Mannréttinda- lýðræðis- og nýsköpunarráð 12. mars 2020

Tillaga  Flokks fólksins um að mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð skoði hvort farið hafi verið á svig við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum og jafnréttisreglur mögulega brotnar við endurgerð búningsklefa Sundhallar Reykjavíkur

Flokkur fólksins leggur til að mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð skoði hvort farið hafi verið á svig við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum og jafnréttisreglur mögulega brotnar við endurgerð búningsklefa Sundhallar Reykjavíkur. Konum hefur verið úthýst úr klefum sínum á meðan á viðgerð stóð og einnig til frambúðar en körlum ekki. Karlar fengu eldri kvennaklefanna til afnota á meðan viðgerð stóð yfir á karlaklefunum og fá áfram aðgang að eldri klefunum til frambúðar. Ekki lítur út fyrir að konur fái aðgang að gömlu klefunum aftur þegar endurgerð er lokið sem verður á þessu ári. Margar konur hafa lýst óánægju sinni með þá ákvörðun borgaryfirvalda að henda þeim úr sínum gömlu klefum á meðan karlar hafa áfram aðgang að sínum. Konum hefur verið vísað í nýbyggingu. Mörgum þeirra finnst staðsetning búningsklefa þar bagaleg þar sem þær verða að ganga langa leið utandyra, í blautum sundfötum til að komast frá klefa í laugina. Í lagi var að þola ástandið um tíma meðan á viðgerð kvennaklefa stæði en sá tími er að verða liðinn. Körlum hefur hins vegar ekki verið vísað úr eldri byggingunni ekki heldur meðan á endurgerð stóð.

Frestað.

 

Bókun Flokks fólksins við frávísun tillögu um að að gerðar verði breytingar á fyrirhuguðu deiliskipulagi við Laugaveg og nærliggjandi götur til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks:

Flokkur fólksins bendir á að með áætlun meirihlutans að loka alfarið fyrir umferð ökutækja um Laugaveg, Skólavörðustíg og Vegamótastíg er verið að brjóta á réttindum fatlaðra. Með því að neita fötluðu fólki og jafnframt eldri borgurum sem eiga erfitt með hreyfingar að koma á ökutækjum sínum inn á lokaðar göngugötur miðborgarinnar er verið að brjóta nýsett lög í landinu og samþykktum Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðra um aðgengi til jafns við aðra borgarbúa. Þetta varðar mannréttindi þessara hópa sem Flokkur fólksins óskar að meirihlutinn virði.

Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins, að vísa tillögunni frá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Breyting á deiliskipulagi er ekki á verksviði mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs heldur á verksviði skipulags- og samgönguráðs samkvæmt skipulagslögum og samþykktum ráðanna. Því er tillögunni vísað frá. Bent er á að fulltrúi Flokks fólksins er með áheyrnarfulltrúa í því ráði og getur því lagt þar fram tillögur. Allir flokkar hafa fulltrúa á þeim vettvangi og því ber að beina málum sem falla undir þann málaflokk þangað.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni um að auka þurfi möguleika bæði hreyfihamlaðra og eldri borgara á að njóta umræddra gatna og gera þeim kleift að sækja sér þá þjónustu sem þar er í boði án vandkvæða. Þó tillagan heyri ekki beint undir verksvið Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, enda fer ráðið ekki með skipulagsmál, er það eðlilegt og rétt að taka jákvætt undir þau sjónarmið sem þar eru sett fram, um jafnt aðgengi allra borgarbúa að þessum verðmætu svæðum borgarinnar.