Borgarstjórn 5. maí 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu fyrri umræðu samantekins ársreiknings Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 og fylgigagna:

Mikið vantar upp á að rekstrarniðurstaða A-hluta sé eins jákvæð og áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist af því að sala byggingarréttar var mun minni eða 2.302 millj. undir áætlun. Ekki tókst að greiða niður skuldir þrátt fyrir góðæri. Skuldir A-hluta og samstæðu jukust um 21 milljarð. Annað er markvert í ársreikningi 2019. Nú loks á að setja meira í viðhald, m.a. vegna skóla og má segja að það þurfti farald til, til að spýta í lófana. Mötuneyti skólanna koma við sögu en þar eru helstu frávik m.a. vegna sölu á máltíðum í grunnskólum en þær voru 116 m.kr. lægri en áætlað var. SORPA kemur sannarlega við sögu en í stað þess að selja metan á kostnaðarverði er því sóað. Flokkur fólksins fékk mat Samkeppniseftirlitsins á þessu atriði og banna samkeppnislög ekki að vara sé seld á kostnaðarverði. Brotthvarf eins endurskoðanda úr endurskoðunarnefndinni vakti upp spurningar og tortryggni sem hætti vegna reikningsskilaaðferða Félagsbústaða sem hann segir að ekki standist skoðun. Ef vikið er að áritun endurskoðanda kemur fram í ársreikningnum að endurskoðandi þarf aðeins að vera nægjanlega viss, sem er ágæt vissa en tryggir ekki að endurskoðun viti um allar skekkjur vegna mistaka eða sviksemi, sem hafa mögulega áhrif á fjárhagslega ákvörðun notenda ársreikningsins.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um uppgjör Félagsbústaða hf. í tengslum við samstæðureikning borgarinnar:

Mikil áhersla hefur verið lögð á að sannfæra borgarfulltrúa um að sú uppgjörsaðferð sem Félagsbústaðir nota sé eðlileg að öllu leyti. Gangvirðisaðferðin er hvergi viðhöfð í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við þegar um er að ræða óhagnaðardrifið félag eins og Félagsbústaði. Þetta vekur tortryggni og jókst sú tortryggni til muna þegar einn af fjórum endurskoðendum taldi sig knúinn að yfirgefa nefndina vegna málsins. Það segir kannski allt sem segja þarf þegar fagmaður, endurskoðandi í endurskoðunarnefnd Reykjavíkur víkur vegna þess að hann telur að aðferðafræðin sem nefndin vill viðhafa stríði gegn sannfæringu sinni, hún standist jafnvel ekki skoðun og íslensk lög. Það er vond staða þegar svo er komið að endurskoðunarnefnd borgarinnar hafi ekki fullan trúverðugleika. Er þessi aðferð að gefa gleggri mynd af fjárfestingaeignum Félagsbústaða eða er hún til þess fallin að eignir séu jafnvel ofmetnar? Nefndin klofnaði í þessu máli. Rökin með gangvirðisaðferðinni sem sett eru fram er að aðferðin „gefi gleggri mynd og að það skipti máli hvernig myndin lítur út þegar félagið leitar leiða með fjármögnun; að framsetningin líti betur út gagnvart þeim aðilum sem félagið leitar til með fjármögnun“ o.s.frv. Þetta að „láta líta vel út“ eru einfaldlega ekki beinlínis trúverðug rök.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Miðflokksins að fallið verði frá lokunum á göngugötum, Laugavegi frá Klapparstíg að Ingólfsstræti, Vegamótastíg frá Laugavegi að Grettisgötu, Skólavörðustíg frá Bergstaðastræti að Laugavegi.

Nú er lokunarhrina í miðbænum. Allt sem rekstraraðilar hafa sagt hefur ræst. Veiran sá um ferðamennina og borgaryfirvöld hafa séð til þess að Íslendingar sem búa fjarri koma helst ekki lengur niður í bæ nema kannski á tyllidögum. Hér hafa verið gerð mistök sem meirihlutinn á einfaldlega mjög erfitt með að viðurkenna. Þau hlupu á sig, ákváðu einhliða að loka götum árið um kring fyrir umferð með þeim afleiðingum að verslun hrundi. Þetta settu þau í sáttmála sinn og hafa með því málað sig út í horn. Sök sé með að hlusta ekki á minnihlutann en að hlusta ekki á borgarbúa er alvarlegt. Lýðræði og samráðsvilji er það sem skortir hjá þessum meirihluta en samt var það einmitt það sem þau lofuðu kæmust þau til valda. Nú er tímabært að hefja leiðangur með rekstraraðilum og fólkinu í borginni til að endurlífga miðbæinn. Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld eigi alvöru viðræður og samstarf við hagsmunaaðila til að ræða björgunaraðgerðir s.s. hvernig markaðsátak hægt er að fara í fyrir miðborgina. Fara þarf í almennar aðgerðir sem nýtast öllum. Almennar aðgerðir þurfa m.a. að fela í sér samvinnu við Bílastæðasjóð og Strætó bs. sem gefa þurfa eftir í gjöldum til að laða að fólk.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósíalistaflokks Íslands að stofna matarbanka:

