Oddvitaræða 5. nóvember 2024 Fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun

Oddvitaræða Flokks fólksins

Við erum eins og áður að horfa að mestu á A- hlutann sem  er fjármagnaður með skatttekjum íbúa borgarinnar. Yfirlit um A og B hluta gefur fyrst og fremst yfirlit um heildarumfang í rekstri og efnahag borgarinnar vegna þess hve einstakar rekstrareiningar eru ótengdar.

Almennt um fjárhag Reykjavíkurborgar

Á undanförnum árum hefur verið mikil umræða um fjárhagsstöðu A-hluta Reykjavíkurborgar. Fulltrúar í minnihluta borgarstjórnar hafa haft uppi fjölmörg varnaðarorð.

Á undanförnum árum hefur þessum varnaðarorðum verið vísað á bug af hálfu meirihluta borgarstjórnar og stöðugt fullyrt að fjárhagsstaða borgarinnar væri með miklum ágætum.
Varnarorð hafa átt fullan rétt á sér.

Í fyrsta lagi sendi eftirlitsnefnd um fjármála sveitarfélaga Reykjavíkurborg erindi nýverið þar sem vakin er athygli á að fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar stæðist ekki þær kröfur sem eftirlitsnefndin hefði sett.

Í öðru lagi var mjög áhugavert viðtal við borgarstjóra Reykjavíkurborgar fyrr á þessu ári þar sem hann fer yfir fjárhagsstöðu borgarinnar.

Hér skal vitnað í fyrrgreint viðtal með leyfi forseta

,,Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar var miklu verri en Framsóknarflokkurinn, sem tók sæti í meirihluta borgarstjórnar eftir kosningar fyrir rúmum átján mánuðum, bjóst við og það hefur haft töluverð áhrif á möguleika flokksins til að standa við stóru orðin sem hann lofaði í kosningabaráttunni, að það yrðu gerðar breytingar í borginni.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í opnuviðtali við Einar Þorsteinsson, borgarstjóra og oddvita framsóknarmanna, í Sunnudagsmogganum. Þar er Einar spurður hvort staðan hafi verið „miklu verri“ en framsóknarmenn bjuggust við og hann svarar með leyfi forseta:
  „Já, ég hafði lesið ársreikning sem var með 3,8 milljarða halla og bjóst við að staðan væri nálægt því. Fyrsta uppgjörið sem ég sá var hálfsársuppgjörið sumarið 2022 og þá var hallinn kominn í 9,8 milljarða og spáin á þann veg að enn myndi syrta í álinn. Árið endaði í 15,6 milljörðum.“

Einar segir, með leyfi forseta, að það segi sig sjálft að þarna hafi verið komin upp „allt önnur staða“ og Framsókn hafi staðið frammi fyrir „gjörólíku verkefni“.

Í þessu viðtali er ýmislegt mjög áhugavert.
Í fyrsta lagi er ekki annað að sjá en að fulltrúar Framsóknarflokksins hafi haft takmarkaða getu eða þekkingu á að lesa úr ársreikningum sveitarfélaga fyrst staðan í fjármálum Reykjavíkurborgar kom þeim á óvart þegar raunveruleikinn blasti við eftir.

Í öðru lagi er ekki annað hægt að lesa út úr fyrrgreindu viðtali en að það feli í sér mjög öfluga gagnrýni á fjármálastjórn fyrrverandi borgarstjóra og hvernig haldið hefur verið á fjármálum borgarinnar á undanförnum árum. Vitaskuld var Covid tíminn á ýmsan hátt erfiður fyrir mörg sveitarfélög en þó miklu minna en ætla mætti í upphafi. Þar á móti kom að enginn áhugi var til að hagræða í rekstri borgarinnar á þeim tíma eða bregðast á annan hátt við erfiðri fjárhagsstöðu og sífellt vaxandi skuldasöfnun sem hverjum manni mátti vera ljós, sem einhverja innsýn hefur í rekstur sveitarfélaga.

Sparnaðaraðgerðir upp á einn milljarð, sem námu minna en einu prósenti af heildartekjum borgarinnar, voru máttvana aðgerðir sem dugðu skammt. Þær voru ekki umfangsmeiri en að teljast má eðlilegt aðhald í meðalári þegar ekkert sérstakt kallar á viðamiklar aðhaldsaðgerðir.

Það þarf að vera einn hluti af reglubundinni fjármálastjórn hvers sveitarfélags að gera stöðugar aðhalds- og hagkvæmni kröfur til rekstrarins.

Með hliðsjón af framansögðu skyldi því ætla að brugðist skyldi við fyrrgreindri stöðu við undirbúning að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 og árin þar á eftir.

Ef horft er til fimm ára áætlunar.

Almennt má segja um þá framtíðarsýn sem birtist í  sýn meirihluta Reykjavíkurborgar á þróun fjármála borgarinnar til enda áætlunar tímabilsins eða til ársins 2029  að nú séu allir erfiðleikar að baki. Taka skal það með miklum fyrirvara.

Eins og dæmið er lagt upp þá á hlutfall launa af tekjum að fara lækkandi ár frá ári. Afgangur af rekstri borgarsjóðs á að rúmlega þrefaldast frá síðasta rekstrarári fram til ársins 2029, veltufé frá rekstri á að hækka um meira en 50% frá yfirstandandi rekstrarári fram til ársins 2029. Greiðslugeta A-hluta borgarsjóðs á að rúmlega tvöfaldist á tímabilinu.

Á sama tíma mun lántaka fara stöðugt vaxandi þar sem veltufé frá rekstri er svo langt frá því að standa undir afborgunum lána og fjárfestingum. Veltufjárhlutfall, hlutfall milli lausafjár og lausaskulda er undir  1 sem þýðir að ákveðin hættumerki eru til staðar hvað varðar lausafjárstöðu borgarsjóðs. Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að veltufjárhutfallið verði neikvætt út tímabilið eða fram til ársins 2029. Þetta felur í sér að lausafjárstaða borgarsjóðs verður erfið allt tímabilið. Það þyrfti að setja af stað sérstaka áætlun til að koma í veg fyrir slíka stöðu því að ef það er eitthvað sem verður að tryggja er að borgarsjóður geti ætíð greitt reikninga á réttum tíma.

Veltufé frá rekstri er fyrst ætlað að ná almennum viðmiðum sveitarfélaga um hlutfall veltufjár frá rekstri (veltufé frá rekstri um 9% af heildartekjum) árið 2029.
Í þessu sambandi virðist ekki gert ráð fyrir að taka eigi mið af þeirri miklu innviðaskuld sem byggðist upp á árunum 2019 – 2023 þegar veltufé frá rekstri náði aðeins einu sinni 5% af heildartekjum. Á þeim árum var nauðsynlegum framkvæmdum annað hvort skotið á frest inn í framtíðina eða þær fjármagnaðar með gríðarlegri lántöku.

Það er mjög varhugavert að láta eins og þessi ár hafi ekki verið til og því er hin ofurbjartsýna framtíðarsýn sem kemur fram í framlagðri fjárhagsætlun fyrir árin 2025 – 2029 beinlínis varhugaverð.

Í fjárhagsáætlunni er gert ráð fyrir árlegum arðgreiðslum frá Orkuveitu Reykjavíkur sem nema um og yfir 6 milljörðum króna á ári.

Bætt afkoma A-hluta Reykjavikurborgar er að mestu tilkomin vegna hærri skatttekna, útsvarstekjur voru meiri en gert var ráð fyrir og síðan vegna hækkunar á fasteignasköttum þar sem Rvk hélt óbreyttu álagningarhlutfalli fasteingaskatts á A-skatti og C-skatti, þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignamati. Nákrannasveitarfélögin lækkuðu álagningarhlutfallið. Svo vegur skattatilfærsla vegna fatlaðs fólks eitthvað. Arðgreiðsla frá OR var álíka milli ára. Munar einum milljarði frá 2023 – 2025.

 Rekstrarlíkön hafa kannski hjálpað. Það óhemju fjármagn sem veitt hefur verið í stafræna vegferð frá 2018 hefur ekki borgað sig upp sem neinu nemur og ekki eru farnar að koma miklar tekjur inn til sviðsins.  Svið hafa fengið himin háa reikninga vegna stafrænnar vinnu, upphæðir svo háar að svið eins og skóla- og frístundasvið sér ekki hvar á að taka þann pening. Þar eru bara enn útgjöld og mikil vöntun er enn  á nauðsynlegum stafrænum lausnum.

