögðu ekki bjarga Sorpu sem skuldar 4.1 milljarð. Ef hækka á verð á metani er það einfaldlega ávísun á að það mun ekki seljast og enn meira af því verður brennt á báli í Álfsnesi. Hver græðir á því? Flokkur fólksins vill að borgarbúar fái metan á bíla sína á eins ódýran hátt og hægt er og jafnvel gefins til að flýta fyrir orkuskiptum.

Afhendingarstöðum þarf svo að fjölga samfara aukinni notkun metans. Í þessu hefur ríkt hægagangur og menn virðast gleyma því að brennsla metans á báli er sóun. Notkun metans sparar innflutning á öðru eldsneyti sem er allra hagur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins heyrir ekki mikið af hvatningu um að nýta metan. Að metanbílar skyldu verða undanskildir frá vistvænum flokki bíla í nýjum reglum er með óllíkindum enda líklegt að bíll sem er metanbíll aki að mestu á metani þótt hann sé einnig bensínbíll og að bensínið á metanbílunum sé fyrst og fremst notað sem varaafl.

Það sem hér um ræðir er að borgin er að sóa orkugjafa sem væri þess í stað hægt að nýta öllum til góðs. Borgarfulltrúi Flokk fólksins hefur áður bent á að skynsamlegt væri að Strætó bs. eignaðist fleiri metanvagna og nýtti gasið frá Sorpu. Hér getur borgarstjórn beitt sér og á að gera það með því að hvetja þessi fyrirtæki til samtals og samvinnu og tryggja þannig að orkugjafi sem nóg er til af nýtist. til að tryggja hagræðingu og sparnaði.

Almennt séð þá er vont til þess að vita að Sorpa skuli ekki hafa reynt að markaðssetja metanið meira og einfaldlega fundið leiðir til að borgarbúar geti notið góðs af því á bíla sína sem lið í orkuskiptum og með umhverfssjónarmið að leiðarljósi.

 

Tillaga Flokks fólksins og Miðflokksins um að leggja það til að borgarstjórn samþykki að vísa skýrslu innri endurskoðunar vegna Nauthólsvegar 100 – Bragginn og Skýrslu borgarskjalavarðar um sama efni til héraðssaksóknara og lögreglu annars vegar til að rannsaka hvort embættisbrot hafi verið framið (héraðssaksóknari) og hins vegar hvort brot í opinberu starf hafi verið framið (lögregla).

 

Greinargerð

Tillaga þessi er lögð fram á grunni skýrslu Innri endurskoðanda, Nauthólsvegur 100 frá 17. desember 2018 og skýrslu borgarskjalavarðar, Frumkvæðisathugun á skjalastjórn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar í tengslum við Nauthólsveg 100 frá 20. desember 2019 og niðurstöðuköflum þeirra.

 

Skýrsla Innri endurskoðanda. https://reykjavik.is/sites/default/files/skjol_borgarstjornarfundur/2_skyrsla_innri_endurskodunar.pdf

Heildarniðurstöður

  • Á árinu 2015 gerði Innri endurskoðun úttekt á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og skilaði skýrslu þar sem settar voru fram ábendingar um atriði sem betur mættu fara. Enn hafa ekki verið gerðar fullnægjandi úrbætur vegna ábendinganna. Innri endurskoðun telur að ef úrbætur hefðu verið gerðar og verklag lagfært í samræmi við ábendingarnar hefði verkefnið að Nauthólsvegi 100 ekki farið í þann farveg sem það gerði. Nánari umfjöllun um þetta er í viðauka

 

  • Skipulag skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hefur frá upphafi verið býsna laust í reipum, skrifstofunni var ætlað að vinna hratt að því að afla borginni tekjutækifæra og það hefur komið niður á skipulagi og innra eftirliti. Jafnvel hefur það orðið til þess að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hefur ekki farið að settum leikreglum, til dæmis hvað varðar innkaup.

 

  • Fyrrum skrifstofustjóri hafði þann stjórnunarstíl að úthluta verkefnum til starfsmanna sem síðan lögðu metnað í að leysa þau sjálfstætt og hann hvorki hafði eftirlit með framvindu verkefnanna né kallaði eftir upplýsingum um stöðu þeirra. Samkvæmt skipuriti er borgarritari næsti yfirmaður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar en þó hafa mál skrifstofunnar ekki verið á hans borði heldur farið beint til borgarstjóra og því hefur ekki verið unnið samkvæmt réttri umboðskeðju. Mikil samskipti hafa verið milli fyrrum skrifstofustjóra og borgarstjóra allt frá stofnun skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, en þeim ber saman um að borgarstjóra hafi ekki verið kunnugt um framvindu framkvæmda að Nauthólsvegi 100. Engar skriflegar heimildir liggja fyrir um upplýsingagjöf frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til borgarstjóra varðandi framkvæmdirnar.

