Borgarráð 10. október 2019

Tillaga Flokks fólksins að biðsalur Strætó bs í Mjódd verði opinn eins lengi og vagnar ganga

Flokkur fólksins leggur til að biðsalur Strætó bs í Mjódd verði opinn lengur en til klukkan 18 á kvöldin. Eðlilegt er að biðsalurinn sé opinn eins lengi og vagnar Strætó ganga. Í salnum þarf að vera viðunandi aðstaða, næg sæti og aðgengileg salernisaðstaða. Nefnt hefur verið að þarna þyrfti að vera læst hjólageymsla. Það myndi nýtast t.d. farþegum sem koma lengra að þ.m.t. frá nágrannasveitarfélögum. Það sætir nokkurri undrun að ekki er betur búið að biðsalnum í Mjódd og að hann sé ekki hafður opinn lengur en raun ber vitni í allri þeirri umræðu borgarmeirihlutans að gera almenningssamgöngur að fýsilegri kosti. Að fólk skuli þurfa að bíða úti eftir strætó í Mjódd eftir kl. 18 og að aðstaðan skuli ekki vera betri en nú, er sérkennilegt hjá fyrirtæki með eins langa reynslu og Strætó bs. Fyrir fjölmarga er það ekki einu sinni val að nota almenningssamgöngur heldur eini möguleikinn sem fólk hefur. Það hafa ekki allir efni á að kaupa bíl. Þetta er slæmt í Mjóddinni sem er tengistöð margra leiða.  Strætó ætti að hafa biðsalinn opinn eins lengi og vagnarnir ganga og bæta aðstöðuna þar fyrir farþega strætó. R19100231

Vísað til meðferðar stjórnar Strætó bs.

Tillaga Flokks fólksins að átak verði gert til að tryggja starfsöryggi dagforeldra

Flokkur fólksins leggur til að farið verði í sérstakt átak  til að tryggja starfsöryggi dagforeldra og beiti til þess öllum þeim úrræðum sem borgin hefur upp á að bjóða. Byrja þarf á að skilgreina nánar þann stofnstyrk sem nýjum dagforeldrum hefur verið lofað, hvernig hann er útfærður og hvenær hann verður greiddur út. Nefndur hefur einnig verið aðstöðustyrkur til að hjálpa þeim dagforeldrum sem að ekki hafa náð að fylla í plássin sín. Lagt er til að skoðað verði að fleiri styrkir verði veittir til dagforeldra þegar verst árar. Skoða mætti t.d. leigustyrk til þeirra sem að leigja dýra gæsluvelli á vegum borgarinnar eins og nefnt hefur verið. Skoða þarf hvort hægt sé að bjóða dagforeldrum sem að ekki eru með 4-5 börn viðbótarniðurgreiðslu til áramóta. Þetta er brot af hugmyndum sem nefndar hafa verið til að tryggja starfsöryggi dagforelda á meðan verið er að brúa bilið. Þetta haust hefur verið einstaklega slæmt. Ekki hafa fengist börn í vistun sem þýðir að einhverjir dagforeldrar hætta störfum. Í vor mun hins vegar verða vöntun á dagforeldrum. Hvernig á að bregðast við þeim aðstæðum sem þá myndast, þegar stór hópur af börnum fær ekki vistun og  foreldrar komast ekki til vinnu?