Flokkur fólksins vill forgangsraða lögbundna þjónustu hærra en þá hlýtur að þurfa að hagræða á öðrum sviðum en þeim sem snúa að beinni þjónustu við fólkið. Víða er hægt að spara í borgarkerfinu, sameina störf, stytta boðleiðir, fækka fundum og gera vinnu almennt skilvirkari. Draga má meira úr kostnaði við utanlandsferðir, veislur og leigubílanotkun. Margt smátt gerir eitt stórt.

 

Húsnæðis – samgöngu-  og aðgengismál

Húsnæðis- og viðhaldsmál og samgöngumál hafa ekki verið nægilega í forgangi. Þegar talað eru um samgöngumál er ekki síst átt við hvernig fólk getur komist milli a til b með sem minnstu töfum með þeim ferðamáta sem það kýs.

Nýlega hefur uppfærður Samgöngusáttmáli verið samþykktur. Flokkur fólksins lýsti áhyggjum sínum í bókun að engar breytingar eru í farvatninu næstu ár. Allt sem í sáttmálanum stendur er einhver framtíðarmúsík á meðan við höktum áfram í umferðinni í endalausum teppum og töfum með tilheyrandi mengun og hættum. Allt of fáir komu að borðinu þegar sáttmálinn var uppfærður t.d. var kjörnum minnihlutafulltrúum aldrei boðið. Sami hópurinn og áður var þarna að störfum. Gildistíminn er nú til 2024 og kostnaður fór frá 120 milljörðum í 311 milljarða. Kostnaður við rekstur almenningssamgangna fer úr 10 í 17 milljarða á ári. Ekki er allt alslæmt í sáttmálanum. Fjölmargt er ekki nefnt sem kostar peninga þannig að óvissa um alls konar aðra kostnaðarliði er mikil. Stór spurning er hvernig reka á borgarlínu.

Flokkur fólksins bókaði með þessum hætti þegar Samgöngusáttmálinn var samþykktur í borgarstjórn

 „Vonir stóðu til að sáttmálinn fæli í sér úrbætur og úrræði til að létta eitthvað á umferðarþunga borgarinnar. Fram kemur að fjárfesta eigi í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun fyrir umferðarljósastýringar en það kemur ekki fram hvenær. Þetta er bráðavandi sem þarf að leysa hið fyrsta. Sáttmálinn er að mestu um stórar framkvæmdir sem komast eiga í gagnið eftir mörg ár ef ekki áratugi. Um er að ræða Miklubraut í göng, Fossvogsbrú og Borgarlínu. Hvergi er minnst á Sundabraut. Þeir sem eru komnir vel yfir miðjan aldur munu aldrei upplifa eða sjá þennan veruleika en sitja hins vegar áfram fastir í umferðarteppum með tilheyrandi mengun sem aðeins mun versna því bílum fjölgar stöðugt. Í Sáttmálann vantar enn fullt af kostnaðarliðum í áætlunina eins og verkstæði, geymslur fyrir vagna, stjórnstöð, tölvubúnað o.fl. Einnig var uppfærslan unnin nokkurn vegin af sama fólki og bjó til fyrri sáttmálan. Það er galli því betur sjá augu en auga. Jákvætt er að Ríkið skuldbindur sig til þess að fjármagna þriðjung kostnaðar vegna reksturs almenningssamgangna á móti sveitarfélögunum. En hvenær sést ávinningur af því? Ekki liggur heldur fyrir hvernig almenningssamgöngur púslast inn í áætlanir borgarlínu en þessir tveir ferðamátar skarast mikið.

Byggja meira!

Í raun má vel halda því fram að aðgerðarleysi meirihlutans í borginni til margra ára megi kenna um ástandið á húsnæðismarkaðinum með því að þvermóðskast við að brjóta ekki nýtt land undir byggð. Rót verðbólguvandans er fyrst og fremst húsnæðisskortur. Byggja þarf margfalt meira og þéttingarreitir duga ekki til. Húsnæði þar mun heldur ekki verða hagkvæmt. Það þarf að byrja á að endurskoða mörkin sem voru sett 2015 út frá fólksfjölgunarspám sem voru stórlega vanáætluð.

Sjálfsagt er að skoða að þétta í grónum hverfum þar sem innviðir eru ekki allir fullnýttir en slíkt er vandmeðfarið og kallar á sátt og samráð. Uppbygging í grónum hverfum er auðvitað  bara dropi í hið stóra haf húsnæðisskorts. 

Ákall er eftir viðbrögðum og aðgerðum sveitarfélaga hvað varðar uppbyggingu og  þar ætti Reykjavík að vera atkvæðamest enda langstærst sveitarfélaga. 

Losa þarf um þessi stífu skilyrði á úthlutunum lóða, að það verði að fara fram útboð o.s.frv. Það má vera mun meiri sveigjanleiki hér. Meirihlutinn heldur of fast í tauminn, stýringin er alger. Leyfa þarf fólki að fá lóðir og byggja sjálft og undirbúa að brjóta nýtt land undir frekari byggð. Spjótin standa á pólitíkinni, pólitík meirihlutans og skipulagsyfirvöldum.

Viðhald húsnæðis er annar flötur á þessu máli. Viðhaldsþörf og viðhaldsskuld borgarinnar er stór, svo stór og svo óútreiknanleg að gera má ráð fyrir að næstu árin fari háar fjárhæðir í þann málaflokk. Erfiðasti pakkinn hér er viðhald skóla  þar sem fólki er gert að verja deginum.  Gerðar hafa verið ýmsar úttektir bæði á hversu margir skólar þurfa viðhald og hversu mörg börn hafa þurft að flýja skóla vegna myglu svo ekki sé minnst á veikindi fjölmargra og sumra mjög alvarlegra. Niðurstöður eru geigvænlegar.

Bæta þarf aðgengi víða og það kostar

Ef hugsað er til öryrkja og eldra fólks þá koma upp í hugann aðgengismál og endurbætur á t.d. biðstöðvum. Aðgengisbætandi aðgerðir ganga hægt, allt of hægt. Á sjötta hundrað strætóbiðstöðva þarfnast endurbóta.  Samkvæmt nýju leiðaneti á að leggja niður á annað hundrað biðstöðvar. Það getur varla átt að leggja niður svo margar biðstöðvar þegar borgarlína er ekki í sjónmáli á næstunni.
Um 150 biðstöðvar  þurfa  aðgengisbætandi aðgerðir. Aðeins brot af biðstöðvum eru í endurgerðar á ári. Ganga þarf röskar til verks hér.

 

Félagsbústaðir

Rekstur Félagsbústaða er kapítuli út af fyrir sig og sérstakt áhyggjuefni. Um árabil hefur raunveruleg afkoma fyrirtækisins verið falin með því að færa matsbreytingar fasteigna sem rekstrartekjur á rekstrarreikningi.

Í ársreikningi Félagsbústaða fyrir árið 2022 eru tekjufærðir rétt um 20 milljarðar króna sem tekjur á rekstrarreikningi.

Hagnaður ársins eru um 16,5 milljarðar skv. rekstrarreikningi. Það þýðir að tap fyrirtækisins á árinu 2022 fyrir utan reiknaðar matsbreytingar fjárfestinga er 3,5 milljarðar.

Í ársreikningi Félagsbústaða fyrir árið 2023 er tekjufærð matsbreyting fjárfestingareigna að fjárhæð 4,7 milljarðar.

Hagnaður fyrirtækisins er um 1,4 milljarðar skv. Rekstrarreikningi. Það þýðir að tap fyrirtækisins fyrir utan reiknaðar matsbreytingar á árinu 2023 er 3,3 milljarðar.

Félagsbústaðir hafa því í raun verið reknir með tæplega sjö milljarða halla á árunum 2022 og 2023 því matsbreytingar fjárfestingareigna eru ekki raunverulegir peningar heldur reiknuð stærð sem aldrei verður innleyst, þar sem eignir Félagsbústaða verða aldrei seldar allar í einu. Þetta hefur verið margrætt undanfarin ár og þá helst af minnihlutafulltrúum.

Heildarrekstrartekjur Félagsbústaða á þessum tveimur árum eru samtals rúmir 12 milljarðar. Þetta gengur ekki upp, það sér hver maður. Þessi staða er skýrð mjög vel í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra með ársreikningi fyrir árið 2023.

