Oddvitaræða við fyrri umræðu Ársreiknings 2023 flutt 7. maí 2024

Ræða oddvita 7. maí 2024

Afkoma A-hlutans batnar frá árinu 2022 en engu að síður eru það allnokkur aðvörunarljós sem blikka og full ástæða er til að vekja athygli á. Þrátt fyrir bata í rekstrinum er engu að síður halli á rekstri A-hlutans sem nemur um 5 milljörðum. Það getur ekki talist ásættanlegt eitt og sér.

Afkoma A-hlutans var afspyrnuslök og í raun hættulega léleg skv. ársreikningi Reykjavíkurborgar á árinu 2022. Það eru því ekki nein stórtíðindi, eða dæmi um mikinn árangur í rekstri, að afkoma A-hlutans skuli vera heldur betri á árinu 2023.

Rekstrartekjur A-hlutans hækka um 20 milljarða milli ára. Þar vegur til að mynda töluvert að borgin lækkaði ekki álagningarhlutfall fasteignaskatts á móti mikilli hækkun á fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Það er í sjálfu sér ekki mikil stjórnviska né rekstrarleg snilld að hækka skattheimtu á íbúana.

Athygli vekur að veltufjárhlutfall (hlutfall milli veltufjármuna (lausafjár) og skammtímaskulda lækkar úr 1,1 á árinu 2022 niður í 0,94 á árinu 2023. Veltufjármunir hækka um rúma tvo milljarða en skammtímaskuldir hækka um sex og hálfan milljarð. Slík þróun  gefur til kynna ákveðin hættumerki. Það ætti að vera fjárhagslegt markmið hjá borginni að veltuhlutfall sé alltaf um eða hærra en 1. Fari það mikið undir 1 gefur það til kynna aukningu lausaskulda.

Í þessu sambandi vegur þó þyngst hækkun afborgana af langtímalánum og leiguskuldum. Þær tvöfaldast milli ára, hækka úr 6,2 milljörðum   í 12.8 milljarða.

(Á árinu 2023 upp í 12,8 milljarða á árinu 2024 eða rúmlega tvöfaldast á milli ára. Þetta kemur fram í sundurliðun skammtímaskulda í efnahagsreikningi.  þetta olli ruglingi Næsta árs afborganir er 2024  en í sjóðsstreyminu 2023)

Þetta er þróun, sem hefur verið varað við árum saman, að stöðug hækkun langtímaskulda um margra ára skeið muni hækka þunga afborgana langtímalána svo mikið að þungi afborgana með tilheyrandi vaxtabyrði sé einn og sér orðinn veruleg fjárhagsleg byrði.

Þegar svo bætist við að veltufé frá rekstri í A-hluta Reykjavíkurborgar hefur árum saman verið langt undir þeim mörkum, sem nauðsynleg og ásættanleg eru. Þá verður niðurstaðan eftir því.

Fyrirsjáanleg hækkun afborgana af langtímalánum á næsta ári getur ekki annað en leitt til annars en að óhjákvæmilegt er að sett verði fjárhagsleg markmið fyrir yfirstandandi rekstrarár um að auka veltufé frá rekstri verulega frá fyrra ári. 

Slíkt markmið fyrir yfirstandandi rekstrarár hlýtur að vera að veltufé frá rekstri verði a.m.k. 16-18 milljarðar svo bæði verði hægt að greiða afborganir langtímaskuldbindinga og leggja lágmarks fjármagn til fjárfestinga. Að öðrum kosti festist A-hluti Reykjavíkurborgar í stöðugt harðnandi vítahring aukinnar lántöku og sífellt meiri þunga afborgana langtímaskuldbindinga sem minnkar líkur á að rekstur borgarinnar nái að verða fjárhagslega sjálfbær.

Ekki þýðir að einblína á að skuldahlutfall A-hluta sé enn frekar lágt og þar með sé allt í lagi á þessu sviði. Grundvallaratriði er i þessu sambandi hve auðvelt skuldarinn á með að greiða afborganir lána. Enda þótt skuldahlutfall sé ekki í hæstu mörkum þá getur verið erfitt fyrir skuldarann að standa undir skuldbindingum sínum ef reksturinn skilar ekki nægum afgangi. 

