Bókun Flokks fólksins vegna tillögu um að sálfræðiþjónusta í skólum færist frá velferðarsviði til skóla- og frístundasviðs, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020:
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að sálfræðiþjónusta í skólum færist frá velferðarsviði til skóla- og frístundasviðs hefur verið felld. Það er miður því það fyrirkomulag sem nú ríkir virðist ekki vera nægjanlega skilvirkt kannski vegna þess að skóla- og frístundarráð hefur ekki yfirsýn. Samstarf tveggja sviða er einnig oftast vandkvæðum háð eins og oft hefur sést í borginni. Á fimmta hundrað börn eru á biðlista eftir fyrstu skólaþjónustu Reykjavíkurborgar og er stór hluti þeirra að bíða eftir sálfræðingi. Í ljósi stöðunnar þarf að grípa til margs konar aðgerða. Ein gæti verið sú að færa sálfræðinga nær börnunum og kennurum. Hvernig á skólaráð að geta haga málum sem best ef ráðið hefur ekkert um þessa stétt að segja? Skólastjórnendur kvarta sáran yfir að fagfólk sé fjarri skólanum sbr. skýrslu innri endurskoðunar frá því í júlí. Gjá hefur myndast á milli barna og sálfræðiþjónustu og hana þarf að brúa. Að færa skólasálfræðinga undir það ráð sem þeir eiga heima gæti verið eitt af fleiri skrefum. Næsta skref væri að fjölga sálfræðingum og setja alla orku borgarinnar í að taka á biðlistavanda sem nú er í hæstu hæðum. Flokkur fólksins kallar eftir aðgerðum strax. Þegar börn fá ekki þjónustu þá eykst vanlíðan þeirra með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um stækkun Brúarskóla:
Tillaga um stækkun Brúarskóla hefur verið felld. Í bókun meirihlutans er gefið i skyn að ekki sé lengur þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma og aukna þjónustu talmeinafræðinga. Nú bíða 111 börn eftir þjónustu talmeinafræðinga í leikskóla og aðeins brot af þeim fá lausn sinna mála fyrir grunnskóla. Einnig er áhugavert þegar menntastefnan er nefnd í þessu sambandi en það er eins og hún ein og sér, þ.e. stefnan, eigi að leysa einhver mál, en orð eru vissulega til alls fyrst. Sagt er að stækkun skólans sé ekki tímabær. Samt eru 19 börn á biðlista eftir plássi í Brúarskóla. Á fimmta hundrað barna eru á biðlista eftir skólaþjónustu. Börn sem mörg hver fá ekki aðstoð fyrr en seint og um síðir. Einnig í embættisafgreiðslum má sjá að tillaga um aukna og bætta þjónustu fyrir börn með geðraskanir með tilheyrandi auknu fjármagni er felld án skýringa. Dæmi erum um að börn séu tilneydd að stunda nám í almennum skóla þrátt fyrir að líða þar illa vegna þess að öll sértæk skólaúrræði þ.m.t. Klettaskóli, eru sprunginn. Dæmi er einnig um að barni sé vikið úr skóla vegna hegðunarfrávika enda þótt annað sé fullyrt í svari.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu barna sem bíða eftir plássi í Brúarskóla.
Fyrirspurn um stöðu barnanna sem bíða eftir plássi í Brúarskóla. Tillaga Flokks fólksins um stækkun Brúarskóla hefur verið felld. Í bókun meirihlutans er gefið i skyn að ekki sé lengur þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma og aukna þjónustu talmeinafræðinga. Engu að síður bíða 19 börn eftir plássi. Flokkur fólksins vill vita hvar þessi börn eru nú að stunda nám og hver er staða þeirra félags- og námslega? Hvaða aðstoð eru þau að fá núna? Hvenær komast þau inn í Brúarskóla? R19050072
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað margir grunnskólar í Reykjavík nýta sér stuðningskerfið Leið til læsis í lestrarkennslu, sbr. 71. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020:
Það er gott að heyra hjá sviðsstjóra að langflestir skólar borgarinnar nota kennsluefnið Leið til læsis. Hér er um gagnreynt efni að ræða. Mikilvægt er að nota allt efnið sem tengist Leið til læsis, s.s. skimunarprófin og handbókina. Að skima eftir framförum með reglubundnum hætti skiptir miklu máli. Spurning er hvort kennurum finnist þeir fái nægan stuðning og rými til að nota efnið í tímum, t.d. efni handbókarinnar og fylgja nemendum vel eftir. Hægt væri um vik fyrir skóla- og frístundaráð að kanna nánar hvernig þessum málum er háttað í skólum án mikils fyrirhafnar. Senda má spurningar út í skólanna til að safna upplýsingum. Enginn þörf er á ítarlegri eftirfylgni eins og lýst er í svari sviðsstjóra. Markmiðið er að auka lestrafærni og lesskilning barna og því er yfirsýn skólastjórnenda og skólaráðs borgarinnar mikilvæg. Ýmis konar annað kennsluefni stendur til boða í lestri en borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að sú aðferð til lestrarkennslu og kennsluefni sem er þaulreynd yfir langan tíma eigi að nota skilyrðislaust. Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskri nemendur standa sig marktækt verr í lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fækkun nemenda í bekkjum, hvað mörg börn fá kennslu í heimahúsi og hvert sé vægi listverkefna í grunnskólum
1. Hvað er skóla- og frístundarráð að gera til að fækka nemendum í bekkjum? 2. Hvað eru mörg börn sem fá kennslu í heimahúsi? 3. Hvað er ca. vægi tækni- og listverkefna í grunnskólum borgarinnar? R20020057
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins stöðu 144 sem bíða eftir sérstöku húsnæði:
Flokkur fólksins er með fyrirspurnir um stöðu þeirra sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk en þeir eru alls núna 144. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um þá sem bíða eftir sérstöku húsnæði í flokki I til IV. Hver er aldur þeirra sem bíða?
