Borgarstjórn 1. október 2019

Tillaga Flokks fólksins um að borgarstjórn samþykki að frístundarkortið verði einungis notað í samræmi við skilgreint markmið þess og tilgang og að þar með verði afnumið skilyrði að nýta verði rétt til frístundarkorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að frístundarkortið verði einungis notað í samræmi við skilgreint markmið þess og tilgang. Þar með verði afnumið skilyrði að til þess að geta sótt um aðra fjárhagsaðstoð þ.m.t. þriggja mánaða skuldaskjól eða afskrift vanskila verði foreldri/skuldari fyrst að nýta rétt til frístundakorts skv. greinum 16a og 16b í Reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og Reglum um verklag vegna vanskila foreldra er varðar þjónustu við börn.

Hugmyndafræðin að baki frístundarkorti tengist ekki á neinn hátt erfiðleikum foreldra að greiða fyrir frístundaheimili hvað þá greiðslu skulda eða afskriftir vanskisla foreldra við borgina. Þvert á móti er markmið og tilgangur frístundarkortsins að:

Öll börn og unglingar í Reykjavík 6 – 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum foreldra.

Árið 2009 var samþykkt á fundi borgarráðs að unnt verði að greiða fyrir frístundaheimili með frístundakortum. Sú ákvörðun gengur einnig í berhögg við markmið og tilgang frístundarkortsins.

Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð og fjölbreytni í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Að spyrða rétt barns til frístundarkorts við fjárhagserfiðleika og umsókn foreldra um fjárhagsaðstoð og skuldaskjól eða nota það sem gjaldmiðil upp í greiðslu vegna nauðsynlegrar dvalar barns á frístundaheimili er brot á rétti barnsins.

Greinargerð

Markmiðið og tilgangurinn með frístundarkortinu var ætíð að auka tækifæri barna til að stunda íþróttir og tómstundir óháð efnahag foreldra. Það markmið hefur nú verið afbakað. Það sætir furðu að síðasti meirihluti í borgarstjórn og sá sem situr nú við völd skuli hafa leyft sér að breyta markmiði frístundarkortsins og tilgangi þannig að réttur til nýtingu kortsins gangi ýmist upp í greiðslu á frístundaheimili eða sé skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð, umsókn um skuldaskjóli eða afskriftir skulda.

Frístundaheimili er fyrst og fremst hugsað til að veita börnum öruggt og þroskavænlegt skjól á meðan foreldrar eru í vinnu. Hér er um nauðsyn að ræða í lang flestum tilfellum. Það gefur auga leið að ef foreldrar vegna fjárhagserfiðleika sinna verða að nota frístundarkortið til að greiða með frístundaheimilið er réttur barnsins til nýtingu þess í íþrótta- og tómstundaiðkun ekki nýttur. Enn frekari afbökun á rétti til frístundarkorts er að gera notkun þess að skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð.

Hvernig má það vera að eitthvað sem er hugsað til að rjúfa einangrun barns og stuðla að jafnræði sé nú notað sem gjaldmiðill upp í greiðslu skulda foreldrið eða gert að skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð eða skuldaskjóli?

Annað vandamál er upphæð frístundarkortsins sem er kr. 50.000 krónur. Þessi upphæð nær skammt upp í fjölmörg lengri námskeið á sviði íþrótta- og tómstunda. Skilyrði fyrir að nota frístundarkortið er að námskeið sé allt að 10 vikur og kosta slík námskeið án efa mun meira en 50. 000 krónur. Aðeins þeir foreldrar sem geta greitt mismuninn geta leyft börnum sínum að taka þátt í lengri námskeiðum og námi í t.d.  tónlistarskóla, dansskóla, myndlistarskóla, ljósmyndanám eða annað sambærilegt.

Engar undantekningar eða sveigjanleiki er fyrir hendi að nota korti í styttri og þar að leiðandi kostnaðarminni námskeið. Með þessu er börnum efnalítilla og fátækra foreldra útilokuð þar sem foreldrar hafa oft engin ráð á að greiða mismuninn sem gæti allt eins verið tvöföld upphæð frístundarkortsins og jafnvel meira.