Þar segir eftirfarandi með leyfi forseta

Niðurstaða ársins sýnir að tæpar 400 m.kr. vantar upp á í árslok til að veltufé frá rekstri nægi fyrir afborgunum langtímalána. Langtímaáætlanir um rekstur og sjóðstreymi Félagsbústaða bera með sér að félagið mun ekki geta staðið undir aukinni greiðslubyrði lána sem tekin eru til fjármögnunar endurbóta og meiriháttar viðhalds eins og sakir standa.
Eftir fyrsta ársfjórðung ársins 2023 lágu fyrir uppfærðar áætlanir um viðhaldskostnað, breyttar forsendur um efnahagsþróun og þyngri kostnaðar við standsetningar íbúða og var fjárhagsáætlun 2023 því endurskoðuð. Í endurskoðaðri áætlun gerði ráð fyrir að nokkuð vantaði uppá að markmið um fjárhagslega sjálfbærni næðust á árinu“. Tilv. lýkur.

Þrátt fyrir að tæplega 25 milljarðar króna hafi verið tekjufærðir hjá Félagsbústöðum á árinum 2022 og 2023 vegna matsbreytinga fjárfestingareigna, þá segir stjórn fyrirtækisins í skýrslu með ársreikningum fyrir árið 2023, að Félagsbústaðir séu ekki fjárhagslega sjálfbærir og í raun ógjaldfært.

Í stuttu máli segir þetta að reikningsskil Félagsbústaða gefi ekki glögga mynd af stöðu fyrirtækisins og sé í raun ekki treystandi.

Stærstu áhyggjur Flokks fólksins er að nú á að fara að hækka leigu umfram vísitölu neysluverðs og umfram verðlag árið 2024. Flokkur fólksins spyr: Verður þetta án mótvægisaðgerða til að hjálpa þeim verst settu ef hækka á leigu? Það er góð spurning. Hér er um fátækasta og viðkvæmasta hópinn að ræða.

Annað áhyggjuefni eru biðlistar en það bíða nokkur hundruð manns á listanum eftir félagslegu húsnæði og í þeim hópi eru tugir barna.  Skera á niður í viðhaldi sem er ávísun á stór vandræði, myglu og rakavandamál munu skjóta upp  kollinum eins og gorkúlur. Það höfum við séð ítrekað en lærum kannski ekki ekkert af?

Félagsbústaðir eru ekki nálægt því að vera sjálfbærir  Það má ekkert út af bera svo að þetta fyrirtæki  fari illa/ flatt. 

 

Þjónustu- og nýsköpunarsvið eða ÞON eins og það er nefnt öllu jafna

Það er merkilegt að lesa greinargerð sviðsins s.s. 
Dæmi;
Þjónustu- og nýsköpunarvsið setur ,,Fólk í fyrsta sæti´´, ,Er einu skrefi á undan´´og ,,Hættir aldrei að þora“.  Þettaeru slagorð sem ekki virka sérstaklega trúverðug.

Fram kemur í inngangi að starfsfólk ÞON hafi hugrekki til að taka af skarið og leiða breytingar við krefjandi aðstæður.

En eru aðstæður eitthvað meira krefjandi hjá ÞON heldur en öðrum fagsviðum borgarinnar þar sem stjórnendur og starfsfólk er að vinna dag hvern að krefjandi verkefnum í síbreytilegum heimi? Er ÞON eitthvað meiri fyrirmynd í þeim efnum en önnur svið borgarinnar?

Í þessu sambandi vekur athygli að ÞON hefur haft til ráðstöfunar hátt í tuttugu milljarða á síðustu þremur til fjórum árum. Tekjur þar á móti eru nær sjö milljarðar.
Það ætti því að vera auðvelt að draga saman ákveðin vel skilgreind dæmi um hvað hefur áunnist í raunverulegum verkefnum fyrir þessa fjármuni.

Athygli vekur að laun svokallaðra ,,stafrænna leiðtoga´´ hafa verið eignfærðar sem fjárfesting til og með ársloka ársins 2024. Flokkur fólksins hefur gagnrýnt þetta og marg spurt um hvort þetta samræmist eðlilegri fjármálastjórnun.

Eftirfarandi spurningar vakna á hverju ári í þessu sambandi og þær eru þessar meðal fjölmargra annarra:

  1. Hvar var sú ákvörðun tekin að færa hluta af launum sviðsins sem fjárfestingu og eignfæra þau?
    2. Hvað er um háar fjárhæðir að ræða sem hafa verið eignfærðar sem slíkar?
    3. Hvert er afskriftarhlutfall óefnislegra eigna, og þar með talinn launakostnaður, sem hafa verið eignfærðar?

Flokkur fólksins hefur áður spurt um þessa hluti en fengið aðeins loðin og óljós svör.

Það fer ekki á milli mála að með því að færa hluta launakostnaðar sem eign, þá er verið að draga úr gagnsæi við raunverulegan rekstrarkostnað við sviðið og þar með borgarinnar eins og Flokkur fólksins hefur oft bókað um.

Margháttað þróunar- og umbreytingar starf er unnið hjá öllum sviðum borgarinnar. Má búast við að þau fari að taka ÞON sér til fyrirmyndar og fara að færa hluta af launakostnaði sínum til eignar?

Afar mikilvægt er að mati Flokks fólksins samræmi ríki í þessum efnum í borgarkerfinu sem heild.

Almennt að sviðinu ÞON

Fulltrúa flokks fólksins hefur blöskrað sóun á fjármagni hjá ÞON sérstaklega árin 2019 til 2022. Ef litið er til fyrri ára þá er á þessu sviði að finna eitt mesta kæruleysi og bruðl í peningamálum í borginni.

Á þessum árum átti sér stað gegndarlaust fjáraustur  sem Flokkur fólksins hefur gagnrýnt allan tímann og fengið bágt fyrir. Ómældum fjármunum var eytt í tilraunakennda nálgun Þjónustu og nýsköpunarsviðs á hinum og þessum lausnum sem margar hverjar hafa verið til og í fullri notkun annars staðar. Flokkur fólksins í borginni reyndi að benda á að hægt var að fara aðrar leiðir en þær að vera stöðugt í því að reyna að finna upp hjólið. Samvinna við Stafrænt Ísland og meiri samvinna við Samband sveitarfélaga strax frá upphafi vegferðar 2019 hefði skilað meiri hagræðingu og skjótvirkari lausnum sem farið hefði  fyrr “í  loftið” ef hlustað hefði verið á rödd markaðarins sem nú þegar hefur yfir að ráða flestum af þeim lausnum sem sviðið hefur verið að reyna að finna upp.

Fjármagnið sem eytt hefur verið er tapað og afurðir sem eftir liggja ekki í neinu samræmi við milljarðana sem eytt var í þær. Samkvæmt erlendum rannsóknum er  vitað að stór hluti þess fjármagns sem opinberir aðilar hafa eytt  í stafræna þróun og nýsköpun, er glatað fé þegar miðað er við áþreifanlegan árangur.  Samstarf við önnur sveitarfélög og Stafræna Ísland fór allt of seint af stað og virðist enn ekki komið á þann stað sem Reykjavíkurborg hefði átt að vera löngu komin á.

Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt út í hin ýmsu mál sviðsins  og meðhöndlun fjármagns í stafrænni vegferð. Það sætir undrun hversu illa hefur gengið efla stafrænu skólaþjónustuna sem virðist hafa verið látin sitja á hakanum í stað einhverra gæluverkefna eins og endalausra uppfærlsna varðandi sorphirðudagatal, hinna og þessara mælaborða sem mörgum er varla viðhaldið lengur vegna lítils áhuga svo fátt eitt sé nefnt.

Við í Flokki fólksins viljum auk þess vita hvernig rafræn skil gagna Reykjavíkurborgar til Þjóðskjalasafns verði háttað. Niðurlagning Borgarskjalasafns var áfall. Hér er um að ræða ein stærstu mistök sem þessi meirihluti hefur gert. Einnig viljum við fá upplýsingar um skjalareglur og rafræn skil gagna frá Reykjavíkurborg til Þjóðskjalasafns. Er einhver munur á kröfum Borgarskjalasafns og Þjóðskjalasafns um hvernig eigi að skila gögnum og gagnagrunnum til varðveislu? Hvaða tölvukerfi borgarinnar uppfylla ekki kröfur Þjóðskjalasafns um rafræn skil ef einhver? Hvað mun kosta að umbreyta kerfunum á þann hátt að þau standist kröfur Þjóðskjalasafns? Við þessu hafa engin almennileg svör borist.


Aðeins um ÞON á heimsmælikvarða eða þannig.

