Skóla- og frístundaráð 25. janúar 2022

Bókun Flokks fólksins við tillögu  borgarstjóra, dags. 13. desember 2021, um kaup á skólavörum af Múlalundi. SFS2021080310

Í þrjú ár hefur Múlalundur, sem er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku, reynt að fá Reykjavíkurborg að samningaborðinu. Um 80 prósent starfsmanna Múlalundar er með lögheimili í Reykjavík og það er löng bið eftir plássi þar. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í ágúst sl. að skóla- og frístundaráð kaupi skólamöppur frá Múlalundi.

Nú ætlar borgarstjóri að versla ákveðið magn af skólamöppum af Múlalundi. Það er ánægjulegt. Það á einfaldlega að versla við Múlalund það sem framleitt er þar og skólar í borginni geta notað. Það fjármagn skilar sér til baka í verkefnum fyrir þá sem fá ekki vinnu annars staðar. Þarna eru flestir að vinna sem eru skjólstæðingar Reykjavíkurborgar. Við eigum að standa saman að jákvæðu hugarfari og jákvæðri uppbyggingu. Með því að versla við Múlalund er ekki verið að bruðla heldur skapa atvinnutækifæri fyrir stóran hóp og velja að nota íslenskt í stað þess að flytja inn vörur frá t.d. Asíu. Þessi aðgerð skerðir þess utan ekki fjárheimildir sviðsins. Fulltrúi Flokks fólksins vonar innilega að viðskiptin aukist hratt og að þau séu komin til langrar framtíðar.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 24. ágúst 2021 þess efnis að skóla- og frístundasvið kaupi skólamöppur frá Múlalundi. Fram til þessa hefur Reykjavíkurborg hunsað Múlalund – vinnustofu SÍBS varðandi kaup á margskonar skólavörum ólíkt öðrum sveitarfélögum.

Tillaga er samþykkt.
SFS202108310

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins sem hér er lögð fram um að skóla- og frístundaráð kaupi skólamöppur frá Múlalundi er samþykkt. Því ber að fagna. Fulltrúi Flokks fólksins elur þá von í brjósti að fljótlega verði gengið alla leið og verslað alfarið skólavörur frá Múlalundi.

Um 80 prósent starfsmanna Múlalundar er með lögheimili í Reykjavík og það er löng bið eftir plássi þar. Sífellt er krafa frá borginni um að Múlalundur ráði fleiri starfsmenn með lögheimili í borginni. Við eigum að standa saman að jákvæðu hugarfari og jákvæðri uppbyggingu og nota öll tækifæri til að velja íslenskar vörur að sjálfsögðu. Hér græða allir. Því meiri sem eftirspurnin er eftir skólavörum frá Múlalundi því fleiri atvinnutækifæri eru sköpuð fyrir stóran hóp sem nú þegar vinna hjá Múlalundi og sem eru á biðlista eftir að vinna hjá Múlalundi. Þess utan hefur það verið staðfest að viðskiptin skerða ekki fjárheimildir skóla- og frístundasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að viðskiptin ekki aðeins aukist heldur séu komin til langrar framtíðar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Múlalundur vinnustofa SÍBS heldur úti samfélagslega þýðingarmikilli starfsemi sem felur í sér mikilvæg atvinnutækifæri fyrir fólk með skerta starfsorku. Þar starfar saman fjölbreyttur hópur fólks með og án örorku og eftirspurn eftir störfum er mikil. Starfsmenn eru tæplega 50 í um 25 stöðugildum en um 80 manns gefst færi á að spreyta sig árlega við störf á Múlalundi. Með samkomulagi Reykjavíkurborgar og Múlalundar sem borgarráði samþykkti skömmu fyrir jól mun Reykjavíkurborg kaupa 15 þúsund stykki af skólavörum að verðmæti 4,5 m. kr sem munu tryggja verkefni fyrir starfsfólk Múlalundar það sem eftir lifir vetrar og fram á sumar.