Með svo ósveigjanlegum og ósanngjörnum reglum er fátækum foreldrum þrýst til að nýta kortið til að greiða upp í gjald frístundaheimilis? Svo langt er gengið í ósveigjanleika að það er ekki einu sinni hægt að nýta kortið á sumarnámskeið þar sem þau námskeið ná ekki 10 vikna lengd. Fyrir þessu eru engin rök. Styttri námskeið geta vel verið jafn árangursrík í að styrkja félagsfærni barna en löng Fyrir mörg börn henta styttri námskeið betur en lengri. Fyrir barn fátækra foreldrar sem ekki hafa efni á að veita barni sínu mikið getur ein vika, jafnvel einn dagur í félagslegum samskiptum skipt miklu máli. Ef foreldrar hafa ekki ráð á að greiða heildarkostnaðinn fyrir 10 vikna námskeið hvernig samræmist það yfirlýstum markmiðum um frístundakortið. Í hverju felst jöfnuðurinn?

Flokkur fólksins gerir þá kröfu að borgarmeirihlutinn virði tilgang og markmið frístundarkortsins og í stað þess að taka réttinn af barni til að nota kortið í tómstundir séu fundnar aðrar leiðir til að aðstoða foreldra við að greiða fyrir frístundaheimili. Heldur ætti aldrei að setja skilyrði að foreldri nýti rétt frístundarkorts barns síns svo það geti sótt um fjárhagsaðstoð, sótt um skuldaskjól eða afskriftir skulda. Hér er verið að blanda saman tvennum ólíkum hlutum á kostnað hagsmuna barnsins.

Fyrir liggur að nýting frístundarkortsins er lang minnst í hverfi 111. Hverfi 111 er eitt mesta fjölmenningarsamfélagið í borginni. Þar býr mikið af efnalitlum fjölskyldum. Það er sérkennilegt að ekki séu til upplýsingar hjá íþrótta- og tómstundasviði um hlutfall þátttöku barna  af erlendu bergi brotnu. Sterkar vísbendingar eru um að ástæðan fyrir því að nýting frístundarkortsins er mun lægri í þessu hverfi en í öðrum hverfum séu vegna þess að þar hafa foreldrar neyðst til að nota frístundarkortið í öðrum tilgangi.

Flokkur fólksins hefur lagt il að farið verði í sérstakt átak hjá borginni til að auka nýtingu frístundarkortsins í hverfi 111 í þágu barnanna. Liður í því er að afnema skilyrði um nýtingu þess fyrir umsókn um fjárhagsaðstoð og skuldaskjól og bjóða þeim sem ella hefðu notað frístundarkortið til að greiða frístundaheimili þess í stað sérstakan styrk svo barnið geti notað frístundarkortið samkvæmt markmiðum þess.

Vísað til menningar, íþróttar og tómstundaráðs

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins:

Í gegnum tíðina hefur borgarmeirihlutinn gengisfellt frístundakortið. Opnað hefur verið fyrir að nota það til að greiða nauðsynjar eða sem gjaldmiðil upp í skuld foreldra. T.d. er notkun þess skilyrði til að fá skuldaskjól hjá borginni í þrjá mánuði eða afskrift vanskila.  Hugmyndafræðin að baki frístundakorti tengist ekki á neinn hátt erfiðleikum foreldra að greiða fyrir frístundaheimili, hvað þá greiðslu skulda eða afskriftir vanskila foreldra við borgina. Hvað varð um hugsjónina að baki frístundakortsins og þann göfuga tilgang sem lýst er svo fagurlega í reglum um kortið? Sú tillaga sem VG lagði fram árið 2009 að unnt verði að greiða fyrir frístundaheimili með frístundakortum gengur í berhögg við markmið og tilgang frístundakortsins. Hvar er hugsunin um jöfnuð? Eða vilji til að freista þess að auka möguleika á að börn sitji við sama borð? Að spyrða rétt barns til frístundakorts við fjárhagserfiðleika og umsókn foreldra um fjárhagsaðstoð eða nota það sem gjaldmiðil upp í frístundaheimili er brot á rétti barnsins. Markmið kortsins hefur verið afbakað. Það sætir furðu að síðasti og núverandi meirihluti í borgarstjórn hafi leyft sér að breyta markmiði frístundakortsins þannig að það er nú notað ekki síður sem bjargir frekar en tækifæri.

