Mannréttinda,- lýðræðis- og nýsköpunarráð 27. febrúar 2020

Lagðar fram fundargerðir ofbeldisvarnarnefndar frá 3. febrúar, aðgengis og samráðsnefndar fatlaðs fólks í Reykjavík frá 6.febrúar og öldungaráðs frá 10. febrúar 2020.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 3. lið fundargerðar aðgengis- og samráðsnefndar frá 6. febrúar s.l.:

Þessi fyrirspurn var um hvort borgin sé ekki örugglega að virða ný umferðarlög sem tóku gildi 1.1.2020. Flokkur fólksins spurði hvort ekki standi til að opna göngugötur fyrir bílum sem hafa heimildarákvæði samkvæmt nýjum umferðarlögum, sem eru nýmæli og undantekning frá akstursbanni um göngugötur. Allir bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Í raun eiga þeir sem aka P merktum bílum að hafa heimild til að aka og leggja í allar göngugötur borgarinnar samkvæmt nýjum lögum.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 6. lið fundargerðar öldungaráðs frá 10. febrúar s.l.:

Afstaða öldungaráðs er að ekki eigi að styðja tillögu Flokks fólksins um að rýna í regluverk borgarinnar með gagnrýnisgleraugum til að skoða hvort textinn sé gildishlaðinn og feli í sér fordóma. Engu að síður vill öldungaráðið hafa tillöguna að leiðarljósi? Hér er verið að leggja til að skoða hvort borgin sjálf sé með gildishlaðinn texta í sínu regluverki og ef svo er þá lagfæra það. Borgin á að vera fyrirmynd. Flokkur fólksins hefur séð gildishlaðinn bækling í félagsmiðstöð aldraðra. Athuga ber að eldri borgarar hafa ekki beina aðkomu að samningu texta í reglum og samþykktum sem þeim ætti að sjálfsögðu að vera boðið að gera.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu íþrótta- og tómstundasviðs á notkun frístundakorts út frá mannréttindastefnu:

Kortið á að vera alfarið tengt barninu og óskum þess til frístundaiðkunar og því eingöngu nýtanlegt til að greiða fyrir tómstundir sem barnið velur sjálft að stunda eins og upphaflegt markmið þess var. Kortinu á ekki að vera ætlað til annarra hluta eins og að greiða frístundaheimili sem barnið er á af nauðsyn eða tungumálaskóla. Tenging frístundarkorts við fjárhagserfiðleika foreldra er óeðlilegt. Þetta sést glöggt í hverfi 111 þar sem fátækt er hlutfallslega mest og hæsta hlutfall innflytjenda, þar er einnig minnsta notkun kortsins í íþróttir barna. Rjúfa þarf tengsl kortsins við 16. grein.a um sérstaka fjárhagsaðstoð þannig að án tillits til efnahags foreldra fái barnið alltaf tækifæri til að nota kortið til að velja sér íþrótt eða tómstund. Aftur á móti verði foreldrum veittur nauðsynleg aðstoð samkvæmt 16. gr.a reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, fyrir greiðslur á frístundaheimilum óháð notkun á frístundakortinu. Frístundakortið er í þágu tómstundariðkunar barns og jafnframt barna þeirra sem fá aðstoð. Það þarf með öllu að koma í veg fyrir skerðingu á frístundakortinu njóti foreldrar annarrar fjárhagsaðstoðar eða fyrirgreiðslna vegna barns eða barna frá Reykjavíkurborg. Þannig ætti aldrei að skerða þann rétt barnsins að nota kortið til tómstunda eða íþróttaiðkunar, enda er það í anda íþróttaáætlunar borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu á jafnréttisúttekt á íþróttafélögum:

Við væntanlega úttekt á jafnrétti innan starfsemi íþróttafélaga vill Flokkur fólksins árétta að hugað verði að jafnrétti í sem víðustum skilningi. Hér skal benda sérstaklega á fötluð börn og skýran rétt þeirra til að stunda íþróttir sem og börn efnalítilla foreldrar, en komið hefur ljóslega fram að þessir hópar stunda íþróttir síður en önnur börn í borginni. Má í því samhengi nefna frístundakortið sem efnalitlir foreldrar neyðast til að nota til að greiða fyrir frístundaheimili fyrir börn sín. Þar þarf annar stuðningur að koma til. Kynningastarf þarf að vera betra þá sérstaklega hvað varðar erlenda borgara sem jafnvel eru nýflutt til landsins. Hvað varðar kynjajafnrétti þá ber klárlega að hafa í huga launajafnrétti, en nýlega hefur komið í ljós að þar er mikill mismunur m.a. laun dómara í kvennaboltanum v.s. karlaboltanum. Því má ætla að svipað sé upp á teningnum hvað varðar þjálfaragreiðslur innan íþróttafélaga. Menntun þjálfara ber jafnframt að hafa í huga hvað allt jafnrétti áhrærir og að opnaður sér skilningur á mismun einstaklinga og getu þeirra til íþróttaiðkunar, en íþróttaiðkun er öllum holl hvernig sem einstaklingurinn er í laginu bæði að innan og/eða utan.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblað mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 7. febrúar 2020, um úttekt á klefa- og salernisaðstæðum í húsnæði sem Reykjavíkurborg veitir þjónustu:

Flokkur fólksins hefur mótað sér skýra afstöðu í þessu máli. Flokkur fólksins tekur undir mikilvægi þess að gera úttekt á búningsklefum enda eru sumir komnir á tíma og mætti bæði endurhanna og endurbyggja. Sjálfsagt er að gera úttekt á salernum en breytingar á merkingu þannig að öll salerni verði ókyngreind hefur flokkurinn haft ákveðna efasemdir, þær snúa fyrst og fremst viðhorf almennings. Flokkur fólksins vill ekki að farið verði í framkvæmdir sem þessar m.a. vegna kostnaðar án þess að fólkið í borginni telji þetta brýna nauðsyn. Flokki fólksins finnst þessi kyngreiningarmál salerna meira svona áherslumál meirihlutans í borginni á þörf fyrir að setja mál af þessu tagi á stall. Flokkur fólksins styður jafnrétti í einu og öllu og leggur mikla áherslu á að öllum líði vel í samfélaginu. Varðandi salernismálin og kyngreiningu þeirra þá hafa heyrst fjöldi radda sem vilja gjarnan halda aðskildum klósettum, vegna þeirra sem setjast á klósettsetuna og hinn sem standandi við postulínið. Skoðanir allra þarf að virða gagnvart þessu sem öðru og hlusta þarf á raddir allra hópa. Flokkur fólksins skilur að málið getur verið flókið og vonandi finnst viðunandi lausn sem flestir geta sætt sig við. En fyrst er að fá lögin á hreint.