Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að fjölga stöðugildum hjá Leikni um eitt og hálft til að geta haldið úti öflugu starfi í hverfi 111 en þar býr hæsta hlutfall fjölskyldna á fjárhagsaðstoð
Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að þjónustusamningur sem til stendur að endurnýja við Leikni feli í sér fjölgun stöðugilda um eitt og hálft. Leiknir er með aðeins eina deild og því ekki skilgreint sem hverfisfélag. Félagið hefur ekki fjárhagslega burði til að fjölga íþróttagreinum til að geta kallast hverfisfélag. Eini starfsmaður Leiknis gengur í öll störf. Sérstaða Leiknis er að félagið er í hverfi 111 en það hverfi er með hæsta hlutfall fjölskyldna á fjárhagsaðstoð og hæsta hlutfall borgara af erlendum uppruna. Æfingagjöld Leiknis eru lág og eru að upphæð kr. 50.000/ári fyrir yngstu iðkendurna. Forsenda þess að hægt sé að efla starfið er að fjölga stöðugildum og að öll börn án tillits til efnahags foreldra geti notað rétt sinn til Frístundakortsins samkvæmt upphaflegum tilgangi þess. Ein af ástæðum fyrir fáum iðkendum hjá Leikni er að Frístundakortið nýtist illa í hverfi 111. Fátækir foreldrar hafa þurft að nota Frístundakortið til að t.d. greiða fyrir frístundaheimili, tungumálakennslu auk þess sem það er sett sem skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól og afskriftir skulda. Börn þessara foreldra hafa því ekki sömu tækifæri og önnur börn að nota rétt sinn til Frístundakortsins til að niðurgreiða íþróttaiðkun.
Greinargerð
Flokkur fólksins er hér að horfa til hagsmuna barna í Efra-Breiðholti. Sérstaða Leiknis er mikil. Til að Leiknir geti haldið lágum æfingagjöldum, haldið úti öflugu starfi, hlúð að iðkendum sínum og fundið leiðir til að stækka og vaxa þarf að bæta við einu og hálfu stöðugildi. Leiknir er ekki félag sem getur treyst á það að æfingagjöld borgi launakostnað þjálfara yngri flokka. Æfingagjöldin dekka ekki launakostnað. Hækki gjöldin eru líkur á að færri börn stunda íþróttir í Efra-Breiðholti. Leiknir er einfaldlega í allt öðru umhverfi en öll önnur félög.
Leiknir er ekki hverfisfélag samkvæmt skilgreiningu borgarinnar, þótt það sé einungis eitt félag í Efra-Breiðholti. Ef Reykjavíkurborg vill að Leiknir verði hverfisfélag samkvæmt skilgreiningu borgarinnar er félagið tilbúið til þess. Leiknir er sem dæmi tilbúið til að stofna blakdeild.
Félagsgjöld Leiknis eru 50.000 kr. fyrir þau yngstu og upp í 70.000 kr. fyrir þau elstu. Gjöldin eru ekki lotuskipt. Ávallt eru einnig einhver börn sem mæta en geta ekki greitt félagsgjald. Í hverfinu búa mörg börn sem langar að taka þátt í starfi Leiknis en geta það ekki vegna bágs efnahags foreldra. Oft koma krakkar inn sem ekki tala neina íslensku og vita að hjá Leikni hitta þau önnur börn sem eru í sömu sporum. Engum er vísað frá og reynt er að taka alla með í starfið þótt þeir séu ekki formlega skráðir í félagið.
Samningur sem nú er í gildi milli borgarinnar og Leiknis tók gildi 22. janúar 2008. Drög að nýjum samningi liggja á borðinu frá ÍTR sem býður félaginu hækkun upp á 56.000 kr. á mánuði. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að þetta sé ekki í neinum takti við þá launaþróun sem hefur átt sér stað á síðasta áratug. Þetta er heldur ekki í neinu samræmi við þær kröfur og lágmarksskyldur sem félaginu er gert að sinna. Í drögum að nýjum samningi er auk þess gerðar nýjar kröfur til félagsins. Þar segir:
„Leiknir skal kaupa ábyrgðartryggingu vegna starfsmanna hússins og ber ábyrgð á því skaðabótaskyldu tjóni sem gestir kunna að verða fyrir og rekja má til vanrækslu á viðhaldi, sem er á ábyrgð félagsins, eða umsjón félagsins á mannvirkjum.
