Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð 11. nóvember 2021

Bókun Flokks fólksins við kynningu á Jafnréttisúttekt á hverfisíþróttafélögum:

Kynnt er jafnréttisúttekt í hverfisíþróttafélögum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst vanta að spurt sé um hvort aðgerðaráætlanir gegn einelti séu aðgengilegar á heimasíðu félaganna og hvort þær sáu ávallt virkjaðar komi tilkynning um einelti og málin unnin með faglegum og skilvirkum hætti. Þótt úttektin sé um jafnrétti þá er það nátengt ofbeldi og einelti er ofbeldi. Í úttektinni er oft komið inn á kynbundið ofbeldi og áreitni sem í mörgum tilfellum tengist einnig einelti. Hegðun gerenda er blanda af þessu öllu í sumum tilfellum og er nátengt jafnréttisumræðunni. Það er brýnt að nota tækifærið hér og skoða þennan hluta málsins til að geta í framhaldinu lagt enn meiri áherslu á að félögin hafi tiltæka aðgerðaráætlun sem fylgt er ef upp koma tilkynningar um ofbeldi af einhverju tagi þ.m.t. einelti og áreitni. Eins hvort félögin eru að með forvarnarprógramm í sínu starfi. Fulltrúi Flokks fólksins vill vísa hér í Aðgerðaráætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun sem langflest íþróttafélög eru með ef ekki öll. Spurning er hvort aðgerðaáætlun sé fylgt og hvort þurfi e.t.v. að uppfæra  hana hjá einhverjum íþróttafélögum.

Breyting á umsögn Aðgerðaráætlunar Reykjavíkur gegn ofbeldi

Fulltrúi Flokk fólksins fékk settar inn eftirfarandi viðbætur þar sem ótækt var að ekki var minnst einu orði á einelti sem er einbirtingamynd ofbeldis:

Einelti er ein birtingarmynd ofbeldis og mikilvægt er að ávarpa það í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar og leggja til að eineltisáætlanir séu uppfærðar og aðgengilegar og með þeim sé virkt eftirlit.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að fatlaðir umsækjendur um húsnæði sjái hvar umsókn þeirra er stödd, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá14. október 2021:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mikilvæg tillaga. Rafræn lausn af þessu tagi ætti að vera  löngu komin inn í kerfi borgarinnar ásamt fjölmörgu öðru af sama meiði. Það er mikilvægt að allir þeir sem sækja um eitthvað hjá borginni geti fylgst með framþróun umsóknar sinnar og hvar þær séu staddar í afgreiðsluferlinu.  Engar slíkar rafrænar lausnir eru komnar í borginni að heitið geti þrátt fyrir að 10 milljarðar verði veittir í málaflokkinn í ár og næsta ár.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu fyrirspurna Flokks fólksins um verkefni og verk þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 11 lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. október 2021.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurnir og taldi að verið væri að afgreiða málið án svara á þessum fundi. Þeim er hins vegar vísað til þjónustu og nýsköpunarsviðs. Fulltrúi Flokks fólksins vill engu að síður bóka hér nokkur orð um hugbúnaðarmál og segja að útvista ætti hugbúnaðarvinnu frekar en að eyða milljónum í milljónum ofan að gera tilraunir og þróa eitthvað sem er nánast í næsta húsi. Gott dæmi er að þjónustu- og nýsköpunarsvið er núna að klára uppgötvunarfasa varðandi lausn fyrir rafrænar undirskriftir og núna ætlar sviðið að fara í þróunarfasa. Rafrænar undirskriftir eru sem dæmi búnir að vera í gangi hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur í mörg ár. Rafrænar undirskriftir er fyrir löngu búið að uppgötva, þróa, búa til og eru í notkun allstaðar í kringum okkur. Af hverju er þjónustu- og nýsköpunarsvið að eyða bæði tíma og fjármunum í að finna upp og þróa lausnir sem fyrir löngu eru komnar annarsstaðar? Í nýju verkefnayfirliti má sjá hvar þjónustu- og nýsköpunarsvið er statt í þessu. Þar segir „að stöðluð bréf til rafrænna sendinga séu ekki til en nú sé búið að þróa miðlæga lausn til að útbúa rafræn bréf á pdf sniðmáti og að uppgötvunarfasa verkefnis hafi verið að ljúka og þróunarfasi að hefjast“.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Verkefnum er útvistað þar sem það er hagkvæmt með tilliti til tímasparnaðar, kostnaðar og áhættumats. Þær tilbúnu lausnir sem hægt er að versla inn og sem hagkvæmt er að kaupa inn eru keyptar inn. Sem dæmi er verið að kaupa inn lausn fyrir rafrænar undirskriftir, en verið er að smíða viðmót í kringum notkunina. 7,7 milljarðar af 10 milljörðum stafrænnar vegferðar fara í innkaup.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verkefnum er útvistað þar sem það er hagkvæmt en það er sennilega bara nýtilkomið. Búið er að eyða milljónum í tilraunir síðustu þrjú árin á lausnum sem sennilega flestar eru til. Kannski hefur gagnrýni Flokks fólksins í bráðum heilt ár náð að breyta einhverju, dropinn holar jú steininn. Það er sérkennilegt að nú fyrst sé verið að kaupa lausn fyrir rafræna undirskriftir þegar ein nefnd borgarinnar hefur viðhaft slíkan hátt á í mörg ár. Fulltrúi Flokks fólksins telur að borgin eigi að líta og leita til Stafræna Íslands með flest sín mál og tengjast island.is enda best að hafa sem flestar lausnir á einum stað.  Gagnrýni t.d. Samtaka Iðnaðarins og fleiri aðila á vegferð borgarinnar í stafrænna umbreytinga eru ekki komnar til að engu.