Það er í lagi að fólk geri sér grein fyrir að í borginni er enn verið að nota pappírsbeiðnir því það er verið að bíða eftir hinu “fullkomna” kerfi sbr. það sem fram kemur í hrokafullu svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins með leyfi forseta:

,, Rafrænt kerfi þarf að uppfylla ríkar kröfur borgarinnar um öryggi gagna” réttlæti áframhaldandi notkun pappírsbeiðna frekar en að innleiða rafrænt símakort eins og flestar aðrar stofnanir og sveitarfélög eru fyrir löngu komin með og hafa virkað frábærlega?
Tilvitnun líkur

 Mun stærri vinnustaðir og stofnanir í löndunum hér í kringum okkur eru varla enn að notast við það úrelta pappírskerfi sem enn er við lýði hjá borginni? Sú skýring að enn sé ekki til í heiminum rafrænt innkaupakerfi sem uppfyllir öryggiskröfur Reykjavíkurborgar er í raun fáránleg sérstaklega í ljós þess að öryggi núverandi fyrirkomulags er gjörsamlega fyrir neðan allar hellur. Í þeim skýringum sem komu fram í svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs felst mikill tvískinnungur.

 

Málefni fólksins

Sviðum sem annast beina þjónustu við borgarbúa  er gert að hagræða í miklum mæli. Þau svið sem standa beinan vörð um grunnþarfir borgarbúa þarf að hlífa. Allt of gróflega er verið að skera niður, draga úr þjónustu við börn eins og rakið er í mörgum liðum í yfirliti frá skóla- og frístundasviði. Ekki hefur verið hægt að sinna lögbundinni þjónustu með viðunandi hætti hvað þá fullnægjandi. 

Skóla- og frístundavið

Skerða á mikið á þessu sviði, eiginlega meira en á nokkrum öðrum sviðum. Brúa á  1.1. milljarða halla sem er fullkomlega óraunhæft ef ekki á að koma illa niður á þjónustu við börn.

Ég mun hér rekja þessa þætti meðal annars að hagræða á í Brúarskóla sem er löngu sprungin og í akstri fatlaðra sem var dýrari en áætlað var. Taka á upp samkennslu 1.2. bekk og 3 og 4. bekk þá fær hvert barn minni athygli. Skóla- og frí fékk   háan reikning frá ÞON  567 millj fyrir stafræna vinnu sem þeim rann ekki í grun að yrði svo hár svo nú þarf að skerða þjónustu til að geta greitt ÞON. Enn vantar mikilvægar lausnir. Hvar er t.d. stafræna lausnin Búi?  Ekkert bólar á Búa þrátt fyrir að langt sé síðan að fjármagni var veitt í það verkefni? Lengi hefur verið beðið eftir að fá þessa stafrænu lausn til að halda utan um þann fjölda barna sem þurfa á sérstakri sérfræðiaðstoð skólaþjónustu. Búi var sagður eiga að hjálpa til við að auðvelda samvinnu og samhæfingu og auka gagnsæi gagnvart forsjáraðilum sem og öryggi viðkvæmra gagna.

Sú málaskrá sem nú er við lýði er löngu úr sér gengin og er bæði flókin og tyrfin í notkun sem veldur því að utanumhald um biðlista er erfitt. Búið er að halda fína kynningu á Búa en hann sjálfur er hvergi sýnilegur. Ef Búi verður einhvern tíma að veruleika mun stafræn persónumappa fylgja hverju barni sjálfvirkt milli skóla. Þetta skref mun breyta miklu í utanumhaldi mála

Frekari hagræðingar  ganga út á að stytta opnunartíma og þjappa hópum. Það var áfall að sjá þann lista sem birtur var í Greinargerð með fagsviðum yfir skerðingar og  takmarkanir á þjónustu við börn. 

Þar má sjá að  ráðast á í að:

  • Fresta fyrirhuguðu verkefni – Fyrr í frístundaheimili , 300 m.kr. 
  • Fresta fyrirhuguðu verkefni – áfallateymi og fjölmenningarráðgjöf í miðstöðvum, 265 m.kr.
  • Fresta fyrirhuguðu verkefni: Hækkun framlags til grunnskóla vegna ísl.2.
  • Þróunarstyrkir menntastefnu lækka tímabundið úr 100 m.kr. Í 50 m.kr.
  • Tækjakaupasjóður lækkaður tímabundið um 70 m.kr.
  • Styrkir lækkaðir um 15 m.kr.

Verkefni tengd frístundastarfsemi:

  • Fækka frístundafræðingum, 28 m.kr.:

Hætta þjónustu frístundaheimila á löngum dögum, 44 m.kr.

  • Loka í sumarfrístund í 5 vikur í stað 4 vikna, 23 m.kr.
  • Stytta opnunartíma frístundaheimila frá skólabyrjun til skólaslita um 30 mín, 73 m.kr.

Verkefni tengd grunnskólastarfsemi:

  • Hagræðing í rekstri Brúarskóla, 30 m.kr. (Brúarskóli löngu sprungin og síðast sem fréttist var að útvíkka átti starfsemi) hans en nú er búið að slaufa því

Verkefni tengd leikskólastarfsemi:

  • Stytta sumarlokun leikskóla, til skoðunar í tengslum við nýtt líkan.
  • Stytta opnunartíma leikskóla, til skoðunar í tengslum við nýtt líkan.
  • Rýni ytri ráðgjafa á reiknilíkani leikskóla.

Verkefni tengd listastarfsemi:

  • Fækka keyptum kennslustundum af tónlistarskólum, 75 m.kr.
  • Breyta á samningi við Myndlistarskólann, 15 m.kr.

 

Gert er ráð fyrir:

  • Að gjaldskrár hækki um 3,5% þann 1. janúar 2025.

Og hvað með alla óvissuþættina? Eiga þeir bara að vera orð á blaði?

Til dæmis:
Verkefni tengd líðan barna og unglinga, einelti, ofbeldi, hatursorðsumræðu og fleiri þátta. Einnig verkefni sem tengjast álagi á starfsfólk og fjarvistum vegna veikinda.

Allar þessa skerðingar á þjónustu eru einmitt til þess fallnar að fjölga áskorunum, verið er að leika sér að eldinum með að vanlíðan barna aukist, einelti, ofbeldi og að álag á starfsfólk aukist

Svo er það hin eilífa mannekla sem ekkert ræðst við

Áskoranir tengdar mönnun í starfsemi sviðsins og hlutfalli fagmenntaðra starfsmanna.

  • Áskoranir tengdum viðhaldi og endurnýjun húsnæðis starfseininga sviðsins og rekstrartruflanir vegna framkvæmda. Eiga fleiri skólar og byggingar á vegum borgarinnar eftir að koma á lista myglaðs húsnæðis?

Frístundamiðstöðvar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar
Mannekla í frístundamiðstöðvar hafa háð starfsemi þeirra og skaðað. Uppgjöf er í þessum málum eins og Flokkur fólksins upplifir það

Flokkur fólksins hefur sagt það árum saman að það hefur ekki verið gefið rétt í þessari borg, forgangsröðun hefur verið röng. Börn og viðkvæmir minnihlutahópar hafa orðið verst fyrir barðinu á þessu og það á vakt Samfylkingarinnar sem gefur sig út fyrir jöfnuð og tala þannig alla vega á þinginu. Nóg er nú samt lagt á börnin um þessar mundir, mörg eru að koma illa út námslega, líður illa og hafa hallað sér að síma og samfélagsmiðlum til að hugga sig.

Það væri nær að sjá að verið væri að styrkja og auka þjónustu við börn og fjölskyldur en sjá lista af skerðingum og að verið sé að klípa af þjónustunni. Auka ætti frekar stuðning við börn og fjölskyldur frekar en að skerða.

Flokkur fólksins vill nefna hér nokkur brýn dæmi sem borgin ætti að stíga sterkt inn með auka fjárhagsstuðning og ekki síst sálrænan stuðning í formi áfallahjálpar.

Fyrst vil ég nefna þessa hræðilegur sýkingar á Mánabakka. Bjóða ætti foreldrum, börnum og starfsfólki Mánabakka áfallahjálp og stuðning vegna e.coli bakteríusýkingar. Það er það minnsta sem borgin getur gert í svona aðstæðum til að hjálpa fólkinu sem tengdist þessu erfiða máli.

Fleiri mál má nefna hér sem borgin þarf að stíga inn í og veita bæði fjármagn í og andlega aðstoð.

Flokkur fólksins leggur til að styrkur sá sem Reykjavíkurborg ætlar að veita Foreldrahúsi að upphæð 10 milljónir verði hækkaður. Í stað 10 milljóna verði styrkurinn 15 milljónir. Það er hætta á að For­eldra­hús þurfi að leggja nið­ur starf­semi sína vegna fjár­skorts. Um er að ræða eina úr­ræð­ið sem for­eldr­um barna og ung­menna í vímu­efna­vanda stend­ur til boða. 