Greinargerð

Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgarmeirihlutinn hafi ekki hlúð nægjanlega vel að stéttinni á meðan brúa á bilið yfir í ungbarnaleikskóla. Hafa skal í huga að ávallt þurfa að vera til dagforeldrar þar sem einhverjir foreldrar munu kjósa frekar að velja þá en ungbarnaleikskóla. Taka hefði mátt smærri sveitarfélög til fyrirmyndar. Flokkur fólksins hefur áður fjallað um málefni dagforeldra. Flótti hefur orðið úr stéttinni og það í stórum stíl. Eftir að farið var að tala um ungbarnaleikskóla frá 12 mánaða aldri þá hefur dagforeldrum í Reykjavík fækkað um meira en 100. Loforð frá borgaryfirvöldum um að fljótlega verði unnt fyrir börn að fara beint á leikskóla í kjölfar fæðingarorlofs gerir það að verkum að starfsöryggi dagforeldra er lítið og þar með foreldra sem eru að koma úr fæðingarorlofi. Dagforeldrar vita ekki endilega hversu mörg börn eru hjá þeim í næsta mánuði því stundum bjóða leikskólarnir pláss með stuttum fyrirvara.  Dagforeldrar geta því staðið uppi um mánaðamót með einungis hluta af laununum sem þeir gerðu ráð fyrir að hafa. Í þessu umhverfi verða dagforeldrar því að tryggja sig. Þeir dagforeldrar sem eru ekki með laus pláss geta síðan ekki tekið við nýjum börnum fyrr en eldri börnin komast inn á leikskóla. Leikskólar Reykjavíkurborgar innrita börn yfirleitt einungis að hausti og því er mjög erfitt að fá laust pláss hjá dagforeldri eða á ungbarnaleikskóla á öðrum tíma ársins en á haustin. Staðan er því mjög erfið og allt starfsumhverfi erfitt.

Enn er talsverður tími þangað til ungbarnaleikskólar verði nógu margir til að geta annað eftirspurn. Skynsamlegt hefði því verið ef borgarmeirihlutinn hefði reynt að finna leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina og sporna við flótta úr stéttinni á meðan verið er að brúa bilið. Foreldrar verða að geta verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæddist og dagforeldrum verður að vera boðið viðunandi starfsöryggi

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundarsvið gangi í það að færa unglingadeildina aftur í Kelduskóla

Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundasvið gangi í það að færa unglingadeildina aftur til baka í Kelduskóla þar sem hún á heima.  Unglingadeildin var flutt úr skólanum fyrir nokkrum árum þegar mygla kom upp en var aldrei færð aftur til baka eins og var lofað. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að börnin stundi nám í sínu hverfi. Flokkur fólksins var einn af þeim minnihlutaflokkum sem lagði til á síðasta borgarstjórnarfundi að grunnskóli verði rekinn í Staðahverfi til frambúðar í samræmi við gildandi skipulag. Tillögunni var mætt með útúrsnúningum af hálfu skóla- og frístundasviðs og meirihlutans. Þetta mál hefur ratað í óþarfa ógöngur þótt við blasi einföld lausn.  Sú ógn hefur vofað yfir að loka eigi kannski skólanum þar sem fá börn stundi þar nám. Vissulega er kostnaðarsamt að reka litla skólaeiningu en þegar öll börnin í hverfinu eru talin er ekki um litla skólaeiningu að ræða. Börnin sem eiga lögheimili í hverfinu eru um 130. Skólinn þar rúmar um 170. Sé það vilji að börnin haldi áfram námi þar sem þau eru núna eiga þau að hafa val um það. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill að skóla- og frístundasvið leysi þetta mál á þann hátt sem eðlilegast og skynsamlegast er. Börnin heim. R19100238

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Tillaga Flokks fólksins að átak verði gert í að tryggja öryggi gangandi og hjólandi í Úlfarsárdal

Flokkur fólksins leggur til að átak verði gert í að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á gönguþverunum og gangbrautum í Úlfarsárdal. Víða í Úlfarsárdal eru gangbrautir ekki merktar eins og á að gera (sebrabrautir). Einnig vantar aðrar merkingar svo sem gangbrautarmerki sem nota skal við gangbraut og vera beggja megin akbrautar.  Ef eyja er á akbraut á merkið einnig vera þar. Það vantar einnig víða viðvörunarmerki sem á að vera áður en komið er að gangbraut. Gangbrautarmerkið ætti ekki að vera lengra en 0,5 m frá gangbraut. Þetta er sérkennilegt því meirihlutinn í borginni hefur svo oft talað um að réttindi gangandi og hjólandi í umferðinni skuli koma fyrst. Allar gangbrautir eiga að vera merktar eins og lög og reglugerðir kveða á um. Segir í þeim að „gangbrautir verði merktar með sebrabrautum og skiltum til að auka umferðaröryggi. Í reglugerð 289/1995 er kveðið á um að gangbraut skuli merkt með umferðarmerki báðum megin akbrautar sem og á miðeyju þar sem hún er. Þá skal merkja gangbraut með yfirborðsmerkingum, hvítum línum þversum yfir akbraut (sebrabrautir)“. R19100240

