Borgarstjórn 5. febrúar 2019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir liðunum: Lækkun hámarkshraða á í 40 km Hringbraut.

Þeir sem hafa tjáð sig um þessi mál eru ekki á einu máli um hvort lækkun hraða ein og sér dragi úr slysatíðni þar sem hraði á Hringbraut sé mögulega ekki eina vandamálið heldur einnig t.d. gölluð gönguljós. Bent hefur verið á af sérfræðingi að það vanti rauða og græna kallinn í ljósin fyrir gangandi. Gangandi sér ekki þegar ljósin skipta sér, t.d. þegar fleiri en einn ganga yfir þá grípa nemarnir bara annan aðilann. Þessi breyting mun vonandi hafa áhrif á ökumenn á brotlegum hraða til lækkunar á þeirra ökuhraða. Nauðsynlegt er að fara í róttæka úttekt á götunni til að finna leiðir til að auka öryggi gangandi og skoða hvernig megi hanna gönguþverun með tilliti til aukins öryggis gangandi og hjólandi vegfarenda. Allar tillögur eiga að vera lagðar fram í fullu samráði við hagsmunaaðila, íbúasamtök, Samgöngustofu, Strætó og aðra sem fara þarna um og þeim boðið að skila inn umsögn um málið. Einnig þarf að leita álits og umsagnar bæjarstjórnar Seltjarnarness, en þarna er um að ræða þjóðbraut inn og út úr þeirra bæjarfélagi. Það er samt ljóst að umferðaröryggismál á Hringbraut eru ekki í lagi hvað margt varðar. Það er um að gera að prófa þessa breytingu á meðan önnur úrræði eru ekki á teikniborðinu um umferðaröryggi á Hringbraut. Þá þarf að rannsaka í framhaldinu áhrif breytingarinnar á flæði, ökuhraða og öryggi á götunni.

Bókun Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Tillaga Sjálfstæðisflokksins að skoða útfærslu á rekstrarútboði fyrir þau sjö bílastæðahús sem sjóðurinn rekur í miðborg Reykjavíkur.

Í þessari breytingatillögu sem hefur verið samþykkt er enn rætt um rekstrarútboð. Flokki fólksins hugnast mjög að bæta rekstur bílastæðahúsa í Reykjavík en þó ekki með því að bjóða reksturinn út. Ástæðan fyrir því er sú að með því að fela einkaaðilum að sjá um rekstur bílastæðahúsa myndast einokunarstaða og hægt yrði að hækka gjöld á notendur og greiða rekstraraðilum arð. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir eða tryggja að þjónusta batni bara við einkavæðingu. Gjaldið þyrfti að hækka ef bæta á reksturinn eða hagræða með öðru móti og er þá ekki alveg eins gott að Bílastæðasjóður sæi áfram um reksturinn og fengi tekjurnar en gæti jafnframt bætt þjónustuna? Samkvæmt lögum um bílastæðagjöld á einungis að verja bílastæðagjöldum til uppbyggingar almenningsbílastæða. Það má svo vera önnur tillaga að Bílastæðasjóður standi sig betur í rekstrinum og þjónustunni við notendur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Viðbrögð við niðurstöðum átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði

Í skýrslunni eru fjölmargar góðar tillögur. Ekki er þó sérstaklega fjallað um félagslega blöndun og mikilvægi þess að í hverfum séu fjölbreyttar gerðir húsnæðis á ólíku verðbili. Blöndun byggðar hefur ekki tekist alls staðar þrátt fyrir að kveðið sé á um það í aðalskipulagi og má í því sambandi nefna Fellahverfið. Þar hefur fólk einangrast félagslega og menningarlega. Að vinda ofan af þeim mistökum gæti reynst þrautin þyngri fyrir borgarmeirihlutann. Mikilvægt er að gera ekki sömu mistökin aftur. Í Reykjavík hefur stéttaskipting vaxið síðustu ár. Bilið milli ríkra og fátækra hefur stóraukist. Þetta er átakanleg staðreynd í borg þar sem allir ættu að hafa nóg ef rétt væri haldið á spilunum. Einn liður í baráttunni gegn stéttaskiptingu er að hanna hverfi með þeim hætti að innan þess séu margar gerðir húsnæðis, misstórt og misdýrt hvort heldur um sé að ræða eign eða leiguhúsnæði. Verð íbúða ræðst einkum af stærð þeirra en einnig landgerðinni, gerð húsnæðis og hvort hægt sé að beita afkastamiklum vinnubrögðum við byggingu húsnæðisins. Huga þarf að staðsetningu skólanna og hvernig skólahverfið sem slíkt er myndað. Skólar ættu að vera staðsettir þannig að nemendur komi bæði úr einbýlishúsa-, raðhúsa- og blokkakjarna.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum :Lagt er til af Sjálfstæðisflokki að listaverkaeign Listasafns Reykjavíkur verði gerð sýnilegri í skólum borgarinnar í þeim tilgangi að efla áhuga nemenda á menningu og listum