Langtímaskuldir A-hluta hækka á milli ára um nær 15 milljarða eða um rúm 15% milli ára. Það er mikil hækkun milli ára og kemur meðal annars til af því að borgin hefur á undanförnum árum þurft að taka lán fyrir hluta rekstrarútgjalda, öllum afborgunum lána og síðan öllum fjárfestingum.

 

Félagsbústaðir 

Mig langar að segja nokkur orð um Félagsbústaði sem er félag/fyrirtæki sem stendur ekki undir greiðslubyrði lána að óbreyttu, (bls 16) Ef ná á sjálfbærni í viðmiðum þarf að hækka leigu um 8.7 prósent. 

Viðskiptamódelið gengur ekki upp miðað við núverandi forsendur. Auðvitað er hægt að styrkja félagið með framlögum ef vilji er til þess en svona gengur þetta ekki lengur. Það þarf samþykki velferðarráðs til að hækka leigu og Flokkur fólksins mun aldrei styðja það að leiga verði hækkuð til þess að halda þessu fyrirtæki á floti.

Það er mjög óeðlilegt að fyrirtæki sem hefur í rekstrarhagnað um 16,5 milljarða króna með heildartekjur upp á um sex milljarða skuli vera þannig fjárhagslega statt árið eftir að það þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana svo hægt sé að sinna eðlilegu viðhaldi eigna samkvæmt stjórn fyrirtækisins.  
Það helgast náttúrulega af því að sá hluti rekstrarhagnaðar Félagsbústaða samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins, sem á uppruna sinn í matsbreytingum fjárfestingareigna, eru gervi-krónur en ekki raunverulegar krónur. Þessir peningar hafa aldrei verið til.

Það er ekki annað hægt  en að álykta sem svo, að með því að taka matsbreytingar fjárfestingar með í rekstraruppgjöri á Félagsbústöðum, sé verið að slá ryki í augu íbúa borgarinnar til að láta svo líta út að afkoman sé miklu betri en hún er í raun og veru.

Ef fyrrgreindur rekstrarhagnaður væri raunverulega í hendi þá þyrfti engar áhyggjur að hafa af því hvort fyrirtækið gæti haldið eignum sínum við. Voru þessir fjármunir aldrei til enda þótt þeir séu bókfærðir sem hagnaður í ársreikningi Félagsbústaða? 

Hvern er verið að blekkja? Hvað með markmiðin um skýrleika og áreiðanleika í IFRS reikningsskilastaðlinum (International Financial Reporting Standards – Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar) sem er flaggað í ársreikningi Félagsbústaða?

Ef matsbreyting er breytt þá  breytist efnahagsleg ásýnt. Það þýðir ekki að segja að þetta skipti ekki máli því það sé hvort eð er verið að endurspegla einhvers konar raunvirði, horfa á sjóðstreymi, og hvort tekjur duga til að greiða lán, eða hvort félagið standi  undir sér. Það gengur ekki að fullyrða að þetta sé aðalatriðið og að ásýndin skipti ekki máli. Það er sem sagt verið að beita ,,skapandi reikningsskilum´´. Reikningsskil eiga að sýna stöðuna (rekstur og efnahag) eins og hún er í raun og veru en ekki að setja upp einhvern gerviveruleika. Það væri alveg eins hægt að reikna alla skóla borgarinnar, sundlaugar og íþróttahús upp til einhvers matsverðs til að breyta ,,efnahagslegri ásýnd´´ hennar. Eins og víða hefur komið fram þá er það þannig í öllum öðrum norrænum ríkjum þá er unnið eftir varfærnisreglunni við uppsetningu reikningsskila sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra, þ.e.a.s. að tryggt sé að það sé ekki verið að láta stöðuna líta betur út en hún er í raun og veru. Minnt er á það sem segir í ársreikningi að hann eigi að vera gerður í samræmi við IFRS reikningsskilastaðalinn. Þau fjögur grundvallaratriði, sem IFRS staðallinn byggir á, eru skýrleiki (clarity), mikilvægi (relevance), áreiðanleiki (reliability) og samanburðarhæfni (comparability).  