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundarsvið vinni með skólastjórnendum og matráðum í að draga úr matarsóun

Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð setjist niður með skólastjórnendum og matráðum skóla í því skyni að finna leiðir til að draga úr matarsóun. Í ljós hefur komið í rannsóknum að  mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Ný rannsókn á vinsælustu og óvinsælustu fæðutegundum skólabarna í Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi og Noregi var kynnt á menntakviku Háskóla Íslands í síðustu viku. Þá var matarsóun sérstaklega skoðuð en þar á Ísland langt í land. Daglega eru yfirfullir stampar af mat í skólunum sem börnin hafa fleygt. Þá er matur barnanna einsleitari hér. Samt vill meirihlutinn draga úr dýraafurðum. Það eru ekki ný tíðindi að börn vilja ekki mikið af grófmeti sem dæmi. Sé börnum skammtað mikið af mat sem þau vilja ekki fer hann  í ruslið. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn  2018 að borgin myndi beita sér m.a. fjárhagslega fyrir því að allir skóla í Reykjavík yrðu grænfánaskólar og hvernig stemma megi stigu við matarsóun. Mikilvægt er að börn skammti sér sjálf og viti og skrái síðan það sem þau leifa. Það dregur úr matarsóun eins og rannsóknir hafa sýnt. Einnig þarf maturinn að vera fjölbreyttur.

Greinargerð

Fleiri þættir sem skoða þarf til að sporna við matarsóun er að skilgreina þjónustumarkmið mötuneyta með það fyrir augum að auka gæðin. Það rekstrarform sem kemur best út fyrir alla aðila hlýtur að vera það heppilegasta fyrir öll mötuneyti borgarinnar og mætti innleiða alls staðar ef því er að skipta. Það er mikilvægt að borgin leiti allra leiða til að hagræða í rekstri mötuneyta og auka gæði á sama tíma. Sterkar vísbendingar eru um að það að bjóða þessi verkefni út sé hagstæðara en það fyrirkomulag sem nú ríkir víðast í mötuneytum í Reykjavík. Ef borgin vill auka hagkvæmni í rekstri mötuneyta þarf að skoða matarsóun og hafa skýra stefnu til að sporna við henni. Matarsóun kostar og nú er það staðfest að miklum mat er hent í skólum borgarinnar.

Eitt af markmiðum skóla á grænni grein er að fræða börnin um matarsóun og mikilvægi þess að hætta notkun einnota plasts s.s. plastpoka. Að vera skóli á grænni grein gefur börnunum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum sem vekur þau til vitundar um umhverfið og hvernig þau geta hlúð að því. Verkefnin hjálpa börnunum að skynja mikilvægi þess að sporna gegn matarsóun í nærumhverfinu og setja sér skýr markmið í umhverfismálum. Mikilvægt er að gera eitthvað sem er áþreifanlegt og sem börnin geta fundið strax áhrifin af. Dæmi eru um verkefni er að skólar kanni matarsóun í mötuneyti skóla sinna t.d. með því að nemendur vigti mat sem er hent í. Slík verkefni verður að vera í öllum skólum. Niðurstöður má nota til að reikna út hversu miklum mat er hent á heilu skólaári. Með því að fá upplýsingar hjá matráði hvað einn matarskammtur kostar er hægt að reikna út hve miklum verðmætum er hent á einu skólaári.

Börn hafa almennt séð afar gaman að verkefnum af þessu tagi þar sem þau sjá mælanlegan ávinning af því sem þau gera. Að gefa öllum börnum í Reykjavík tækifæri til að vinna í umhverfismálum í ríkari mæli en nú er er skylda okkar og ábyrgð. Þessi mál varða framtíðina og framtíðin er barnanna. Ef börn fá tækifæri til að snerta sjálf á málum, koma með tillögur og leiðir er líklegt að þau muni beita sér enn frekar fyrir málstaðinn. Þátttaka í verkefni um matarsóun er hvetjandi á marga vegu. Barnið finnur að hér er verk að vinna, það er að taka þátt í keppni um að lágmarka matarsóun. Barni sem þykir maturinn góður, fær að skammta sér sjálft, fær nægan tíma og næði til að borða er líklegt til að klára af disknum sínum.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um aðkomu göngubrú yfir Breiðholtsbraut norðamegin:

Í framhaldi af svari umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn Flokks fólksins vegna aðkomu að göngubrú yfir Breiðholtsbraut sem lagt var fram á fundi borgarráðs 10. október 2019 er óskað eftir nánari upplýsingum um aðkomu gangandi vegfaranda frá Mjódd að göngubrúnni. Er gert ráð fyrir óbreyttri aðkomu í framtíðinni, það er að ekki verði hægt að komast upp á göngubrúna frá Mjóddinni, heldur verði að taka sveigju til vinstri inn í Arnarbakka til að fara inn á brúna frá Arnarbakka? R19080207

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um fjölda bílastæða á Hafnartorgi er varðar kostnað og rekstur:

Í framhaldi af svari umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda bílastæða á Hafnartorgi sem lagt var fram á fundi borgarráðs 10. október 2019 er óskað eftir nánari upplýsingum um rekstur bílastæðanna og kostnað. Þetta er greinilega eitthvað samkrull sem ekki kemur fram í svari hvernig er háttað. Þúsund stæði eru fyrir  almenning, en borgin á 200 af þeim, samvinna borgar og einkageirans? Hvernig á það samkrull að vera? Verður t.d rukkað að næturlagi og um helgar, eða verður þetta nær því sem nú er gert á bílastæðum á götum? R19070154

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Bókun Flokks fólksins við svari borgarstjóra við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fyrirhugaðar starfsstöðvar í hverfi borgarinnar

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar borgarstjóra fyrir ýmis konar vangaveltur í svari sínu við fyrirspurninni. Flokkur fólksins er að spyrja um starfsstöðvar á forræði borgarinnar og myndi gjarnan vilja fá svar við þeirri fyrirspurn. Ekki er gerð krafa um að borgarstjóri eða meirihlutinn viti  hvað fyrirhugað er hjá öðrum sem ekki heyra undir stjórn borgarinnar eða varðar hana.  Spurningin á einungis við um það sem er á forræði borgarinnar t.d. stofnanir, deildir, svið  eða annað sem meirihlutinn hyggst setja á laggirnar. Spurningunni er því enn ósvarað.

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs um aðkomu að göngubrú yfir Breiðholtsbraut

Um er að ræða göngubrú yfir Breiðholtsbraut. Í svari segir að aðgengi við norðurenda brúarinnar er talið vera í góðu lagi og er það aðgengi frá Arnarbakka. Fulltrúi Flokks fólksins sendi með þessari fyrirspurn myndir og var að vonast til að það skýrði hvað við væri átt. Komandi frá Mjódd virðist  þessi gamli aflagði malarstígur eina leiðin upp á brúna. Flokkur fólksins telur að svona geti þetta ekki verið. Auðvitað verður að vera hægt að komast upp á brúna þegar gengið er beint upp eftir frá Mjódd.

Bókun Flokks fólksins við svari við svari við fyrirspurn um staðsetningu varanlegs regnboga

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Í því kemur fram að ákvörðun um þetta var einungis í höndum umhverfis- og skipulagssviðs sem falið var að koma með tillögu að staðsetningu regnbogans og leggja tillöguna fyrir skipulagsráð. Borgarfulltrúi hefur ekkert á móti slíku ferli og því síður regnbogahugmyndinni en finnst þetta ekki vera einkamál umhverfis- og skipulagssviðs eða skipulags- og samgönguráðs. Þetta er sameiginlegt málefni borgarbúa og ekki er rétt að ráð og svið borgarinnar liggi á svona ákvörðun eins og ormur á gulli og telji þetta sitt einkamál. Flokkur fólksins mælist til þess að meirihlutinn tali almennt séð meira við borgarbúa og leyfi þeim að taka þátt í framkvæmdum og ákvörðunum sem og hinum ýmsu skreytingum í borginni. Þetta ferli hefði átt að vera opnara. Spyrja á fólkið hvað því finnst og ekki síst þá sem búa við þær götur sem koma til álita.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um borgarlínu