 

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er ekkert fyrst núna sem verið er að kaupa inn lausnir hjá borginni. Stafrænt Ísland er frábær verkefnastofa um tæknilausnir, en stendur raun ekki í stafrænni umbreytingu af því tagi sem þjónustu- og nýsköpunarsvið stendur fyrir sem snýr að miklu leyti að breytingu starfa inni á gólfi. Þar eru ekki innviðir til að taka við verkefnum þjónustu- og nýsköpunarsviðs og því ekki skynsamlegt að ætla að láta Stafrænt Ísland sjá um þetta allt. Borgin á í góðu samstarfi við Stafrænt Ísland og ríkið um það sem skynsamlegt er að vinna saman að. Gagnrýni Samtaka Iðnaðarins byggist á ákveðnum misskilningi um eðli verkefna þjónustu- og nýsköpunarsviðs og hvernig haldið er utan um stafræna þróun hjá ríkinu, en staðreyndin er sú að margar stofnanir ríkisins fara sömu leið og borgin.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta áhugaverð bókun og mun leita til Stafræna Íslands og Samtaka Iðnaðarins eftir viðbrögðum við henni.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 5. nóvember 2021, um kynningu á verkefnum þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2021:

Ýmislegt vekur athygli í þessu yfirliti og spurt er um nauðsyn fjölmargra verkefna nú á síðustu og verstu tímum. Nefna má kaflann um  „I (innovation) Teams? Almennt séð hefur þriðjungur af þessum verkefnum fátt að gera með nauðsynlega rafræna þjónustu borgarinnar. Fæst af þeim eru akút mál, öll þessi mælaborð, sundlaugaheimsóknir, hvenær sorptunnur eru tæmdar. áhrif COVID á borgina sem er í raun verkefni Landlæknis. Nú þegar fjárhagur borgarinnar er í lamasessi vill fulltrúi Flokks fólksins sjá að farið sé betur með fjármagnið en að það sé ekki notað í gæluverkefni. Látið sé af endalausum tilraunum og þróunafasa og leitað samstarfs við aðra en það hefði átt að gerast fyrir þremur árum.  Ríkiskaup hafa boðið borginni að taka þátt í rammasamningi um Microsoft hugbúnaðarleyfi. Ætlar borgin þiggja að taka þátt?. En hver er forgangsröðun þjónustu- og nýsköpunarsviðs, fram kemur að sviðin forgangsraði en allt er þetta hluti af 10 milljörðunum. Segir að ansi margt „sé að verða klárt“ en hvað er alveg klárt? Gott væri að fá linka á allar rafrænar lausnir með lýsingu á tilgangi þeim svo fulltrúi Flokks fólksins getur prófað með borgarbúum og upplifað  gagnsemina á eigin skinni.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins upplýsinga um hvaða verkefni eru fjármögnuð með styrkveitingunni frá Bloomberg?:

Hinn 29. júní 2021 var það tilkynnt að stafræn vegferð Reykjavíkurborgar fengi alþjóðlega viðurkenningu og fjárhagsstuðning frá Bloomberg Philanthropies. Borgin mun fá fjárframlag upp á 2,2 milljónir bandaríkjadala til að styðja við og hraða stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvaða verkefni eru fjármögnuð með styrkveitingunni frá Bloomberg?