 CEB

Næst langar mig að segja nokkur orð um þetta erlenda lán sem Reykjavíkurborg hyggst taka hjá Þróunarbanka Evrópu. CEB The Council of Europe Development Bank (CEB) 

Lánasamningur var lagður fyrir borgarráð er varðar kjör og umgjörð lánsins. Helstu skilmálar eru að samningurinn er  hugsaður  til að fjármagna viðhald vegna myglu í grunn og leikskólum.

(Val um lánalengd er 10 til 25 ár. Vextir breytilegir. Heimild til láns er 16.5 milljarða, heildin 115 milljarðar í lán. Segir að þetta sé hluti af því samtali við innlenda viðskiptabanka, lán i evrum. Áhættuvarnir: m.a. fara í erlend ríkisskuldabréf  (heimild)?? þetta var óljóst. (Lánsfjárhæðin sem um ræðir er um 15 milljarðar og  gengistryggð með 3,5% vöxtum.) 

Flokki fólksins finnst það nokkuð undarlegt að CEB sé að veita lán í almennt viðhald og endurbætur á skólum í Reykjavík. Þegar CEB er googlað þá kemur í ljós að markmið Þróunarbanka Evrópu  eru að fjárfesta í fólki og styrkja mannauð, styrkja og efla lifandi umhverfi og stuðla að atvinnusköpun og fjárhagslegri þátttöku (lauslega þýtt). Markmið hans er að lána til verkefna sem eiga að byggja upp og styrkja samfélög sem eiga undir högg að sækja. Hann er því ekki einhver venjulegur lánasjóður eins og nafn hans felur í sér.

Markmið bankans virðast því ekki að neinu leyti hafa snertiflöt við almennar viðhaldsframkvæmdir mannvirkja hjá sveitarfélögum. Viðhald er skilgreint sem venjubundið verkefni sveitarfélaga sem bera ábyrgð á mannvirkjum sínum.

Það er spurning hvernig Reykjavíkurborg hefur skilgreint sig til að fá aðgengi að láni hjá bankanum. 

Það hefur lengi verið viðtekin almenn þumalfingurregla að það eigi ekki að taka lán í öðrum gjaldmiðli en lántakinn fær tekjur sínar í. Sveitarfélög eigi því almennt ekki að taka erlend lán. Reynslan hefur sýnt að þetta getur verið tvíbent. Stundum hefur reynst hafa verið hagfellt að taka erlend lán, en í öðrum tilfellum hefur það reynst mjög dýrt. Hafnarfjörður var t.d. kominn með stærstan hluta lána sinna í erlend lán fyrir hrunið og það reyndist þeim afar erfitt. 

Það segir sína sögu um stöðu viðhalds framkvæmda og fjármála hjá borginni að það skuli þurfa að fara í svo mikla lántöku til að fjármagna almennt viðhald. Almennt viðhald á að fjármagna úr almennum rekstri. Það tekst yfirleitt ef það er framkvæmt á reglubundinn hátt. Ef það er ekki hægt þá er eitthvað að. Málið er að viðhald hefur verið vanrækt langtímum saman og það þýðir ekkert annað en að það er verið að færa fjárhagslegar byrðar inn í framtíðina. 

Þessi lántaka mun þýða að afborganir lána munu hækka enn frekar á komandi árum og er þá hæpið að veltufé frá rekstri muni nægja til að standa undir afborgunum lána eins og ég minntist á hér í upphafi ræðunnar.

Hér er um skýrt merki þess hversu slæm fjárhagsstaða borgin er í  að hún skuli þurfa að leita til þróunarbanka Evrópu til að fjármagna almennt viðhald mannvirkja í sveitarfélaginu. Borgin hefur ekki lengur lánstraust hér, hún vekur ekki áhuga þeirra sem eru á markaðnum

Ætlar borgin að bregðast við sívaxandi þunga afborgana lána með almennilegri  tiltekt í rekstri? og setja stopp á þá peningakrana sem virðast stjórnlaust opnir. Það sem er kannski stóra málið í þessu öllu saman er að ef fer fram sem horfir í óbreyttri stefnu þá verður að skera niður og spara hvort sem menn vilja eða ekki. 

