Borgarráð 25. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – eystri vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi:

Smáhýsi fyrir heimilislausa í Reykjavík hafa verið til umræðu um skeið. Markmiðið með smáhýsunum er að veita einstaklingum og pörum með fjölþættan vanda öruggt húsnæði. Erfitt hefur reynst að finna þessum smáhýsum stað. Mikilvægt er að smáhýsin séu nálægt allri helstu þjónustu og almenningssamgöngum. Það eru ekki allir sáttir við að fá smáhýsin í nærumhverfið. Vel kann að vera að almennt þurfi að auka þekkingu á málefnum heimilislausra á Íslandi og veita betri innsýn. Stundum nægja upplýsingar og fræðsla um málaflokkinn til að róa þá sem bera kvíðboga fyrir að fá þetta nýja búsetuúrræði í hverfið sitt. Fyrir einhverja sem fá úthlutað smáhýsi er það e.t.v. fyrsta heimilið þeirra í langan tíma, staður þar sem þeir geta dvalið á í stað þess að vera stöðugt á ferðinni. Heimili er ekki einungis skjól fyrir kulda og vosbúð. Tengslin við heimilið er ekki síður háð því að viðkomandi finni að hann er velkominn á staðinn og í hverfið. Það getur komið fyrir alla að vera heimilislausir. Skylda samfélagsins er að sjá til þess að allir hafi þak yfir höfuð sitt, stað sem þeir geta kallað heimili sitt. Að búa í samfélagi kallar á samtryggingu.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. júní 2020 á að falla frá breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarsundlaugar, lóð nr. 54 við Hofsvallagötu:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að skipulagsyfirvöld hafi séð að sér, séð að þetta hundagerði við Vesturbæjarlaug var illa hannað og skipulagt. Meðal galla var að hundagerðið var allt of lítið. Verst er að skipulagsyfirvöld skuli ekki hafa hlustað strax á hundaeigendur og varnaðarorð fjölmargra. Nú er búið að eyða tíma og fé borgarbúa í eitthvað sem var fyrirfram dæmt til að mistakast. Hönnun þessa hundagerðis var frá byrjun gölluð. Flokkur fólksins lagði fram margar bókanir og athugasemdir um hverju þyrfti að breyta til að gera gerðið fullnægjandi, bæði um stærð, lögun og girðingu, en ekki var hlustað þá. Mikilvægt er að hanna nýtt og gott hundagerði og gera það með hundaeigendum og íbúum.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 22. júní 2020, þar sem drög að erindisbréfi um undirbúning Græna plansins eru send borgarráði til kynningar:

Í Græna planinu eru mörg fín hugtök. Nokkur lúta að orkuskiptum sem ekki er þó alltaf mikið á bak við. Nokkuð er talað um að nota rafmagn í samgöngum svo sem að styrkja uppbyggingu hleðslustöðva í hverfum, rafvæða hafnir og almenningssamgöngur. En ekkert er minnst á að nota metan sem er þó sá orkugjafi sem það mikið er til af að því verður að brenna á báli, engum til gagns. Það er græn innlend afurð sem breytt gæti orkumálum borgarinnar til hins betra ef vel er haldið á spilunum. Enginn skortur verður á metani næstu ár þegar gas- og jarðgerðastöðin, GAJA, hefur bæst við. Því er nú sóað metani í stórum stíl. Stefna mætti að því að setja metan á alla stóra bíla borgarinnar sem dæmi, t.d. Strætó bs, flutningsbíla, greiðabíla og ferlibíla sem eru á vegum borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars velferðarsviðs, ódags., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað borgarmeirihlutinn hyggst gera fyrir eldri borgara vegna neikvæðra COVID-19 áhrifa á samfélagið:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið við fyrirspurn um hvað borgarmeirihlutinn hyggst gera fyrir eldri borgara vegna neikvæðra COVID-19 áhrifa á samfélagið. Einnig eru öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í vinnu sinni eða sem sjálfboðaliðar til að styðja og styrkja eldri borgara í COVID-19 aðstæðunum færðar þakkir. Ljóst er að mikið hefur verið gert og vonandi hefur náðst til allra sem þurftu aðstoð eða stuðning af einhverju tagi. Ástæða þess að fulltrúi Flokks fólksins fann sig knúinn til að leggja fram þessa fyrirspurn er að í ályktun Landssambands eldri borgara (LEB) frá 28. mars segir „að í öllum þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gert til að koma til móts við fyrirtæki og einstak-linga vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið sé hvergi minnst á aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins“. Í sömu ályktun skorar stjórn LEB á sveitarfélögin að taka upp gjaldfrjálsa matarheimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá matarsendingar heim til sín. Þegar stjórn LEB hefur áhyggjur hefur Flokkur fólksins áhyggjur enda er Flokkur fólksins stofnaður með það að markmiði að halda utan um viðkvæmustu hópa samfélagsins. Varðandi matarheimsendingar þá eru þær ekki fríar. Vel kann að vera að gjaldskráin sé sanngjörn en fyrir þá sem eru fátækir þá er allur kostnaður erfiður.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um frestun árlegs hundaeftirlitsgjalds, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 2020. Einnig er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. júní 2020.

Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga Flokks fólksins sem var um að fresta skuli árlegu hundaeftirlitsgjaldi þar til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum hefur verið felld. Þetta er ofureðlileg tillaga þar sem ekki er ljóst hvaða niðurstöðum hópurinn skilar af sér. Reglur um dýrahald og þjónusta við t.d. hunda og hundaeigendur er málaflokkur sem ekki hefur fengið að þróast með sambærilegum hætti og í borgum sem við berum okkur saman við. Stutt er síðan hundahald var leyft en áður voru hundar, slyppu þeir frá eigendum sínum, skotnir á færi í borginni. Í umsögn með tillögunni eru engin rök heldur vísað í eldri svör og á heimasíðu þar sem hagsmunasamtökum hundaeigenda er ætlað að finna allan sannleika. Hundaeigendur eru ekki tilbúnir að láta valta yfir sig með yfirgangi embættismanna og kalla á réttlæti og kalla einnig á að þeir sem starfi í þessum geira hafi ekki gildishlaðin viðhorf til dýranna og eigenda þeirra. Þöggun ríkir um vinnuskýrslur sem sýna verkefni eftirlitsins, en tölur sýna svo ekki verði um villst að verkefni þess eru orðin sárafá. Árið 2016 voru lausagöngumál aðeins 62 og og reikna má að þeim hafi fækkað enn frekar.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Hér bókar áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins og talar um yfirgang embættismanna í tengslum við innheimtu árlegra hundaleyfisgjalda. Gjöldum fyrir hundaleyfi er samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar um hundahald nr. 478 og er ætlað að standa undir kostnaði borgarinnar af hundahaldinu. Starfsfólk borgarinnar sinnir bara því sem því er gert að gera og ámælisvert að tala um yfirgang þess við þau störf. Engin þöggun á sér stað um störf hundaeftirlitsins enda má finna allar upplýsingar á vef borgarinnar eins og ítrekað hefur verið bent á í svörum við fyrirspurnum borgarfulltrúa Flokks fólksins. Nú er verið að leggja lokahönd á stefnu um dýraþjónustu í borginni og vænta má breytinga og betrumbóta fyrir dýraeigendur í borginni. Það verður hins vegar ekki borgarfulltrúa Flokks fólksins að þakka sem virðist hafa það eina á dagskrá sinni að níða skóinn af starfsfólki borgarinnar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er knúinn til að nefna með hvaða hætti svör frá heilbrigðiseftirlitinu eru lituð af neikvæðni í garð hundaeigenda sem kvarta yfir hundaeftirlitsgjaldinu og þess kjörins fulltrúa sem hefur sent inn fyrirspurnir og tillögur í máli er varða hundaeftirlitsgjaldið. Svörin við fyrirspurnum hafa einkennst af pirringi í málum er varðar þetta umrædda gjald sem hundaeigendur eru rukkaðir um. Það er mikilvægt að embættismenn láti ekki tilfinningar sínar lita afgreiðslu mála heldur gæti ávallt að fagmennsku. Í borginni eru ýmsir hagsmunaaðilar og hundaeigendum finnst á sér brotið í þessu máli. Flokkur fólksins er eini flokkurinn í borgarstjórn sem hefur barist fyrir þessum málaflokki og mun gera það áfram. Þess er vænst að meirihlutinn og embættismenn reyni að halda fagmennsku hvort heldur í þessu máli eða öðru. Á Íslandi er skoðana- og tjáningarfrelsi. Þess er einnig vænst að eitthvað bitastætt komi út úr vinnu stýrihóps um dýraþjónustu borgarinnar enda löngu tímabært og hópurinn verið lengi að störfum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur það hlutverk að standa með fólkinu í borginni sem finnst á sér brotið og mótmælir ef starfsmenn eða embættismenn reyna að níða skóinn af kjörnum fulltrúum þótt þeim líki ekki málareksturinn.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 9. júní 2020:

Lögin eru skýr. Handhafar stæðiskorta mega aka um göngugötu. Ef það eru stæði á göngugötu til að leggja þá ber borginni að merkja þau. Margir fatlaðir óttast engu að síður að aka göngugötu þrátt fyrir skýra lagaheimild. Þau óttast skipulagsyfirvöld sem fundið hafa þessari heimild allt til foráttu. Reynt er allt til að fæla fatlaða frá því að nýta sér heimildina. Sem dæmi er búið að stilla upp keilum við inngöngu göngugatna sem auðvitað eru fátt annað en skilaboð um að handhafar stæðiskorta haldi sig frá göngugötum. Beðið er viðbragða þingsins við minnisblaði skipulagsyfirvalda borgarinnar sem sent var 3. apríl sl. til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Skipulagsyfirvöld borgarinnar reyna að fá orðalag laganna breytt til að geta afmáð heimildina. Hér er um áralanga baráttu handhafa stæðiskorta að ræða sem loksins skilaði árangri og þetta vill borgarmeirihlutinn eyðilegga fyrir þeim. Þegar um er að ræða Menningarnótt eða aðra ámóta stórviðburði segir það sig sjálft að vélknúið ökutæki ekur ekki göngugötu nema í neyðartilvikum. Á göngugötu má aldrei aka hraðar en 10 km á klst.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð endurskoðunarnefndar frá 10., 15. og 18. júní 2020. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 15. júní og 1. lið fundargerðarinnar frá 18. júní:

Bókun við fundargerð endurskoðunarnefndar 15. júní liður 1: Áætlun innri endurskoðunar um sameiningu á hlutverkum umboðsmanns borgarbúa, persónuverndarfulltrúa og innri endurskoðunar. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að mörgu leyti tillögu um sameinaða starfsemi innri endurskoðunar, persónuverndarfulltrúa og embætti umboðsmanns borgarbúa sem vonandi leiðir til hagræðingar. Gæta þarf þó þess að sérhæfing og sértæk reynsla tapist ekki með sameiningu þessari. Áfram þurfa borgarbúar að geta treyst á að mál þeirra fái faglega og hlutlausa meðferð og afgreiðslu þegar þeir leita með málefni sín til embættisins. Oft er um að ræða viðkvæm málefni þar sem borgarbúi telur að á sér hafi verið brotið eða hann beittur misrétti. Bókun við lið 1 í fundargerð endurskoðunarnefndar 18. júní og varðar reikningsskil Félagsbústaða: Lögð er fram fyrirspurn Ríkisskattsjóra dags. 6. mars um að gera grein fyrir hvernig tryggt verður að innihald og framsetning skýrslu stjórnar Félagsbústaða hf. sé viðeigandi og uppfylli ákvæði VI. kafla laga um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. Fulltrúi Flokks fólksins setti einmitt þetta atriði sem einn af tveimur fyrirvörum við undirskrift ársreiknings 2019. Hér leikur vafi á um hvort reiknisskil Félagsbústaða hf. séu viðeigandi.