Hugsunin á bak við þessa tillögu er góð og sjálfsagt að flytja þau listaverk sem hægt er og eru auðveld í flutningi út í skóla og stofnanir Reykjavíkurborgar. Í geymslum er sagður mikill fjöldi listaverka af alls kyns toga. Listaverk í geymslum eru engum sýnileg og þar að leiðandi engum til gleði. Sjálfsagt er að flytja eitthvað af þessum listaverkum t.d. í skóla og stofnanir til skreytingar. Einnig mætti skoða að leyfa íbúum úthverfa borgarinnar og hverfafélögum að velja skreytingar til að skreyta hverfin sín. Borgarmeirihlutinn er hvattur til að láta opna geymslurnar og sýna borgarbúum hvað þar er að finna og gefa þannig borgarbúum tækifæri til að gera upp við sig hvort þarna séu listaverk sem þeir vilja að skreyti nærumhverfið. Þegar kemur að skreytingum hafa úthverfin setið á hakanum. Það er ekki mikið um skreytingar í úthverfum og staðsetning þeirra er misgóð.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Meirihlutinn leggur til að listaverkið Pálmar fari í raunhæfnismat

Lagt er til af meirihlutanum að „leggja eigi mat á vinningstillögu um listaverkið í Vogabyggð.“ Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það hjákátlegt að einungis sé verið að tala um að leggja „mat á raunhæfni“ vinningstillögunnar. Ekki er betur séð en almenningur og fjöldi sérfræðinga hafi nú þegar lagt mat á þetta verk og allt í sambandi við það. Það sem borgarmeirihlutinn þarf að gera er að hverfa frá þessu verkefni/ákvörðun umsvifalaust enda er hugmyndin arfavitlaus í víðum skilningi. Fyrst og fremst eru pálmatré, eins og þau sem sýnd eru á vinningstillögunni, plöntur sem þurfa ljós og nokkuð háan hita allt árið. Þetta eru hitabeltisplöntur þar sem 12 tíma dagur er og 12 tíma nótt. Hér er allt önnur ljóslota sem hitabeltispálmar eru ekki lagaðir að. Pálmi er planta sem á ekki heima hér. Til að aðlaga ljóslotu að þessum plöntum, þarf að lýsa að vetri til og myrkva á sumrin. Með lýsingu og hitun að vetri til myndast móða innan á glerhjúpnum, nema að það sé hindrað með einhverjum kostnaðarsömum aðgerðum svo sem þreföldu gleri og loftblæstri. Annað sem nefna má í þessu sambandi er að þá daga sem glerið er hreint er það lítt sýnilegt fuglum og þeir munu því fljúga á það þegar þeir ætla að setjast í tréð og margir þeirra rotast.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Sósiallistar leggja til að fela velferðarsviði að hefja viðræður við Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum um styrkveitingu utan umsóknartíma.

Flokki fólksins finnst mjög mikilvægt að Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum þrífist og dafni. Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnaði mjög tilkomu þess og veit að gleði meðal þessa hóps með tilkomu félagsins var mikil enda þörf á félagi af þessu tagi einnig mikil. Hins vegar er ákveðinn skilningur að velferðarsvið geti ekki tekið þetta félag fram yfir önnur sambærileg hvað varðar sérstakan samstarfssamning við velferðarsvið. Breyta þyrfti reglum ef jafnræði ætti að ríkja gagnvart öðrum sambærilegum félögum sem velferðarsvið myndi þá gera samstarfssamning við. Komi til skoðunar á reglum í þessu sambandi myndi Flokkur fólksins fagna því.

Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að fundir borgarstjórnar hefjist klukkan 10:00 í stað 14:00

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að láta vinna breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar þannig að fundir borgarstjórnar hefjist kl. 10 fyrir hádegi á 1. og 3. þriðjudegi í mánuði í stað kl. 14. Samhliða þessu þarf að gera aðrar breytingar sem lúta að tímasetningu annarra funda og undirbúningi.