Bókun Flokks fólksins við umræðu og kynning um loftslagsþing grunnskóla í Reykjavík:

Loftlagsþing grunnskóla í Reykjavík er frábært verkefni og eru viðfangsefnin ærin. En hvar eru skólar Reykjavíkur staddir í grænfána hugmyndinni? Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 2018 að borgin beitti sér með hvatningu og einnig fjárhagslega fyrir því að allir skóla í Reykjavík yrðu Grænfánaskólar. Tillögunni var hafnað. Sumir skólar eru Grænfánaskólar en ekki allir. Vissulega geta skólar verið grænir, heilsueflandi og í umhverfisstarfi þótt þeir séu ekki grænfánaskólar. Grænfáninn er Evrópskt verkefni og skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Borgin ætti því hiklaust að nota þennan mælikvarða og styðja og styrkja alla skóla til að taka upp græna fánann. Sumir skólar hafa sagt sig úr verkefninu vegna tilkostnaðar. Það er miður. Hér er ekki um stórar upphæðir að ræða í heildarsamhenginu að mati fulltrúa Flokks fólksins. Auðvitað eru það verkefnin sem skipta máli en allt hangir þetta saman, hvatning, hugmyndafræðin, verkefnin og síðan hin raunveruleg verk, atferli og hegðun. Öllu máli skiptir að börnin séu virkir þátttakendur í verkefnunum. Til dæmis ef horft til matarsóunar þá er mikilvægt að leyfa börnum að skammta sér sjálf og vigta leifarnar. Raunveruleg þátttaka skiptir mestu máli því hún vekur börnin til vitundar um umhverfið sitt.

Bókun Flokks fólksins við tillögu  skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 14. desember 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að umræðan er tekin á fundinum og er um að ræða myglu og raka í Laugarnesskóla, Laugalækjaskóla og Hagaskóla. Staðan í Laugalækjarskóla er þannig að vonir standa til að viðgerð ljúki senn. Búið er að gera við nokkrar stofur og nú er verið að gera við fleiri sem reiknað er með að verði lokið í lok febrúar. Þetta eru engin smámál og hefur 10. bekkur sótt kennslu í KSÍ húsinu. Fulltrúi Flokks fólksins óttast sífellt að vandi sem þessi sé oft vanmetinn enda ekki alltaf sýnilegur vandi. Vanda þarf til verka og ef ákall kemur um frekari viðgerðir að grípa þá strax inn í. Það var ekki raunin með Fossvogsskóla eins og lengi verður í minni haft. Eins er því velt upp hvort foreldrar barna í Lauganesskóla vita af myglunni og rakanum sem þar hefur fundist á nokkrum stöðum?

Í málum af þessu tagi þýðir ekki að horfa í krónuna. Verið er að súpa seyðið af áralangri vanrækslu á viðhaldi skólabygginga í borginni. Viðhaldsskuld borgarinnar er orðin ansi stór og komið er að skuldadögum. Hvað varðar Hagaskóla er óhætt segja að þar er staðan háalvarleg. Ljóst er að fara þarf í byggingarframkvæmdir hið fyrsta.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu og kynning um stöðu mála í Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla og Hagaskóla:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að umræðan er tekin á fundinum og er um að ræða myglu og raka í Laugarnesskóla, Laugalækjaskóla og Hagaskóla. Staðan í Laugalækjarskóla er þannig að vonir standa til að viðgerð ljúki senn. Búið er að gera við nokkrar stofur og nú er verið að gera við fleiri sem reiknað er með að verði lokið í lok febrúar. Þetta eru engin smámál og hefur 10. bekkur sótt kennslu í KSÍ húsinu. Fulltrúi Flokks fólksins óttast sífellt að vandi sem þessi sé oft vanmetinn enda ekki alltaf sýnilegur vandi. Vanda þarf til verka og ef ákall kemur um frekari viðgerðir að grípa þá strax inn í. Það var ekki raunin með Fossvogsskóla eins og lengi verður í minni haft. Eins er því velt upp hvort foreldrar barna í Lauganesskóla vita af myglunni og rakanum sem þar hefur fundist á nokkrum stöðum? Í málum af þessu tagi þýðir ekki að horfa í krónuna. Verið er að súpa seyðið af áralangri vanrækslu á viðhaldi skólabygginga í borginni. Viðhaldsskuld borgarinnar er orðin ansi stór og komið er að skuldadögum. Hvað varðar Hagaskóla er óhætt segja að þar er staðan háalvarleg. Ljóst er að fara þarf í byggingarframkvæmdir hið fyrsta.

Bókun Flokks fólksins við svari  sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. desember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda kennara sem hafa sagt upp störfum í Fossvogsskóla:

Spurt var um hvað margir kennara hafa sagt upp störfum í Fossvogsskóla og er svarið að af 31 kennara hafa 9 kennarar sagt upp störfum sl. tvö ár. Þetta er tæpur þriðjungur. Fulltrúi Flokks fólksins er sleginn yfir þessum upplýsingum en skilur vel að kennarar hafi upp til hópa gefist upp á að starfa við skólann í ljósi þeirra erfiðleika sem þar hafa verið í langan tíma. Það tók yfirvöld í borginni allt of langan tíma að taka við sér og grípa inn í mygluvandamál skólans.

