Velferðarráð 9. mars 2022. Aukafundur

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 9. mars 2022, um samþykki samnings við Rauða krossinn á höfuðborgarsvæðinu um rekstur neyslurýmis, ásamt fylgiskjölum:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ávallt stutt hugmyndina um neyslurými enda slíkt úrræði búið að sanna gildi sitt í öðrum löndum. Nú hefur verið tekið fyrsta formlega skrefið með samþykki samnings um neyslurými og er það gleðilegt. Um er að ræða færanlegt neyslurými starfrækt í bifreið Frú Ragnheiðar. Markmiðið er að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og auka lífsgæði þeirra sem nota vímuefni í æð. Stefna þarf að því svo fljótt sem unnt er að úrræði sem þetta verði staðsett á nokkrum stöðum og opið allan sólarhringinn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sú skaðaminnkandi hugmyndafræði sem neyslurými er sé mannréttindamiðuð nálgun sem byggir á að draga úr skaða og aðstoða einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Um leið og dregið er úr skaðlegum afleiðingum sem fylgja neyslu ávana- og fíkniefna er ekki aðeins verið að hjálpa einstaklingunum sjálfum heldur einnig aðstandendum og nærsamfélaginu. Í þeim löndum sem neyslurými eru til hefur dauðsföllum sem rekja má til notkunar vímuefna í æð fækkað.