Mannréttinda,- nýsköpunar- og lýðræðisráð

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 3. ágúst 2021, um umsagnarbeiðni um tillögu stýrihóps um innleiðingu íbúaráða:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir að rétt sé að það tekur tíma að þróa starf íbúaráðanna bæði innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar og meðal íbúa í hverfum. Margar af tillögum stýrihópsins eru ágætar. Stýrihópurinn leggur til að íbúaráði Miðborgar og Hlíða verði skipt í tvö íbúaráð. Sama ætti að gilda um Breiðholtið sem er stórt hverfi, eiginlega þrjú hverfi. Þessi breyting ætti að gerast strax og prófa hana út kjörtímabilið og má þá endurskoða hana við upphaf næsta tímabils. Vandi íbúaráðanna er hversu pólitísk þau eru. Meirihlutinn í þeim, hinn pólitíski yfirskyggir án efa oft skoðanir minnihluta og borgarbúa. Meirihlutinn hefur oft sínu fram í krafti valds.  Hugsa þarf íbúaráðin sem rödd borgarbúa og þurfa ráðin að hlusta á íbúana og taka mál inn á fundina sem óskað er eftir. Gott er að ráðin fái aukna ábyrgð við mótun nærþjónustu. Íbúaráð ættu að  taka afstöðu til flestra stærri mála sem hverfin snerta og má ímynda sér að meirihluti íbúaráðs hafi endanlegt úrslitavald í sumum málum. Ekki ætti að setja íbúaráðum stífar og ítarlegar reglur. Íbúaráðin eru nefnd sem samskiptaleið í drögum um lýðræðisstefnu þannig að það er mikilvægt að þau virki sem slík.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs og áhættustýringarsviðs dags. 1. júlí 2021, um undirbúning frumvarps að fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 og fimm ára áætlun 2022 – 2026:

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er lögð fram fyrir árin 2022 -2026. Hér er vissulega ekki um að ræða fjárfestingaráætlun, sem kemur seinna. Fulltrúi Flokks fólksins vill samt rifja upp eftirfarandi reglu sem lýtur að ábyrgð sviðsstjóra eins og segir „að borgarstjórn ákveður heildarskiptingu fjármuna út frá heildrænni forgangsröðun, fagráðin ákveða forgangsröðun hvert á sínu sviði og sviðsstjórar hafa ákvörðunarvald og bera ábyrgð á að reksturinn sé innan fjárheimilda og í samræmi við stefnu og forgangsröðun fagráðs“.  Fulltrúi Flokks fólksins vill sérstaklega rýna í tölur þjónustu- og nýsköpunarsviðs í fjárfestingaráætlun og þá alveg niður á kostnaðarstaði en sviðið hefur fengið og fær næsta ár gríðarmikið fé til ráðstöfunar eða 10 milljarða. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt meðhöndlun þess fjármagns fram til þessa og gert ítrekaðar athugasemdir við hvernig fjármagni er varið. Stundum er talað um einn kostnaðarstað og einn gjaldlykil en það er án efa um fleiri gjaldalykla eða kostnaðarstaði að ræða sem almenningur er ekki meðvitaður upp jafnvel þótt bókhald sé opið.  Ýmislegt er hægt að færa undir lið eins og fjárfestingu. Þess vegna er mikilvægt að hafa gott eftirlit með þeim sem ber ábyrgðina. Engin er að mótmæla því að stafræn þróun þarf að eiga sér stað svo það sé skýrt.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á drögum að lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar 2021 – 2030:

Margt í þessari stefnu er nákvæmlega það sem við viljum heyra s.s. að hafa vandaðar upplýsingar, víðtæka þátttöku borgara og samtal og samráð en tvíhliða samráð hefur einmitt verið Akkilesarhæll þessa meirihluta að mati fulltrúa Flokks fólksins. Eldar hafa logað  víða um borgina vegna samráðsleysis. Nefna má Skerjafjörðinn, Sjómannareitinn, Miðbæinn og fjölmargt fleira. Íbúaráðin eru nefnd sem samskiptaleið en borgarbúum hefur gengið misvel að koma málum sínum að eða fá áheyrn íbúaráða. Ráðin eru of pólitísk þar sem meirihlutinn ræður kannski oft förinni? Mörgum finnst einnig hin ýmsu önnur ráð sem nefnd eru í stefnunni ekki berjast nægjanlega fyrir hagsmunum þeirra hópa sem þau eiga að standa vörð um. Þar ræður pólitíkin ferð umfram hagsmuni fólksins? Traust á borgarstjórn sem er afar lítið endurspeglar þetta. Stefnan eins og hún er lögð upp er kannski meira draumsýn ekki nema tekið verði rækilega til hendinni. Lýðræði þarf verulega að færa á hærra plan þannig að hætt verði alfarið að pukrast með hvort heldur skýrslur eða úttektir. Komið er inn á mannauðsmál á stefnunni. Þau þarf að skoða rækilega á t.d.  á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þar hefur fólk verið rekið umvörpum undanfarin ár á sama tíma og nýtt starfsfólk– oft með sömu menntun,  ráðið inn.