 

  • Hugmyndin um nýsköpunar- og frumkvöðlasetur að Nauthólsvegi 100 er í samræmi við atvinnustefnu Reykjavíkurborgar sem meðal annars leggur áherslu á uppbyggingu nýsköpunarsetra svo og gildandi deiliskipulag sem gerir ráð fyrir veitingarekstri að Nauthólsvegi 100. Reykjavíkurborg og Háskólinn í Reykjavík hafa undanfarin ár átt samvinnu um uppbyggingu á svæðinu og frumkvöðlasetrið er í samræmi við það. Við framkvæmdirnar að Nauthólsvegi 100 var ekki farið eftir reglum og samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar og ákvæðum þjónustusamnings milli skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og Umhverfis- og skipulagssviðs en hann kveður skýrt á um ábyrgð og hlutverk hvors aðila og þar segir meðal annars að Umhverfis- og skipulagssvið skuli annast verklegar framkvæmdir.
  • Samstarf var haft við Borgarsögusafn og Minjastofnun en þessar stofnanir gerðu ekki kröfu um að húsin yrðu varðveitt óbreytt, enda eru þau hverfisvernduð í deiliskipulagi en ekki friðuð í skilningi laga. Í uppbyggingunni var haldið fast í eldra útlit að sumu leyti, en að öðru leyti ekki, að því er virðist eftir hugmyndum arkitekta. Ekki var sótt um leyfi til að rífa náðhúsið þrátt fyrir að fagaðilar teldu það hagkvæmara og mun það hafa verið hugmynd arkitekta að halda upp á það.

 

  • Frumkostnaðaráætlun fyrir endurbyggingu að Nauthólsvegi 100 var gerð sumarið 2015 en það var einungis mat byggt á lauslegri ástandsskoðun, eins og almennt er gert þegar frumkostnaðaráætlanir eru gerðar. Síðan þegar útfærsla og hönnun liggur fyrir á að gera kostnaðaráætlanir I og II samkvæmt reglum um mannvirkjagerð og eins og almennt er gert við stórar framkvæmdir. Það var ekki gert í þessu tilviki en það hefði verið ennþá frekar nauðsynlegt en ella, þar eð mikil óvissa er í verkefnum við endurbyggingu gamalla húsa. Meiri tíma hefði þurft að nota til að undirbúa verkið betur, til dæmis fullvinna hugmyndir og gera kostnaðaráætlanir miðað við þær. Lagt var upp með lágstemmda hugmynd sem þróaðist í fullbúinn veitingastað með mun meiri kostnaði en gert var ráð fyrir í upphafi. Einnig varð lóðin talsvert kostnaðarsamari en gert hafði verið ráð fyrir. Frumkostnaðaráætlunin 158 m.kr. hefur verið borin saman við raunkostnaðinn 425 m.kr. og talað um það sem framúrkeyrslu. Það er þó ekki alls kostar rétt því þegar frumkostnaðaráætlunin var gerð lá ekki fyrir sú útfærsla sem nú er á byggingunum.

 

  • Metið hefur verið að breytingar á upphaflegum hugmyndum sem lagðar voru fyrir borgarráð í júlí 2015 ásamt frumkostnaðaráætluninni hafi kostað 94 m.kr. Auk þess var kostnaður vegna verndunarsjónarmiða sem ekki var gert ráð fyrir í frumkostnaðaráætlun 71 m.kr. og síðan bætast við 21 m.kr. vegna hreinsunar út úr húsunum og umsýslukostnaðar innan borgarkerfisins. Frumkostnaðaráætlunin að viðbættum ofantöldum liðum gerir samtals 344 m.kr. Samningur var gerður við Grunnstoð, dótturfélag Háskólans í Reykjavík, um leigu á fasteignunum. Samningurinn er skýr og tekur á öllum nauðsynlegum atriðum slíks samnings, en í honum er kveðið á um afhendingu húsnæðisins tæpu ári eftir undirritun. Innheimta húsaleigu hófst í júlí 2018 og er hún í samræmi við samninginn eða 670.125 kr. á mánuði. Við afgreiðslu málsins í borgarráði var leigufjárhæð samþykkt og gert ráð fyrir því að meðgjöf borgarinnar með samningnum yrði 41 m.kr. á 40 ára leigutíma. Miðað við þær forsendur sem skrifstofa eigna og atvinnuþróunar gaf sér 2015 og raunkostnað framkvæmdanna verður meðgjöf Reykjavíkurborgar til Háskólans í Reykjavík/Grunnstoðar 257 m.kr. en leigugreiðslur þyrftu að vera um 1.697 þús. kr. á mánuði til að núvirði verkefnisins verði jákvætt.