 

Bókun Flokks fólksins umræða um samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033

Fyrir liggur samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu. Veg- og flýtigjöld eru nefnd nánast í öðru hvoru orði og liggur fyrir að skattpína á bíleigendur sem aka inn í miðbæinn til að fjármagna borgarlínu að hluta. Hugmyndin um veggjöld er að frumkvæði meirihlutans í borgarstjórn. Ákveðið er að gjöldin verði álögð allan gildistíma samkomulagsins. Andúð meirihlutans í borgarstjórn gegn einkabílnum er augljós. Hér er komið tækifæri til að refsa þeim sem aka bíl sínum inn í borgina. Mörg ár eru í borgarlínu en skattlagning á að byrja sem fyrst. Nota á eftirlitsmyndavélar, aðferð sem er óhemju kostnaðarsöm og samræmist auk þess ekki persónuverndarlögum. Enn eitt samkrullsfélag borgarinnar við önnur sveitarfélög (og ríki) verður stofnað þar sem fjárhagsleg ábyrgð borgarinnar er óljós. Ókostir samkrulls eins og byggðasamlaga komu skýrt í ljós þegar bakreikningur barst vegna mistaka hjá Sorpu. Reykjavík ber hitann og þungan af þeim bakreikningi og öðrum sem kunna að koma í framtíðinni vegna borgarlínu. Smærri sveitarfélögin borga minnst en ráða hlutfallslega mest. Mikilvægt er að breyta þessu fyrirkomulagi áður en lengra er haldið með svokallað „sameiginlegt félag“ í tengslum við borgarlínu. Tryggja þarf ákvarðana- og stjórnunarvægi borgarinnar í samræmi við íbúatölu og tryggja að minnihlutum í sveitarstjórnum sé boðið að borðinu. Öðruvísi virkar ekki lýðræðið.

Málsmeðferðartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um frestun á að deiliskipulagið fyrir fyrsta áfanga Laugavegar sem göngugötu fari í auglýsingu

Flokkur fólksins leggur til að frestað verði að senda deiliskipulagstillögu og tillögu um göngugötur í auglýsingu um nokkra mánuði. Á þeim tíma verði haft alvöru samráð við hagsmuna- og rekstraraðila sem leiði til sameiginlegrar niðurstöðu sem sátt ríki um. Öllum er kunnugt um hina miklu óánægju er varðar lokanir og þá ákvörðun að opna þær ekki að nýju núna í október eins og ráð var fyrir gert. Verslun hefur hrunið eftir að þessum götubútum var lokað fyrir bílaumferð og verslunareigendur flúið í stórum stíl með verslanir sínar af svæðinu.

Málsmeðferðartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Valgerðar Sigurðardóttur, Egils Þórs Jónssonar, Jórunnar Pálu Jónasdóttur, Arnar Þórðarsonar og Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

 

Bókun Flokks fólksins um ákvörðun meirihlutans að opna ekki aftur götur fyrir umferð í samræmi við tillögu meirihlutans frá því 1. apríl 2019

Ákveðið hefur verið að gera hluta Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs að varanlegum göngugötum. Til stóð samkvæmt tillögu meirihlutans frá 1. apríl að opna aftur þessar götur eftir sumarlokun. Nú hefur verið ákveðið að gera það ekki og hefur málið verið keyrt áfram af miklum hraða þvert á vilja fjölmargra. Verslanir hörfa úr miðbænum enda hafa viðskipti þeirra hrunið vegna sífelldra breytinga og takmarkana á bílaumferð á svæðinu. Flokkur fólksins hefur lagt til að frestað verði að setja skipulagið í auglýsingu og að göturnar sem um ræðir verði opnaðar aftur a.m.k. í vetur. Sú tillaga var felld. Það er ekki umdeilt lengur að almennar verslanir t.d. fataverslanir hafa þrifist illa við göngugötur bæjarins. Það hefur reynsla og kannanir sýnt svo ekki verði um villst. Langflestir sem ganga um þetta svæði eru erlendir ferðamenn og fólk mætir vissulega á svæðið til að stunda skemmtanalíf og fara á veitingastaðina. Aðrir, sem búa lengra frá, eldri borgarar og öryrkjar segja upp til hópa bæinn ekki lengur vera fyrir sig. Þetta sýna niðurstöður Zenter rannsókna í nýlegri könnun. Aðgengi er slæmt, bílastæði fá, bílahús óaðgengileg og sum óaðlaðandi og vegakerfið og akstursstefnur ruglingslegar. Það er leiðinleg þróun að miðbærinn skuli ekki lengur vera okkar allra og að hefðbundin verslun sem verið hefur þar áratugum saman þrífist ekki lengur.

Bókun Flokks fólksins við tillögur minnihlutans að grunnskóli verði rekinn í Staðahverfi til frambúðar í samræmi við gildandi skipulag hverfisins fyrir 1-10 bekk ætlaður öllum börnum á grunnskólaaldri í hverfinu.