Í um 25 ár hafa foreldrar barna og ungmenna sem glíma við vímuefnavanda getað sótt sér meðferð, fræðslu og þjónustu í Foreldrahúsi.  Nýjustu skýrslur Barnaverndar sýna aukningu  á neyslu meðal barna og Barnavernd sendir þessa skjólstæðinga í Foreldrahús.  Foreldrahús vinnur gríðarlega mikilvægt og gott starf og Flokkur fólksins telur gríðarlega mikilvægt að styðja við fjölskyldur í þessum vanda. 

og fleiri mál:

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um skaðabætur vegna myglu í skólahúsnæði, lögð fram 2023

Fjölmargir hafa orðið illa úti vegna myglu og raka í skólabyggingum borgarinnar. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu og dæmi eru um að börn séu orðin langveik. Nefna má í þessu sambandi þrautagöngu Laugarnesskóla. Í mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Nemendur og starfsfólks hafa veikst, sum alvarlega. Hér er ekki um einsdæmi að ræða.

Spurt hefur verið um hvort sérstaklega hafi verið hlúð að börnum og starfsfólki vegna heilsufars og mats á heilsu vegna myglunnar. Því er svarað til að öllum starfsmönnum Reykjavíkurborgar í húsnæðinu stendur til boða að leita til trúnaðarlæknis.. Hér hafa verið nefnd forgangsmál og til að hægt sé að fjármagna þau þarf að breyta forgangsröðun og útdeila fjármagni úr borgarstjóri með öðrum hætti en gert hefur verið. Fólkið fyrst

 

Önnur áherslumál sem verða að fara í meiri forgang

Önnur stór áskorun sem ekki fer mikið fyrir í fjárhagsáætlun  er  að styðja verður betur við börn í borginni. Hér er ég að tala um allan þann stóra hóp sem bíður eftir faglegri aðstoð af ýmsum tegundum.  Fram hefur ítrekað komið hjá m.a. landlækni, velferðarvaktinni og fleiri rannsóknum og lærðum skýrslum að algengustu ástæður tilvísana barna til þjónustu er tilfinningalegur vandi og málþroskavandi eða um 63%.  Einbeitingarvandi hefur aukist úr 300 börnum í um 500. Hér eru án efa vísbendingar um börn með ADHD.

Margar fjölskyldur, foreldrar barna með sértæk vandamál þurfa að bíða lengi eftir greiningu og þegar hún er komin er jafnvel vöntun á úrræðum og eftirfylgni. Mikil aukning hefur verið á þessum málum og tengist sú aukning ekki síst mikilli fólksfjölgun til landsins á skömmum tíma.  Í þessum málum þarf að ljúka frumgreiningu hið fyrsta sem er grunnur þess að barn fái síðar þjónustu á stofnunum ríkisins. Það skal þó sagt hér að ekki er hægt að vitsmunagreina erlend börn með greiningartækjum sem hafa verið stöðluð fyrir börn sem eru með íslensku að móðurmáli.

Þegar skilum máls er lokið á að taka við viðeigandi stuðningur samkvæmt tillögum sérfræðinga sem gerðu greininguna. Greining er gerð til þess að hún sé notuð, ekki sett ofan í skúffu og látið eins og hún hafi aldrei verið gerð. En í þetta þarf að vera mannskapur á gólfinu og þess vegna leggur Flokkur fólksins mikla áherslu á að sérfræðingar komi með inngrip sín strax á fyrsta stigi þjónustu. Sé viðvera þeirra að mestu út í skólunum léttir það aðkomu sérfræðinganna að máli barns strax á fyrsta vinnslustigi. Ef ekki kemur til viðeigandi stuðningur og ráðgjöf til kennara og foreldra og að haldið sé utanum barnið í samræmi við sértækar þarfir þess mun fljótlega glitta í kvíða og vanlíðan sem allt of oft endar með skólaforðun. Barn upplifir sig óöruggt og finnur sig ekki meðal jafningja. Nú tölum við um að skóli sé fyrir alla (höfum tekið út þetta leiðinlega hugtak „án aðgreiningar“) og ef meirihlutinn ætlar að standa undir því að skóli sé fyrir alla þá þarf að gera það sem gera þarf til að svo megi verða. Ljóst má telja að niðurskurður, sparnaður og hagræðing getur því hvorki verið mikill á skóla og frístundasviði eða velferðarsviði.

Nú þegar vantar eftirfylgni, það vantar stuðning og hjálp og umfram allt fræðslu til allra foreldra sem eiga barn í ferli hjá skólaþjónustu. Þessi fræðsla þ.e.. fræðslupakkar eru til og ekki þarf hámenntaðan sérfræðing til að flytja hana. Hér er hægt að setja á laggirnar skilyrta fræðslu án mikils ef nokkur kostnaðar og ábyrgðaraðili er Keðjan sem sýnt hefur þessu einmitt mikinn áhuga. Um er að ræða t.d. fárra klukkustunda uppeldistækni námskeið þar sem farið er í grunnatriði með hvaða hætti við setjum mörk og styðjum við barnið okkar í þeirra daglega lífi.

 

Velferðarráð og svið

Á velferðarsviði eru mörg mikilvæg verkefni í gangi. Flokkur fólksins er mótfallinn því að sparað sé á sviði sem annast grunnþjónustu við fólkið í borginni. Ef eitthvað væri, ætti frekar að auka í. Árið 2025 er nánast eins fjármagnað og árið á undan  þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað og  því er þörf fyrir meiri þjónustu. Íbúakjarnar hafi verið opnaðir og fleiri munu opna á komandi ári. Það gefur auga leið að það þarf fleiri vinnandi hendur við að vinna á slíkum íbúakjörnum og ekki viljum við að þeir verði reknir með undirmönnun eins og fram kom í fjölmiðlaumfjöllun í haust en þar var bent á neyðarástand hefði skapast í íbúðarkjarna við Skúlagötu vegna undirmönnunar. Þarna er varla hægt að spara.

Gríðarlegur vöxtur hefur orðið á vistgreiðslum Barnaverndar. Ekki þýðir að sitja bara og bíða eftir að vistgreiðslur komi frá ríkinu. Borgin verður að sinna þessum málum almennilega. 

Flokkur fólksins stendur vörð um þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu og í þeirri baráttu er af nógu að taka í velferðarráði og á velferðarsviði. Á síðasta fundi velferðarráðs  mótmælti fulltrúi Flokks fólksins því að 12 -16 ára fötluð börn ættu að fara greiða fyrir akstursþjónustu. Fötluð börn hafa ekki greitt fyrir þessa þjónustu.  Flokkur fólksins fagnar því að það var hætt við þessa ákvörðun og það er líka ánægjulegt að nú verður akstursþjónusta fatlaðra leikskólabarna einnig gjaldfrjáls.

Flokkur fólksins vill sérstaklega leggja áherslu á fjárhagslegan og félagslegan stuðning við fjölskyldur barna með sértækar þarfir. Þjónustan sem börn og fjölskyldur þurfa hvort heldur komi frá skóla- og frístundasviði eða velferðarsviði er iðulega ekki nægjanleg hvað þá fullnægjandi þrátt fyrir farsæld barna.

 

 Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð 

 Í Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð hefur Flokkur fólksins fyrst og fremst  lagt áherslu á að sporna gegn ofbeldi meðal barna og ungmenna. Einnig að vinna gegn ofbeldi gagnvart öldruðum og öðrum viðkvæmum hópum. Í upphafi kjörtímabilsins 2022 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um stofnun stýrihóps sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík og lagði til aukið samráð þriggja sviða sem koma mest að þjónustu við börn. Þá þegar voru ýmis teikn á lofti um aukið ofbeldi meðal barna og ungmenna. Tillagan fékk ekki brautargengi. Sem mótsvar við tillögu Flokks fólksins lagði mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð fram tillögu um samráðsvettvang um  forvarnir gegn ofbeldi meðal barna og ungmenna. Frekar lítið er að frétta af afrakstri þess hóps.   Flokkur fólksins vill að áfram verði lögð vinna í að vinna gegn öllu ofbeldi  og ekki verði sparað í þeim málaflokki.