Hvað hafa aðilar beðið lengi eftir húsnæði? Hvað búa þessir einstaklingar núna? Hverjar eru aðstæður þeirra, fjárhagslega og félagslega? R20020060
Vísað til umsagnar velferðarsviðs.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð endurskoðunarnefndar frá 27. janúar 2020.
Í 5. lið fundargerðar Sorpu má sjá að skýrsla innri endurskoðunar er nefnd og má ætla að endurskoðunarnefndin hafi eitthvað fjallað um innihald skýrslunnar. Flokki fólksins leikur forvitni á að vita hvaða mat endurskoðunarnefndin leggur á málefni Sorpu og skýrsluna í heild og hvort lagt hefur verið fram eitthvað skriflegt í þeim efnum af hálfu endurskoðunarnefndar. Sé svo, væri vel þegið að fá það framlagt til að borgarfulltrúar geti kynnt sér það. R20010018
Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs vegna lokana gatna í miðbænum
Flokkur fólksins vill að miðbærinn sé fyrir alla borgarbúa og að utanbæjarfólki sé boðið velkomið að heimsækja hann. Sú þróun sem á sér stað er varðar göngugötur hefur orðið til þess að færri koma í miðbæinn. Hér er ekki verið að vísa í búendur svæðisins eða ferðamenn sem eru á hótelum staðsettum í bænum. Um fækkun Íslendinga í bæinn verður varla deilt. Flokkur fólksins er stofnaður til að gæta m.a. hagsmuna öryrkja og eldri borgara og er því fókusinn á aðgengi þeirra sem eiga erfitt um gang að miðbænum og þjónustu. Borgin er ekki enn farin að virða ný umferðarlög en í þeim kveður á um að heimilt er fyrir p-merkta bíla að aka og leggja á göngugötu. Flokkur fólksins vill einnig hugsa um eldra fólk í þessu sambandi. Enginn hefur farið varhluta af flótta verslana úr bænum sem einmitt gerði hann fjölbreyttan og litríkan. Eftir sitja einsleitar verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og auðvitað nokkrar aðrar verslanir, misvel settar, sumar sem rétt svo skrimta. Nú standa framkvæmdir fyrir dyrum að breyta Laugavegi í göngugötu. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort það bíði Laugavegar þá það sama og Hverfisgötunnar en þar töfðust framkvæmdir út í hið óendanlega með tilheyrandi afleiðingum fyrir rekstraraðila.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs ússtjórnar fjölbýlishúss við Álftamýri 46-52, dags. 23. september 2019, þar sem óskað er eftir að framkvæmd við hleðslustæði fyrir rafbíla við fjölbýlishúsið verði metin styrkhæf hjá styrktarsjóði Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar en beiðni um endurskoðun hafnað með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs:
Það er mat Flokks fólksins að það sé ósanngjarnt að þeir sem þegar hafa farið í að framkvæma það að koma sér upp hleðslustöð fyrir bíla skuli ekki fá styrk eins og þeir sem byrja seinna. Við höfum lengi viljað orkuskipti og það sem fyrst. Þeim sem hafa sýnt fyrirhyggju á að umbuna. Hér er ljóst að aðlaga þarf reglur og láta breytingu ná afturvirkt. Sem dæmi væri hægt að setja mörkin 5 ár aftur í tímann. Flokki fólksins finnst því rétt og sanngjarnt að samþykkja styrkumsóknina. Hér er ekki um neinar stórfjárhæðir að ræða.
Bókun Flokks fólksins færð úr trúnaðarbók tillaga meirihlutans að borgarráð samþykki drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar við Leiguafl hf. um riftun og uppgjör vegna kaupsamnings, dags. 11. október 2017, um Grensásveg 12, fastanúmer 225-7260 í samræmi við hjálagt minnisblað borgarlögmanns.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst þetta bitur niðurstaða fyrir Reykjavíkurborg enda um tjón að ræða milli 40 og 50 milljónir. En sennilega er það rétt mat að fjárhagslegum hagsmunum Reykjavíkurborgar sé best borgið með gerð samkomulags þessa úr því sem komið er. Hér er um neyðarsamkomulag að ræða og sýnir vel hvaða vanda þarf val á verktökum og að hafa ávallt allan undirbúning samkvæmt bókinni m.a. hvað varðar tryggingar þegar borgin hyggst fara í framkvæmdir.