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar síðbúin svör. Margt er enn óljóst eins og fram kemur í þessum svörum, allt of margt er háð hinum og þessum aðstæðunum. Nokkuð virðist sem ákvarðanir um fyrirkomulag verði teknar svona „á leiðinni“, eftir því sem fram vindur. Borgarfulltrúinn veltir því upp hvort ekki sé gert ráð fyrir að línunni megi breyta í járnbraut í framtíðinni? Heldur er ekki vitað hvoru megin á götunni borgarlínan á að aka, miðjunni eða með hægri kanti? Þetta myndi þýða að það þyrftu að vera hurðir báðum megin á vögnunum.  Eru slíkir vagnar til?  Nú, ef þeir eru í miðjunni, hvernig eiga þá farþegarnir að komast yfir umferð bíla sem er þá að utanverðu? Eru aðrar þjóðir með svona stóra liðvagna með rafmagni?  Stórir vagnar hljóta að vera dýrir og þá má spyrja hvort hleðslan nægi til að aka heila vakt, nema með mjög flóknum og dýrum hleðslubúnaði á leiðum vagnanna. Í nágrannalöndum eru víst mikið um vagna sítengda í rafmagni. Verður það þannig hér, verða vagnar ekki sítengdir við rafmagnslínu? Almennt eru þetta veikbyggð svör sem kalla á fleiri spurningar sem engin virðist vita svör við. Allt er í skoðun, hönnun og útfærslu.  Engin rekstraráætlun liggur fyrir. Er vitað út í hvað er verið að fara hér?

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs um fjölda bílastæða á Hafnartorgi

Þakka svarið. Sannarlega eru þetta mörg bílastæði. Upplýsingar vantar um rekstur bílastæðanna og kostnað. Þetta er greinilega eitthvað samkrull borgar og einkageirans sem ekki kemur fram í svari hvernig er háttað. Þúsund stæði eru fyrir  almenning, en borgin á 200 af þeim. Verður t.d rukkað að næturlagi og um helgar, eða verður þetta nær því sem nú er gert á bílastæðum á götum? Flokkur fólksins vill vita meira hvað er verið að plana varðandi þetta. Í máli eins og þessu er mikilvægt að hafa allt ferli opið og gegnsætt og upplýsa um gang mála á vef borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að fela skipulags- og samgönguráði að efna til hugmyndasamkeppni um nýtt skipulag á Umferðarstöðvarreit.

 

Samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni er nú í deiglunni, verkefni sem er, eins og annað af þessari stærðargráðu, umdeilt. Við kynningu er ljóst að rennt er blint í sjóinn með nánast allt en vel kann að vera að sú staða sé algeng í svona skipulagsferli. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur hvað mestar áhyggjur af því hversu þröngt verður á þessu svæði eftir að samgöngumiðstöðin rís sem þýðir að aðgengi verður slakt og umferðarþungi enn meiri.  Umferðarþungi þarna er mikill núna og jafnvel þótt almenningssamgöngur lagist þá eru bílum einnig að fjölga. Hætta verður hreinlega á að fólk komist ekki þarna fram hjá, akandi nema með erfiðismunum og löngum töfum. Einnig er verið að þrengja að flugvellinum meir en góðu hófi gegnir. Borgarfulltrúi veltir því fyrir sér hvað íbúum á Seltjarnarnesi þykir um þetta enda reynir kannski mest á þá og auðvitað íbúa í vesturbæ.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að stefna í máefnum heimilislausra með flóknar þjónustuþarfir verði samþykkt og verði vísað til borgarstjórnar

