Forsætisnefnd 31. maí 2019

Bókun Flokks fólksins við fundarsköp

Flokkur fólksins vill bóka um fundarsköp. Borgarfulltrúi er mjög ósáttur við
hvernig fundi forsætisnefndar var stjórnað. Helming af dagskrárliðum var frestað á
lokasekúndum fundarins. Þetta er afar vont enda undirbúa fulltrúar sig fyrir fundina
samkvæmt fundardagskrá. Flokkur fólksins mótmælir þessum vinnubrögðum og
telur þetta enn eitt skýrt dæmið um valdníðslu meirihlutans á fundum.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum kynning á drögum að endurskoðuðum reglum um móttökur Reykjavíkurborgar

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þessar reglur ekki nógu skýrar og ekki nógu
gegnsæjar. Til dæmis segir að við ákvörðun um opinbera móttöku skuli horft til
þess að tilefnið þjóni hagsmunum borgarinnar. Þetta er allt mjög teygjanlegt og háð
túlkun. Flokkur fólksins hefur lagt til að með yfirliti fylgi sundurliðaður kostnaður
fyrir hverja veislu. Það er afar mikilvægt að borgarbúar geti fylgst með kostnaði
sem fer í opinberar móttökur og aðra viðburði sem skrifstofa borgarstjóra ákveður
að halda. Einnig ætti að vera oftar útboð samkvæmt innkaupareglum jafnvel þótt að
áætluð upphæð sé undir viðmiði. Fé sem varið er í veislur og móttökur kemur úr
vasa borgarbúa. Hver og einn getur í raun lagt fram beiðni um móttöku. Móttökur
er margar í Reykjavíkurborg, stundum allt að fjórar í viku, og flestar með áfengi og
að sjálfsögðu öðrum veisluföngum. Í 7. gr. kemur fram að móttökur sem
utanaðkomandi aðili sækir um að Reykjavíkurborg haldi skuli að öllu leyti greiddar
af umsóknaraðila. Þá má spyrja hverjir þeir eru sem ekki kallast utanaðkomandi,
hver séu tengsl þeirra við borgina, er hér verið að ræða um launþega borgarinnar?
Hér má margt bæta. Borgarfulltrúi vill að allar beiðnir séu upp á borði, líka þeim
sem er hafnað og hvað rök liggja fyrir því.