Borgarstjórn með ungmennum

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um betra aðgengi að
sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur sem hljóðar svo:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela velferðarsviði að bæta aðgengi fyrir unglinga að sálfræðiþjónustu í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Miðað skal við að
aðgengi hafi verið bætt eigi síðar en í janúar 2023.

Fulltrúi Flokks fólksins er afar þakklátur fyrir þessa tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur sem og allar þessar frábæru tillögur sem ungmenni Reykjavíkurráðs leggja fram á fundi borgarstjórnar í dag. Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist fyrir því allt kjörtímabilið að biðlistum barna til sálfræðinga skóla og annarra fagaðila skóla verði eytt. Árum saman hefur sálfræðingum ekki fjölgað í skólum en börnunum hefur fjölgað. Aðsetur sálfræðinga ætti einnig skilyrðislaust að vera í skólunum sjálfum. Fyrir börnin og foreldrana skiptir sýnileiki sálfræðinga og aðgengi að þeim máli.
Börnin og foreldrar þeirra þurfa að þekkja skólasálfræðinginn.

Umsóknum um þjónustu í skólum hefur fjölgað gríðarlega frá 2020. Nú bíða um 1804 börn eftir aðstoð fagfólks skóla. Bæst hafa við tugir barna á örstuttum tíma. Það viðbótarfjármagn sem veitt hefur verið í málaflokkinn á árinu er dropi í hafið og sér varla högg á vatni í stóra samhenginu. Brýnna er en orð fá lýst að ganga í þetta verkefni enda hefur hver skýrslan á fætur annarri staðfest að andleg líðan unglinga fari versnandi. Við eigum að geta gert forgangskröfu um að börn hafi gott aðgengi að sálfræðingum – það er einfaldlega svo mikið í húfi!