Stefnan prýðir í raun allt sem góð stefna ætti að prýða og hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins samþykkt hana á fyrri stigum enda átti hún sæti í stýrihópnum. Nú verður að leggja allt kapp á að innleiða hana og að allar áætlanir komist í framkvæmd, að hún verði ekki bara orð á blaði. Þar mun reyna á þennan meirihuta því  minnihlutinn hefur hvorki vald né aðkomu að ákvörðunum. Marga hluti þarf að laga og færa til betri vegar. Enn er stór hópur sem stefnan fjallar um í húsnæðisvanda. Tafir hafa einnig verið á húsnæðisverkefnum fyrir heimilislausa t.d. smáhýsin sem til stóð að væru tilbúin.  Æðstu valdhafar þurfa kannski að hugsa heildarmyndina, að þegar lagt er í vinnu við að gera metnaðarfulla stefnu þá þarf að kosta til svo hægt sé að framkvæma það sem boðað er í stefnunni. Tímamörk eiga að standast svona nokkurn veginn nema í sérstökum tilfellum. Ef ekki, þá hættir fólk að taka mark á svona pappír. Allt of mikið er af stefnum og áætlunum í borginni þar sem segir að verk ljúki á ákveðnum tíma en áætlun stenst síðan sjaldnast.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að auglýst verði eftir samstarfsaðilum um  rekstur áfangaheimilis í Víðinesi á Kjalarnesi

Víðines er afskekkt. Það er t.d. engar almenningssamgöngur að Víðinesi, gera þarf auk þess endurbætur á veginum sem liggur frá þjóðvegi að Víðinesi. Þetta er vegur sem búendur munu þurfa að ganga til að komast á stofnbraut og er um talsverða vegalengd að ræða. Engin kostnaðaráætlun er vegna vegarins. Hér er verið að horfa til einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir og er mikilvægt að Reykjavík haldi góðri tengingu við leigjendur og rekstraraðila. Ábyrgðin og eftirlit verður alltaf að vera á forræði borgarinnar og þá er ekki verið að vísa í rekstur einvörðungu.  Gert er ráð fyrir 25 m.kr. í endurbætur á húsnæðinu. Nú hefur borgarfulltrúi skoðað þetta húsnæði og er þessi upphæð til endurbóta bara dropi í hafið. Mun meira þarf að koma til næstu misseri. Húsakynni þarna eru að hluta til mjög illa farin. Hér þarf að gæta að því að vanáælta ekki og enda í einhverjum framúrkeyrslum. En vissulega er mikilvægt að finna út úr hvernig er hægt að nota þessi hús og staðsetningu. Ef vel tekst til styður borgarfulltrúi Flokks fólksins  hugmyndina/verkefnið.

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. september 2019 um kynningar vegna varanlegrar lokunar Laugavegar, sbr. 59. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019.

Um er að ræða svar við fyrirspurn Flokks fólksins um kynningar vegna varanlegrar lokunar Laugavegar. Flokkur fólksins hefur áður spurt um þessa hluti og fær sífellt sama svarið frá borgarmeirihlutanum, að kynning hafi farið fram.

Spurt var nánar tiltekið hvort kynningin sem hér um ræðir og var flutt sumarið 2019 hafi verið kynnt hagsmunaaðilum öllum og óskað eftir viðbrögðum þeirra. Það er sagt í svari að það hafi verið gert og viðbrögð fengin. Flokkur fólksins spyr þá,  hver voru viðbrögð hagsmunaaðila og hafa þau verið tekin til greina? Til að fá þetta staðfest þá hafði borgarfulltrúi  samband við hagsmunaaðila og spurði hvort þeir hafi fengið kynningu og ef svo var hvort þeim hafi verið  boðið að koma með viðbrögð. Orðrétt svar sem barst frá forsvarsaðila Miðbæjarfélagsins var eftirfarandi:„Samkvæmt könnun sem Miðbæjarfélagið gerði kannast engin rekstraraðili á þeim bænum við nokkra raunverulega kynningu. Ekki vott af samráði heldur yfirgang, frekju og skilningsleysi af hálfu borgaryfirvalda.“ Borgarfulltrúi spyr, hvernig má þetta vera?

 

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mögulega endurheimt votlendis á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september 2019.

Borgarfulltrúi þakkar svarið. Það votlendi sem nefnt er, er vísað í sem svona hugsanlegt votlendi í svarinu sem mögulega ætti að kanna. Tal um endurheimt votlendis á borgarsvæðinu er greinilega ekki á stórum skala enda ekki mikið til að endurheimta. Miðað við möguleika annars staðar á landinu er hér lítið að sækja. Í það minnsta er hér ekki um stórmál að ræða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að borgarmeirihlutinn ætti frekar að snúa sér að því að varðveita fjörur en t.d. að auka votlendi í Viðey eins og nefnt er í svari.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu framkvæmda sem nú er í gangi, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. mars 2019.