Slík trygging sem hér um ræðir kostar mikið. Í raun má því segja að ekki sé verið að hækka þennan samning um 56.000 kr. á mánuði, þar sem skuldbindingar koma á móti. Sífellt er verið að setja meiri skuldbindingar á Leikni án þess að nokkuð komi á móti. Sem dæmi bættust sorpgjöld á Félagið árið 2018. Sjálfsagt er að Félagið greiði slíkt en það þarf þá að fylgja því fjármagn. Að öðrum kosti kemur það niður á starfinu. Vegna þess að Leiknir berst í bökkum fjárhagslega eru laun þjálfara lægri en gengur og gerist hjá öðrum íþróttafélögum.
Það er orðið alveg ljóst að Leiknir getur ekki rekið félag með einungis einn starfsmann og getur heldur ekki haldið úti starfi í því fjárhagslega umhverfi sem Reykjavíkurborg býður upp á. Til að geta sinnt lágmarksskyldu þarf Leiknir að bæta við að lágmarki einu og hálfu starfsgildi hjá félaginu svo það geti sinnt lágmarksskyldu.
Með hagsmuni barna í hverfinu að leiðarljósi sem mörg eru börn efnaminni foreldra er mikilvægt að styðja og styrkja Leikni sérstaklega. Mest um vert er að fjölga stöðugildum. Með öðrum starfsmanni er ekki öll viðvera á herðum eins starfsmanns og hægt er að skipta með sér þrifum og annarri ábyrgð. Með fleiri stöðugildum er hægt að bjóða upp á meiri sveigjanleika og vinna markvisst að því að fjölga iðkendum en halda áfram lágum iðgjöldum. Svo virðist sem Leiknir eigi engan talsmann í stjórnkerfi borgarinnar og það er mat borgarfulltrúa að enginn sé þar að berjast fyrir lífi þessa félags. Tími er kominn að gera betur fyrir lítið félag sem er með lægstu æfingagjöldin og er í hverfi þar sem ríkir mest fátækt af öllum hverfum borgarinnar, þar sem hæsta hlutfall erlendra borgara býr og þar sem félagsleg blöndun þeirra hefur með öllu mistekist.
Um Frístundakortið og afbökun upphaflegs tilgangs þess
Flokkur fólksins vill nota tækifæri hér og ræða um málefni Frístundakortsins enn einu sinni enda um réttlætismál að ræða fyrir börnin ekki síst börnin í hverfi 111 þar sem hæsta hlutfall fjölskyldna á fjárhagsaðstoð býr. Komið hefur fram í fyrri svörum borgarinnar við fyrirspurnum Flokks fólksins að fjöldi þeirra sem sækja um fjárhagsaðstoð er mestur hverfi 111 en þar er einnig Frístundakortið minnst nýtt af öllum hverfum. Fulltrúi Flokks fólksins telur líklegt að það sé vegna þess að Frístundakortið er skilyrði þess að foreldrar geti sótt um fjárhagsaðstoð. Notkun Frístundakortsins í hverfi 111 er innan við 70% og notkun þess er minnst í íþróttir í samanburði við önnur hverfi ( 21% stúlkna og 43% drengja). Í hverfinu er 35% barna eru af erlendu bergi brotin.
Upphaflegt markmið Frístundakortsins var að öll börn gætu tekið þátt í tómstundaiðkun óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Kortið átti að auka jöfnuð og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Árið 2009 var af tilstuðlan VG reglum breytt fyrst þannig að hægt var að nota það til að greiða frístundaheimili. Nú er kortinu ætlað að dekka fleira s.s. tungumálakennslu og er einnig notað sem gjaldmiðill upp í skuldir, skuldaskjól og sem aðgangsmiði til að sækja um fjárhagsaðstoð. Hægt er að fara aðrar leiðir og hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins bent á styrki á grundvelli 16. gr. A. Það er ábyrgð velferðarsviðs að upplýsa foreldra sem þess þurfa um möguleika á styrk á grundvelli 16. gr. t.d. til að greiða Frístundarheimili. Börn eru á Frístundarheimili til þess að foreldrar geti unnið úti. Það er óeðlilegt að taka réttinn til Frístundarkortsins af foreldrum sæki þeir um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól eða afskriftir. Hér er verið að brjóta á börnum, gefa þeim tækifæri með hægri hendi en hrifsa það til baka með þeirri vinstri.
Leiknir berst fyrir að fá fleiri iðkendur og vilja þess vegna halda æfingagjöldum sem lægstum. Verði reglum um Frístundarkort breytt til upphaflegs tilgangs þess myndi nýting þess verða betri. Fleiri börn fengju tækifæri til að skrá sig ef þau gætu nýtt Frístundarkortið til að niðurgreiða félagsgjöldin. Það myndi breyta miklu fyrir börnin í hverfinu ef þau gætu nýtt Frístundarkortið sitt til að skrá sig hjá Leikni. Með fjölgun iðkenda mun Leiknir eflast og geta stækkað.
