Ræða oddvita Flokks fólksins við síðari umræðu Ársreiknings 9. maí 2023

RÆÐA, síðari umræða ársreiknings

Það sem hefur gerst á þeirri viku sem liðin er síðan fyrri umræða var í borgarstjórn um ársreikning, er að Reykjavíkurborg sendi frá sér fréttatilkynningu í vikunni þess efnis að villa hafi verið í ársreikningnum. Við endurskoðun reyndust verðbætur í sjóðstreymi oftaldar um 2.492 m.kr. og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. Nú er komin upp spurning hvenær má treysta fjármálalegum upplýsingum frá borginni og hvenær ekki? Það tekur örskamma stund að eyðileggja traust  en langan tíma að byggja það upp aftur.

Hvað er hér í gangi?

Er hér um áfallnar verðbætur á verðtryggð skuldabréf á útgáfudegi að ræða sem lagðar voru við verðbætur í sjóðstreymi í stað færslu á ný lán?

Leiðréttingin hefur áhrif á niðurstöðu veltufjár frá rekstri og fjármögnunarhreyfingar í sjóðstreymi eins og segir í fréttatilkynningu. Svo segir að áhrif á rekstrar- og efnahagsreikning séu engin. Er þetta eitthvað sem fólk á að skilja – að verri afkoma upp á rúma 2 milljarða skipti bara engu máli um heildarafkomu borgarinnar?

Athygli er vakin á að auk sjóðstreymis, hefur skýring 45, langtímaskuldir, verið leiðrétt og lykiltölur í skýringum 61, 62 og 63 sem tengjast sjóðstreymi, veltufé frá rekstri og handbæru fé frá rekstri.
Samanburðar tölur árið 2021 hafa einnig verið leiðréttar um 244 m.kr. þar sem um sambærilegt tilvik var að ræða.

Hér er um stórmál að ræða, eitthvað sem er fáheyrt. Þetta er engin smá skekkja í þeim ársreikningi sem var lagður  fyrir borgarstjórn í fyrri umræðu Svo er ekki einu sinni sagt hvaða áhrif það hefur á veltufé frá rekstri heldur einungis látið nægja að segja að það hafi áhrif á veltufé frá rekstri. Hvaða áhrif hefur þessi breyting? Til hækkunar eða lækkunar? Það er nefnilega dálítill munur á að veltuféð sé jákvætt um 400 milljónir eða neikvætt um tvo milljarða.

Það er líka alvarlegt mál að það sé lagður rangt uppsettur ársreikningur fyrir kjörna fulltrúa til umræðu í borgarstjórn. Umræður um fjárhagsstöðu borgarinnar frá fyrri umræðu, voru unnar út frá röngum forsendum – að maður tali ekki um þegar veltufé frá rekstri er orðið neikvætt um nær tvo milljarða.

Í raun ætti að krefjast þess að fyrri  umræða um ársreikninga borgarinnar verði tekin aftur og nú út frá réttum forsendum?

Einnig virðist, samanber það sem fram kemur í fréttatilkynningu, að það hafi einnig verið skekkja í ársreikningi borgarinnar á árinu 2021, að vísu um mun lægri fjárhæð. 

Það er grundvallaratriði að treysta megi  framlögðum ársreikningum. Ef það er ekki hægt er fokið í flest skjól. Leynast kannski fleiri skekkjur í ársreikningum liðinna ára?

Hvað vita fulltrúar minnihlutans og hvað veit hinn almenni borgari?

Þetta er fáheyrt.

Er ekki rétt að fá álit innviðarráðuneytis á hvað gera á í þessari stöðu? Á að endurtaka fyrri umræðu sem dæmi?

Nú má ekki gleyma því að ársreikningur er settur saman á ábyrgð borgarstjóra og kjörinna fulltrúa meirihlutans. Endurskoðendur sverja af sér alla ábyrgð á uppsetningu ársreiknings. Þeirra hlutverk er einungis, að þeirra sögn, að kanna hvort uppsetningin sé ekki rétt og sannreyna að rétt sé farið með helstu tölur. En hvað með aðra borgarfulltrúa, ætla þeir að skrifa undir án fyrirvara?