Óefnislegar eignfærslur

Þetta er eitt atriði sem nefnt var á  ábendingalista ytri endurskoðenda og sem snýr að Þjónustu- og nýsköpunarsviði  og þróunarverkefni sviðsins. 

Með leyfi forseta langar mig að lesa þessa ábendingu úr ársreikningi:

“Óefnislegar eignir A hluta samanstanda af eignfærðum kostnaði við hugbúnað og þróunarverkefna í upplýsingatækni. Eignfærðar voru 2,5 ma.kr. (2022: 2.3 ma.kr.) vegna þróunarverkefna á þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON) á árinu 2023, þar af er 1,8 ma.kr. (2022; 1.9 ma.kr. launakostnaðar starfsmanna borgarinnar.”

Svo segir í ábendingu með leyfi forseta:

“Mikilvægt er að eignfærsla slíkra þróunarverkefna í upplýsingatækni uppfylli kröfur ársreikningalaga og settra reikningsskilareglna. Þær reglur fela m.a. í sér að þróunarverkefni þurfa að vera nægilega afmörkuð og ávinningur þeirra óumdeildur til að teljast hæf til eignfærslu”

Það er mat Flokks fólksins að það væri ekki verið að vekja máls á mikilvægi þessa  ef þessar eignfærslur væru  í samræmi við settar reikningsskilareglur. Það væri varla verið að upplýsa sérstaklega að:

 “Endurskoðendur hafi komið ábendingum á framfæri um hvernig bæta mætti ferlið og verklasgreglur þannig að því markmiði sé betur náð”,  nema eitthvað lægi að baki,”, sama hvað hver segir. 

Þetta er ein af fáum ábendingum ytri endurskoðenda, “ að þróunarverkefni þurfa að vera nægilega afmörkuð og ávinningur þeirra óumdeildur til að teljast hæf til eignfærslu”.

Hér er verið aðeins að tala um þjónustu- og nýsköpunarsviðeinvörðungu

Borgarfulltrúi Flokks fólksins túlkar þetta sem svo að hér hefur verið gengið of langt í að eignfæra þróunarverkefni og  að þróunarverkefni ÞON hafi ekki verið nægjanlega afmörkuð og ávinningur þeirra ekki nægjanlega óumdeildur til að teljast hæf til eignfærslu. 

Afskriftir hafa gengið út í öfgar til að láta stöðuna líta betur út. Öll vitum við að fjöldi verkefna hafa aldrei farið í loftið, hafa aldrei komist út úr “Gróðurhúsinu”  heldur dagað uppi eftir að hafa kostað milljón eða tvær, eða þrjár?

Ávinningur hefur aldrei verið skýr hvað þá mælanlegur og ekkert yfirlit er yfir stöðuna.

Flokkur fólksins hefur margsinnis talað um þetta og leitað upplýsinga um hvernig stendur á að árið 2022 voru 10 milljarðarnir sem streymt var í stafræna umbreytingu hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði  breytt í eignfærsluverkefni sem ekki kemur fram í rekstri fyrr en byrjað er að afskrifa? 

Segir m.a. í svari að að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er heimilt að eignfæra rannsóknar- og þróunarvinnu og samkv. IAS 38 ( Sem er  Alþjóðlegur reikningsskilastaðall, IAS 38 (International Accounting Standards) og IFRS 3.  (International Financial Reporting Standards – Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar),

um óefnislegar eignir –  og það sagt fullum fetum að “þóunarkostnaður sé einungis eignfærður þegar líklegt er að hagrænn ávinningur verkefnisins muni nýtast sveitarfélaginu”. Um þetta má stórefast. Flokki  fólksins er ekki einum um að finnast þetta sérkennilegt þótt hér sé kannski ekki um lögbrot að ræða. 

Í framhaldi má spyrja, eftir hvaða reglum á að færa óefnislegar eignir í eignasjóð þegar verið er að taka upp nýja þjónustu / ný verkefni? 

Og hvað með kostnað, hvaða reglur eiga gilda um kostnað við rannsóknir og þróunarvinnu? Þessar og fleiri spurningar hafa verið lagðar fram en ekki fengist nein haldbær svör.

