Umræða um langa biðlista eftir sálfræði- og talmeinaþjónustu í Reykjavík að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins
Nýlega kom út ársskýrsla velferðarsviðs. Í skýrslunni eru birtar upplýsingar um algengustu ástæður tilvísana eftir faglegri þjónustu fyrir börn..
Lang mesta aukningin milli ára er vegna tilfinninga- og félagslegs vanda (kvíða, depurðar, einmanaleika) eða um 63%, og vegna málþroskavanda, 62%. Einbeitingarvandi hefur aukist frá 280 í 456 börn. Fjölgun tilvísana/beiðna vegna vitsmunaþroskavanda hefur einnig aukist s.s. vegna lesskilningsvanda. Biðlisti barna eftir fagfólki skólanna telur nú 2017 og lengist stöðugt.
Fagleg þjónusta sem beðið er eftir
Meirihluti barnanna á biðlistanum eru að bíða eftir sálfræðiviðtölum og eftir að fá skimun/greiningu sem kennarar, fagfólk og foreldrar telja nauðsynlegt til að hægt er að veita þeim þjónustu út frá einstaklingsþörfum. Þá þurfa kennarar og foreldrar einnig ráðgjöf og stuðning til að koma megi sem best til móts við barnið. Stór hópur barna bíður einnig eftir að fá þjónustu talmeinafræðinga.
Börn með málþroskavanda fá takmarkaða þjónustu talmeinafræðings í leikskóla og næst ekki að hjálpa nema ákveðnu fjölda með fullnægjandi hætti. Gera þarf bragarbót á þessu og fjölga bæði tímum í leikskólanum og bjóða síðan upp á áframhaldandi meðferð og eftirfylgd talmeinafræðinga þegar komið er í grunnskóla. Málþroski snertir fjölmargt í lífi barnsins. Góður málþroski er undirstaða bóklegs náms og hefur áhrif á tjáningu og almennt félagsleg samskipti.
Vandinn hverfur ekki þótt hann sé hunsaður
Ef tilfinninga-, vitsmuna- og/eða félagslegur vandi barna er hunsaður, hverfur hann ekki. Því lengur sem börn bíða án viðeigandi þjónustu aukast líkur á að vandi þeirra taki á sig alvarlegri myndir og verði jafnvel flóknari og erfiðari viðureignar. Ef barn fær ekki greiningu og viðeigandi úrræði vegna vitsmunaþroskavanda má telja víst að sjálfsmynd þess beri hnekki og námslegt sjálfsöryggi dvínar. Málþroskaröskun eða önnur talmein sem ekki fá fullnægjandi meðhöndlun geta haft afar neikvæð áhrif á sjálfsmynd barnsins og dregið úr félagslegu öryggi þess.
Verið er að leika sér að eldinum með því að láta börn sem glíma við röskun eða vanlíðan af einhverjum orsökum bíða eftir að fá aðstoð. Ef börnum er ekki hjálpað með andlega vanlíðan má vænta þess að kvíði og depurð aukist og leiði jafnvel til sjálfsskaða eða neysluhegðunar. Biðin er foreldrunum ekki síður erfið og óvissan með öllu óþolandi.
Fjölmörg dæmi eru um að börn hafa beðið í 2 ár á biðlista eftir að fá faglega þjónustu skóla og útskrifast jafnvel úr grunnskóla án þess að fá fyrstu hjálp. Efnaminni foreldrar hafa ekki ráð á að kaupa þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Leiða má að því líkum að ákveðinn hópur barna með náms-, félags- og tilfinningalegan vanda haldi út í lífið án þess að hafa fengið nokkra aðstoð eða hjálp.
Skortur á sálfræðingum
Aukning á biðlistum kemur til af tvennu, fjölgun beiðna eftir aðstoð og að ekki hafa verið ráðnir nægilega margir fagaðilar til að takast á við fjölgunina. Stöðugildum sálfræðinga hjá skólum hefur ekki fjölgað árum saman. Núna er skortur á sálfræðingum um land allt og má án efa rekja ástæðu þess til launamála. Leysa þarf þessi mál með öllum ráðum og dáð. Fjölga þarf sálfræðingum til muna. Skólar eru misstórir og þarfir þeirra mismunandi eftir sálfræði- og talmeinaþjónustu. Algengt er að sálfræðingur sinni 1-3 skólum eftir stærð og þörfum.