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er nokkuð hissa á að meirihlutinn skuli vilja fella tillögu um að hefja fundi borgarstjórnar fyrr að degi til en þeir byrja kl. 14:00 ekki síst vegna þess að tal um að gera vinnustaðinn Borgarstjórn Reykjavíkur fjölskylduvænan eða fjölskylduvænni er ekki síst komið frá borgarfulltrúum meirihlutans. En sjálfsagt er hér eitthvað á ferðinni sem er meira í orði en á borði hjá meirihlutanum. Borgarstjórnarfundir eru einu fundirnir sem vara ávallt langt fram á kvöld og jafnvel fram yfir miðnætti enda hefur borgarfulltrúum verið fjölgað, eru núna 23 talsins. Flestir borgarfulltrúar mæta snemma til vinnu daginn eftir m.a. á skipulagða fundi. En eins og borgarfulltrúi Flokks fólksins sagði við flutning tillögunnar þá mun hann ekki gráta þótt þessi tillaga fái ekki brautargengi enda á hann ekki ung börn heima. En það eru margir aðrir í borgarstjórn í þannig fjölskylduaðstæðum, með ung börn heima. Talið var að borgarstjórn hefði hugsanlega viljað sammælast um þessa tillögu þannig að starfið og fundirnir verði nær eðlilegum vinnutíma. Allir í borgarstjórn eru atvinnumenn, þetta er þeirra aðalvinna og mikil vinna.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum:
Lagt er til af Miðflokki að gerð verði mislæg gatnamót við Bústaðaveg/Reykjanesbraut í tengslum við aðrar framkvæmdir á svæðinu.

Flokkur fólksins styður tillögu um mislæg gatnamót við Bústaðaveg og Reykjanesbraut. Þetta stóð til en verkið hófst aldrei. Umferðarteppa sem þarna myndast er orðin háalvarleg, vissulega verst á ákveðnum tíma að morgni og seinni partinn. En í raun er vandamálið viðloðandi alla daga í mismiklum mæli þó. Borgarfulltrúi Flokks fólksins þekkir þetta vel enda er ein af þeim sem situr föst í umferð akkúrat á þessum stað oft í viku. Þeir sem hins vegar þurfa ekki að búa við þennan veruleika reglulega virðast engan veginn geta sett sig í þessi spor og vilja jafnvel tala niður þennan mikla vanda sem fjöldi borgarbúa sem býr við þetta er orðinn langþreyttur á og jafnvel vonlaus. Um leið og hálka myndast eða snjóar þá margfaldast þessi vandi. Á stuttum kafla við þessi gatnamót getur það tekið allt að 45 mínútum sem bílarnir bifast áfram með tilheyrandi mengun sem hlýst af því þegar stöðugt þarf að hemla og taka af stað aftur jafnvel mörgum sinnum á mínútu. Það gengur ekki lengur að hunsa þennan vanda. Hann hverfur ekki við það.

Umræða að beiðni Flokks fólksins um aðkomu minnihlutans að gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er dapurt að þurfa að sætta sig við að vera borgarfulltrúi í minnihluta sem hefur enga alvöru aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar meirihlutans í borgarstjórn. Við í minnihlutanum getum vissulega komið með tillögur en þær hafa allar verið stráfelldar kerfisbundið og markvisst af meirihlutanum. Okkur í minnihlutanum er boðið á ýmsa fundi um fjármál en þá má bara horfa en ekki snerta. Í minnihlutanum eru 11 borgarfulltrúar, hópur sem er með meira atkvæðamagn að baki en meirihlutinn sem er með 12 borgarfulltrúa. Eðlilegt væri að minnihlutinn kæmi að þessu borði þegar fjárhagsáætlun er gerð og það með virkum hætti á öllum stigum fjármálaákvarðana. Hvernig á minnihlutinn að sinna hlutverki sínu ef hann hefur aldrei neina aðkomu að útdeilingu fjármagns, að ákvörðunum um fjármál á fyrstu stigum? Það er ósk borgarfulltrúa Flokks fólksins að á þessu fyrirkomulagi verði breyting. Það er í þágu allra borgarbúa að unnið sé saman. Þannig næst breiðari sýn og meiri sátt í borgarstjórn.