Hvað má t.d. afskriftartími óefnislegra eigna vera að hámarki og getur afskriftatíminn verið mismunandi milli einstakra flokka óefnislegra eigna?

Það segir sig sjálft að ef  færa á óefnislegar eignir í eignasjóð þurfa að liggja fyrir reglur og viðmið. Gera þarf skýran greinarmun á efnislegum eignum sviðsins í fjárfestingaráætluninni og óefnislegum eignum. Sýna þarf fram á að ávinningur verkefnsisins muni nýtast samfélaginu.

Flokkur fólksins hefur ekki séð neitt af þessu liggja á borðinu. Slík flokkun er forsenda þess að hægt sé að færa reikningsskil borgarinnar á þann hátt sem samræmist alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem opinberir aðilar skulu miða reikningsskil sín við.

Nokkur orð um Þjónustu- og nýsköpunarsviðs

Flokkur fólksins í borginni hefur ítrekað bent á að illa hefur verið farið með skattfé borgarinnar þegar kemur að þessum málaflokki – eins mikilvægur og hann er. Verkefni hafa verið illa skilgreind og afurðir ekki í neinu samhengi við það fjármagn sem streymt hefur verið til sviðsins án nokkurrar gagnrýni meirihlutans. 

Fyrstu árin, frá 2019 og fram til síðasta árs voru þau verstu í bruðli og sóun og svo virðist sem verið sé að sækja aftur um fjárheimildir fyrir ákveðin verkefni sem áttu að vera hluti af ákveðnum áður samþykktum fjárheimildarpakka. 

Flokkur fólksins hefur nánast verið einn um að halda þessari gagnrýni á lofti  hér í borgarstjórn en margir utan Ráðhússins og reyndar innan þess líka, hafa vakið athygli á mörgum atriðum sem þykja afar sérkennileg og jafnvel algjörlega á grensunni. 

Minnt er á ábyrgð og skyldur kjörinna fulltrúa, ekki aðeins Flokks fólksins heldur allra – og það er að benda á og taka til umræðu um það sem ekki þykir samræmast góðum stjórnunar- eða stjórnsýsluákvörðunum og háttum. Einnig ef grunur leikur á að verið sé að sýsla með almannafé af bæði lausung og kæruleysi. 

Erfitt er að fá heildaryfirsýn yfir verkefni sviðsins og þær áætlanir sem byggt er á við þróun þeirra og verkefni komandi ára. Ekki er sett upp raunveruleg forgangsröðun eða verkefni flokkuð eftir mikilvægi þeirra. Ekki er að heldur að finna stöðumat vegna einstakra verkefna á annan hátt en sem kemur fram í greinargerðum vegna umsókna um fjárheimildir til þeirra.

Þjónustu og nýsköpunarsvið hefur fengið ómælt fjármagn til að leika sér með í uppgötvunar- tilrauna og þróunarleikjum sem ætti að vera hlutverk fyrirtækja á markaði en ekki sveitarfélags. Þjónusta við fólkið hefur liðið fyrir slíkan leikaraskap á vakt þessa og síðasta meirihluta. Hvar eru afurðirnar sem lofað var, hver er afraksturinn? 

Hér eru nokkrar staðreyndir úr ársreikningnum er lúta að þessu sviði sérstaklega: 

Punktur 1

Fjárheimildir voru fyrir 3.726 milljónum í rekstri ÞON. Fjárheimildir voru síðan endurskoðaðar og var niðurstaðan þá 3.920 milljónir. Endanleg niðurstaða rekstrar ÞON, að frádregnum rekstrartekjum, hljóðaði upp á 4.094 milljónir eða 368 milljónum hærri en upphaflegar fjárheimildir. Endanleg niðurstaða var 10% hærri en upphafleg fjárheimild. Annað hvort var upphaflegri áætlanagerð mjög ábótavant eða utanumhaldi um reksturinn hefur verið mjög ábótavant – nema hvort tveggja sé. Hvað veldur svona mikilli aukningu á rekstri þess.