Flokkur fólksins hefur barist árum saman fyrir því að aðsetur sálfræðinga verði alfarið út í skólunum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Skólastjórnendur hafa kallað eftir meiri nálægð við fagfólk skólanna. Gjá hefur myndast á milli barna og sálfræðiþjónustu og hana þarf að brúa. Sálfræðingar geta auðveldlega sinnt þverfaglegu starfi þótt aðsetur þeirra sé í skólum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Í skólunum eru sálfræðingarnir nálægt börnum og til stuðnings og ráðgjafar við kennara og starfsfólk. Með þeim hætti má telja víst að þeir komist einnig yfir fleiri verkefni enda fer tími í að aka á milli þjónustumiðstöðva og skóla. Kostnaður við ferðir sálfræðinga milli þjónustumiðstöðva og skólanna hleypur á 3 milljónum á ári. Þessa fjárhæð mætti spara og nota frekar í kostnað við nýtt stöðugildi sálfræðings.
Tillögur framlagðar af borgarfulltrúa Flokks fólksins
Borgarfulltrúi Flokkur fólksins hefur rætt þessi mál nánast sleitulaust frá árinu 2018 og lagt fram tillögur til úrlausnar. Meðal tillagna Flokks fólksins sem lagðar hafa verið fram nánast á hverju ári þegar fjárhagsáætlun er lögð fram er að fjölga sálfræðingum. Ná þarf niður þessum langa biðlista og ráða nægjanlega marga fagaðila til að halda honum í eðlilegu horfi. Bið í 4-6 vikur að jafnaði myndi teljast eðlileg bið. Með hagræðingu og breyttu skipulagi á vinnu og aðsetri sálfræðinga má telja víst að þeir komist einnig yfir fleiri verkefni.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til árið 2020 að Skólaþjónustan komi á formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Þetta á sérstaklega við í málum barna sem eru með ADHD röskun. Með samstarfi sem þessu myndi létta mjög á biðlistum á öllum stigum þjónustunnar.
Yfirfærsla í skóla- og frístundaráð og aðsetursskipti
Einnig hefur verið lögð fram tillaga um að utanumhald sálfræðingar í skólum færist undir skóla- og frístundasvið. Í dag er hún undir velferðarsviði. Með því að færa sálfræðinga skóla undir skóla- og frístundasvið komast þeir í betri tengingu við skólana, börnin og kennara. Í raun má segja að það sé engin haldbær rök fyrir því að skólaþjónusta tilheyri ekki því sviði sem rekur skólanna. Með þessari breytingu aukast líkur á meiri skilvirkni, skipulagi og framkvæmd á stuðningi við börn. Áður hefur verið nefnd tillaga um að skólasálfræðingar hafi aðsetur út i skólunum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Þessi tillaga miðar af því að styrkja formlegar stoðir og innviði skólakerfisins til að hægt sé að sinna börnum og kennurum betur og ekki síst til að eiga betri möguleika á að minnka biðlista.
Ábyrgðin er okkar allra
Börn hafa ekki sterka rödd, eru ekki hávær hópur eðli málsins samkvæmt. Foreldrar þeirra eru einnig í misjafnri stöðu með að láta heyra í sér. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að málefni barna verði að hafa meiri forgang í Reykjavík. Það er ótækt að börn með vanlíðan séu sett á bið. Hundruð barna eru að bíða eftir allri mögulegri þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar. Biðlistavandi Reykjavíkurborgar er rótgróið mein sem aldrei hefur verið ráðist til atlögu með markvissum hætti.
Börn og aðrir viðkvæmir hópar eiga einfaldlega ekki að þurfa að bíða eftir aðstoð af þessu tagi. Of mikið er í húfi. Hér eiga valdhafar að sjá sóma sinn í og forgangsraða fjármunum í þágu þjónustu við fólkið. Við eigum að geta gert kröfu um að börn hafi gott aðgengi að allri þjónustu borgarinnar þar með talið sálfræðiþjónustu skólanna. Börn Reykjavíkur eru börnin okkar allra. Borgarstjórn öll á að axla ábyrgð, líka þeir sem eru í forsvari fyrir öðrum ráðum og sviðum sem hafa ekki endilega velferð barna á herðum sér.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins væntir þess að hægt verði að hafa faglega og innihaldsríka umræðu um alvöru aðgerðir sem miðast að styttingu biðlista barna til sálfræðinga og talmeinafræðinga þannig að ekkert barn bíði lengur en 4-6 vikur eftir hjálp.