Enginn á nokkurn tíman að þurfa að vera án matar á Íslandi. Því miður er fólk á Íslandi sem á ekki til hnífs og skeiðar. Velferðaryfirvöldum ber skylda til að sjá til þess að allir eigi að borða í Reykjavík. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf eðlilegast að fólk sem þarfnast aðstoðar til að kaupa mat fái einfaldlega viðskiptakort með þeirri upphæð sem það fær til ráðstöfunar og getur kortið gilt í helstu matvöruverslunum. Þá þarf viðkomandi ekki að koma á einhvern stað hvort sem það er hjálparsamtök eða matarbanki ef því er að skipta til að fá mat heldur getur viðkomandi haft sjálfdæmi um hvar hann vill versla og hvað. Tíð verðkönnun gerð af vandvirkni myndi t.d. styðja það að viðskiptakort nýttist vel þeim sem þess þarfnast. Matarbanki þarfnast auk þess yfirbyggingar og utanumhalds. Afhending matarkorts er einfaldara fyrirkomulag og tíðkast í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Flokkur fólksins vill styðja þessa tillögu því hún er lögð fram af hug sem samræmist hugsjón og stefnu Flokks fólksins en hann er stofnaður m.a. til að berjast gegn fátækt og hlúa að þeim verst settu. Ef framhaldið verður að fólk fái kort til að kaupa sér sjálft mat þá væri það það allra besta.

 

Tillaga Flokks fólksins að hægt verði að nota frístundakortið í öll sumarnámskeið á vegum Reykjavíkurborgar

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar sem og önnur viðurkennd námskeið án tillits til lengdar námskeiðanna. Sumarið er komið og standa börnum til boða ýmis konar sumarnámskeið sem haldin verða m.a. í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og á vegum skóla- og frístundaráðs. Eftir strangan og afar óvenjulegan vetur sem einkenndist seinni partinn af faraldri, bíða mörg börn þess með óþreyju að taka þátt í tómstundum, íþróttum og leikjum. Núgildandi reglur um frístundakort kveða á um að frístundastyrkinn, 50.000 kr., sé aðeins hægt að nýta í námskeið sem eru að lágmarki 10 vikna löng. Nú býður Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn börnum upp á 5 daga námskeið sem kosta 18.500 og 4 daga námskeið sem kosta 15.100. Skóla- og frístundaráð býður börnum einnig upp á námskeið sem kosta um 10.000 á viku. Í borgarráði 2. maí 2019 lagði ég til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var felld. Nú er gerð önnur atrenna að regluverkinu því það er öllum börnum afar mikilvægt að komast á námskeið í sumar eftir þennan óvenjulega vetur.

Greinargerð

Að skilyrða notkun frístundakortsins við 10 vikna löng námskeið lokar fyrir alla nýtingu þess í sumar- og vetrarnámskeið sem vara skemur en 10 vikur. Sumarnámskeiðin eru flest stutt, allt niður í 4 daga. Það er ekki lengd námskeiðs sem skiptir máli heldur gæði þess og hvernig námskeiðið hentar barninu. Fjárhagur foreldra er misjafn. Sumir hafa misst vinnu eða laun þeirra verið skert vegna COVID-19. Ekki allir foreldrar hafa ráð á að leyfa börnum sínum að taka þátt í sumar- eða vetrarnámskeiðum. Það lítur sérkennilega út að sjá öll þau fjölbreyttu sumarnámskeið auglýst á vefsíðu ÍTR og skóla- og frístundaráðs og sjá á sama stað vísað í upplýsingar um frístundakort, sem þó er ekki hægt að nota vegna þess að ekkert námskeiðanna nær 10 vikum.

Gengisfelling frístundakortsins í gegnum árin
Auk þess að leggja fram tillögur um rýmkun á reglum frístundakortsins hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins einnig lagt fram tillögur sem lúta að því að frístundakortið fái aftur upphaflegan tilgang. Til upprifjunar þá var frístundakortið hugsað sem tæki til jöfnuðar, til að gefa öllum börnum tækifæri til að stunda íþrótta eða tómstundastarf án tillits til efnahags foreldra þeirra.