(Það er dálítið mikið að endanleg niðurstaða úr rekstri sviðsins sé 10% hærri en upphafleg fjárheimild. Það á ekki að miða við endurskoðaða fjárheimild þegar gerður er samanburður á endanlegri niðurstöðu og fjárheimildum heldur upphaflegri fjárheimild. )

Punktur 2

Hærri tekjur en ætlað var vegna þjónustu við önnur fagsvið þýðir að kostnaður hefur aukist hjá öðrum fagsviðum. Þetta eru ekki utanaðkomandi tekjur

Punktur 3

Laun og launatengd gjöld 85 milljónum umfram fjárheimildir.

Ekki er hægt að sjá annað en að fjármálastjórnun ÞON sé ábótavant. Það er farið fram úr fjárheimildum á öllum stöðum.
Virðing sviðsins fyrir ákvörðun borgarstjórnar um fjárheimildir sviðsins er stórlega ábótavant.

  1. Annar rekstrarkostnaður 227 milljónum umfram fjárheimildir.
  2. Fjárfestingar í eignasjóði 445 milljónum hærri en fjárheimildir voru fyrir.
  3. Raunverulegur rekstrarkostnaður sviðsins er samtals (laun og launatengd gjöld + annar rekstrarkostnaður) rúmir 6,0 milljarðar. Upphaflegar fjárheimildir skv. fjárhagsáætlun voru 5,7 milljarðar.

 

Spyrja hvort þessi fjármálastjórnun sé ásættanleg? Hvar eru takmörkin?  Það er óheimilt að fara fram úr fjárheimildum nema með sérstökum viðauka. 

Og að lokum, hverju hafa þessir fjármunir skilað.

Lokaorð

Þann 9. apríl sl. í borgarstjórn Reykjavíkur  lagði Flokkur fólksins fram tillögu um óháða úttekt á fjármálasýsli sviðsins og þarf sú úttekt að ná aftur til 2019.

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um óháða úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði varðandi hagræðingu og framtíðarskipulag sviðsins.

Borgarstjórn samþykkir að gerð verði óháð úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði varðandi hagræðingu og framtíðarskipulag sviðsins.

Í greinargerð með tillögunni segir:

Flokkur fólksins leggur fram tillögu þess efnis að óháður aðili utan borgarkerfisins verði fenginn til að gera allsherjar úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði m.t.t. hagræðingar og útvistunar þeirra þátta innan sviðsins sem betur er komið í höndum sérfræðinga á einkamarkaði.


Það er öllum ljóst að framkvæmd stafrænnar umbreytingar Reykjavíkurborgar hefur hingað til ekki skilað því sem ætlað var í upphafi. Á annan tug milljarða sem ákveðið var að ráðstafa í stafræna vegferð Reykjavíkurborgar fyrstu þrjú árin, er núna upp urinn með öllu. Einnig hefur sviðið nú þegar fengið mikið fjármagn síðustu tvö árin utan þess sem búið var að ráðstafa í stafræna umbreytingu. Þrátt fyrir þetta er þjónustu- og nýsköpunarsvið enn að sækja um háar fjárhæðir í stafræn verkefni sem að öllu jöfnu ætti nú þegar að vera lokið.
Það er því löngu tímabært að borgarbúar fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort þeir miklu fjármunir sem þeir hafa verið að greiða í stafræna vegferð undanfarin ár, hafi með flestum hætti skilað sér í formi tilbúinna lausna sem nú þegar ættu að hafa litið dagsins ljós.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins: 

Tillaga Flokks fólksins um að fá óháða úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði um hagræðingu og framtíðarskipulag sviðsins hefur verið vísað í borgarráð. Stafræn vegferð er framtíðin, um það er ekki deilt. Flokkur fólksins í borgarstjórn er búinn að fá nóg að því að horfa uppá hvernig farið hefur verið með almannafé í stafræna vegferð sem hefur einkennst af lausung og ábyrgðarleysi.  Ávinningurinn er í litlu samræmi við fjárútlát. Innri endurskoðun hefur ekki treyst sér til að rannsaka málið ennþá. Hlutverk kjörins fulltrúa er að  gagnrýna ef grunur leikur á óábyrgri fjármála- og verkefnastjórn. Fjölmargir undrast að meirihlutinn samþykkir hverja krónu sem sviðið kallar eftir gagnrýnislaust.  Ítrekað hafa æðstu stjórnendur neitað að ræða þessa hluti. Þeir kenna jafnvel pólitískum fyrirspurnum sem öllu jafna koma frá Flokki fólksins um klúðrið.  Aðrir minnihluta flokkar hafa ekki treyst sér í þennan slag. Millistjórnendur Þjónustu og nýsköpunarsviðs hafa heyrst gagnrýna nýju kerfin sem eru ekki nógu góð. Áfram hefur þurft að viðhalda þeim gömlu samhliða sem þýðir að unnið er í tveimur kerfum.