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að fá yfirlit yfir framlögð mál fulltrúa Flokks fólksins í mannréttinda, lýðræðis og nýsköpunarráði og að yfirlitið verði birt á heimasvæði Flokksins á vef borgarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins er með skýra beiðni en hún er að fá yfirlit yfir öll mál Flokks fólksins sem lögð hafa verið fram í mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráði. Beiðnin lýtur að tillögum og fyrirspurnum. Fyrir þessu er fordæmi, afhent hefur nú þegar verið yfirlit yfir mál Flokks fólksins sem lögð hafa verið fram í borgarráði. Fulltrúi Flokks fólksins vill fá sambærilegt yfirlit frá mannréttindaráði og öðrum ráðum sem Flokkurinn situr í. Þegar yfirlitið liggur fyrir óskar fulltrúi Flokks fólksins hefur að umrætt yfirlit verði sett inn á heimsvæði flokksins sem er á vef borgarinnar þar sem aðrar upplýsingar um fulltrúa Flokks fólksins eru. Þetta er einföld og sanngjörn beiðni og hugsuð til að auðvelda borgarbúum aðgengi að vinnu Flokksins í borgarstjórn þetta kjörtímabil. Eins og staðan er nú hafa borgarbúar ekki auðveldan aðgang að málum minnihlutaflokkanna nema að þræða sig í gegnum fundargerðir sem er tyrfin leið og tafsöm enda eru fundargerðir iðulega langar. Ekki er séð að nein haldbær rök séu fyrir að vísa þessari tillögu frá eins og hér er gert. Fulltrúi Flokks fólksins sættir ekki við svör eins og að síðar meir, einhvern tíman, komi eitthvað annað kerfi sem á að hafa þessi mál aðgengileg. Minnt er á að aðeins eitt ár, tæpt, er eftir af þessu kjörtímabili.

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillögunni er vísað frá vegna þess að það er þegar í farvegi að koma því við að skapa yfirlit yfir mál fulltrúa með þróun Gagnsjár Reykjavíkur.

Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins að tekin verði markvisst og oftar á dagskrá í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði málefni barna, eldra fólks og öryrkja:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að tekin verði markvisst og oftar á dagskrá í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði málefni barna, eldra fólks og öryrkja. Fulltrúi Flokks fólksins hefur átt sæti í ráðinu á þessu kjörtímabili og þykir þau mál sem þar hafa verið til umræðu oft ansi einsleit. Mannréttindi varða okkur öll og huga þarf að mannréttindum og lýðræði í öllum hópum. Huga má meira að fátæku fólki í tengslum við mannréttindi en fátækir er stækkandi hópur. Nefna má öryrkja sem þola mega miklar skerðingar og ná þeir iðulega ekki endum saman. Sveitarfélagi er ekki skylt að fylgja almannatryggingarlögum þegar kemur að skerðingum og getur því gert mikið til að bæta kjör þeirra með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Skoða þarf mannréttindaþáttinn hjá börnum sem glíma við röskun eða fötlun af einhverju tagi og dæmi eru um að sumum er gert að stunda nám þar sem þau eru ekki meðal jafningja vegna skorts á sértæku skólaúrræði. Ræða þarf mannréttindi í tengslum við þá sem eru  fastir á sjúkrahúsi vegna þess að þeir eiga ekki heimili eða skortur er á heimaþjónustu. Huga þarf einnig að betri þjónustu fyrir eldra fólk sem vill búa sem lengst heima. Síðast en ekki síst þarf að skoða mannréttindaþáttinn þegar kemur að sveigjanlegum vinnulokum.

Frestað.