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum um starfsmannamál Fossvogsskóla:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir áhyggjur áheyrnarfulltrúa foreldra af starfsmannamálum og samskiptum við stjórnendur í Fossvogsskóla. Þriðjungur kennara tæpur hafa sagt upp sl. tvö ár. Áhyggjur eru af því að enginn virðist vilja gæta hagsmuna nemenda og kennara. Eftir því sem fram kemur segist skólastjóri ekki gera það en sviðsstjóri segir það vera hlutverk skólastjóra Fossvogsskóla að gæta hagsmuna nemenda og starfsfólks. Hver bendir á annan sem auðvitað gengur ekki upp. Hlutverk verða að vera skýr og skilgreina þarf hvað felst í „hagsmunum“ í þessu tilfelli. Nú styttist í næstu viðhorfskönnun og vonandi verður svarhlutfall hærra en í fyrra sem var þá óvenju lágt. Það er mjög mikilvægt nú að fá fram viðhorf starfsmanna til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta sem stjórnendur nýta til að bæta starfsumhverfið ekki síst í ljósi þess sem á undan er gengið í skólanum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn og hvaða stafrænar lausnir sem til stóð að virkja eru komnar í virkni:

Á fundi skóla- og frístundaráðs var farið yfir fjárhagsáætlun sviðsins og talað um kostnað vegna Stafrænna „grósku“ eins og það var orðað. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum frá skóla- og frístundasviði hvað af þeim rafrænum/stafrænu lausnum sem ákveðið hefur verð að sviðið fái á kjörtímabilinu eru komnar í fulla virkni og farnar að skila tímasparnaði. Hvaða lausnir eru rétt ókomnar og hvaða lausnir eru enn á tilraunastigi eða í þróunarfasa? Og hvaða raf/stafrænar lausnir, ef einhverjar, sem áttu að vera tilbúnar núna eru ekki fyrirsjáanlegar að komist í virkni á þessu ári? Óskað er eftir upplýsingum um ástæður fyrir af hverju þær lausnir komust aldrei í notkun eins og ráðgert var. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram spurningu á fundinum en óskað var eftir að hún yrði lögð fram með formlegum hætti og er það hér með gert.

Bókun við fyrirspurn um viðhorfskönnun skóla- og frístundasviðs:

Samkvæmt svari þá verður næsta viðhorfskönnun í byrjun mars en þær eru venjubundið árlega. Einnig var spurt um hvernig mælingar komu út og þá væntanlega vísað til niðurstöðu könnunar 2021. Ef litið er til könnunarinnar frá 2021 man fulltrúi Fokks fólksins ekki betur en að svarhlutfall skóla- og frístundasvið hafi verið óvenju lágt eða innan við 60%, á meðan svarhlutfall mannauðssvið var sem dæmi 95% svona rétt til samanburðar. Spurning var hvernig á að túlka þetta lága svarhlutfall?

Framtíð skólamála í Laugardal.
Málið var ekki á dagskrá

Bókun Flokks fólksins:

Það vantar meira samtal við foreldra og skýrari tímalínu fyrir hverja sviðsmynd fyrir sig. Þreyta er komin í íbúa vegna tafa þessara mála. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að foreldrum sé ekki haldið nægjanlega upplýstum. Til dæmis vita þau að skilafrestur til að senda inn umsagnir um tillögur skýrslunnar rennur út 1. febrúar 2022?

Í umræðuna flækist sú spurning hvort stefnt sé að því að nýta nýjan þjóðarleikvang fyrir íþróttakennslu og æfingar. Og ef svo er verða börnunum þá tryggður forgangur að ásættanlegri aðstöðu verði þeim ætlað að iðka skólaíþróttir á nýjum þjóðarleikvangi.

Ekkert bólar heldur á hvort kostnaðargreining á þeim sviðsmyndum sem um ræðir liggi fyrir en það var nú ástæðan fyrir fyrirhuguðum breytingum. Hvað er fjárhagslega best og faglegast að gera er aðalmálið. Það má deila á það fyrirkomulag því reynslan hefur sýnt að íþróttaiðkun barnanna þarf endurtekið að víkja úr húsunum fyrir íþróttakeppnum, tónleikum og allskonar viðburðum í Laugardalshöll. Þörfin er brýn, aðstaðan er löngu sprungin og þolinmæði íbúa í hverfinu að þrotum komin.