Í gangi er starfshópur „um Frístundarkort“ en ekki er vitað um framvindu þeirrar vinnu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins skorar á stýrihópinn að breyta reglum um Frístundarkortið þannig að það hafi aðeins sitt upphaflega markmið sem er „að öll börn og unglingar í Reykjavík 6 – 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.“
Munum að Frístundakortinu var ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Til að aðstoða efnalitla foreldra með gjöld á frístundaheimili og í málanám er aftur minnt á styrk á grundvelli 16. gr. a. Afnema á alfarið allt sem tengir Frístundarkortið við fjárhagsaðstoð, skuldaskjól eða afskriftir foreldra enda er með því verið að ganga á rétt barna til að hafa jafna stöðu að stunda íþróttir- og tómstundir.
Afgreiðsla
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gen 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga um að fjölga stöðugildum Leiknis hefur verið felld. Það er ljóst að þetta litla íþróttafélag sem nú berst í bökkum á sér engan talsmann í borginni. Sérstaða félagsins er mikil enda mitt í hverfi þar sem félagsleg blöndun hefur mistekist. Í hverfi 111 býr hæsta hlutfall fjölskyldna með fjárhagsaðstoð og hæsta hlutfall borgara af erlendum uppruna. Þar er einnig lægsta hlutfall barna sem stunda íþróttir en í þessu hverfi er jafnframt Frístundakortið minnst nýtt af öllum hverfum eða innan við 70%. Leiknir er ekki félag sem getur treyst á að æfingagjöld borgi launakostnað þjálfara yngri flokka. Hækki gjöldin eru líkur á að færri börn stundi íþróttir í Efra-Breiðholti. Ávallt eru einnig einhver börn sem mæta en geta ekki greitt félagsgjald. Til stendur að endurnýja 12 ára samning en í nýjum drögum eru viðbótin aðeins 56. þús. á mánuði. Það er ekki í samræmi við kröfur um lágmarksskyldur félags sem nú er einnig gert að kaupa ábyrgðartryggingu og greiða sorpgjöld. Sjálfsagt er að félög greiði slíkt en það þarf þá að fylgja því fjármagn. Mannauður Leiknis, sem er einn starfsmaður er þurrmjólkaður og haldi sem horfi með óbreyttar reglur um frístundakortið verður gengið að félaginu endanlega dauðu.
Bókun Flokks fólksins við umræðu um Elliðaárdalinn:
Málefni Elliðaárdalsins er viðkvæmt enda um einstakt svæði að ræða. Sá hluti hans Stekkjabakki er ekki þar undanskilinn. Verndun svæðisins alls hefði verið besta ákvörðunin og í framhaldinu unnið með Reykvíkingum að mögulegu framtíðarskipulagi á svæðinu. Nú er nýtt hverfi, Vogabyggð, að byggjast upp með 3200 íbúðum. Einnig er fyrirséð að Ártúnshöfðinn muni byggjast upp sem íbúðabyggð með 3-4000 nýjum íbúðum. Gera má ráð fyrir að íbúar þessara nýju hverfa og annarra hverfa í Reykjavík njóti þess að stunda útivist í dalnum. Þeir sem láta sér annt um þetta svæði eru uggandi um að bygging þessa Aldin Biodome sé aðeins upphafið að fleiru sem á eftir að gera þetta svæði að allt öðru en það er? Samkvæmt aðalskipulagi eru nokkrir aðrir þróunarreitir í dalnum sem til stendur að byggja á. Hvað fleira er í bígerð hjá skipulagsyfirvöldum á þessu svæði er ómögulegt að segja til um. Það er erfitt fyrir fólkið í borginni að hafa áhrif á þetta þar sem um 18 þúsund undirskriftir þarf til að fá íbúakosningu. Nú er í gangi undirskriftasöfnun sem kannski aðeins brot af Reykvíkingum vita um. Enn er dágóður hópur í Reykjavík sem ekki notar tölvur til að greiða atkvæði og getur vel verið að hluti þessa hóps sé ekki kunnugt um þessa undirskriftasöfnun.
Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að stofna heimavist í Reykjavík:
Það er sérkennilegt af meirihlutanum að koma með tillögu um heimavist fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert sem leggur skyldu á Reykjavík til að koma á fót svona heimavist en það er ekki heldur neitt sem bannar Reykjavík að gera það. Alla vega er ekki séð að þessi umræða eigi heima í borgarstjórn. Flokkur fólksins hefur sannarlega ekkert á móti heimavist og finnst miður að borgarstjórn hafi eytt tíma í að þrasa um þetta mál á fundi borgarstjórnar. Segir í tillögunni að „mögulegar staðsetningar verði í nálægð við framhaldsskóla og góðar almenningssamgöngur“. Hvaða framhaldsskóla? Á borgarstjórn að fara að ræða um það líka? Lög um framhaldsskóla gera ráð fyrir því að ríki og sveitarfélag geti staðið saman að stofnun skóla, m.a. með því að ríkið greiði hluta stofnkostnaðar. Flokkur fólksins hvetur ríki og sveitarfélög endilega til að gera það. Ákvæðin í lögum um framhaldsskóla fjalla ekki beint um hvort þau taki einnig til þegar sveitarfélag vill byggja heimavist án þess að það tengist stofnun skóla en þar sem ákvæðin gera ráð fyrir samkomulagi milli ráðherra og sveitarfélags getur ráðherra án efa gert samning um aðkomu ríkisins að rekstri slíkrar heimavistar?
Bókun Flokks fólksins við umræðu um Skýrslu borgarskjalavarðar:
Það er nú staðfest að skjalastjórnun var ekki samkvæmt lögum í braggamálinu. Við lestur skýrslna Innri endurskoðunar og Borgarskjalavarðar er ekki erfitt að fá það á tilfinninguna að lög hafi verið brotin af ásettu ráði í braggaverkefninu. Þetta er áfellisdómur yfir borgarstjóra og borgarritara ekki síst vegna þess að engin skjöl fundust um upplýsingar og samskipti milli þeirra og SEA. Einnig hafi það ekki verið í samræmi við 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga að færa ekki inn munnlegan samning við Arkitektabúlluna. Þetta hefði þurft óháða rannsókn og því hefði verið réttast að samþykkja tillögu Flokks fólksins og Miðflokksins frá því 15. janúar 2019 „um að fela embætti borgarlögmanns að vísa skýrslu innri endurskoðunar til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar.“ Segir í tillögunni að jafnframt verði sama embætti falið að senda niðurstöður Borgarskjalasafns á skjalamálum í sama máli áfram þegar þær liggja fyrir. Að vísa málinu til borgarlögmanns er galin hugmynd. Að sjálfsögðu getur engin í Ráðhúsinu rannsakað þetta mál. Það væri eins og borgarstjóri væri að rannsaka það sjálfur. Allt gerist þetta á vakt hans og borgarritara. Hans niðurstöðum væri því erfitt að treysta í ljósi tengsla, nálægðar og hvernig ráðning hans bar að en þar voru jafnréttislög brotin.
Bókun Flokks fólksins við umræðu um kjaramál og verkfall í Reykjavík:
Borgarstjóri getur á einu augabragði ákveðið að leysa þessa kjaradeilu. Hann neitar að gera það þrátt fyrir vandræðaástand í borginni. Velta má fyrir sér í þessu sambandi hvort borgarstjóri sé með nægjanlega hæfa ráðgjafa sér til handa? Nú er hafinn sá tími sem fólk er farið að nota leyfin sín, sumarleyfi til að vera heima hjá börnum sínum vegna verkfallsins sem þýðir að sumir munu ekki eiga neitt frí eftir í sumar og/eða þurfa að taka frí án launa. Það eiga ekki allir foreldrar varasjóði til að geta gert það. Það væri óskandi að borgarstjóri hlustaði á mann eins og Stefán Ólafsson, prófessor. Fáir eru eins miklir sérfræðingar og hann í þessum málum. Fólk er farið að gera sér grein fyrir að lyfta þarf botninum enda útilokað að lifa á þeim launum sem ófaglærðu starfsfólki Eflingar er ætlað að lifa á. Endurmeta þarf sérstaklega störf er snúast um umönnun barna, aldraðra og sjúkra og hækka laun þessara stétta sérstaklega. Það er öllum ljóst að séraðgerða þarf til ef bæta á jöfnuð. Samfylkingin kynnti sig sem flokkur jöfnunar en fátt minnir á jöfnun við þann Flokk lengur. Flokkur fólksins styður kröfur Eflingar heilshugar. Lyfta þarf botninum með séraðgerð.
