Borgarstjórn 17. mars 2020

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir að samstarf skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar verði formgert til að stytta biðlista

GREINARGERÐ MEÐ TILlögu  FLOKKS FÓLKSINS LÖGÐ FRAM Í BORGARSTJÓRN 17.3 UM SAMSTARF SKÓLAÞJÓNUSTU OG ÞROSKA OG HEGÐUNARMIÐSTÖÐVAR  

Bókun Flokks fólksins við umræðuna um Covid-19

Aðstæður í samfélaginu eru fordæmalausar. Váin skall á eins og stormsveipur, án mikils fyrirvara. COVID-19 er áfall sem verður að glíma við og vinna úr af yfirvegun og skynsemi. Öll vonumst við til að viðbrögð sóttvarnaryfirvalda, almannavarna og sveitarfélaga og annarra, atvinnulífsins, fyrirtækja og fjölmiðla verði til þess að það takist að hemja útbreiðslu vírussins eins og hægt er. Margt er á huldu en annað er vitað. Óvissa er alltaf það allra versta. Íslendingar hafa áður sýnt að við erfiðar aðstæður verðum við ein stór fjölskylda. Líf og heilsa koma fyrst en einnig þarf að halda lífi í atvinnulífinu. Flokki fólksins er umhugað um viðkvæmustu hópanna. Ef horft er til borgarinnar hafa starfsmenn sýnt áberandi æðruleysi og yfirvegun. Að púsla saman hlutunum hefur verið flókið og vandasamt. Mest um vert er að þjónusta velferðarsviðs hefur verið órofin. Þar er um að ræða alla heimaþjónustu, heimahjúkrun, stuðningsþjónustu á hjúkrunarheimilum, í íbúðakjörnum og sambýlum sem og í gisti- og neyðarskýlum. Flokkur fólksins vill þakka öllu þessu fólki og einnig þeim sem skráð hafa sig í bakvarðasveit til tímabundinnar aðstoðar í heilbrigðiskerfinu. Allt þetta er ómetanlegt.

 

Bókun Flokks fólksins undir 10. lið fundargerðarinnar frá 12. mars um sjóðsstreymi Sorpu:

Minnihlutinn í Kópavogi, Samfylking og Píratar, hafa tjáð sig um alvarlegan fjárhagsvanda SORPU og kallað eftir skýringum. Í yfirlýsingu þeirra er stjórn gagnrýnd fyrir þátt sinn í því að félagið þarf nú að fá ábyrgð sveitarfélaganna á 600 milljóna króna viðbótarláni við 1.400 milljóna króna lán sem fyrir var. Segir í yfirlýsingu þeirra „framkvæmdarstjóri hefur verið látinn taka pokann sinn en ekkert fararsnið er á stjórninni“. Hér eru sömu orð og Flokkur fólksins hefur ítrekað viðhaft í bókunum. Þessi yfirlýsing er áhugaverð fyrir þær sakir að fulltrúar minnihlutans í Kópavogi eru samflokksfólk meirihlutans í Reykjavík. Eins er formaður stjórnar skipaður af bæjarstjórn Kópavogs. Meirihlutinn í Reykjavík hefur hins vegar varið hvernig komið er fyrir SORPU og telja að nægi að framkvæmdastjóri axli alla ábyrgð. Á það skal minnt að í skýrslu innri endurskoðunar fær stjórn einnig áfellisdóm, ekki einungis framkvæmdastjóri. Það er ánægjulegt að sjá að Píratar og Samfylking í Kópavogi skilja að stjórn er ábyrgðaraðili fyrir fyrirtæki enda fær stjórn greitt fyrir að fylgjast með öllum þráðum, vera vakandi yfir hverri krónu og bókhaldsfærslu. Við blasir nú að borgarbúar munu taka stærsta skellinn sem meirihlutaeigendur og gjaldskrá SORPU mun hækka.

 

Bókun Flokks fólksins undir 14. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, um umræðu á íþróttastefnu borgarinnar.

Frístundakortið er víða á dagskrá sem vonandi er merki þess að brátt verði tekið á göllum þess. Það kom til umræðu þegar rætt var um nýja íþróttastefnu í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að heiðarlegast væri ef meirihlutinn og íþrótta- og tómstundasvið viðurkenndi að það er ekki sanngjarnt gagnvart barninu að efnalitlir foreldrar verði að velja að nota kortið til að greiða frístundaheimili í stað þess að barnið fái það til að nota upp í íþróttir eða tómstundir. Nú er verið að kanna ánægju fólks með kortið, sjálfsagt í þeirri von að einskærri ánægju með það verði lýst. Margir átta sig ekki á hvernig er í pottinn búið. Væri allt eðlilegt ættu þeir sem hafa þurft að nota frístundakortið í frístundaheimili sem dæmi, að fá sérstakan styrk til þess með þeim orðum að frístundakortið væri fyrir barnið til að velja sér íþrótt. Efnalitlir foreldrar verða að nota öll bjargráð og frístundakort barnsins er eitt þeirra ef ekki önnur bjargráð bjóðast. Flokkur fólksins óttast að ekki verði endilega mikið að marka þessa könnun þar sem ekki fylgi henni viðeigandi skýringar og spurningar verði jafnvel leiðandi. Hugsa á kortið eins og einkaeign barnanna og aðeins þeirra að nota það fyrir sig eins og upphaflegu tilgangur þess segir til um.