 Aðeins að hinum meirihlutaflokkunum

Oddviti Viðreisnar skrifaði grein í Mbl. um daginn og sagði að aðgerða væri þörf í fjármálunum borgarinnar. Hvar hefur hún verið síðustu árin? Ber hún ekki fulla á ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin? Af hverju skyldi eiga frekar að trúa henni núna en þegar hún lýsti því yfir fyrir kosningar að fjármál borgarinnar væru í stakasta lagi. Hún lýsti því yfir í upphafi hve mikil nauðsyn væri á að fá reynda fjármálamanneskju inn í borgarstjórn. Oddviti Pírata tekur hins vegar alltaf upp hanskann fyrir félaga sína í meirihlutanum og borgarstjóra. Hjá Pírötum er meðvirknin alger bæði gagnvart fjármálastöðunni og fjáraustri til ÞON. Pírötum virðist fyrirmunað að axla nokkra ábyrgð.

Hvað Samfylkinguna varðar þá eru það bara strútseikennin sem hrjá þann flokk. Þau stinga  höfðinu í sandinn, flýja veruleikann, eru í fílabeinsturni, sjá má veruleikafirringu, afneitun og raunveruleikaflótta.  

Þau segjast vera að hagræða, spara en hagræðing upp á einn milljarð í 150 milljarða veltu er smáaðgerð sem ætti að vera árleg hagræðingarkrafa jafnvel þótt reksturinn sé í góðu jafnvægi.  

Og svo er það bjargvætturinn sem svo átti að verða,  Framsóknarflokkurinn, kom sá og sigraði, en ekki lengi 

Hvað segja framsóknarmenn?

Eru þau bara ánægð með stöðuna sem þau geta ekki firrt sig ábyrgð á?

Hvar eru loforðin um breytingar sem flokkurinn sigldi undir í síðustu kosningabaráttu?

Eru breytingarnar kannski þær að það er ekki hægt að treysta þeim gögnum sem lögð eru fyrir kjörna fulltrúa í fyrstu umræðu um ársreikning fyrir árið 2022? Eru breytingarnar kannski þær að afkoma og fjárhagsstaða borgarsjóðs hefur aldrei verið verri?

Eru breytingarnar kannski þær að samkvæmt þeim upplýsingum sem nú hafa komið fram um  útkomu A-hluta sveitarfélaga á síðasta ári þá er útkoma borgarinnar langverst?

Eru breytingarnar kannski þær að lánsþörf vegna hallareksturs A-hluta hefur aldrei verið meiri?

Eru breytingarnar kannski þær að afborganir langtímalána hafa aldrei hækkað meir milli ára hjá A-hluta borgarsjóðs?

Fjöldi  borgarbúa batt vonir við að það stæði eitthvað bak við loforð Framsóknarflokksins um breytingar hjá borginni og því gaf það flokknum atkvæði sitt. Hver eru skilaboðin sem þetta sama fólk fær nú?  

Það er ekki nóg að segja að skuldahlutfall A-hluta borgarsjóðs sé gott þegar reksturinn gefur minna en ekki neitt í afgang til að greiða afborganir síhækkandi lána. 

Það er ekki annað hægt en að minnast á bókun meirihlutans frá í fyrra rétt fyrir kosningar:

“Ársreikningur Reykjavíkur skilar gríðarlega sterkri niðurstöðu við krefjandi aðstæður og að  ársreikningur staðfestir því ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild. Það er gott veganesti inn í framtíðina.”

Núna er staðan mun verri.

Spurt er aftur til hvaða aðgerða á að grípa? Liðið er ár frá kosningum og hveitibrauðsdagarnir löngu liðnir og eina breytingin sú að staðan er enn verri en lagt var upp með í byrjun kjörtímabilsins og á mögulega eftir að versna.