 

  • Engir skriflegir samningar voru gerðir varðandi verkefnið, að undanskildum leigusamningi við Háskólann í Reykjavík. Ráðgjafar innkaupadeildar var ekki leitað varðandi innkaup til framkvæmdanna og ekki var farið að innkaupareglum borgarinnar. Lög um opinber innkaup voru brotin. Verktakar og aðrir sem unnu verkið voru almennt ráðnir af því þeir voru kunnugir þeim sem stóðu að framkvæmdunum, allflestir handvaldir. Ekki var farið í innkaupaferli né leitað undanþágu frá innkauparáði varðandi það. Einn af arkitektum bygginganna var ráðinn sem verkefnisstjóri á byggingarstað en það er ekki talin heppileg ráðstöfun með tilliti til hagsmunaárekstra. Meðal hlutverka verkefnisstjóra var að hafa eftirlit með verktökum og staðfesta reikninga þeirra, en þar sem viðvera hennar á byggingarstað var takmörkuð er óvíst að eftirlitið hafi verið jafnmikið og það hefði þurft að vera. Þrátt fyrir að hægt sé að útvista verkefnisstjórahlutverkinu til utanaðkomandi aðila er ekki hægt að útvista ábyrgðinni og hún er á herðum skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Samt virðist verkefnastjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hafa haft lítið eftirlit með framkvæmdunum sem hann þó bar ábyrgð á gagnvart sínum yfirmanni. Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum og þess var ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar en það er brot á sveitarstjórnarlögum og reglum borgarinnar. Heildarkostnaður nú í desember er kominn í 425 m.kr. en úthlutað hefur verið heimildum að fjárhæð 352 m.kr. Svo virðist sem hvergi hafi verið fylgst með því að verkefnið væri innan fjárheimilda. Upplýsingar til borgarráðs voru ekki ásættanlegar, dæmi eru um að villandi og jafnvel rangar upplýsingar varðandi þetta verkefni hafi farið til borgarráðs, auk þess sem borgarráð var ekki nægilega upplýst um framvindu mála.

 

  • Óásættanlegt er að upplýsingagjöf til borgarráðs sé þannig háttað því á upplýsingum byggir ráðið ákvarðanir sínar. Upplýsingastreymi vegna verkefnisins var ófullnægjandi á allflestum stigum. Svo virðist sem verkefnastjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem hafði umsjón með verkefninu hafi ekki upplýst sinn yfirmann um stöðu mála. Þeim ber þó ekki saman um það atriði og sama máli gegnir um ákvarðanatöku í tengslum við verkefnið, til dæmis varðandi breytingar á hugmyndum um útfærslu. Til dæmis má nefna breytingu á kaffistofu í vínveitingastað og breytingu á einföldum trépalli í hönnunarlóð. Verkefnastjóri kveðst hafa borið allar stærri ákvarðanir undir fyrrum skrifstofustjórann en hann segist lítið hafa verið inni í þessum málum.

 

  • Fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sinnti ekki sinni stjórnendaábyrgð með því að fylgjast með verkefnum skrifstofunnar og upplýsa sína yfirmenn svo og borgarráð. Svo virðist vera sem verkefnið hafi einhvern veginn „gleymst“ og týnst meðal stærri og meira áberandi verkefna. Farið var að reglum varðandi samþykkt kostnaðarreikninga hvað varðar fjölda samþykkjenda svo og fjárhæðarmörk vegna þriðja og fjórða samþykkjanda. Samþykkjendur virðast þó ekki hafa fylgst með því hvort útgjöld væru innan fjárheimilda.

 

  • Eftirlit með verkefninu var að flestu leyti ófullnægjandi og svo virðist sem verkefnið hafi lifað sjálfstæðu lífi án aðkomu annarra en þess þrönga hóps sem annaðist það. Skjölun vegna verkefnisins var ófullnægjandi, nánast engin skjöl um það fundust í skjalavörslukerfi borgarinnar og það er brot á lögum um opinber skjalasöfn svo og skjalastefnu borgarinnar. Almennt eykst misferlisáhætta í beinu hlutfalli við minnkandi eftirlit, minna gagnsæi, minna aðhald stjórnenda og þegar reglum er ekki framfylgt. Niðurstöður Innri endurskoðunar benda eindregið til þess að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.