Velferðarráð 2. september

Velferðarráð leggur fram tillögu að óska eftir viðræðum við Félagsmálaráðuneytið á grundvelli þeirrar samningsfyrirmyndar sem kynnt var á fundinum

Velferðarráð felur velferðarsviði að óska eftir viðræðum við Félagsmálaráðuneytið á grundvelli þeirrar samningsfyrirmyndar sem kynnt var á fundinum. Ráðið telur mjög mikilvægt að tekið verði ríkara tillit til þjónustuþátta eins og húsnæðismála, ráðgjafar og þjónustu vegna barna og unglinga, s.s. þjónustu skóla- og frístundasviðs, íþrótta- og tómastundasviðs, barnaverndar og ráðgjafa á þjónustumiðstöðvum. Velferðarráð minnir á mikilvægi þess að taka vel á móti öllum nýjum íbúum borgarinnar og þá sérstaklega umsækjendum um alþjóðlega vernd sem setjast að í Reykjavík og tryggja farsæla móttökuþjónustu og stuðla að velferð einstaklinga og fjölskyldna og aðstoð við félagslega þátttöku. Samanber stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Enn fremur telur velferðarráð mikilvægt að samningurinn verði afturvirkur frá 1. janúar 2020, hið minnsta.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst afar mikilvægt að áfram verði starfrækt úrræðið Brim fyrir heimilislausar konur. Skýlið var sett á laggirnar sem viðbragð við Covid-19 þar sem ljóst var að ekki var hægt að virða tveggja metra reglu í Konukoti. Hætt var við lokun þegar smitum tók að fjölga aftur. Til stendur að bjóða þeim sem þar eru núna sjálfstæða búsetu samkvæmt „housing first“.  Hugmyndafræðin „housing first“ felur í sér fjölbreytt heimilisúrræði s.s neyðarskýli, áfangaheimili, búsetukjarna, smáhýsi eða eigin íbúð, með mjög miklum stuðningi, yfir í sjálfstæða búsetu. Markmiðið til lengri tíma er að fólk eignist sitt eigið heimili.  Úrræðið Brim hefur þá sérstöðu að starfsfólk er á vakt allan sólarhringinn og hentar það sumum betur þegar tekin eru fyrstu skrefin frá því að vera heimilislaus yfir í að eignast heimili.

 

Bókun Flokks fólksins við drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2021-2025.
Bókun færð í trúnaðarbók

 

Bókun Flokks fólksins við drög að gjaldskrám velferðarsviðs 2020 fyrir þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar.
Bókun færð í trúnaðarbók