Velferðarráð 24. apríl 2019

Lagt er til að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að námsmenn sem stunda lánshæft nám en sem eru ekki lánshæfir geti engu að síður sótt um fjárhagsaðstoð

Lagt er til að reglum um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg verði breytt þannig að þeir námsmenn sem ekki eiga rétt námsláni (af einhverjum orsökum) jafnvel þótt þeir stundi lánshæft nám geti sótt um fjárhagsaðstoð og fari í kjölfarið í sérstakt mat. Vísað er í greinargerð umboðsmanns borgarbúa í máli nemanda sem synjað var um fjárhagsaðstoð á þeim rökum einum að hann stundaði nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Viðkomandi, af öðrum ástæðum, uppfyllti ekki skilyrði til að eiga rétt á námsláni, segir í greinargerð umboðsmannsins og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins taka undir að „fyrir liggur að möguleikar viðkomandi á því að stunda nám í þeim mæli sem reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna áskilja eru verulega takmarkaðir og fær viðkomandi því ekki notið þeirra réttinda sem í því felast að stunda lánshæft nám.“ Hér er því um réttlætismál að ræða og sem, ef breytt yrði með þessum hætti, er líklegt til að stuðla að frekari jöfnuði.

Bókun Flokks fólksins í máli frá umboðsmanni borgarbúa vegna synjunar umsóknar námsmanns um fjárhagsaðstoð

Þau rök sem eru notuð til að  synja aðila um fjárhagsaðstoð vegna þess að hann stundi lánshæft nám finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins ekki halda. Eigi viðkomandi ekki rétt á láni jafnvel þótt hann sé í lánshæfu námi segir það sig sjálft að möguleikar hans til náms eru verulega takamarkaðir ef nokkrir. Í þessu tilfelli verður viðkomandi að eiga þess kost að sækja um fjárhagsaðstoð og fara í sérstakt mat. Nám er eins og hver önnur vinna. Reykjavíkurborg má gæta að sér að vera aldrei letjandi ef áhugi er fyrir námi og í þessu tilfelli þarf að breyta reglum um fjárhagsaðstoð til að mæta þessum hópi sem vísað er í  í bréfi umboðsmanns borgarbúa. Nám leiðir til eins og allir vita aukinna möguleika á að fá vinnu og oftast er það þannig að þeir sem hafa nám að baki leiði til meiri stöðugleika og hærri launa en ella.

Bókun Flokks fólksins vegna skýrslu um úttekt TINNU verkefnisins

Úttektin kemur vel út og er verkefnið einstakt fyrir margar sakir m.a. þær að unnið er á forsendum einstaklinganna og barnanna. Á tveggja ára tímabili var 79 börnum hjálpað og það er frábært. Við skoðunar skýrslunnar um úttekt má hins vega sjá að smávegis óreiða einkenndi verkefni sem ætti að vera hægt að bæta úr með auðveldum hætti. Ákveðnar kröfur voru gerðar til verkefnisins alls 57 og eru aðeins 33 liðir uppfylltir að fullu og 21 að hluta. Þessi útkoma mætti án efa vera betri. Annað sem tekið er eftir er að þær kröfur sem ekki eru uppfylltar varða forvarnir og úrbætur við frávikum í framkvæmd Tinnu, þættir sem telja má vera afar mikilvægir. Notast er við ákveðna matslista við tilvísun og mat á árangri. Spyrja má hvort þeir listar eru þeir hentugustu á markaðinum til að uppfylla það hlutverk sem þeim er ætlað? Fram hefur komið í skýrslunni að einhverjir þátttakendur  hafa átt erfitt með að skilja spurningar matslista. Síðustu ár hafa bæst við fleiri kvarðar af svipuðum toga sem mætti skoða að nota frekar til að meta klínískan vanda.

Bókun Flokks fólksins vegna tillögu Flokks fólksins um útvíkkun Tinnu verkefnisins (lagt fyrir borgarráð 28. mars)

Tinnu verkefnið er verkefni sem mikilvægt er að opna fyrir fleiri. Nýlega var gerð úttekt á verkefninu í Breiðholti og samkvæmt niðurstöðum þarf að laga eitt og annað og vonandi verður það gert hið fyrsta. Verkefnið hefur hjálpað börnum einstæðra foreldra til betra lífs og tekist að ná upp virkni einstaklinganna sem farið hafa í gegnum það ferli. Borgarfulltrúi leggur mikla áherslu á að veitt verði hið fyrsta fjármagni í að koma þessu verkefni í þeirri mynd sem það er í Breiðholti í gang víðar í borginni þannig að aðgengi að því verði auðveldara fyrir fleiri einstæða foreldra og börn þeirra. Aðstoð  við einstæða foreldra og þá sem eru í efnahagsþrengingum ætti að vera sett í algeran forgang í borginni. Það eru of fá verkefni í borginni sem eru klæðskerasniðin fyrir hvern og einn eins og þetta verkefni er. Þessi nálgun sem einkennir Tinnuverkefnið byggir á manngæsku og mannréttindum og verkefni sem byggð eru á slíkri nálgun mætti fjölga til muna.

