Eineltisumræða: Gengið í bekki

Námsráðgjafi, sálfræðingur eða einhver annar sem fenginn er til verksins heimsækir bekki í upphafi annar og ræðir kjarna eineltismála við krakkana. Mikilvægt er að umsjónrkennari sé viðstaddur því að í kjölfarið vakna iðulega spurningar sem þarfnast svara og umræðna.

Með því að ganga inn i bekki með þann boðskap sem hér birtist að neðan er verið að fyrirbyggja að eineltismál komi upp í viðkomandi skóla og kalla eftir samstöðu barnanna sem og innbyrðis samkennd.

Ræðum beint við börnin, horfum í augum á þeim og leitum til þeirra eftir samvinnu til að fyrirbyggja að stríðni og einelti fái þrifist á staðnum. Enginn vill vera í sporum þeirra sem er strítt eða lagður í einelti.

Segja:

“Mig langar til að ræða við ykkur um alvarleg málefni en fyrst og fremst um hegðun og framkomu og það að koma ávallt vel fram við hvert annað hvernig svo sem ykkur kann að líka við hvert annað.

Einelti er ofbeldi og nú skulum við fara saman yfir helstu birtingamyndirnar:”

 • Einelti er þegar einn aðili eða fleiri sem hann eða hún fær í lið með sér, níðist á öðru barni t.d. með því að segja ljót orð, hæða, niðurlægja, útiloka eða meiða á annan hátt, sálfræðilega eða líkamlega
 • Uppnefningar og baktal eða hvísl um einhvern annan
 • Neikvæðar sögur, frásagnir eða lygar um einhvern sem koma honum illa
 • Segja öðrum að útiloka einhvern ákveðinn einstakling, tala ekki við hann, hunsa hann
 • Þegar einhver er skilinn útundan, gefið í skyn að hann einn sé ekki velkominn
 • Þegar gert er grín að öðrum vegna útlits eða þyngdar
 • Þegar hæðst er að menningu, trú eða húðlit einhvers
 • Þegar hæðst er að fötlun eða heilsuleysi einhvers
 • Þegar einhver einn einstaklingur fær ekki að vera með í leikjum eða íþróttum
 • Þegar gert er grín að einhverju og síðan þóst að verið sé að „djóka“
 • Þegar neitað er að vinna með eða sitja hjá ákveðnum einstaklingi í skólanum
 • Þegar eigur annarra eru eyðilagðar, þeim stolið eða þær faldar
 • Þegar einstaklingur er meiddur, í hann sparkað, hann sleginn, hrækt á hann eða honum hrint
 • Þegar illkvittin skilaboð eru send eða komið til skila með einhverjum hætti t.d. þegar Netið eða gsm síminn er notaður til að gera eitthvað af því sem nefnt hefur verið hér að ofan. Þetta er kallað rafrænt einelti. Neikvæðum, skaðlegum skilaboðum um einhvern er komið áleiðis til annarra í gengum:
  – MSN
  – Tölvupóst
  – Facebook
  – Blogg
  – SMS
  – Tekin mynd með GSM síma og sett á Netið til að hæðast að eða svívirða þann sem myndin er af
  – Aðrar netsíður sem einelti hefur stundum viðgengist á: YouTube, spjallrásir.

“Ræðum einnig betur um rafræna eineltið og þá er gott að hafa í huga að:

ALLT SEM SKRIFAÐ ER Á NETIÐ ER OPINBERT SEM ÞÝÐIR AÐ MARGIR GETA LESIÐ ÞAÐ, TEKIÐ AFRIT AF ÞVÍ OG GEYMT ÞAÐ TIL AÐ SÝNA ÖÐRUM ÞAÐ SEINNA. MARGIR HALDA AÐ NÓG SÉ AÐ STROKA ÚT (delete) OG ÞÁ SÉ MÁLIÐ ÚR SÖGUNNI. EN SVO EINFALT ER ÞAÐ EKKI.

Rafrænt einelti á sér oftast stað heima t.d. heima hjá vini/vinum.”

VIÐVÖRUNARORÐ:

 • Varið ykkur á að skrifa aldrei neitt um aðra sem þið viljið ekki að sé skrifað um ykkur
 • Ekki láta plata ykkur til að vera með í að leggja í einelti

ENGINN VILL VERA Í SPORUM ÞOLANDA EINELTIS. HVERNIG LÍÐUR ÞEIM SEM LAGÐUR ER Í EINELTI?

 • Hann upplifir höfnun, finnst hann niðurlægður, hann kvíður því að fara í skólann, hann er hræddur, hann er einmana og einangraður og á oft fáa eða enga vini
 • Líf hans er stundum í rúst og margir ná sér aldrei almennilega aftur

SEGJA AÐ LOKUM:

 • Eigum við að hjálpast að og vinna saman að því að engin eineltismál komi upp hjá nemendum í þessum skóla?
 • Það þýðir að við verðum að koma fram við hvert annað af virðingu, kurteisi og hlýju
 • Ef þið verðið vör við (sjáið eða heyrið) einelti eða stríðni, láta þá kennara eða aðra starfsmenn skólans strax vita
 • Sá sem verður fyrir einelti/stríðni skal einnig láta foreldra sína strax vita

“Komi upp eineltismál í þessum skóla verður tekið á því af fullri alvöru. Rætt verður við alla þá sem að málinu koma og foreldrar þeirra boðaðir í viðtal.”

EKKERT RÉTTLÆTIR EINELTI. EINELTI Í HVAÐA MYND SEM ER, ER EKKI LIÐIÐ.

Eftir að talað hefur verið beint við börnin er mikilvægt að bréf sé sent heim til allra foreldra um hvaða skilaboð bekkurinn fékk. Foreldrar eru beðnir um að fylgja þeim eftir með umræðu um þessi mál við börn sín.

Kennarar eru beðnir um að ræða þessi atriði eitt eða fleiri með reglubundnum hætti og skal sú umræða ekki vera háð því að eineltismál hafi komið upp.

GERUM GÓÐ SAMSKIPTI AÐ LÍFSTÍL.