Borgarstjórn 5. mars 2019

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að gera Miðbakkann að almenningsrými:

Þetta er ágæt tillaga svo fremi sem áherslan er á almenning og að aðgengi að svæðinu sé gott einnig fyrir þá sem koma lengra að og koma akandi. Mikilvægt er að við skipulag á svæðinu verði sett inn bílastæði sem fatlaðir og aldraðir borgarar geti nýtt sér án fyrirhafnar og án vandkvæða. Sjá má fyrir sér að Reykjavíkurborg komi t.d. upp listamiðstöðvum/vinnurýmum  á þessum bletti þar sem einstaklingar geta leigt vinnurými til að sinna sinni list- og nýsköpun og þar sem markmiðið er framleiðsla og sala. Það er þó mikilvægt að stilla byggingarmagni í hóf og að engin bygging verði hærri en þrjár hæðir. Flokkur fólksins leggur til að svæðið verði skipulagt með tilliti til þeirra húsa sem eru vestan við Miðbakkann og að ekki verði leyfð hótelbygging á svæðinu. Gott væri að gera ráð fyrir að skip geti lagt að Miðbakkanum t.d. þegar konungur Danmerkur kemur í heimsókn, siglandi.

Bókun Flokks fólksins við umræðunni um Samstarfsnet meirihlutans:

Eins og Flokkur fólksins hefur áður bókað þá er þetta Samstarfsnet ágætis tillaga að mörgu leyti enda samþykkti Flokkur fólksins hana í velferðarráði. Því er þó ekki að neita að áhyggjur eru af þeim veikleikum sem nefndir eru í gögnum, þá helst mögulegu tengslarofi við starfsmenn þjónustumiðstöðva og aukinnar yfirbyggingar á kostnað fjármagns í grasrótina. Ráða á framkvæmdarstjóra en samt ekki að setja í þetta fjármagn. Hvað verður skorið niður á móti þeim kostnaði? Ekki er ljóst hvernig þessi endurskipulagning kemur heim og saman við  starfsemi þjónustumiðstöðvanna né hvernig þær snerta starfsmennina. Er þetta viðbót sbr. nýr framkvæmdarstjóri eða er þetta upphafið á niðurlagningu  þjónustumiðstöðva eða í það minnsta sameiningu einhverra þeirra. Á þessu þyrfti að skerpa betur. Nú þegar er flækjustigið mikið og báknið stórt. Þarf ekki að tala aðeins skýrar um hvernig þetta á að vera á þessu stigi. Það skiptir öllu að vinna þetta í sátt við notendur þjónustunnar og starfsmenn. Loksins er farið að tala um að bið barna eftir þjónustu sé óásættanleg. Í dag eru börn að bíða mánuðum saman eftir þjónustu. Þegar börn eru annars vegar sem þarfnast hjálpar af einhverju tagi skal aðstoð veitt án biðar.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillögur D flokks um kjarapakka Reykjavíkur:

Flokkur fólksins vill að borgin nái beint til þeirra sem verst eru settir þegar kemur að sérstökum aðgerðum til að liðka fyrir kjaraviðræðum. Reykjavíkurborg getur gert fjölmargt í þessum efnum til að létta á þeim hópi sem minnst hefur milli handanna. Borgin getur t.d. tekjutengt ýmsan kostnað sem dæmi skólamáltíðir, frístund, tómstundir og námskeið og aðra nauðsynlega þjónustu. Nú þegar er verið að koma til móts við þennan hóp að einhverju leyti en ganga þarf lengra og freista þess að ná fram meira jafnræði í þáttum sem eru nauðsynlegir og sjálfsagðir enda skal ekki mismuna börnum á grundvelli efnahags foreldra. Með því að einblína sérstaklega á þennan hóp með ákveðnar aðgerðir er ekki einungis verið að létta fjárhagslega á fjölskyldum og einstaklingum heldur er einnig verið að létta á áhyggjum og vanlíðan sem tengist því að ná ekki endum saman. Sé dregið úr streitu og kvíða foreldra mun það skila sér til barnanna. Aðgerðir sem gagnast fátækum jafnt sem efnamiklum leiða ekki til aukins jöfnuðar. Hvað varðar 4. lið tillögunnar sem hér um ræðir og varðar að byggingarréttargjöldum sé stillt í hóf er tekið undir mikilvægi þess almennt séð.