 

Stýrihópur sem rýnir í biðlistann og hefur það verkefni að sjá leiðir til að auka skilvirkni hjá skólaþjónustunni. Í hópnum sitja Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir sem leiðir hópin, Þorvaldur Daníelsson og Ellen Calmon

Stýrihópur hefur verið að störfum síðustu vikur og rýnt biðlista barna til sérfræðinga Skólaþjónustu og aðdraganda að beiðnum til sérfræðinga sem eru sálfræðingar og talmeinafræðingar ásamt fleirum sérfræðingum. Markmið með vinnu hópsins er að gera biðlistann þannig úr garði að hann sýni raunverulega stöðuna og skoði hvernig hægt sé að gera vinnuna skilvirkari.

 Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur frá 2019 óskað eftir að fá að nýta sérþekkingu sýna á þessu sviði og boðið meirihlutanum ítrekað að bjóða Flokki fólksins til samvinnu og samstarfs en það hefur ekki tekist fyrr en nú. 

Eftirfarandi fulltrúar hafa hitt stýrihópinn: fulltrúar skrifstofustjóra og fagstjóra leik- og grunnskóla, fulltrúar framkvæmdastjóra miðstöðva og Keðjunnar, fulltrúar deildarstjóra barna- og fjölskyldna, sálfræðinga, framkvæmdastjóra Geðheilsumiðstöðvar barna og framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur sem og fulltrúar frá  BUGL. Hópurinn hefur einnig hitt fulltrúa talmeinafræðinga og fulltrúa frá Félagi talmeinafræðinga. 

 Fljótlega mátti sjá að víða var pottur brotinn. Innleiðing verkferla Betri borg fyrir börn (BBB) átti enn langt í land að vera komið í virkni. Tekið er fram að grunnvinna BBB er vönduð og ítarleg. Óttast er þó að boðleiðir geti verið langar, frá framkvæmdastjórum, skristofustjórum, deildarstjórum og fagstjórum til annarra starfsmanna

Málaskrárkerfið er flókið og úrelt í raun sem gerir innleiðingu BBB en hægari en þyrfti. Að skrá mál rétt í “kerfið” er mikilvægt fyrir þverfaglega samvinnu og samræmingu og tryggir að upplýsingar um börn og fjölskyldur sem skráðar eru í kerfið séu til staðar og auðveldi heildarsýn. Stýrihópurinn hefur lagt til að sett verði inn á Torgið fræðsla, málaskrárnámskeið. Beðið er eftir nýju kerfi sem er eitt af þeim stafrænum lausnum sem seinkað hefur langt umfram áætlun. Að skerpa á og ydda verkferla og vinnubrögð hefur verið mantra hópsins og þeirra sem hann hefur rætt við, allt til að hámarka skilvirkni vinnunnar. 


Eftir að tiltekt hófst á biðlistanum eru nú á honum um 1500 börn en í fyrra á sama tíma biðu 2350 börn eftir þjónustu. Næstu vikur fara í að skoða umsóknir á bið enn frekar, með það fyrir augum m.a. að skoða hvort mál séu rétt skráð og flokkuð og hvort á listanum séu mál sem eru tilbúin til að loka að börn sem þarfnast annars konar úrræðis.

Ef horft er á þau börn sem bíða eftir sérfræðiþjónustu þá vil ég sérstaklega nefna þau sem bíða eftir eftir aðstoð vegna málþroskavanda, málörðugleika af einhverju tagi s.s. framburðargalla.

Greiningar vegna fjöltyngdra barna hafa aukist og þeim málum iðulega vísað til sérfræðinga skólaþjónustu eða talmeinafræðinga. Stundum er vandinn einfaldlega vegna þess að barnið hefur ekki íslensku sem móðurmál og hafa ekki dvalið á landinu nema í tiltekinn tíma.  Ekki er tímabært að horfa á málnotkun þeirra sem vandamál ef þau hafa verið stutt á landinu. Það tekur 5-7 ár að ná góðum tökum á tungumálinu.

Það er mikil nauðsyn að fjölga stöðugildum talmeinafræðinga. Talmeinafræðingar þurfa að sitja í lausnarteymum í grunnskólum, ekki er nóg að kalla þá bara inn eftir atvikum. Umfram allt þurfa þeir að geta annað vinnu, skimunum og ráðgjöf til kennara og forelda á 1. og 2. þreps þjónustu

Það er mat þeirra sem vinna við þessi mál að það þurfi að auka talmeinafagmenntun inn í leikskólana til þess að hægt sé að byrja á æfingum og málörvun strax og búið er að greina vandann og efla foreldra í að gera það sama. Fræða þarf starfsfólk og foreldra, veita þeim ráðgjöf og þjálfun í að hjálpa börnum með skilgreindan talmeinavanda að gera æfingar samkvæmt leiðbeiningum talmeinafræðings. Hér erum við t.d. að tala um málörvun vegna framburðarvanda eða galla. Þetta kostar mannafla.  Fjölga þarf stöðugildum og fullnýta þau sem fyrir eru. Skortur á talmeinafræðingum leiðir til skorts á eftirfylgni mála.  Þetta vill Flokkur fólksins setja fjármagn í.

Sú umræða hefur einnig komið upp að ef of margir starfsmenn leikskóla eru ekki með nægjanlega færni í íslensku þá hafi það áhrif á málþroska barnanna. Kannski þarf einfaldlega að skoða að ráða ekki erlent starfsfólk til að vinna með börn á máltökualdri nema tiltekinni grunnfærni í íslensku sé náð og þar með talið orðaforða. Það má ekki gleyma að leikskólinn er fyrsta skólastigið og það þarf að taka tillit til þess.

Mat hópsins er að styrkja þjónustuna enn frekar með verkfærum Betri borgar fyrir börn og tryggja að náð sé sem bestum árangri með börnum og fjölskyldum þeirra. Hér er hluti af þeim atriðum sem stýrihópurinn hefur sent til sviðsstjóra og þeir sent áfram til forsvarsmanna Skólaþjónustunnar.

  1. Virkni lausnarteyma og nemendaverndarráða

Efla lausnarteymin og/eða nemendaverndarráð í öllum skólum. Sérstaklega styrkja hliðvörslu-ráðgjafarhlutverk þeirra sérfræðinga sem starfa á miðstöðvunum. Mikilvægt er að tryggja að mál séu ekki send til meðferðar sérfræðinga í miðstöð, án þess að málsmeðferð og fyrirliggjandi úrræði í skóla- og frístundastarfi séu fullnýtt. Ráðgjafar þurfa að vera á vaktinni til að veita nauðsynlega ráðgjöf á fyrstu stigum máls og eru lausnarteymin hvött til að nýta sér þann kost til fullnustu. Máli barna á grunnskólaaldri á ekki að vísa til meðferðar miðstöðva án umfjöllunar í nemendaverndarráði og undangenginni meðferð lausnateymis (eru bráðatilvik þó undantekning).

  1. Viðvera sérfræðinga í skólum

Flokkur fólksins og stýrihópurinn vill að  sálfræðingar hafi aukna fasta viðveru í skólum. Það mætti útfæra á þann veg að hluti sálfræðinga er með aukna viðveru í skólum á meðan hluti sinnir greiningum á miðstöð. Með fastri viðveru sálfræðinga í skólum eru þeir betur í stakk búnir til að veita ráðgjöf og styðja við kennara, foreldra og barnl á fyrstu stigum og þá áður en mál þróast í stærri vanda og verður formleg beiðni til sérfræðinga með tilheyrandi bið. . Með þessu fyrirkomulagi, auk markvissari vinnu lausnateyma, má ætla að formlegum beiðnum um sérfræðigreiningu fækki, sem gerir það að verkum að sálfræðingar og talmeinafræðingar hafi meira svigrúm til að sinna sálfræðiþjónustu á fyrri stigum málsmeðferðar. Sérfræðingar niður á gólf til að grípa barnið á þrepi 1

  1. Lokanir mála

Ganga þarf röskar í að loka málum sem eru búin þ.e. þegar aðkoma sérfræðinga er lokið  samkvæmt verklagi og því sem þeir voru beðnir um að gera í tilvísun. Valdi lokun máls foreldrum og skólastofnum áhyggjum, skulu þeir fullvissaðir um að þjónusta miðstöðvar standi þeim ávallt til boða eftir atvikum og mál verði opnað á ný ef aðstæður bjóða svo. Mest um vert er að þegar ráðgjafar telja sig hafa komið málum áleiðis til bæði heimilis og skóla með tilheyrandi tillögum um framhaldsþjónustu er mikilvægt að málunum sé formlega lokið.

  1. Formleg ráðgjöf og eftirfylgni

Formleg ráðgjöf og eftirfylgd mála, í gegnum deild árangurs og gæðamats, er mikilvæg. Sérfræðingur á sviði tölfræði mun halda áfram að leiðbeina starfsfólki á mánaðarlegum fundi með móttöku-teymum, fagstjórum og deildarstjórum miðstöðvanna. Á þeim fundum gefst tækifæri til að fara markvisst yfir málin til að fá fullvissum um að mál séru rétt skráð, að engin mál hafi fallið milli skips og bryggju svo fátt sé nefnt.

