Borgarstjórn 7. júní 2022

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir að tillögu meirihlutans um að málaflokkur stafrænna umbreytinga og þjónustu verði styrktur með nýju stafrænu ráði verði frestað. Flokkur fólksins hefur á annað ár gagnrýnt gegndarlausa sóun á almannafé í tilraunir og uppgötvun á fjölda stafrænna lausna sem sumar hverjar litu aldrei dagsins ljós og ekki var brýn þörf á. Tugir milljóna hafa farið í erlenda ráðgjöf sem hvergi sér hvernig skilaði sér. Alls hefur 13 milljörðum verið veitt í stafræna vegferð á aðeins þremur árum. Borgarfulltrúi vill fá að sjá áætlun um kostnað á hinu nýja ráði og innviði þess áður en lengra er haldið. Flokkur fólksins er ekki einn um gagnrýni á hvernig farið hefur verið með þessa 13 milljarða króna. Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt þetta opinberlega. Stafræn þróun hjá Reykjavíkurborg hefur snúist upp í stafræna sóun. Mun hagkvæmara og viturlegra hefði verið að fara strax í upphafi þessarar vegferðar í samstarf við Stafrænt Ísland eins og önnur sveitarfélög hafa gert í stað þess að eyða ómældu fjármagni í að finna upp hjólið. Reykjavík á ekki að stofna sitt eigið hugbúnaðarfyrirtæki. Reykjavík er sveitarfélag sem hefur skyldur við borgarbúa sem ekki er verið að sinna með viðunandi hætti.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð  borgarráðs frá 25. maí 2022. Liður 17.

Flokkur fólksins vill bóka við fundargerð íbúaráðs Breiðholts í fundargerð borgarráðs frá 25. maí undir liðnum málefni hverfisins. Tillaga EFLU f.h. Reykjavíkurborgar og Kópavogs að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga var frestað að beiðni fulltrúa Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði 25. maí þar til ný borgarstjórn hefur tekið við störfum. Nú hefur ný borgarstjórn tekið við og vonast Flokkur fólksins til að málefni Arnarnesvegar verði skoðuð að nýju með það að markmiði að gert verði nýtt umhverfismat. Flokkur fólksins vill að tekið verði vel í tillögu flokksins og Vina Vatnsendahvarfs sem lögð verður fram aftur á fyrsta fundi umhverfis- og skipulagsráðs. Tillagan er um að gert verði nýtt umhverfismat áður en hafist er handa við þessa miklu framkvæmd. Ekkert getur réttlætt að byggja lagningu fjárfrekrar vegagerðar á 20 ára gömlu umhverfismati. Einnig þarf að skoða af hverju ekki var athugað með að leggja veginn í stokk eða í göng þar sem hann liggur um dýrmætt grænt náttúru- og útivistarsvæði. Tillagan sem liggur fyrir, með ljósastýrðum gatnamótum við Breiðholtsbraut, mun þess utan valda verulegum töfum á umferð og skapa fleiri vandamál en vegurinn á að leysa. Endurskoða þarf þessa vegalagningu með tilliti til umhverfisins, heildarmyndarinnar og Vetrargarðsins sem þarna á að rísa.