Tillögunni vísað frá

Bókun Flokks fólksins við tillögu Flokks fólksins um einföldun á ferli vegna umsóknar á fjárhagsaðstoð

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar allri einföldun á þessu ferli. Hins vegar þegar litið er á ferlið og allar þær upplýsingar sem fólk er krafið um er ekki betur séð en að bæði mætti einfalda ferlið enn frekar og takmarka upplýsingar sem óskað er eftir. Stundum er verið að spyrja um hluti sem í raun kemur kannski umsókn um fjárhagsaðstoð lítið við. Áhersla á þetta rafræna er gott en hafa þarf í huga þann hóp sem ekki notar rafrænar leiðir og hyggst ekki gera. Til þessa hóps þarf að koma upplýsingum og taka á móti upplýsingum í tengslum við umsókn. Rafræn áhersla er orðin svo í rík í vitund margra að hætta er á að gleyma þeim sem eru jafnvel einungis með heimasíma og póstkassa. Í ferlinu þarf að ríkja sveigjanleiki á öllum stigum og sýna þarf fólki í sérstökum aðstæðum umburðarlyndi. Nægja ætti að sýna fram á útborgaðar tekjur og föst útgjöld svo sem leigu, rafmagn, lán, tryggingar og þess háttar. Horfa ætti á það sem eftir stendur þegar búið er að greiða alla reikninga. Tekið er mið af fjölskyldustærð og barnafjölda en miða ætti í öllum tilfellum við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Afgreiðsla umsóknar ætti ekki að taka meira en viku að jafnaði.

Tillögunni vísað frá

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram eftirfarandi spurningar vegna Gistiskýlisins:

Í fréttum í síðustu viku kom í ljós að einstaklingar hafi fengið leyfi til að sprauta sig í gistiskýlinu enda þótt það sé bannað og að þar sé ekki rekið formlegt neyslurými sem borgarfulltrúi Flokks fólksins veit að þörf er á. Staðfest hefur verið að í  gistiskýlinu hafa einstaklingar getað sprautað sig á staðnum þótt það sé skýrt í reglugerð um gistiskýlið að öll neysla sé bönnuð. Í  gistiskýlinu hangir á vegg (eða hékk) miði þar sem á stóð: „Í skaðminnkandi tilgangi er horft fram hjá því að einstaklingar sprauti sig í gistiskýlinu“
Hangir þessi miði enn á vegg í gistiskýlinu? Er það enn í boði að einstaklingar sprauti sig í gistiskýlinu þrátt fyrir að það sé bannað að neyta vímuefna þar?
Var haft samráð við allt starfsfólk um leyfa einstaklingum að sprauta sig í gistiskýlinu í skaðaminnkandi tilgangi þrátt fyrir að það væri bannað?
Og ef svo var, var starfsfólk sátt við að vinna undir þessum kringumstæðum?
Hefur verið gerð viðbragðsáætlun í tilfellum ef einstaklingur myndi ofneyta og fara t.d. í hjartastopp sem starfsmenn hafa fengið þjálfun í að fylgja?
Hefur verið gengið frá samkomulagi við heilbrigðisstarfsmann sem hægt er að kalla út ef í neyðartilfelli? Hefur verið rætt um ábyrgð við starfsfólk ef dauðsfall yrði eða verður á staðnum sem tengdist leyfi að sprauta sig án þess að nauðsynleg heilbrigðisþjónusta væri til staðar? Hver hefði borið ábyrgð ef dauðsfall hefði orðið í gistiskýlinu í kjölfar þess að einstaklingur sprautar sig í æð og lætur lífið vegna ofneyslu? Hefur aldrei verið rætt um að breyta reglunum í þá átt að það sé leyft að sprauta sig „í skaðaminnkandi tilgangi“ Ef leyfa á einstaklingum að sprauta sig í gistiskýlinu stendur til að breyta reglum gistiskýlisins í samræmi við það?

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir er varða svör formanns velferðarráðs í tengslum við mál Gistiskýlisins í fjölmiðlum:

Fram kom hjá formanni velferðarráðs í fréttum að starfsfólk hafi fundið upp á að leyfa einstaklingum að sprauta sig í skaðaminnkandi tilgangi. Er þetta rétt? Fram kom í máli formannsins að starfsfólk sé búið að krefjast þess að þessu sé hætt í allan vetur. Er það rétt? Er rétt að starfsfólki sé enn gert skylt að annast neysluþjónustu samkvæmt „leiðbeiningablaði“ jafnvel þótt það sé jafnvel ekki sátt við það? Á RUV segir formaðurinn eftirfarandi; „Það eru engin neyslurými í Gistiskýlinu, bara rými til neyslu“ Hvað er átt við hér?