Bókun Flokks fólksins við lok umræðunnar:
Samtals eru 2017 börn á biðlista. Biðlistavandi Reykjavíkurborgar er rótgróið mein sem aldrei hefur verið ráðist gegn með markvissum hætti. Biðlistinn er stjórnlaus. Framsókn lofaði að bæta stöðu barna en ekki er að sjá nein teikn á lofti um að alvöru úrræði séu í farvatninu. Málefni barna í vanda eru einfaldlega ekki í forgangi. Engu að síður segja ráðamenn að stefnt sé að því að Reykjavíkurborg verði fyrsta Barnvæna höfuðborgin á heimsvísu. Hvernig má þetta verða þegar staðan er svona? Barnasáttmálinn er ekki í innleiðingarferli í Reykjavík. Flokkur fólksins lagði fram í borgarstjórn 18. jan. sl. tillögu þess efnis að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Tillögunni var vísað til borgarráðs þar sem hún situr enn. Gera þarf tvennt. Fjölga stöðugildum nr. 1 og til þess að það gangi þarf að hækka laun sálfræðinga. Nr. 2 er að sálfræðingar hafi aðsetur í skólum sem þeir starfa í hverju sinni. Börn og aðrir viðkvæmir hópar eiga ekki að þurfa að bíða eftir aðstoð. Of mikið er í húfi. Hér eiga valdhafar að sjá sóma sinn og forgangsraða fjármunum í þágu þjónustu við fólkið.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum Umræða um húsnæðismál í Reykjavík:
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stendur uppbygging í Reykjavík í stað samkvæmt nýjustu talningu. Önnur sveitarfélög eins og Hafnarfjörður standa sig betur. Í Reykjavík hefur verið alvarlegur skortur á alls konar húsnæði mjög lengi. Meirihlutinn hefur legið á lóðum eins og ormur á gulli og er hér verið að tala um lóðir til einstaklinga og smærri hópa (fjölskyldur sem taka sig saman). Húsnæðisskorturinn í Reykjavík hefur haft sín áhrif á hækkandi verðbólgu. Kosningaloforðin eru alltaf þau sömu, endurspilun að nú skuli byggja sem aldrei fyrr. Hverjum hefði órað fyrir því þegar gengið var til kosninga 2018 að staðan væri svona núna. Mörg hundruð manns og fjölskyldur bíða eftir fjölbreyttu húsnæði, félagslegu, sértæku, námsmannaíbúðum og íbúðum fyrir öryrkja og aldraða. Tugir manna eru heimilislausir. Efnaminna og fátækt fólk er á vergangi og þarf sífellt að vera að færa sig um set. Foreldrar sem eru á leigumarkaði þvælast frá einu húsnæði í annað með börn sín. Dæmi eru um að börn frá efnaminni heimilum hafi gengið í allt að fimm grunnskóla áður en þau brautskrást. Vart þarf að fjölyrða um hin neikvæðu áhrif sem tíðir flutningar hafa á andlega og félagslega líðan barnanna sem um ræðir.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hafist verði handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi, með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu. Ekki er seinna vænna að hefjast handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi, með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar. Sérstaklega er mikilvægt að Sundabraut verði hluti af gatnakerfi borgarinnar og að engir vegtollar verði innan borgarinnar. Öll uppbygging hefur gengið hægt. Kerfið er svifaseint og hafa fjölmargir verktakar farið annað. Rafrænir ferlar eru ekki tiltækir þegar sótt er um byggingarleyfi þrátt fyrir að milljarðar hafi farið til stafrænna umbreytinga þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Núverandi meirihluti er pikkfastur í þéttingu byggðar. Aðrir kostir eru vart ræddir. Þrengt hefur verið svo mikið að fólki að gónt er inn í næstu íbúð. Flokkur fólksins styður þéttingu byggðar upp að skynsamlegu marki en ekki þegar hún er farin að taka á sig mynd trúarlegrar sannfæringar. Það dugar skammt að karpa um hvort byggt sé mikið eða lítið. Vandinn er að það er ekki byggt nóg. Það er skortur á hagkvæmum íbúðum fyrir fyrstu kaupendur, fyrir efnaminna fólk og fyrir venjulegt fólk. Flokkur fólksins vill þétta byggð þar sem innviðir þola þéttingu og brjóta nýtt land undir byggð fyrir hagkvæmar íbúðir t.d. í suðurhlíðum Úlfarsfells og svæðinu austur af Úlfarsárdal. Kjalarnes kemst í alfaraleið með Sundabraut sem og Geldinganes.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum Um stöðu skóla- og íþróttamála í Vesturbæ:
Mygla hefur greinst í á öðrum tug leik- og grunnskóla í Reykjavík. Hagaskóli og Grandaborg í Vesturbæ hafa verið í umræðunni. Það líður varla sú vika að fréttir berist ekki af því að fella þurfi niður kennslu vegna vandamála ýmist með húsnæði, myglu, raka, ófullnægjandi brunavarnir nú eða vegna manneklu. Rekja má þessi ósköp til áralangrar vanrækslu á viðhaldi að mati Flokks fólksins. Í grunninn lúta áhyggjur foreldra að röskun á skólastarfi. Foreldrar hafa reynt að ná eyrum borgaryfirvalda í nokkurn tíma. Þeir hafa sýnt mikla þolinmæði en það er komið að þolmörkum. Skólayfirvöld og starfsfólk í öllum þessum skólum sem vandi hefur komið upp hefur staðið sig frábærlega í ólíðandi aðstæðum. Fréttir hafa borist um að þriðjungur starfsfólks á leikskólanum Grandaborg finni fyrir einkennum myglu og sex eru frá vinnu vegna veikinda. Staðan er þessi þrátt fyrir að húsnæðið hafi verið tekið í gegn og mygluhreinsað í sumar. Skerða hefur þurft starfsemi verulega og hafa foreldrar þurft að vera heima með börn sín einn dag í viku. Þrátt fyrir framkvæmdir og hreinsun fannst mygla í vor og fólk veiktist. Flokkur fólksins spyr af hverju ná aðgerðir ekki utan um þennan vanda.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum Umræða um Strætó bs. og almenningssamgöngur sem lögbundna grunnþjónustu:
Strætó er á barmi gjaldþrots. Hvernig á fólk að komast leiðar sinnar? Þetta eru einu almennings samgöngurnar. Er ekki bara best að fá sér bíl kunna margir að segja sem treystu á strætó. Þetta er hvatning til þess því það er skárra að finna sér ódýran bíl en að treysta á strætó, sem er bæði óhagkvæmur og dýr. Á síðasta kjörtímabili lagði meirihlutinn í borgarstjórn allt kapp á að hindra bílaumferð inn á ákveðin svæði í borginni. Fólk var hvatt til að hjóla eða taka Strætó. En Strætó þarf þá að virka og fólk að hafa ráð á að taka sér far. Tíðni strætóferða skiptir miklu máli en ekki síður kostnaður hvers fargjalds. Árskort hafa hækkað svo um munar. Í raun er engin leið að ferðast hagkvæmt með strætó. Hvað varð um loforð Framsóknar um frítt í strætó? Almenningssamgöngur eru í lamasessi og talar meirihlutinn um borgarlínu sem allir vita að mun seinka. Flokkur fólksins telur að finna þurfi annað kerfi fyrir Strætó en byggðasamlag. Við rekstur almenningssamgangna á þetta kerfi illa við. Stjórn Strætó situr í lokuðu herbergi og tekur ákvörðun ýmist um að draga úr þjónustu eða hækka fargjöld. Engin stefna, lítil aðkoma eigenda og engin aðkoma minnihlutafulltrúa.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum Umræða um hækkun fargjalda Strætó bs.:
Rekstur Strætó hefur verið í járnum að undanförnu. Félagið tapaði 600 milljónum fyrstu sex mánuði ársins og áætlanir gera ráð fyrir að tapið geti numið einum milljarði á þessu ári. Stakt fargjald hækkaði 1. október. Árskort fyrir ungmenni í strætó hækka verulega eða úr 25.000 kr. í 40.000 kr. og nemur hækkunin um 60%. Með þessari hækkun er verið að fara þvert gegn loforði meirihlutans um ókeypis fyrir grunnskólabörn í strætó? Þessi gjaldskrárhækkun mun hafa mest áhrif á börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður. Þetta samræmist ekki hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu og er í hróplegri andstöðu við betri borg fyrir börn. Strætó bs. er á barmi gjaldþrots. Strætó er byggðasamlag sex sveitarfélaga. Þess er beðið að sveitarfélögin sem standa að baki nái samstöðu um hvernig staðið skuli að málum. Þau þurfa að veita meira fjármagni í Strætó til að hægt sé að halda úti viðunandi almenningssamgöngum. Óvissan er alger. Flokkur fólksins hefur efasemdir um að byggðasamlags kerfið sé hentugt kerfi fyrir rekstur eins og Strætó. Reykjavik er stærsti eigandinn en ákvarðanavaldið er ekki samkvæmt því. Ennþá er engin stefna til fyrir byggðasamlag Strætó.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að borgarstjórn samþykkir að skora á ríkið að koma á leiguþaki og leigubremsu:
