Borgarráð 10. mars 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 20. janúar 2021, vegna fýsileikakönnunar um samræmda úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar 2021, ásamt fylgiskjölum:

 

Tillaga er frá Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um samræmingu úrgangsflokkunnar. Reykjavík er að verða eftirbátur í sorpmálum ef tekið er mið af öðrum sveitarfélögum. Fulltrúi Flokks fólksins lagði það til í upphafi kjörtímabilsins að komið yrði upp þriggja tunnu flokkunarkerfi en tillagan var felld með þeim rökum að hún væri kostnaðarsöm. Í tillögu Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu felst að hvert heimili hafi fjóra úrgangsflokka; pappír, plast, blandað sorp og lífrænt efni. Spurning er hvort þetta eigi að vera valkvætt eða skylda. Það vekur upp margar spurningar um útfærslu. Sérsöfnun frá heimilum er auðvitað lang áhrifaríkasta leiðin. Ef nýta á úrgang sem hráefni í aðra vinnslu þarf að flokka sem mest þar sem úrgangurinn verður til, á heimilum og í fyrirtækjum. Þeir sem búa til úrganginn ættu einnig að hafa mikið um flokkunina að segja. Kalla ætti eftir hugmyndum frá heimilum og fyrirtækjum hvernig talið er að gera mætti betur í flokkun sorps á þeim.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 2. mars 2021, ásamt fylgiskjölum um að fallast á hjálagt erindi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 7. janúar 2021, varðandi ósk um undanþágu frá upplýsingalögum fyrir dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur á samkeppnismarkaði:

Borgarstjóri leggur til að borgarráð samþykki að fallast á hjálagt erindi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 7. janúar 2021, varðandi ósk um undanþágu frá upplýsingalögum fyrir dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur á samkeppnismarkaði. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort þetta sé alveg nauðsynlegt? Hver á að gæta varðanna? Hverjir munu fá að sjá upplýsingar um rekstur þessara félaga sem eru í eigu borgarbúa? Kannski einhverjir handvaldir? Rökin eru að öll þessi fyrirtæki séu í samkeppnisrekstri og ef þau undirgangist upplýsingalög myndi það veikja stöðu þeirra. Þetta kann að vera rétt en getur engu að síður virkað illa á hinn almenna borgara.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á framkvæmdum og úrbótum á húsnæði Fossvogsskóla:

Í þessu máli er heilsa barna í húfi. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta og önnur sambærileg mál ekki hafa verið tekin nógu alvarlega. Foreldrar hafa ítrekað fullyrt að lengi, í yfir 2 ár hafi litlu eða engu verið svarað. Bæði fulltrúi Flokks fólksins og foreldrar kvarta yfir dónaskap og hroka frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í tengslum við þetta mál. Þessu til staðfestingar hefur fulltrúi Flokks fólksins skrifleg gögn. Svona framkoma er ekki líðandi. Hvort sem þetta er gró, mygla eða sambland, og hvort sem ástæðan sé galli eða ónógrar loftunnar, þá liggur það fyrir að húsnæðið er mengað og hefur skaðað heilsu barna. Allt of mikið er karpað um skýringar og hafa valdhafar misst sjónar af aðalatriðinu; heilsu barnanna. Óvíst er hvort allir nái sér til fulls. Það fyrirtæki sem ráðið var til að leysa vandann leysti hann ekki til fulls. Þessu fyrirtæki á áfram að treysta og er ekki kallað til ábyrgðar. Hverjir áttu að hafa eftirlit með viðgerðum og hvar liggur ábyrgðin? Þess utan voru það stórmistök að ætla að bregðast ekki strax við þegar kvartanir um veikindi fóru að berast aftur.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að skrifstofa borgarstjóra og borgarritara hafi forystu um það í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið, eignaskrifstofu, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, skrifstofu fjármála- og áhættustýringarsviðs og fagsvið borgarinnar að koma upp og skilgreina sérstakan meginverkferil innan borgarinnar þegar grunur vaknar um hugsanlegar rakaskemmdir og léleg loftgæði í húsnæði sem hýsir starfsemi borgarinnar.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi tillaga góð en getur ekki tekið undir hana vegna neikvæðrar framkomu Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gagnvart foreldrum og kjörnum fulltrúum í tengslum við þetta mál. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skriflegar staðfestingar sem lýsa dónaskap og hroka sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur sýnt í tengslum við málið. Á meðan vænta smá slíks viðmóts frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur treystir fulltrúi Flokks fólksins sér ekki til að kvitta upp á þessa annars ágætu tillögu sem ekki er annað hægt en að vera í grundvallaratriðum sammála um.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9,. mars 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skýrslu Verkís varðandi Fossvogsskóla, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. febrúar 2021:

Í þessu máli er heilsa barna í húfi. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta og önnur sambærileg mál ekki hafa verið tekin nógu alvarlega. Foreldrar hafa ítrekað fullyrt að lengi, í yfir 2 ár, hafi litlu eða engu verið svarað. Bæði fulltrúi Flokks fólksins og foreldrar kvarta yfir dónaskap og hroka frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í tengslum við þetta mál. Þessu til staðfestingar hefur fulltrúi Flokks fólksins skrifleg gögn. Svona framkoma er ekki líðandi. Hvort sem þetta er gró, mygla eða sambland, og hvort sem ástæðan sé vegna galla eða ónógrar loftunnar, þá liggur það fyrir að húsnæðið er mengað og hefur skaðað heilsu barna. Allt of mikið er karpað um skýringar og hafa valdhafar misst sjónar af aðalatriðinu; heilsu barnanna. Óvíst er hvort allir nái sér til fulls. Það fyrirtæki sem ráðið var til að leysa vandann leysti hann ekki til fulls. Þessu fyrirtæki á áfram að treysta og er ekki kallað til ábyrgðar. Hverjir áttu að hafa eftirlit með viðgerðum og hvar liggur ábyrgðin? Þess utan voru það stórmistök að ætla að bregðast ekki strax við þegar kvartanir um veikindi fóru að berast aftur.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Félagsbústaða, dags. 16. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um framkvæmdir og lagfæringar við Írabakka, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar 2020:

Enn og aftur kemur fram að verktakar skila ekki fullnægjandi verki. Eitthvað er að verkstjórn af hálfu borgarinnar. Í skýrslunni segir “Frágangur klæðningar, þéttingar á gluggum og múrhúð reyndust ekki fullnægjandi. Kostnaður vegna úttektar nam um 1,7 m.kr. Þegar hafa verið gerðar lagfæringar fyrir 11 m.kr. og áætlað er að ljúka viðgerðum vegna þessa í sumar. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn verði um 33 m.kr„ Hér er ekki betur séð en að eftirliti sé alvarlega ábótavant. Hvar voru eftirlitsmennirnir? Hver ber ábyrgð á því þegar verktakar skila ekki góðu verki?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aukið fjármagn vegna styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. mars 2021:

Tillaga Flokks fólksins um að sett verði nægt fjármagn í styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki er vísað frá á fundi borgarráðs. Tillagan snýr að vaktavinnufólki en borðliggjandi er að gera þarf miklar breytingar á vaktakerfi, vaktaplönum og launaforritum. Þessu þarf að fylgja fullnægjandi fjármagn. Upphaflega var það dómgreindarleysi að setja sem grunnforsendu fyrir styttingu vinnuviku dagvinnufólks að ekki mætti fylgja breytingunni kostnaðaraukning. Heyrst hefur að starfsfólk leikskóla sé nú þegar að sligast undan álagi. Eins mikið og það mun fagna styttingu vinnuviku eru ómældar kröfur til þeirra um að hlaupa hraðar og bætast þær nú ofan á stöðuna sem er víða slæm. Ekki bætir úr skák að mannekla faglærðra er mikil. Fólk með 5 ára háskólamenntun sættir sig ekki við þessi laun.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tekjutengingu gjalda vegna frístundaheimila, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. mars 2021:

Tillaga Flokks fólksins um tekjutengingu gjalda vegna frístundaheimilis hefur verið felld með þeim rökum að ekki sé hægt að breyta fjárhagsáætlun. Það verður að nefnast hér að sérstakt er að hlusta á málflutning frambjóðenda Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningar nú í haust og bera hann saman við stefnu sama flokks í Reykjavík. Þeir fyrrnefndu hvetja til sértækra aðgerða til að draga úr ójöfnuði en Samfylkingin í Reykjavík hefur aldrei ljáð máls á því heldur hafnað hverri tillögunni á fætur annarri um að hlúa sérstaklega að þeim sem minnst mega sín. Sú tillaga sem hér var lögð fram hefur tímarammann 2022 og þegar er vitað hver kostnaðurinn er. Niðurgreiðsla vegna gjalda á frístundaheimilum yrði um 13 .000.000 kr. á ári. Það ætti að vera Samfylkingunni ljúft að taka undir tillögu sem þessa, þ.e.a.s. vilji þau reyna að vera samkvæm sjálfri sér eða í einhverjum takti við Samfylkinguna á Alþingi nema að flokkurinn hafi klofnað? Reyndar er orðið fátt sem minnir á upphaflegu stefnu Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna í borginni. Báðir flokkar hafa vikið verulega frá því að geta kallast jafnaðarflokkar. Alla vega ekki þegar litið er til rúmlega 900 barna á biðlista eftir fagþjónustu skóla. Aðeins þeir efnameiri geta sótt slíka þjónustu hjá sjálfstætt starfandi fagaðilum.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 1. mars 2021, undir 7. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins saknar þess að sjá ekki umræðu um fyrirhugaða lagningu Arnarnesvegar undir liðnum “Málefni hverfisins„, ekki síst þegar fyrir liggur að Skipulagsstofnun telur ekki þörf á nýju umhverfismati. Umhverfismatið sem á að byggja á er frá 2003. Það er sorglegra en tárum taki að skipulagsyfirvöld í Reykjavík skyldu ekki beita sér af krafti fyrir því að fengið yrði nýtt umhverfismat. Þetta er miður í ljósi grænna áherslna meirihlutans. Viðreisn, einn flokka í meirihluta, var ekki með í bókun hinna meirihlutaflokkanna þar sem tekið er undir umsögn heilbrigðiseftirlitsins um að fengið verði nýtt umhverfismat. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því væri ekki þörf á nýju umhverfismati. Segir í rökum að áformin séu umfangsminni en áætlað var. Ekki verði því aukið ónæði í Fellahverfi og ekki hafi þau heldur áhrif á hljóðvist í Seljahverfi og Kórahverfi. En um þetta er ekkert hægt að fullyrða. Það faglega í stöðunni er að fá nýtt mat á hvaða áhrif þessi vegur mun hafa á náttúru, umhverfi og nærliggjandi byggð enda hefur margt breyst frá árinu 2003 á þessu svæði. Hér er málefni sem ræða ætti á fundi íbúaráðs Breiðholts.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars 2021,  undir 7. lið fundargerðarinnar:

Af svari að dæma mætti lesa það út að sérfræðingar sem eru ráðnir hjá borginni séu helst að sinna verkefnastjórastarfi. Þeir leita að öðrum góðum sérfræðingum og ráða þá í verktakavinnu. Með þessu er verið að vanmeta og vannýta færni og þekkingu fastráðinna sérfræðinga borgarinnar. Þess utan er þetta óhemju dýrt. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það þarf að sýna aðhald í fjármálum. Öll þessi verk þarf að vinna, svo mikið er víst, en í reglum Reykjavíkurborgar um framkvæmd fjárhagsáætlunar er kveðið á um að sviðsstjórar og stjórnendur skuli hafa frumkvæði að því að innleiða umbætur í rekstri til að bæta þjónustu, auka skilvirkni og lækka kostnað. Sú leið er farin að ráða hámenntaða sérfræðinga sem síðan eru látnir vera umsjónarmenn yfir aðkeyptri vinnu, verkefnum sem hefur verið útvistað til einkafyrirtækja. Útvistun er dýrasta leiðin sem hægt er að fara. Er það í alvörunni skoðun ráðamanna að það borgi sig að kaupa vinnu af verkfræðistofum frekar en að byggja upp þekkingu hjá borginni? Er ekki hægt að hagræða og byggja upp færni, jafnvel þótt það kosti mannaráðningar?

 

Bókun Flokks fólksins við embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði,  undir 1. lið yfirlitsins:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir áhyggjur sem lýst er í ályktun Félags grunnskólakennara um stöðu drengja í íslensku menntakerfi. Í Reykjavík er vandamálið komið úr böndum. 957 börn bíða eftir fagþjónustu;, 360 stúlkur og 597 drengir. Drengir eru í meirihluta í öllum flokkum. Eins og sjá má í niðurstöðum PISA eru drengir að koma verr út en stúlkur í lestri og lesskilningi. Þessi mál þarf að rýna og rannsaka. Skýringar geta verið af ýmsum toga en ekki hefur skort á leiðbeiningar sérfræðinga um hvað gera þarf í lestrarmálum til að barn útskrifist ekki illa læst úr grunnskóla. Leiðbeiningum hefur hins vegar ekki verið fylgt. Um 30% barna er í sérkennslu, meirihlutinn drengir. Niðurstöður sem m.a. hafa verið birtar í skýrslum Landlæknisembættisins hafa sýnt að fleiri stúlkur en drengir hafa hugleitt sjálfsvíg en fleiri drengir en stúlkur eru á skrá yfir dauðsföll vegna sjálfsvíga á aldrinum 16-20 ár. Þessi mál eru háalvarleg og því afar brýnt að gripið verði til aðgerða til að snúa þessari óheillaþróun við. Liður í því er að sérfræðingar tengdir viðfangsefninu vinni saman þvert á stofnanir og svið.