Borgarstjórn, fyrri umræða fjárhagsáætlunar 2. nóvember 2021

Breytingatillögur Flokks fólksins við tekjuöflunarhluta fjárhagsáætlunar

Breytingartillögur borgarfulltrúa Flokks fólksins við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021.

Breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-1 vegna viðmiðunartekna til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega.

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega hækki um 6% milli ára og verði:

1. Réttur til 100% lækkunar:
a. Einstaklingur með tekjur allt að 4.650.000 kr.
b. Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 6.500.000 kr.
2. Réttur til 80% lækkunar:
a. Einstaklingur með tekjur á bilinu 4.650.001 til 5.330.000 kr.
b. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.500.001 til 7.200.000 kr.
3. Réttur til 50% lækkunar:
a. Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.330.001 til 6.200.000 kr.
b. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.200.001 til 8.600.000 kr.

Greinargerð:

Það er gömul saga og ný að fjárhæðir almannatrygginga hækka aldrei í réttu samræmi við kaupmáttarþróun. Öryrkjar og ellilífeyrisþegar fá sjaldan sambærilegar kjarabætur og fólk á almennum vinnumarkaði. Ríkið hefur í áraraðir hunsað lagaboð um að fjárhæðir almannatrygginga skuli taka breytingum til samræmis við launaþróun. Kjör öryrkja og eldri borgara hafa því ekki haldið við kjör almennings, heldur hefur myndast uppsöfnuð kjaragliðnun sem nú mælist í tugum prósenta.
Ofan á þetta bætist að verðbólga hefur nú mælst yfir 4% allt síðasta árið. Þetta þýðir ekki annað en það að öll sú kjarahækkun sem öryrkjar og eldri borgarar áttu að fá milli ára hefur þurrkast út og gott betur.
Það er ekki ofan á það bætandi að Reykjavík taki þátt í kjaragliðnuninni. Við erum að tala um fátækasta fólkið. 3,6% hækkun á afsláttarviðmiðunum dugar ekki til að halda í við verðbólgu. Því er lagt til að viðmiðin hækki um 6% milli ára.

Breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-2 vegna gjaldskrárhækkana á skóla- og velferðarsviði og velferðarsviði.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að falla frá gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár vegna aðstæðna þegar samfélagið er að vinna sig úr úr aðstæðum vegna COVID-19. Lagt er til að fjárheimildir skóla og frístundasviðs verði hækkaðar um 75.244 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um 18.113 þ.kr. Samanlagt lækki tekjur um 93.357 þ.kr. vegna þessa, sem verði fjármagnað af liðnum Ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Greinargerð:

Tillagan felur í sér að fresta gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár eða til 1.1. 2023 vegna ástands sem ríkir núna í samfélaginu í kjölfar kórónuveirunnar. Tillagan bætir hag barnafjölskyldna, aldraðra og fatlaðra sem njóta þjónustu borgarinnar.

Breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-3 vegna innheimtu skráningar og eftirlitsgjalda af hundaeigendum.

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum. Tillagan felur í sér að fjárheimildir umhverfis- og skipulagssviðs verði hækkaðar um 33.300 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Greinargerð:

Flutningur þessa málaflokks hefur nú færst frá heilbrigðiseftirliti borgarinnar yfir til Íþrótta- og tómstundaráðs. Reykjavíkurborg hefur ákveðið að áfram skuli innheimt skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum þrátt fyrir að verkefni hundaeftirlitsmanna hafi snarfækkað. Hundaeigendur eiga að halda uppi dýraþjónustu í borginni með gjaldtöku fyrir að eiga hund. Þeim er skylt að greiða skráningargjald, 11.900 kr., eftirlitsgjald, 9.900 kr., og handsömunargjald sleppi hundurinn, kr. 30.200. Enginn afsláttur er gefinn ef fólk á fleiri hunda og ekki er hægt að framselja leyfi. Komið er inn ákvæði um refsingar sé samþykktinni ekki fylgt, allt að fjögurra ára fangelsi. Hundaeigendur þurfa ekki á dýraþjónustu Reykjavíkur að halda. Hagsmunasamtök hundaeigenda sjá um flest allt, t.d. fræðslu. Matvælastofnun sinnir ábendingum ef grunur er t.d. um illan aðbúnað. Áfram á að halda inni að birta lista yfir hvar hundar eiga heima. Fulltrúa Flokks fólksins finnst engin haldbær rök vera fyrir því. Í lögum er það alveg skýrt að þjónustugjald má ekki innheimta umfram kostnað við þjónustuna en sá áskilnaður krefst ákveðins gegnsæis. Því miður hefur borgin ekki sinnt þeirri skyldu að veita upplýsingar um kostnað á bak við gjaldið þegar eftir því hefur verið leitað. Skráning á gæludýrum er mikilvæg sem og örmerkjaskráning sem er lögbundin skylda. Ef skráningargjald verður afnumið mun skráðum dýrum fjölga. Ef innheimta á skráningargjöld mun einfaldlega færri hundaeigendur skrá hunda sín. Gjaldtakan hefur fælingarmátt. Það ætti að vera markmiðið að sem flestir hundaeigendur skrái hunda sína. Hundaeftirlitsgjaldið er barn síns tíma og hefur aðeins verið innheimt af hundaeigendum. Sum önnur sveitarfélög hafa engin gjöld af þessu tagi.

Bókun Flokks fólksins við gjaldskrártillögum 

Fulltrúi Flokks fólksins hvetur til aðgerða sem eru sértækar og beinast að þeim verst settu. Allar gjaldskrár á grunnþjónustu verða nú hækkaðar og krafist er hagræðingar hjá sviðum sem mæðir mest á. Fulltrúi Flokks fólksins vill að fallið verði frá gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem koma beint við buddu þjónustuþega sem eru margir öryrkjar og lágtekju heimili. Fulltrúi Flokks fólksins styður gjaldskrárhækkanir sem tengjast launum t.d. stuðningsfulltrúa.

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir einnig áframhaldandi innheimtu skráninga- og eftirlitsgjalds á hundaeigendur sem eru nú einu  gæludýraeigendurnir sem halda uppi dýraþjónustu í borginni.

Bókun Flokks fólksins við tillögum um viðmiðunartekjur afsláttur fasteignagjalda 2022
Fullrúi Flokks fólksins vill að gripið sér til sértækra aðgerða þegar kemur að elli- og örorkulífeyrisþegum og leggur þess vegna til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega hækki um 6% milli ára. Það er gömul saga og ný að fjárhæðir almannatrygginga hækka aldrei í réttu samræmi við kaupmáttarþróun. Öryrkjar og ellilífeyrisþegar fá sjaldan sambærilegar kjarabætur og fólk á almennum vinnumarkaði. Við erum að tala um fátækasta fólkið og 3,6% hækkun á afsláttarviðmiðunum dugar ekki til að halda í við verðbólgu. Því er lagt til að viðmiðin hækki um 6% milli ára.

Bókun Flokks fólksins við fyrri umræðu frumvarps að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 ásamt greinargerð fjármála- og áhættustýringarsviðs og starfsáætlunum:

Það eru ýmis atriði sem gera það að verkum að það er rétt að hafa áhyggjur af fjárhagslegri stöðu A-hluta Reykjavíkurborgar. Veltufé frá rekstri er óásættanlega lágt. Það er neikvætt á árinu 2021 og einungis er gert ráð fyrir að það verði um 1,9% af heildartekjum á árinu 2022. Á sama tíma vaxa skuldir verulega. Lántaka vex úr 9,4 ma.kr. á árinu 2020 í 25 ma.kr. á árinu 2021. Þessi þróun heldur áfram á árinu 2022 en þá er gert ráð fyrir nýrri lántöku upp á 25 ma.kr. Afborganir langtímalána tvöfaldast milli áranna 2020 og 2022. Þær hækka úr 1,8 ma.kr. í 3,6 ma.kr. Veltufjárhlutfall lækkar og er komið undir 1,0 á árinu 2022. Á sama tíma er áætlað að fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum tvöfaldist. Kostnaður við þær vex úr 15,6 ma.kr. í 32,4 ma.kr. Vitaskuld þarf að standa að fjárfestingum en aukning þeirra má ekki vera úr öllum takti við fjárhagslega getu borgarinnar. Mikil aukning skulda eykur óöryggi í rekstri hennar og gerir borgina viðkvæmari fyrir því að geta alltaf staðið undir skuldbindingum sínum. Ástæða er til að gera þá kröfu til meirihluta borgarstjórnar að hann geri skýra grein fyrir hvernig fyrrgreindri þróun í fjármálum Reykjavíkurborgar skuli mætt.

 

Bókun Flokks fólksins við  fyrri umræðu frumvarps að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026 sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október sl:

Í fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026 kemur fram sýn meirihluta borgarstjórnar á hvernig fjármál A-hluta borgarsjóðs þróast á komandi árum. Þar kemur fram að reksturinn muni fara batnandi á komandi árum. Í því sambandi er eðlilegt að velta fyrir sér hvort kostnaður við kaup á vörum og þjónustu sé vanmetinn þar sem hann hækkar mun minna en bæði launakostnaður og tekjuhliðin. Á þessu tímabili er reiknað með að taka 91,6 ma.kr. að láni. Á sama tíma er áætlað að greiða í afborganir lána um 34,6 ma.kr. Langtímaskuldir hækka úr 97,4 ma.kr. í 131,7 ma.kr. Fyrirhugaðar fjárfestingar eru 141,6 ma.kr. Sala byggingaréttar er áætluð 25 ma.kr. Árlegar afborganir langtímalána hækka um 129%. Veltufé frá rekstri sem hlutfall af heildartekjum er öll árin undir því sem talið er ásættanlegt. Það sem vekur sérstaka athygli er að veltufjárhlutfall lækkar úr 1,0 niður í 0,7. Einnig er handbært fé í árslok undir lok tímabilsins einungis 58% af því sem það er í upphafi. Hvort tveggja þýðir að lausafjárstaða borgarinnar mun versna verulega. Það gerist vegna mikillar skuldaaukningar samtímis því að reksturinn skilar minna upp í afborganir lána og fjárfestingar en nauðsynlegt er. Flokkur fólksins varar við að halda óbreyttri stefnu í fjármálastjórn borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir borgarráðs frá 28. og 29. október sl. undir 12. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs og 10. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um hversu margir læsisfræðingar starfa í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Það er vissulega rétt í svari sviðsstjóra að það eru til margir sérfræðingar sem hafa góða og haldbæra þekkingu á læsi en þeir hafa í fæstum tilvikum menntað sig sérstaklega í læsisfræðum og eru því sjaldnast með yfirgripsmikla menntun á sviði læsis og læsisfræðingar. Félag læsisfræðinga, sem er ársgamalt, hefur verið að kynna möguleg hlutverk læsisfræðinga. Félagið fylgir viðmiðum Alþjóðlegu læsissamtakanna. Vettvangur læsisfræðinga er kennsla nemenda sem eiga erfitt með lestur og ritun, umsjón með skimun og prófunum og greiningar á lestrarvanda. Margir tjá sig um lestur og læsi enda ekki vanþörf á í ljósi fyrri PISA kannanna. Nú styttist í næstu PISA og eru margir uggandi um hver útkoma hennar verður. Bókun við lið 10 í fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 20. október. Fuglalíf í og við Reykjavík er skráð og varðveita ber þann þátt umhverfisins eins og kostur er. Náttúrulega fuglalífið tengist mjög votlendinu í borginni. Í skýrslu um vöktunina kemur m.a. fram að grunnu strandsvæðin, sérstaklega leirur, eru einstaklega mikilvæg svæði fyrir fugla. Taka á mið af þessu þegar t.d. farið er í landfyllingar.