Flokkur fólksins styður þessa tillögu, finnst sjálfsagt að hún komi til álita og fái skoðun með opnum hug. Flokkur fólksins hefur talað fyrir sambærilegum hlutum bæði í ræðu og riti. Þetta yrði að hugsa sem tímabundið inngrip, neyðaraðgerð. Vísað er í grein oddvita Flokks fólksins um þessi mál, „Hvernig er hægt að tryggja sanngjarnan leigumarkað?“ sem birtist í Fréttablaðinu 3. ágúst 2022. Ef stjórnvöld ætla að stuðla að hagkvæmu húsnæði verður að setja einhverjar kvaðir á leiguverð íbúða. Markaðslögmálin ráða ferðinni og allur húsnæðisskortur veldur því að leigusalar geta leigt húsnæði á okurleigu. Hægt er að tryggja sanngjarna leigu með ýmsum hætti. Ein leið er með óhagnaðardrifnum rekstri húsfélaga sem standa utan við markaðinn. þá er átt við að verði afgangur af rekstrinum renni hann til neytendanna en ekki til fjárfesta eða eigenda. Þannig myndi hagnaður í óhagnaðardrifnu leigufélagi nýtast til lækkunar húsaleigu. Ójöfnuður í samfélaginu hefur aukist síðustu ár. Lágtekjufólk greiðir allt að 70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Það verður að auka enn frekar beinan stuðning við leigjendur í formi húsnæðisbóta. Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja sanngirni og tryggja sanngjarnt leiguverð í samræmi við greiðslugetu leigjenda.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum fundargerð borgarráðs frá 22. september, liðr 14:
Liður 7. í fundargerð heilbrigðisnefndar frá 8. september:
Sótt er um undanþágu fyrir heimsóknir hunda í skólastofu í Fossvogsskóla. Fulltrúi Flokks fólksins telur orðið brýnt að breyta reglugerð um hollustuhætti. Flækjustig og skriffinnska sem fylgir umsókn af þessu tagi er út í hött. Hér er um að ræða heimsókn hundar tvisvar í viku í fáeinar klukkustundir í senn og skilyrðin sem sett eru eru með ólíkindum. Meðal skilyrða er t.d. sérstök leið fyrir hundinn út og inn, stofan þrifin hátt og lágt eftir heimsóknina og sérstakar ráðstafanir vegna öryggismála. Reglugerð sem þessi er aftan úr fornöld og ekki borginni til sóma. Kominn er tími á að nútímavæðast þegar kemur að samskiptum við gæludýr í opinberum byggingum. Í Reykjavík er menningin enn þannig að hundar mega varla sjást eða heyrast. Þessi reglugerð sendir neikvæð skilaboð til hundeigenda, kaldar kveðjur frá borginni. Þessi reglugerð er of ströng og fólk mun ekki vilja fara eftir henni. Hún á ekki heima í nútímasamfélagi. Öll vitum við hvað hundar gera mikið fyrir okkur mannfólkið og við eigum að koma fram af virðingu við þá og öll dýr. Hér er heldur ekki mikið verið að hugsa um börnin. Hvað grunnskólanemendur hafa gaman af því að fá hunda í heimsókn. Verum góð við dýrin.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum fundargerðir, bókun undir 9. og 10. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 19. september:
Liður 9: Flokkur fólksins spurði um úrræði vegna leikskólavanda. Í svarinu segir ekki mikið nema að verið sé að skoða ýmsar tillögur. Fleiri vandamál bætast ofan á þau fyrri t.d. málefni Brákaborgar og Grandaborgar. Það er ekkert lát á vandræðagangi í þessum málaflokki sem má rekja til alvarlegrar vanrækslu. Ýmist er um að ræða ofmat eða vanmat á stöðu mála hjá meirihlutanum. Ofmat á gangi framkvæmda og vanmat á barnafjölda. Hvoru tveggja mætti fyrirbyggja. Allt eru þetta mannanna verk. Tillaga Flokks fólksins er „til skoðunar“ eins og fleiri tillögur. Að skoða hlutina er ekki sama og framkvæma. Hlutir þurfa að ganga hraðar og með markvissari hætti. Liður 10: Flokkur fólksins spurði um hversu margir foreldrar hafa nú þegar fengið pláss fyrir börn sín á leikskóla og hversu margir hafa ekki fengið upplýsingar um hvaða dag barn þeirra getur hafið aðlögun. Samkvæmt reglum eiga foreldrar að fá upplýsingar eigi síðar en fjórum vikum áður en leikskóladvöl hefst. Í svari kemur fram að af 326 börnum hafa 205 foreldrar sem búnir eru að fá pláss ekki fengið dagsetningu um hvenær barnið geti byrjað. Er það vegna þess að leikskólinn sem börnin eiga að mæta í hefur ekki enn verið byggður, eða er ekki tilbúinn?