 Flokkur fólksins og hans málefni

Flokkur fólksins berst fyrir sínum áherslumálum svo sem að útrýma fátækt. Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börnin í þeim fjölskyldum sem bágast standa. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að ójöfnuður hefur aukist. Þeir sem neyðast til að vera á leigumarkaði og eru ekki með þess hærri tekjur ná engan vegin endum saman. Lítið er eftir ef þá nokkuð þegar búið er að greiða nauðsynjar.

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að gert verði betur við þá sem eru  verst settir, þeim veitt sérstaka og sértæka aðstoð meira en nú er gert. Horfa þarf sérstaklega til barnafjölskyldna þar sem áhrifin eru neikvæðust á börn. Til þess þarf skýra stefnu í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Flokkur fólksins lagði til að farið verði með kerfisbundnum hætti í að vinna að innleiðingu Barnasáttmálans. Tillögunni var vísað til borgarstjórnar og er þar enn óafgreidd.

Allt og mörg verkefni og framkvæmdir skortir skilvirkni og skilgreiningar sem og mælingar. Vandi í skilvirkni er vandi stjórnenda og í stjórnkerfi borgarinnar mjög víða skortir verulega á skilvirkni.

Það er því ekki skrítið að maður spyr hvar hefur forsjárhyggjan verið, skynsemin, dómgreindin, yfirvegunin í þessum og síðasta meirihluta? Það hefur verið farið afburða illa með fjármagn borgarinnar.

Húsnæðisvandamálin eru auðvitað hvað alvarlegust. Það vantar húsnæði. Framboð og eftirspurn er ekki í jafnvægi. Á meðan vöntun er á húsnæði eru íbúðir dýrar og aðeins þeir efnameiri geta keypt. Aðrir sem verða að láta leigumarkaðinn duga en þar má segja að frumskógarlögmálið gildi. Leigjendur eru að kikna undan hárri leigu. Ekki er vitað hversu margir búa við óviðunandi og jafnvel stór hættulegar aðstæður, í húsnæði sem er ekki samþykkt en þar sem fólk borgar allt að 80% af ráðstöfunartekjum sínum. Eins mikið og búið er að þrasa um húsnæðismálin er eitt deginum ljósara, það hefur ekki verið byggt nóg til að hýsa alla þá sem vilja búa í Reykjavík.

Flokkur fólksins villa deila fjármagni með öðru hætti í borginni en gert hefur verið undanfarinn áratug.. Þau kerfi sem eiga að fá ekki bara stærsta bitann af kökunni heldur langstærsta eru þeir sem snúa beint að velferð og þjónustu við fólk. Mæta þarf grunnþörfum allra enda er þetta sveitarfélag en ekki einkafyrirtæki. Byrja skal á fæði, klæði og húsnæði og síðan þá þjónustu sem verður að vera til staðar til að fólk geti unnið fyrir sér og sínum. Þar kemur leik- og daggæsla inn. Fólk þarf líka að komast stórslysalaust milli staða og helst á stórfelldrar tafa hvernig svo sem ferðamáta það kýs.

Líðan borgarbúa

Þjónusta á sál og líkama eru grunnþættir sam-neyslu-samfélagsins. Allt of stór hópur barna, öryrkja og eldra fólks líður ekki vel. Of margar fjölskyldur og einstaklingar geta ekki séð sér farborða og hafa áhyggjur af grunnþörfum sem eru fæði, klæði og húsnæði.