Óskað var upplýsinga um stöðu framkvæmda hvað varðar kostnaðaráætlanir, innkaup, samninga, eftirlit og aukaverk. Í svari er það sagt beint út að vegna fjölda verkefna sviðsins og að ekki sé haldið utan um upplýsingar sem óskað er eftir getur umhverfis- og skipulagssvið  ekki svarað. Flokkur fólksins óttast að yfirsýn meirihlutans, sviðsins og eftirlitsaðila á verkum sé ekki  góð og fleiri bakreikningar eiga jafnvel eftir að koma beint í andlit borgarbúa. Reykjavík er ekki stórborg og skyldi maður ætla að hægt væri að hafa þessa yfirsýn. Ef ekki er yfirsýn eða heildaryfirlit yfir verk er enn meiri hætta á að mistök endurtaki sig, eitthvað fari úrskeiðis bæði hvað varðar áætlanir og eftirlit. Í ljósi opinberunar á framkvæmdum sem hafa verið vanáætlaðar, farið því fram úr áætlun og jafnvel án heimildar verður meirihlutinn að skilja áhyggjur fólks af því hvort frekari opinberun verði á skandal eins og bragganum, Mathöllinni og fleiru. Borgarbúar vita almennt lítið hvað gerist bak við tjöldin enda fátt í rekstri og stjórnun borgarinnar hvað þessa þætti varða sem er gegnsætt.

 

Bókun Flokks fólksins við svari r umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbótarverkefni í tengslum við Klettaskóla, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september 2019.

Spurt var um viðbótarverkefni í tengslum við Klettaskóla og hver og hvernig skekkjumörkin eru ákveðin og hverjar eru forsendurnar?  Í svari er hins vegar aðeins birtur kafli úr reglugerðum: kostnaðaráætlun I og II, allt eitthvað sem borgarfulltrúi hefur sjálfur lesið. Spurt er um forsendurnar og ekki er birt nein svör við þeirri spurningu og er spurningin því enn meira knýjandi en áður. Borgarfulltrúi veltir fyrir sér hvort það sé þá alltaf þannig að gert er ráð fyrir 10-15% framúrkeyrslu? Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ekki alveg sáttur við öll þessi viðbótarverk og finnst líka eins og það sé jafnvel talið eðlilegt að þau komi til. Viðbótarverk ættu að vera undantekning. Þau eru til komin oft vegna skorts á framsýni og ekki hefur tekist að sjá fyrir það sem e.t.v. blasir við eins og t.d. að laga þurfi lóð eða endurnýja gamlar mublur.  Vissulega getur eitthvað óvænt komið upp á en það ætti að vera eins og framan greinir undantekning.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um þátttökugjöld grunnskólabarna, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019. 

Borgarfulltrúi lagði fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau, foreldrar eða skóli. Sviðið leitaði eftir svörum frá 36 skólum. Niðurstöður eru að skólar greiða yfirleitt kostnað vegna ferðalaga og viðburði. Foreldrar standa hins einir straum af ferðum nemenda í 5 skólum og í 10 skólum stand þeir straum að aðgengi á árshátíð og í þremur tilfellum greiða foreldrar sumarhátíð. Samkvæmt þessu eru börn ekki að njóta jafnræðis. Foreldrar með lítið milli handanna getur kannski ekki greitt aðgang að árshátíð, ferðir eða sumarhátíð.

Þessa þætti þarf að samræma til að auka möguleika barna á jöfnum tækifærum eins og kveður á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Ef um systkini er að ræða getur verið óvinnandi vegur fyrir foreldra  að greiða sem eru e.t.v. að fá innan við 100 þús. krónur í vasann til að lifa á mánuði eftir leigu. Talað er um í svari að leitast er við að tryggja að allir nemendur sem áhuga hafa á að taka þátt í viðburðum hafi tök á því, án tillits til efnahags foreldra. Hvað er átt við hér, hvað er meint með að „leitast er við“? Borgarfulltrúi hefur eftir lesturs svarsins enn meiri áhyggjur því þetta að „leitast við“ er ekki nógu sannfærandi og tryggir í raun engar betrumbætur.