5. Heildarlokun beiðna frá skólum í desember

Til að auðvelda betri skráningar og yfirferð vinnu ráðgjafa BBB og til að ljúka yfirferð á biðlistanum með það að markmiði að hann spegli í ríkari mæli raunverulega stöðu mála, hef ég lagt til að í annarri viku í desember og til áramóta verði ferlið „fryst“ á meðan fram fari heildarskoðun á biðlistanum. Á þessum tíma verður lokað fyrir hreyfingu á málum milli stiga/þrepa til að gefa starfsfólki næði til að rýna málin á biðlistanum þau sem þá standa út af og hafa ekki fengið skoðun.  Með slíkri rýni mun koma enn betur í ljós hvaða beiðnir eiga erindi til sérfræðinga og hvað mál eiga hugsanlega heima á öðrum stað í ferlinu (fyrri þrepum). Undantekningar verða eingöngu gerðar fyrir bráðamál. Vel var tekið í þessa tillögu mína.

Hér hefur aðeins verið nefnt brot af þeim tillögum og tilmælum sem stýrihópurinn hefur lagt fram. Stýrihópurinn hefur, eins og áður sagði óskað eftir því við Keðjuna sem sér um fræðslumál að skoða þann möguleika að hafa stutt fræðslunámskeið fyrir foreldra barna í lausnarferli en sárlega vantar að ná til foreldra með fræðslu og stuðningi sem hluti af snemmtækri íhlutun. Hér er ekki aðeins verið að tala um tilboð heldur skýr tilmæli til foreldra til að hægt sé að hjálpa barni þeirra heildstætt.

Áður en sagt er lokið við þessa umfjöllun eða kynningu vill borgarfulltrúi þakka sviðsstjórum skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs fyrst og fremst traustið og fyrir að taka svo vel í tillögur stýrihópsins og vera tilbúinn vinna þeim brautargengi. 

 Ræðulok

 

Bókanir Flokks fólksins framlagðar við Fyrri umræðu

Undir liðnum Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ásamt greinargerð fjármála- og áhættustýringarsvið, fyrri umræða:

Fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkurborgar lýsir áhyggjum yfir rekstri og fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Hann er ekki einn um slíkar áhyggjur því þær hafa verið staðfestar með erindi Eftirlitsnefndar sveitarfélaga þar sem fram kemur að Reykjavíkurborg uppfyllir ekki öll viðmið ráðuneytis sveitarstjórnarmála um fjárhagslega sjálfbærni. Þessar áhyggjur hafa einnig verið staðfestar í blaðaviðtali með lýsingu borgarstjóra á upplifun hans af fjárhagsstöðu borgarinnar þegar hann tók við starfi borgarstjóra. Í þriðja lagi má minna á að Reykjavíkurborg hefur ítrekað á undanförnum misserum neyðst til að draga til baka skuldafjárútboð vegna áhugaleysis markaðarins á að eiga viðskipti við Reykjavíkurborg á því sviði.
Bættur hagur borgarsjóðs frá fyrra ári byggist fyrst og fremst á hækkun fasteignaskatts á íbúa borgarinnar vegna hærra fasteignamats og meiri útsvarstekna en ekki vegna betri rekstrar. Á yfirstandandi ári lítur út fyrir að veltufé frá rekstri verði 10,6 milljarðar eða 5,5% af heildartekjum. Af þessum 10,6 milljörðum koma 6,0 milljarðar frá Orkuveitu Reykjavíkur sem greiddur arður. Því er raunverulegt veltufé frá rekstri hjá A-hluta borgarsjóðs samkvæmt útkomuspá 2,3% sem er langt fyrir neðan allar viðmiðanir. Skammtímaskuldir eru hærri en lausafjármagn sem þýðir að veltufjárhlutfall er óhæfilega lágt.

 

Undir liðnum Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2025-2029, fyrri umræða:

Eftir viðvarandi mjög erfiðan rekstur Reykjavíkurborgar á undanförnum árum er áhugavert að sjá hvað björt framtíð er framundan að mati meirihlutans. Gengið er sennilega of langt í að halda að brátt muni smjör drjúpa af hverju strái í rekstri borgarinnar. Framundan bíða áframhaldandi erfiðleikar þátt ákveðinn viðsnúningur hafi orðið. Á sama tíma munu afborganir langtímalána hækka um allt að 100% og veltufjárhlutfall er stöðugt undir viðmiðunarmörkum, sem þýðir að meiri líkur eru á að dráttarvextir fari hækkandi. Fram kemur í skýringum að enn sé nokkuð í land að málefni fatlaðra sé fjármagnað að fullu. Reykjavíkurborg verður auðvitað að finna leiðir til þess að tafir á greiðslu frá ríkinu komi ekki niður á þeim sem eiga samþykkta NPA samninga né heldur frekari uppbyggingu húsnæðisúrræða.
Ekki er heldur fengin niðurstaða í samningaviðræðum við ríkisvaldið vegna annarra samninga.
Fyrir liggur að uppsöfnuð viðhaldsþörf á húsnæði í eigu borgarinnar er gríðarleg og mun taka mörg ár og mikla fjármuni að vinna hana niður. Fjárhagsáætlun til fimm ára er mikilvægt stjórntæki því þar kemur fram framtíðarsýn kjörinna fulltrúa um hvert skuli stefna í fjármálum borgarinnar. Því er grundvallaratriði að hún sé unnin af raunsæi og tekið mið af varfærnisreglunni frekar en að byggja upp óraunhæfar væntingar.

 

Undir liðnum: Tillögur meirihlutans, liður 7 í dagskrá borgarstjórnar samkv. fundargerð borgarráðs 31. okt. og 1. nóv:

 

Liður 5  Tillaga um álagningahlutfall útsvars 2025

Flokkur fólksins vill frekar sjá að fasteignaskattsálagningar verði 1,65% í stað 1,8% og að álagningarhlutfall í C-hluta verði 1,42% í stað 1,6%. Á meðan sum önnur sveitarfélög lækkuðu álagningarhlutfall fasteignaskatts þá hélt meirihluti borgarstjórnar álagningarhlutfalli fasteignaskatts óbreyttu. Það þýddi beina skattahækkun á íbúa Reykjavíkurborgar. Fyrirtæki eru farin að taka mið af hærri fasteignaskatti í Reykjavíkurborg en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi aðferð meirihlutans að hækka stöðugt skattaálögur á íbúa getur haft þær afleiðingar að skattstofn borgarinnar dragist saman og geri þannig stöðuna enn verri.

Liður 10  Tillaga um niðurfellingu á yfirfærlsu fjárheimilda ársins 2023-2024

Flokkur fólksins lýsir sig andvígan niðurfellingu á möguleikum til að flytja fjárheimildir milli ára og vill að heimilt verði að flytja 50% af ónýttri fjárheimild milli ára. Það er hvati fyrir forstöðumenn að geta nýtt ávinning af hagræðingu í rekstri og útsjónarsemi við að reka viðkomandi stofnun, til að bæta aðstæður eða styrkja starfsemi hennar. Sjálfsagt er að stofnun og starfsmenn njót þess ef góður árangur næst. Sé enginn hvati til slíkra hluta þá verður stofnunin rekin með það eitt markmið í huga að fullnýta fjárheimildir, sama hvaða aðferðum er beitt í því sambandi, því litið verður á fjárheimild, sem ekki er fullnýtt, sem tapað fé.

 

Tillögur Flokks fólksins 5. nóvember 2024 framlagðar við Fyrri umræðu Fjárhagsáætlunar og Fimm ára áætlunar:

F – 1 Frysting á gjöldum ákveðinna minnihlutahópa.

Flokks fólksins leggur til að frysta allar gjaldskrárhækkanir er varða vetrarstarf frístundaheimila og sértækrar félagsmiðstöðvar barna og eldri borgara sem og annarra minnihlutahópa um eitt ár. Einnig er lagt til að frysta allar gjaldskrárhækkanir fyrir sumarstarf frístundaheimila og sumarstarf sértækra félagsmiðstöðva í alla vega eitt ár.

Áður hefur verið minnst á Frístundakortið sem ekki er hægt að nota til að greiða sumarnámskeið eða styttri námskeið.

Tekjulækkun vegna tillögunnar nema 38,1 m.kr. Tekjulækkunin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir skóla- og frístundasviðs hækkaðar á móti.