Fólk er á öllum aldri í Reykjavík og býr við mismunandi aðstæður eins og gengur og hefur þar að leiðandi mismunandi þarfir.  Sumir þurfa meiri þjónustu en aðrir. Þeir sem þurfa þjónustuna eiga ekki að þurfa bíða lon og don eftir henni. Hana á að veita hratt og með skilvirkum hætti. Biðlistar í borginni eru ótrúlega þrautseigt mein sem meirihlutinn til 20 ára hefur ekkert ráðið við að leysa.

Eins og þessi mál horfa við Flokki fólksins eru þetta ekki áherslur þessa og síðasta meirihluta heldur eru þeir meira í átt að stórum og smáum framkvæmdum sem teknar eru fram fyrir nauðsynlegar þarfir almennings. Þrengingar gatna, þétting byggða úr hófi fram og þensla þegar gæta á frekar aðhalds. Fjárfrek verkefni, Grófarhús, Hlemmur og fleira er eitthvað sem getur beðið um tíma meðan verið er að laga grunnstoðirnar.

Borgarmeirihlutinn var illa undirbúinn undir áföllin, Covid, stríð og miklir fólksflutningar til Íslands. Safna til mögru áranna gleymdist alveg, eða vera bara svo skynsamur að vita að allt getur gerst. Fjármálastjórnun hefur verið óábyrg að þessu leytinu ekki síst vegna mikillar skuldaaukningar. Sviðin standa sig misvel en flest eru að reyna að vinna af skynsemi. Sum eru aðþrengd með annað svið eyðir peningum eins og enginn sé morgundagurinn.

Flokkur fólksins mótmælir skerðingu á þjónustu og að klipið sé af fólki sem býr við bágustu kjör. Aðalmarkmiðið er að draga ekki úr þjónustu en hafa ávallt dómgreindina í lagi og heilbrigða skynsemi þegar sýslað er með fé borgarinnar..

Leikskólamálin

Alvarlegustu svikin eru í kringum leikskóla og daggæslumálin. Frá árinu 2014 hefur leikskóla- og daggæsluplássum fækkað umtalsvert í  Reykjavík. Samhliða hefur börnum á leikskólaaldri í Reykjavík fækkað um 10% en fjölgað í nágrannasveitarfélögum.  Biðlisti barna eftir leikskólaplássi er á annað þúsund börn 12 mánaða og eldri börn og eykst með hverjum mánuði sem líður. Við þetta bætast svo milli 300 og 400 vannýtt pláss vegna viðhaldsvanda og á annað hundrað vannýtt pláss vegna manneklu.

Álagið á fjölskyldur vegna þessa er gríðarleg. Vinnu- og tekjutap svo ekki sé minnst á andlegt álag.  Stór hópur af ömmum og öfum og öðrum ættingjum og vinum foreldra eru nú í fullri vinnur fyrir Reykjavíkurborg að passa börnin þegar leikskóli er lokaður vegna ýmist myglu, manneklu eða meðan beðið er eftir að leikskólar rísi.

Meirihlutinn viðurkennir vandann en getur ekki skýrt hann. Vanræksla á viðhaldi hefur leitt til gríðarlegra tafa fyrir innritun yngri barna því  metfjöldi eldri leikskóla hefur þurft að loka plássum vegna viðhaldsframkvæmda.

Þegar þetta er dregið saman þá er ástandi í leik- og daggæslumálum borgarinnar með öllu óásættanlegt. Foreldrar hafa liðið lengi fyrir óvissuna og fulltrúar leikskólastjóra hafa komið með alvarlegar athugasemdir um stöðuna. Bréf frá örvæntingarfullum foreldrum berast til borgarfulltrúa reglulega. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskólum sem á eftir að byggja. Mönnunarvandinn kemur sérlega illa niður á foreldrum sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ástandið hefur þess utan skapað annað misrétti. Foreldrar sem ekki fá inni fyrir börn sín í borgarreknum leikskólum þurfa að leita til einkageirans þar sem niðurgreiðsla frá borginni er lægri. Þetta þarf að jafna út. Flokkur fólksins hefur lagt til að borgarráð samþykki að hækka niðurgreiðslu Reykjavíkurborgar hjá einkareknum ungbarnaleikskólum þegar barn nær 18 mánaða aldri, í þeim tilvikum þegar barn er með virka umsókn en fær ekki pláss hjá dagforeldrum eða á borgareknum leikskóla.