Hagsmunafulltrúi aldraðra – taka 2

Í annað sinn á kjörtímabilinu leggur Flokkur fólksins fram tillögu um að stofnað verði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík. Markmiðið með embætti hagsmunafulltrúa aldraðra er að hann skoði málefni eldri borgara og haldi utan um hagsmuni þeirra, fylgist með aðhlynningu og aðbúnaði þeirra. Hagsmunafulltrúi aldraðra kortleggur stöðuna í húsnæðismálum aldraðra, heimahjúkrun og dægradvöl og fylgist með framkvæmd heimaþjónustu. Hann skal leggja sjálfstætt mat á það hvort borgaryfirvöld uppfylli skyldur sínar gagnvart öldruðum. Hann fylgist einnig með hvort einkaaðilar uppfylli kröfur laga um aðgengi og banni við mismunun þegar kemur að réttindum eldri borgara. Hann tæki á móti ábendingum frá borgurum um málefni eldri borgara og fræðir eldri borgara um eigin réttindi. Auk þess ber hagsmunafulltrúa aldraðra að hafa frumkvæðiseftirlit með högum eldri borgara, sérstaklega með tilliti til þess að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað.

Hagsmunafulltrúi aldraðra skal vekja athygli stjórnvalda og almennings á málum sem hann telur að brjóti á réttindum eldri borgara. Einnig skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum sem snerta aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.
Lagt er jafnframt til að Öldungaráð Reykjavíkur komi að mótun hlutverks embættis hagsmunafulltrúa og að hagsmunafulltrúi gefi Öldungaráði reglulega skýrslu um starfsemi embættisins.

Utanumhald og heildarsýn

Með því að stofna embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík næst betri heildarsýn yfir málefni eldri borgara og eldri borgarar fá sinn málsvara sem þeir geta leitað til með eigin málefni telji þeir brotið á réttindum sínum.
Hagsmunafulltrúa aldraðra er samkvæmt tillögunni ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín innan borgarkerfisins og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim.

Þjónusta við aldraða dreifist á ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðila. Lög og reglur um málaflokk aldraðra eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur sem er misjafnlega fær um að gæta eigin réttinda og hagsmuna. Markmiðið með þessari tillögu er ekki að hagsmunafulltrúi eldri borgara taki við starfsemi Öldungaráðs Reykjavíkur. En ráðning hagsmunafulltrúa myndi tryggja það að faglega menntaður einstaklingur í launaðri stöðu sinni virkri réttargæslu í þágu eldri borgara. Þá getur slíkt embætti veitt Öldungaráðinu aðstoð í sínum störfum þar sem hagsmunafulltrúi gæti þá fylgst með því að ábendingum Öldungaráðs sé fylgt eftir í framkvæmd. Það er rík þörf á að aldraðir eigi málsvara í Reykjavík sem gætir réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeinir þeim um rétt þeirra.

Taka 2

Tillagan um stofnun embættis hagsmunafulltrúa eldri borgara var áður flutt af fulltrúa Flokks fólksins í borgarstjórn vorið 2019 en var þá felld í kjölfar umsagnar Öldungaráðs Reykjavíkur. Þáverandi Öldungaráð Reykjavíkur veitti neikvæða umsögn á þann veg að embætti hagsmunafulltrúa aldraðra væri óþarft þar sem nú þegar væri verið að fjalla um þessi mál. Þess utan væri starfandi Umboðsmaður borgarbúa sem fer meðal annars með málefni eldri borgara eins og segir í umsögninni. Umsögnin kom á óvart fyrir nokkrar sakir en ekki síst í ljósi þess hversu brösuglega gekk að reka embætti Umboðsmanns borgarbúa. Fram kom hjá umboðsmanninum þegar hann var beðinn um álit á afgreiðslu tillögunnar að mikið álag væri á embættið og málsmeðferðartími langur. Ef embættið ætti að anna öllum þeim málum sem það fæst við þyrfti fjármagn og mannafla ekki hvað síst svo það geti haft frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða. Embætti Umboðsmanns borgarbúa var stuttu síðar lagt niður.

Flokkur fólksins á Alþingi hefur einnig lagt í þrígang fram tillögu um hagsmunafulltrúa aldraðra á vegum ríkisins. Öldungaráð Reykjavíkur sendi inn sömu neikvæðu umsögnina, „að hagsmunafulltrúi aldraðra væri óþarfur þar sem verið væri að vinna þessi störf af starfsmönnum velferðarsviðs og hagsmunafélaga.“

Annan tón kvað við í síðari umsögn Öldungaráðs Reykjavíkur við þingsályktunartillögu Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa aldraðra dagsett 14. október 2019. Þá fagnar Öldungaráðið tillögunni og hvetur til þess að félags- og barnamálaráðherra leggi fyrir árslok 2020 fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Félag eldri borgara hefur hins vegar ávallt verið hlynnt og stutt hugmynd um hagsmunafulltrúa aldraðra.

Það er skylda sveitarfélags að sjá til þess að haft sé frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða. Það er jákvætt ef Öldungaráð er starfrækt á vegum borgarinnar en engu að síður er þörf á embætti sem sinnir virkri réttindagæslu í þágu eldri borgara. Þannig fá eldri borgarar bæði sína fulltrúa þegar kemur að stefnumótun Öldungaráðsins og framkvæmd í formi hagsmunafulltrúa.

Birt í Morgunblaðinu 16.2 2021