Tillagan var felld

Borgarfulltrúi Flokks fólksins sér ekki hvert vandamálið er hjá meirihlutanum í þessu máli. Þess vegna hefur minnihlutinn sameinast um þá tillögu sem hér var til umræðu. Það vantar ekki börn í þetta hverfi til að halda uppi hagkvæmum skólarekstri. Það þarf engan að undra áhyggjur foreldra því yfir þeim lafir sú ógn að loka eigi skólanum vegna fámennis. En þegar talin eru börnin sem eiga lögheimili í hverfinu þá er hér ekki um litla einingu að ræða. Börn sem eiga lögheimili í hverfinu eru um 140 og skólinn rúmar 170. Svo málið er einfalt, öllum börnum í hverfinu á að vera boðið að stunda nám í hverfisskóla sínum! Ávallt hefur verið lögð áhersla á í okkar samfélagi að börn geti sótt skóla í nærumhverfi sínu. Það er mikið lagt á börn, sérstaklega ung börn, og foreldra þeirra sem þurfa að fara langt í skóla og þurfa jafnvel að fara yfir óörugg svæði. Ef niðurstaðan verður sú að loka skólanum í trássi við foreldra og íbúa á þeim rökum að skólinn sé of lítill þá er verið að brjóta á réttindum barna sem eiga lögheimili í Staðahverfi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. og 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september: 

Sú staðreynd að verslanir hörfa úr miðbænum er hunsuð af meirihlutanum. Mörg rými eru ekki notkun á þessu svæði og fleiri verslanir hafa tilkynnt um lokun. Á hinu lokaða svæði á Laugavegi eru 11 ekki starfrækt. Fleiri hafa tilkynnt um brottför. Flokkur fólksins vill að haft sé alvöru samráð við rekstraraðila og leitað verði sameiginlegrar niðurstöður. Í því skyni var lögð fram málsmeðferðartillaga um að fresta um nokkra mánuði að senda deiliskipulagið í auglýsingu og á þeim tíma getur meirihlutinn haft samráð við hagsmunaaðila til að ná sameiginlegri niðurstöðu.  Tillagan var felld í borgarstjórn  í dag 1.10. Öllum er kunnugt um hina miklu óánægju sem þessar lokanir hafa valdið og ekki að ástæðulausu þar sem mjög hefur dregið úr verslun og sjá verslunareigendur sé ekki fært að halda áfram rekstri á þessu svæði eftir að lokað hefur verið fyrir bílaumferð.
13. liður. Borgarfulltrúi finnst þessi leiga sem lögð er til að gildi fyrir langtímaleigu á tjaldsvæðinu of há. Rúmlega 40 þúsund krónur er of mikið fyrir þá sem eiga ekki mikið milli handanna.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram  eftirfarandi bókanir undir framlagningu fundargerða:

Fundargerð forsætisnefndar 5 liður:

Borgarfulltrúi telur að mikið skorti á að skóla og frístundaráð hafi gott samráð og samtal við foreldra, íbúa og félagasamtök og að ekki hafi verið haft viðunandi samráð í ýmsum málum þegar tilefni var til og mikið lá undir. Nýjasta dæmið er uppnámið sem ríkir í Staðahverfi þar sem íbúar eru uggandi um framtíð skóla síns. Meirihlutinn býr til vanda úr engu. Í hverfinu eiga um 140 börn lögheimili og skólinn rúmar 170. Engu að síður vofir sú ógn yfir að skellt verði þarna í lás.

Fundargerð skipulags- og samgönguráðs. 25. 9. liður 9:

Ákveðið hefur verið að gera hluta Laugavegs og fleiri götur að varanlegum göngugötum. Þetta er í trássi og án samráðs við hagsmunaaðila. Samráð þýðir á íslensku að um er að ræða sameiginlega ráðagerð og sameiginlega niðurstöðu. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur tekið ákvörðun sem stríðir gegn vilja fjöldans. Í þessu máli hefur verið sýndur ómældur yfirgangur. Meirihluti minnihlutans hefur mótmælt harðlega og krafist þess að haft sé alvöru samráð en á það hefur verið slegið.

Fundargerð velferðarsvið 3. gr.:

Flokkur fólksins er andvígur öllum hækkunum á gjaldskrá velferðarráðs sem notendur þurfa að greiða. Finna þarf aðrar leiðir en að hækka gjöldin til að mæta auknum kostnaði til að veita fullnægjandi þjónustu.