 

Bókun Flokks fólksins við innisblaði ADVEL lögmanna og Mannvits, dags. 19. júní 2020, varðandi mat á tilboðum útboðs Strætó bs. nr. 14799.

Það er bagalegt hvað þetta ferli allt tók langan tíma. Margir voru orðnir órólegir þar sem lítið hafði frést. Sennilega voru gildar ástæður fyrir því og vonandi var það líka vegna þess að reynt var að vanda til verka og tryggja að aksturinn færi til aðila sem gæti uppfyllt allar útboðskröfur og veitt rétta þjónustu. Alls bárust 6 tilboð og var næsthæsta tilboðinu tekið þar sem lægri tilboð voru ógild. Hópbílar taka við akstrinum, þeir hafa mikla reynslu af honum fyrir, og fá svigrúm til að uppfylla ítrustu kröfur. Vonandi verður það til þess að tryggja góða samfellu og lágmarka hættuna á því að sambærileg mál komi upp og í kjölfar þjónustuyfirfærslunnar vorið 2015.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að afnema hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum borgarinnar:

Tillaga Flokks fólksins að afnema hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum borgarinnar. Flokkur fólksins hefur áður verið með allmargar fyrirspurnir og tillögur um umrætt gjald sem er að engu leiti notað í þágu dýranna og eigenda þeirra. Innheimta hundaeftirlitsgjalds er ósanngjörn innheimta, fétaka og ekki er alveg ljóst í hvað það fé er notað þar sem umfang verkefna borgarinnar er varða hunda hefur minnkað svo um munar. Bæði tölur frá borginni og frá félögum hundaeigenda sýna mikla fækkun verkefna. Sem dæmi voru fjöldi hunda í hundageymslum árið 2010, 89 og 209 í lausagöngu en árið 2016 voru 11 í geymslu og 62 í lausagöngu. Í fyrra, 2019, voru þessar tölur enn lægri.  Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025 kom fram að lækkun verður almennt á eftirlitsgjaldi vegna minna eftirlits í fyrirtæki sem veita þjónustu. Þar er ekki minnst á hundaeftirlitsgjaldið. Nú er yfirvöldum í borginni ekki lengur stætt á þessu gjaldi. Engin sanngirni er í því að halda áfram að innheimta gjaldið lengur þar sem ekki er sama þörf fyrir þjónustuna og verkefnin sárafá.

Greinargerð:

Eftir því sem best er vitað er starfandi stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald. Ekkert bólar á vinnu frá þeim hópi þrátt fyrir að nú sé borgarstjórn komin í sumarfrí. Ítrekað hefur komið fram hin megna óánægja sem ríkir með árlegt hundaeftirlitsgjald. Flokkur fólksins hefur margoft spurt um í hvað þessi gjöld fara nákvæmlega. Svörin eru ekki fullnægjandi og manni finnst sem gæti varna í umsögnum og viðbrögðum Heilbrigðiseftirlitsins. Greiðendur hundaeftirlitsgjalds telja margir að dæmið gangi ekki upp sama hvaða reikningskúnstir eru notaðar. Sífellt er vísað á heimasíðu en þar er ekkert sem fær dæmið til að ganga upp. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld en samt er það staðfest af Heilbrigðiseftirlitinu að verkefnum eftirlitsins hefur fækkað til muna og umfang starfs hundaeftirlistmanna þar með. Flokkur fólksins hefur óskað eftir að fá upp á borð vinnuskýrslur til að sjá verkefni og umfang verkefna þeirra en því hefur verið hafnað. Svo virðist sem þöggun ríki um þessi mál. Ef litið er nánar á tölur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sést að kvörtunum vegna hunda hefur fækkað. Árið 2000 voru kvartanir um 1300. Árið 2012 voru kvartanir milli 600 og 700, árið 2018 um 80 og árið 2019 um 84. Eins og segir í tillögunni hefur fjölda lausagönguhunda og hunda í hundageymslum stórfækkað og eru nú örfá tilfelli skráð.

Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna fellingar tillögu um að afnema hundaeftirlitsgjald:

Tillaga Flokks fólksins að afnema hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum borgarinnar hefur verið felld á sama fundi og hún er lögð fram. Það á greinilega að halda áfram að innheimta sérstakt hundaeftirlitsgjald af hundaeigendum, gjald sem engan vegin er ljóst í hvað verið er að nota. Það er alla vega ekki verið að nota það í þágu hunda svo mikið er víst, hvað þá hundaeigenda. Ákveðið hefur verið að lækka almennt eftirlitsgjald vegna minna eftirlits í fyrirtækinu. Þetta var staðfest í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025. Viðhorf og menning borgarinnar til hundahalds er fornaldarlegt og má skynja neikvæðni einstaka embættismanna í svörum við fyrirspurnum Flokks fólksins til heilbrigðiseftirlitsins. Þetta er upplifun fulltrúa Flokks fólksins. Svör og umsagnir hafa verið litaðar af pirringi og skilningsleysi embættiskerfisins og meirihlutans á að borgarfulltrúi er kjörinn til að gæta hagsmuna borgara og í þessu máli er verið að brjóta á rétti hundaeigenda.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um raunhæfismat á útilistaverki í Vogabyggð en þá hafði borgarstjórn samþykkt að verkefnið Pálmatré fari í raunhæfismat:

Á fundi borgarráðs 7. febrúar 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um raunhæfismat á útilistaverki í Vogabyggð en þá hafði borgarstjórn samþykkt að verkefnið Pálmatré fari í raunhæfismat. Engar fregnir hafa borist af því raunhæfismati og því er óskað eftir upplýsingum um hvernig því framvindur. Einnig hverjir komi að matinu. Hvert er ferlið við framkvæmd raunhæfismats og hvar er borgin stödd í því ferli? Hver annast framkvæmd raunhæfismatsins? Hvað veldur þeim töfum sem orðið hafa á framkvæmd raunhæfismatsins nú þegar meira en ár er liðið frá því ákvörðun um það var tekin í málinu? Hver er áætlaður kostnaður við framkvæmd raunhæfismatsins?

Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að fá upplýsingar um hver kostnaður var við þessa sérfræðilegu ráðgjöf ADVEL og hvort verkefnið var boðið út:

Á fundi borgarráðs 25. júní var lagt fram minnisblað ADVEL lögmanna og Mannvits, dags. 19. júní 2020, varðandi mat á tilboðum útboðs Strætó bs. nr. 14799. Samkvæmt framlögðum gögnum fór Strætó bs. þess á leit við ADVEL lögmenn að veitt yrði sérfræðileg ráðgjöf við mat á yfirferð tilboða í útboði Strætó bs. nr. 14779 um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Aðkoma ADVEL og Mannvits fólst í ráðgjöf gagnvart kaupanda í matsferlinu svo og sérfræðilegu mati á innsendum tilboðum á grundvelli útboðsgagna til samræmis við ákvæði laga um opinber innkaup nr. 120/2016. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hver kostnaður var við þessa sérfræðilegu ráðgjöf ADVEL og hvort verkefnið var boðið út?
Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varð Græna planið?

Hvernig bætir jarðhitagarður á Hellisheiði Græna planið? Hvað er  Græn þjónusta borgarinnar – grænn rekstur – græn skref borgarinnar? Hér þarf að fylgja nánari útskýringar til þess að hinn almenni borgarbúi átti sig á hvað liggur að baki. Hvað er aukið aðgengi að hollum mat? Er ekki aðgengi að hollum mat gott nú? Er það kannski verðið á hinum „holla“ mat sem er takmarkandi frekar en aðgengið? Á að gera átak í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps? Talsmenn SORPU bs. hafa sagt að hreinsunin í gas- og jarðgerðastöðinni, GAJU, muni koma í stað flokkunar á upprunastað.
Vísað til umsagnar stýrihóps um Græna planið.