Tillaga Flokks fólksins um að innleið bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi bráðamóttöku og fæðingardeildar

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela Reykjavíkurborg í  samstarfi við Landspítala – háskólasjúkrahús að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi fyrir þá sem þurfa að leggja bíl sínum í skyndi vegna neyðartilfellis. Hér er um að ræða framrúðuskífu í stað gjaldmæla. Framrúðuskífan er notuð mjög víða á meginlandinu, jafnt í miðborgum sem og við aðstæður eins og hér um ræðir. Þessi möguleiki yrði  í boði við innganga  a.m.k. við  bráðamóttökur og fæðingardeild og aðrar deildir þangað sem fólk kann að þurfa að leita í slíkum flýti að það getur ekki tafið við að finna stæði og greiða stöðugjald. Bílastæðin skulu merkt til umræddra nota. Leyfilegur tími væri tilgreindur á skiltum við stæðin. Sé bifreið lagt lengur en heimilt er lagt á stöðugjald skv. ákveðinni gjaldskrá. Hér er ekki meiningin að vera með nákvæma útfærslu á fyrirkomulaginu en sem dæmi mætti nálgast bifreiðaklukkuna í afgreiðslu t.d. bráðavaktar eða í móttöku í anddyri spítalans og á bensínstöðum.

Greinargerð

Um hríð hefur verið lagt á stöðugjald vegna lagningar bifreiða á bílastæðum við m.a. bráðamóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi og við fæðingardeildina við Hringbraut og víðar við deildir sjúkrahússins. Samkvæmt upplýsingum frá Bílastæðasjóði er umrædd gjaldtaka til komin að frumkvæði Landspítala – háskólasjúkrahúss í því skyni að koma í veg fyrir að stæði þessi séu teppt fyrir þeim sem leita þurfa til viðkomandi stofnanir, ekki síst með bílum starfsmanna sjúkrahússins.

Það gefur auga leið að oft stendur svo á að fólk sem kemur á bráða- og neyðarmóttökur í bílum sínum getur ekki tafið við að fara að sjálfsala. Það verður til dæmis ekki með neinni sanngirni til þess ætlast að foreldri sem kemur eitt síns liðs með meitt barn á bráðamóttöku láti greiðslu stöðugjalds seinka hjálp handa barninu.

Viðbúið er hins vegar að þeir sem þannig geta ekki gefið sér tíma til að sinna greiðslu umkrafins stöðugjalds verði fyrir því að Bílastæðasjóður krefji þá um 6.000 kr. aukastöðugjald vegna vanrækslu á greiðslu fyrir not bílastæðisins.

Þeir sem koma að bifreið sinni eftir stundum erfiða reynslu inni á sjúkrahúsinu með áhengdri tilkynningu frá Bílastæðasjóði um álagningu aukastöðugjalds hljóta óhjákvæmilega að upplifa þá sendingu sem æði kaldar kveðjur samfélagsins í þeirri stöðu sem þeir eru.

Sú lausn að vera með gjaldtöku við mikilvæga innganga er ekki  viðhlítandi aðferð til að bregðast við vanda sem fólginn er í ónógum fjölda bílastæða fyrir starfsmenn og eða vangetu til að láta starfsmenn sjúkrahúss fylgja settum reglum um hvar þeir megi leggja bílum sínum. Er því tilefni til að bregðast við og er ofangreindri tillögu m.a. ætlað að bæta úr þessu ástandi.