Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð 10. febrúar 2022

Bókun Flokks fólksins við liðnum Skýrsla starfshóps um stöðu kynja- og hinseginfræði í skóla- og frístundastarfi SFS, dags. nóvember 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins vill draga fram Viðauka 2 sem er tillaga frá Flokki fólksins um að gerð verði úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi. Börn og ungmenni eru að biðja um meiri fræðslu t.d. hinseginfræðslu. Það er ekki síður brýnt að bjóða upp á hinseginfræðslu fyrir foreldra og forráðamenn í öllum grunnskólum. Þetta hafa ungmennin sjálf lögð til. Það skiptir máli að forráðamenn geti svarað spurningum sem vakna hjá krökkum og að fræðandi og uppbyggileg samtöl geti átt sér stað inn á heimilunum. Nú hefur komið í ljós sbr. upplýsingar frá starfshópinum að  námsefni og innleiðing (t.d. samþætting og skipulag) á kynja– og hinseginfræði er af skornum skammti. Innleiðing á fræðslu af þessum toga er vandmeðfarin og þarf að vera með fjölbreyttum hætti á á öllum skólastigum og með öllum aldurshópum, þannig að kynja- og hinseginfræði snertir á öllu starfi með börnum og ungmennum.


Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjórnar dags. 25. janúar 2022, þar sem óskað er umsagnar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, um tillögu borgarstjóra, dags. 25. janúar 2022, um samstarf við Höfða friðarsetur um framkvæmd samfélagshraðalsins Snjallræðis. Jafnframt er lögð fram umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 7. febrúar 2022:.

Fulltrúi Flokks fólksins telur að frumkvöðla- og nýsköpunarstarfssemi sé einmitt best borgið í þeirri umgjörð sem lýst er í tillögu borgarstjóra um þátttöku í framkvæmd samfélagshraðalsins Snjallræðis. Það er nefnilega miklu eðlilegra að hugmyndasmiðjum og tilraunastofum sé haldið á þeim forsendum sem tillagan lýsir. Eins og ljóst er hefur fulltrúi Flokks fólksins verið í rúmt ár að gagnrýna þá hugmynda- og tilrauna vinnustofur sem starfræktar hafa verið í langan tíma á Þjónustu og nýsköpunarsviði. Það er ekkert eðlilegt við það að almannafé hafi verið notað í endalausar tilraunir og hugmyndasmiðjur undir merkjum Gróðurhússins og annarra þróunarteyma sviðsins undanfarin ár án þess að sú vinna hafi skilað raunverulegum lausnum eða afurðum sem komnar væru í notkun. Hugmyndasmiðjur og tilraunastofur Þjónustu- og nýsköpunarsviðs virðast hafa haft þveröfug áhrif við það sem þeim hlýtur að hafa verið ætlað. Í stað þess að flýta innleiðingu lausna sem margar hverjar eru fyrir löngu tilbúnar, hafa mál verið að daga þar uppi. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að meirihlutinn í Reykjavík fari nú að opna augun smám saman og átta sig á því hvað eigi heima hvar varðandi þá stafrænu umbreytingu borgarinnar sem að öllu leiti er fjármögnuð beint úr vösum borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 8. febrúar 2022, um minnisblað þjónustu- og nýsköpunarsviðs um verkefnaræs: Betri borg fyrir börn:

Fulltrúi Flokks fólksins vill byrja á því að taka það fram að stafræn umbreyting er framtíðin. Um það er ekki deilt. Það sem Flokkur fólksins hefur hins vegar bent á að sú framsetning og nálgun þeirrar stafrænu vegferðar sem Þjónustu og nýsköpunarsvið hefur sett upp, er nánast algjörlega á skjön við það meginmarkmið opinberrar stjórnsýslu sem á að vera það að fara vel með almannafé sem og tíma starfsfólks. Það hefur vakið undrun og furðu margra hvað Þjónustu og nýsköpunarsvið hefur flækt málin og farið krókaleiðir að markmiðum sem oft eru illa skilgreind. Þetta hefur leitt til þess að mörg verkefni hafa dagað upp í allskyns hugmyndasmiðjum og tilraunastofum sem stundum virðast hvorki eiga sér upphaf né endi. Hér er enn og aftur dæmi um þetta, uppgötvunarfasi í margar vikur og síðan þróunarfasi í fjölmargar vikur. Alls eru „fasarnir“ fimm og taka hver um sig langan tíma. Bloomberg dæmið hefur einnig vakið upp spurningar enda minnir helst á „Stafræna þróunaraðstoð“ frá Bandaríkjunum. Þarna er verið að setja á  laggirnar enn eina hugmynda- og tilraunasmiðjuna sem á eftir að taka mikinn tíma frá starfsfólki.