Árið 2009 var byrjað að afbaka reglur frístundakortsins sem varð til þess að frístundakortið var ekki lengur það jöfnunartæki sem það átti að vera. Gengisfelling á frístundakortinu hófst þegar ákveðið var að hægt yrði að nýta rétt frístundakortsins til að greiða gjald frístundaheimilis. Sé kortið notað til að greiða frístundaheimili þá getur barnið ekki notað það til að fara á íþrótta- eða tómstundanámskeið. Hér hefði átt að finna aðrar leiðir til að styrkja foreldra sem ekki gátu greitt frístundaheimili fyrir barn sitt í stað þess að taka frístundakortið af barninu. Næst var tekið upp á að blanda rétti til nýtingar frístundakortsins saman við umsókn um fjárhagsaðstoð vegna aðstoðar við barn. Sú ákvörðun dró enn frekar úr líkum þess að barn gæti notað það til að velja sér tómstund eða íþrótt.

Barátta Flokks fólksins fyrir rétti barnsins að nýta frístundakortið í samræmi við tilgang þess er hvergi nærri lokið en hefur þó skilað nokkrum árangri í vinnu velferðarráðs á berytingum á fjárhagsaðstoð vegna aðstoðar við barn. Til stendur að gera þær breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð vegna barna að fellt verði úr gildi að skilyrða umsækjanda að nýta sér rétt sinn samkvæmt frístundakorti til að geta sótt um aðstoð vegna barns. Þetta er sannarlega fagnaðarefni. Drögin af breytingum á reglunum eru nú í umsagnarferli.

Rýmka þarf reglur frístundakortsins enn frekar enda eru þær almennt allt of stífar. Að afnema skilyrði um að námskeið þurfi að vera 10 vikur til að nota frístundakortið er réttlætismál. Löng námskeið eru almennt dýrari en stutt. Þar sem styrkurinn er aðeins 50.000 geta efnaminni og fátækir foreldrar oft ekki greitt það sem upp á vantar. Í mörgum tilfellum liggur því frístundastyrkurinn ónotaður. Í hverfi 111 þar sem flestir innflytjendur búa og fátækt er mest nær nýting ekki 70%. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkurnar á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið.

Í gangi er stefnumótunarvinna um frístundakortið. Vonandi mun sá hópur vinna með þessa tillögu og aðrar sem Flokkur fólksins hefur lagt fram til að lagfæra hnökra frístundakortsins. Flokkur fólksins mun áfram halda á lofti tillögum um breytingar sem miða að því að koma frístundakortinu aftur til uppruna síns. Frístundakortið er ætlað til jöfnunar og fjarlægja þarf annmarka við reglur kortsins til að börn í öllum hverfum geti nýtt kortið/styrkinn eins og tilgangur þess segir til um.

Samþykkt að visa tillögunni til stýrihóps um endurskoðun reglna um frístundakort.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að þessi tillaga um að frístundakortið gildi í öll námskeið, stutt eða löng verði vísað í þann hóp sem vinnur að endurskoðun á frístundakorti. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur verið tíðrætt um annmarka frístundakortsins. Sá annmarki sem hér er leitast við að laga, að kortið gildi í öll sumar- og vetrarnámskeið á vegum borgarinnar án tillits til lengdar er einn sá versti og hindrar fjölmörg börn í að nota kortið. Í borgarráði 2. maí 2019 lagði Flokkur fólksins til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var þá felld. Að skilyrða notkun frístundastyrksins í námskeið sem eru 10 vikur að lágmarki nær ekki nokkurri átt. Þetta skilyrði lokar fyrir alla nýtingu þess í sumar- og vetrarnámskeið sem vara skemur en 10 vikur. Sumarnámskeiðin eru flest stutt, allt niður í 4 daga. Löng námskeið eru almennt dýrari en stutt og styrkurinn er aðeins 50 þús. á ári. Í hverfi 111 þar sem flestir innflytjendur búa og fátækt er mest nær nýting ekki 70%. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkurnar á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið. Vonandi mun sá hópur sem vinnur að endurskoðun kortsins sjá þetta sömu augum og losa um þessi höft sem umlykur frístundakortið.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð borgarráðs og viðauka:

Fulltrúi Flokks fólksins er ekki ósáttur við þær aðgerðir sem gerðar eru. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram strax í upphafi faraldursins nokkrar tillögur sem voru um að styrkja stöðu og gæta hagsmuna minnihlutahópa. Var þeim öllum frestað og var það miður. Sumar voru reyndar teknar upp af hálfu meirihlutans, gerðar að þeirra og settar í framkvæmd. Það varðaði t.d. lækkun gjalda í frístundastarfi og leikskóla í samræmi við fækkun daga og símaþjónusta til eldri borgara. Tillaga Flokks fólksins um aðstoð við dagforeldra, þeirra sem hafa orðið fyrir tekjutapi vegna COVID-19 fór hins vegar í „pott“ og er nú á borði Sambands Íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður sagt að meirihlutinn í Reykjavík er of háður mati SÍS og virðist skorta sjálfstæði til að vera einmitt það leiðandi afl sem borginn ætti að vera sem langstærsta sveitarfélaga landsins. Flokkur fólksins vill einnig bóka við liðinn viðaukar við fjárhagsáætlun, tillögu um að fjárheimildir borgarstjórnar verði hækkaðar um 4.609 þ.kr vegna hækkunar á félagsgjöldum SSH. Furðu vekur að félagsgjald til SSH hækki um 50% eða um ríflega 4,6 milljónir án nokkurs rökstuðnings, sem vekur upp þá spurningu hvernig þetta fé nýtist borginni. Þarf ekki að meta reglulega hvaða gagn borgin hefur af þessum félagsskap?