Bókun Flokks fólksins við umræðu Sósíalista um lág laun:
Samfylkingin hefur ávallt gefið sig út fyrir að vera jafnaðarmannaflokkur en er nú sá flokkur sem stendur í vegi fyrir að laun þeirra lægstu hækki. Hér er um að ræða störf sem snúast um ummönnun barna, aldraðra og sjúkra. Ef á að auka jöfnuð þá verður að hækka laun þessara stétta sérstaklega. Auðvitað getur borgarstjóri ákveðið að þetta gerist án þess að launahækkanirnar hlaupi upp launastigann í svokölluðu höfrungahlaupi, enda væri um sérstaka aðgerð að ræða, þar sem þetta fólk hefur dregist aftur úr. Þessar stéttir sem hér um ræðir hafa litla möguleika á aukatekjum eins og aðrar stéttir hafa möguleika á. Það er útilokað að lifa á þessum lægstu launum hjá borginni. Stefán Ólafsson prófessor hefur bent á að ef ófaglærður starfsmaður sem færi að vinna á kassa í Bónus fengi hann 130.000 krónum meira á mánuði og ef hann færi í sorphreinsun þá fengi hann 201.000 krónum meira á mánuði. Þegar fólk er búið að greiða leigu eða lán og helstu reikninga er ekki mikið eftir. Ef fólk á ekki fyrir mat dugar skammt að ræða um lífskjarasamninga. Hér vill Flokkur fólksins einnig minna á samstarfssáttmála meirihlutans en í honum stendur að það „eigi að leiðrétta laun kvennastétta“.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu fundargerða, 29. lið fundargerðarinnar frá 13. febrúar:
Niðurstaða frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafnsins á skjalavörslu og skjalastjórn SEA er að skjalavarsla skrifstofunnar hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur um skjalavörslu og skjalastjórn og að margvíslegir vankantar hafi verið á framkvæmd hennar. Málið er ekki búið í hugum borgarbúa þótt allir þeir sem þarna komu að séu hættir. Þannig ganga hlutir ekki fyrir sig í siðmenntuðu samfélagi. Alvarleikinn felst í mörgu, að skjöl skyldu hafi verið vistuð löngu eftir að þau voru mynduð, m.a. var mikill fjöldi skjala vistaður í skjalavistunarkerfi eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun sína, segir að eftiráreddingar hafi verið í gangi. Langur listinn er yfir hvaða reglur voru brotnar (farið á sveig við lög. 77/2014 um opinber skjalasöfn). Engir póstar fundust í pósthólfi borgarstjóra og borgarritara varðandi Nauthólsveg 100. Hvernig var þá upplýsingum komið til yfirmanna, ábyrgðarmannanna? Munnlega, bara svona spjall yfir kaffibolla? Bragginn var kannski ekki milljarða verkefni en er eitt alvarlegasta mál sem upp hefur komið hjá þessum og síðasta meirihluta. Samt mun engin axla ábyrgð. Því miður náðist aldrei að koma þessu máli í frekari rannsókn til óháðra aðila eins og tillaga frá í jan. 2019 Flokks fólksins og Miðflokksins gekk út á. Enn liggur því í loftinu að þarna hafi verið um mögulegt misferli að ræða og slík staða er óþolandi.
Bókun Flokks fólksins undir 6. og 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 28. janúar og 4. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. febrúar:
Tillaga um stækkun Brúarskóla hefur verið felld. Í bókun meirihlutans er gefið i skyn að ekki sé lengur þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma og aukna þjónustu talmeinafræðinga. Samt bíða 111 börn eftir þjónustu talmeinafræðinga í leikskóla. Sagt er að stækkun skólans sé ekki tímabær. Samt bíða 19 börn eftir plássi í Brúarskóla. Á fimmta hundrað barna eru á biðlista eftir skólaþjónustu. Börn sem mörg hver fá ekki aðstoð fyrr en seint og um síðir. Tillögur Flokks fólksins um aukna og bætta þjónustu fyrir börn með geðraskanir er einnig felldar án skýringa. Samt eru dæmi um að börn séu sett í óviðunandi skólaaðstæður þar sem þeim líður illa þar sem öll sértæk skólaúrræði þ.m.t. Klettaskóli hefur ekki pláss. Einnig að barni sé vikið úr skóla vegna hegðunarfrávika enda þótt annað sé fullyrt í svari. Í annarri tillögu Flokks fólksins um að hafa foreldra meira í ráðum segir í svari borgarinnar að alltaf sé verið að spyrja foreldra. Hvar eru þau svör? Hvar eru viðhorf og skoðanir foreldra þegar verið er að taka stórar ákvarðanir er varða börn þeirra? Það verður að taka meira mark á foreldrum ekki síst í ljósi skýrslna landlæknis og annarra um aukna vanlíðan barna og sjálfskaða.