 

F-2 Breytingar á gjöldum í Árbæjarsafn.  

Tillaga um að gjaldskrá Árbæjarsafns verði breytt, að gjald fyrir aðgang verði lækkað.

Lagt er til að unglingar milli 17 og 18 ára fái frían aðgang að Árbæjarsafni eins og börn frá 0 til 17 ára. Lagt er til að nemendur með gilt skólaskírteini fái ókeypis aðgang en nú greiða þeir 1.200 kr. Lagt er til að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiði aðeins gjald fyrir annað foreldrið. Ef foreldrar koma með barn/börn er kostnaður 3.900 krónur og sé með þeim barn sem orðið er 18 ára greiðir fjölskyldan kr. 5.850. Þetta er há upphæð fyrir margar fjölskyldur sem geta þar af leiðandi ekki heimsótt  safnið. Þess utan eru allar veitingar seldar á uppsprengdu verði. 

Tekjulækkun vegna tillögunnar nemur 5 m.kr. Tekjulækkunin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir menningar- og íþróttasviðs hækkaðar á móti.

 Greinargerð:

Reykjavíkurborg skilgreinir sig sem menningarborg. Í raun má segja að Árbæjarsafn sé aðeins fyrir efnamikið fólk. Þessu þarf að breyta og leggur Flokkur fólksins því til að foreldrar sem koma með barn/börn sín greiði bara fyrir annað foreldrið og að frítt sé fyrir börn til 18 ára enda er einstaklingur skilgreindur sem barn til 18 ára. Það ætti að vera metnaður borgar meirihlutans og þeirra sem hafa umsjón með safninu að sem flestir komi þangað til að njóta húsakynna og umhverfis. Fegurð, saga staðarins og veitingar á viðráðanlegu verði, stuttir  viðburðir og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að og gefur staðnum líf. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld að endurskoða gjaldskránna og samþykkja þessa tillögu sem kveður á um hóflegar breytingar, lækkun á aðgangskostnaði fyrir fjölskyldur  sem heimsækja safnið.

 

F-3 Breytingar á hundagjöldum

Tillaga Flokks fólksins um að árlegt hundagjald lækki um 50% en það er nú 17.800 krónur og verði 8.900 krónur. Einnig er lagt til að handsömunargjald lækki um helming en það er nú 38.550 krónur og verði þess í stað 19.275 krónur. Athuga verður að það hafa ekki allir ráð á að greiða rúmar 30 þúsund krónur vegna þess að hundur þeirra hefur óvart sloppið og er handsamaður af Reykjavíkurborg.

Tekjulækkun vegna tillögunnar nemur 16,5 m.kr. Tekjulækkunin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir menningar- og íþróttasviðs hækkaðar á móti.

 

F-4 Viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts

Breytingartillaga fulltrúa Flokks fólksins við tillögu um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2025.

Lagt er til að viðmiðunartekjur tillögunnar verði eftirfarandi:

  1.               Réttur til 100% lækkunar

Einstaklingur með tekjur allt að 5.412.000 kr.

Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 7.555.000 kr.

  1.             Réttur til 80% lækkunar

Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.412.001 til 6.196.000 kr.

Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.555.001 til 8.370.000 kr.

III.            Réttur til 50% lækkunar

Einstaklingur með tekjur á bilinu 6.196.001 til 7.202.000 kr.

Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 8.370.001 til 10.000.000 kr.

Kostnaðarauki vegna tillögunnar nemur 50 m.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir á sameiginlegum kostnaði (ÖNN) verði hækkaðar á móti.

Greinargerð:

Tillaga borgarstjóra vísar til hækkana á bótum almannatrygginga til samræmis við þróun réttinda almannatrygginga. Hins vegar er spurning hvort ekki sé tilefni til frekari hækkunar sérstaklega í ljósi þess að verðbólga yfirstandandi árs hefur ekki lækkað í samræmi við áætlanir þær sem lágu til grundvallar hækkun almannatrygginga síðustu áramót.

Bætur almannatrygginga hækkuðu síðustu áramót um 0,6% vegna vanmats á verðbólgu í fjárlögum ársins 2021, og 4,9% vegna áætlaðrar verðbólgu. Þá ákvað ríkisstjórnin að hækka bætur almannatrygginga vegna örorku sérstaklega um 0,5% til þess að tryggja kaupmáttaraukningu. Auk þess hækkuðu bæturnar heilt yfir um 2,5% um mitt árið.

Sé ekki litið til 0,6% hækkunarinnar hefur lífeyrir almannatrygginga aðeins hækkað um 8% vegna áætlana um þróun verðlags á yfirstandandi ári. Vísitala neysluverðs hefur þegar hækkað um 6% það sem af er ári og ekkert lát er á þeirri þróun. Að öllum líkindum verður vísitöluhækkun ársins nær 8,6%, sbr. nýjustu þjóðhagsspár Seðlabanka og Hagstofu.

Réttast væri að hækka viðmiðin um vanreiknaða verðbólgu síðasta árs. Því ætti fjárhagsaðstoð að hækka fyrst, um 0,6 vegna vanreiknaðrar verðbólgu árið 2022 og svo um 8,6% samkvæmt nýjustu þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands. Samanlagt er það hækkun um 9,25%.

 

F-5  Álagningarhlutfall A-hluta fasteignaskattsálagningar verði 0,165% í stað 0,18%. Jafnframt leggur Flokkur Fólksins til að álagningarhlutfall í C-hluta verði 1,42% í stað 1,6%.

Lagt er til að álagningarhlutfall A-hluta fasteignaskattsálagningar, þ.e. fasteignaskattur af íbúðahúsnæði, verði 0,165% í stað 0,18%. Jafnframt leggur Flokkur Fólksins til að álagningarhlutfall í C-hluta, þ.e. fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði, verði 1,42% í stað 1,6%. Tekjulækkun vegna tillögunnar nemur 2.784 m.kr. og er lagt til að hún færist til lækkunar á áætlað handbært fé. 

Greinargerð:

Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-hluta og C-hluta verði hið sama og í Kópavogi. Húsnæðisverð er hærra í Reykjavík er hærra en í Kópavogi. Á meðan Kópavogur (og fleiri sveitarfélög) lækkaði álagningarhlutfall fasteignaskatts þá hélt meirihluti borgarstjórnar álagningarhlutfalli fasteignaskatts óbreyttu. Það þýddi beina skattahækkun á íbúa Reykjavíkurborgar.

Fyrirtæki eru farin að taka mið af hærri fasteignaskatti í Reykjavíkurborg en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Til lengri tíma litið þá getur sú aðferð meirihlutans að hækka stöðugt skattaálögur á íbúa og fyrirtæki í Reykjavík, til að mæta slæmri fjárhagsstöðu og óstjórn í fjármálum borgarinnar um árabil, haft þær afleiðingar að skattstofn borgarinnar dragist saman og geri þannig stöðuna enn verri. Það er því nauðsynlegt að stöðva slíka þróun, miða skattaálögur við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og mæta slíkum aðgerðum með hagræðingu í rekstri.

 

F-6  Breytingartillaga Flokks fólksins við tillögur meirihlutans nr. 9 niðurfellingu á yfirfærslu fjárheimilda ársins 2023 til ársins 2024.

Flokkur fólksins lýsir sig andvígan niðurfellingu á möguleikum til að flytja fjárheimildir milli ára. Lagt er til að heimilt verði að flytja 50% af ónýttri fjárheimild milli ára. Ef miðað er við stöðu sviða þá er kostnaðarauki vegna tillögunnar 127,5 m.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir viðeigandi sviða hækkaðar á móti.

Greinargerð:

Það er hvati fyrir forstöðumenn stofnana að geta nýtt ávinning af hagræðingu í rekstri og útsjónarsemi við að reka viðkomandi stofnun, til að bæta aðstæður eða á annan hátt styrkja starfsemi hennar.
Það er hvati fyrir forstöðumenn og aðra starfsmenn að stofnunin og starfsmenn hennar njóti þess, ef góður árangur næst með því að við auka hagkvæmni, bæta skilvirkni eða á annan hátt bæta rekstur hennar, með því að hvetja starfsfólk stofnunarinnar til að nýta styrk sinn og þekkingu í þeim tilgangi að bæta reksturinn. Sé enginn hvati til slíkra hluta þá verður stofnunin rekin með það eitt markmið í huga að fullnýta fjárheimildir, sama hvaða aðferðum er beitt í því sambandi, því litið verður á fjárheimild, sem ekki er fullnýtt, sem  tapað fé.