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. apríl, skipulags- og samgönguráðs frá 19. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 28. apríl, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 22. apríl og velferðarráðs frá 22. apríl.

Við fundargerð heilbrigðiseftirlitsins vegna svara forstöðumanns  við fyrirspurnum um Fossvogsskóla og hundaeftirlitið:

Fyrirspurn um ástand skólahúsnæðis er svarað af starfsmanni Heilbrigðiseftirlitsins sem fer mikinn í svörum sínum, sakar borgarfulltrúann um að fara með dylgjur í fyrirspurnum sínum þegar einfaldlega er spurt um stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla þar sem veikindi hafa ítrekað komið upp. Áhyggjuefni er þegar embættismenn fara fram með slíku offorsi í svörum sínum þegar verið er að ganga erinda borgarbúa. Eitthvað í fyrirspurnunum hefur snert viðkvæma strengi þótt aðeins sé verið að fylgja eftir fyrirspurnum foreldra. Fram kom t.d. þann 1. maí í Fréttablaðinu að foreldrar eru ekki sannfærðir um að búið sé að uppræta mygluna og óska eftir svörum við fyrirspurn frá 21. febrúar. Bókun undir lið 13 og 16: ósk um verkefnaskýrslur hundaeftirlitsmanna. Ekki virðist vera hægt að fá yfirlit yfir verkefni hundaeftirlitsmanna og því ekki hægt að fá að sjá hvernig ákvörðun um eftirlitsgjaldið er tekin. Fyrirspurn frá Flokki fólksins var svarað með útúrsnúningi með því að telja upp atriði sem alls ekki var spurt um. Gjöld á að leggja á samkvæmt kostnaði ef ekki er um skattlagningu að ræða. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur virðist ekki getað rökstutt upphæð gjaldsins en kýs að svara fyrirspurn Flokks fólksins með skætingi. Varnartilburðir embættismanns benda til að málið sé viðkvæmt og þoli ekki nána skoðun.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Frá persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar kemur fram að óheimilt er samkvæmt persónuverndarlögum að veita aðgang að vinnustundum starfsfólks. Varðandi annað í fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingar um verkefni starfsmanna þá er vísað til starfslýsingar fyrir hundaeftirlitsmann og samþykktar um hundahald í Reykjavík sem hundaeftirlitsmenn vinna samkvæmt, og finna má á vef Reykjavíkurborgar. Hundaeftirlitsmenn eru báðir ráðnir í 100% starf og starfa undir yfirumsjón framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Faglegar úttektir hafa verið gerðar á Fossvogsskóla bæði af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og fleirum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er sá lögboðni og faglegi aðili sem metur hvort húsnæði standist kröfur skv. hollustuháttalöggjöf. Viðamiklar úrbætur hafa verið gerðar á húsnæði Fossvogsskóla og miðað við niðurstöður síðasta heilbrigðiseftirlits og úttekta sem liggja fyrir eru ekki gerðar athugasemdir við störf Heilbrigðiseftirlitsins enda starfar þar fagfólk með mikla þekkingu á málaflokknum. Því má halda til haga að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar gerir kröfur um úrbætur þar sem þess er þörf og fylgir leiðbeiningum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og samræmdum leiðbeiningum Umhverfisstofnunar þegar kemur að eftirliti skólahúsnæðis. Það er mikilvægt að allt skólahúsnæði uppfylli ítrustu kröfur um heilnæmt umhverfi fyrir börn og fullorðna.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins heyrir að meirihlutinn er í sömu vörn og embættismaður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Flokkur fólksins leggur til að meirihlutinn og embættismenn hlusti ávallt á foreldra og umfram allt svari erindum þeirra. Það er einnig ávallt góð regla að svara fyrirspurnum af kurteisi og virðingu. Borgarfulltrúar eru að vinna fyrir fólkið í borginni. Ekki var verið að biðja um vinnustundir eins og embættismaður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og meirihlutinn vill vera láta heldur einfaldlega spyrja um hvaða verkefni hundaeftirlitsmenn sinna þar sem hundaeftirlitsgjald hefur ekki lækkað þótt verkefnum þeirra hafi snarfækkað.