Það liggur í augum uppi að allt eftirlit með kostnaði hlýtur að vera lítið með tilliti til þess að það er því sem næst ekkert veltufé til frá rekstri. Eins og farið var rækilega yfir í fyrri umræðu þá eru það  sívaxandi skuldir, gríðarlegar fjárfestingar á þenslutímum (fjárfestingar eru dýrar á slíkum tímum), vaxandi þungi afborgana langtímalána sem eru borgaðar með nýrri lántöku. Afborganir lána eru fjármagnaðar með nýjum lántökum. Þetta endar bara á einn veg ef ekki verður úr bætt – spírall sem einungis mun versna ef ekkert breytist. Það er klárlega tímabært að kalla eftir aðstoð eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga eins og borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til. 

Þessi meirihluti á að viðurkenna vanmátt sinn, sýna hógværð og lítillæti og óska aðstoðar og leiðbeiningar með hvernig aðlaga á reksturinn að þessum erfiðu aðstæðum og í ljósi eyðslu og þenslu umfram skynsemi undanfarin ár. Einnig er mjög líklegt að taka þurfi fyrri umræðu aftur og þá á réttum forsendum.

 Flokkur fólksins spyr í ljósi alls þessa og margs fleira sem er í ólestri í borginni, hvort þessi meirihluti eigi ekki að stíga til hliðar og leyfa öðrum að spreyta sig á verkefnum borgarinnar. Því má ekki gleyma í þessari umræðu að afkoma sumra sveitarfélaga  á árinu 2022 er víða ágæt samkvæmt framlögðum ársreikningum.

Hin kolranga forgangsröðun

Flokki fólksins finnst forgangsröðun þessa og síðasta meirihluta kolröng. Aldrei heyrist í borgarstjóra  að hann hafi áhyggjur af börnum borgarinnar. Staða þeirra er ekki í forgangi.  

Húsnæðisvandinn er kannski djúpstæðasti vandinn og á borgarmeirihlutinn ríkan þátt í hversu slæm staðan er á húsnæðismarkaðinum. Að þétta byggð hefur verið þráhyggja hjá meirihlutanum.  Að þétta byggð er dýrt og tekur lengri tíma og íbúðir á þéttingarreitum eru rándýrar. Efnafólk hafa notið góðs af og sölsað undir sig mörgum eignum sem leigðar eru á okurverði.

Nokkur orð um leigumarkaðinn  

Hagkvæmt húsnæði af öllum gerðum, sárvantar í Reykjavík. Í raun má segja að Reykjavík uppfylli ekki 14. gr. laga um húsnæðismál. Við blasir að auka þarf framboð á lóðum. Byggja þarf í hverfum þar sem er rými og innviðir sem þola fjölgun íbúa. Sem dæmi er hægt að byggja af krafti í Úlfarsárdal og Keldnaholti og fleiri stöðum þar sem sem gott rými er og fólk vill byggja á. Sum staðar eru innviðir og skólar ekki fullsetnir. 

Borgin getur beitt sér fyrir að sett verði leiguþak því ljóst er að hvatning til leigusala að stilla leiguverði í hóf hefur ekki áhrif. Hvað er borgarmeirihlutinn annars að gera til að beita sér í þessum málum.

Á meðan ástandið er svo slæmt þarf að auka beinan stuðning við leigjendur í formi húsnæðisbóta. Gera þarf betur fyrir þá sem nú búa við hættulegar aðstæður vegna þess að húsnæði er óíbúðarhæft.

Í stað þess að einblína af öllu afli á þessi stóru vandamál er meirihlutinn að sinna öðrum hlutum. Fátækt hefur aukist  og sýnt hefur verið fram á  að ójöfnuður hefur aukist. Þeir sem neyðast til að vera á leigumarkaði og eru ekki með þess hærri tekjur ná engan vegin endum saman. Lítið er eftir ef þá nokkuð þegar búið er að greiða nauðsynjar. 

Aðeins um biðlista og myglumál

Biðlistar halda áfram að lengjast þrátt fyrir Betri borg fyrir börn verkefnið og Keðjuna (skrifstofa)  sem allt hefur kostað sitt. Erfitt er að skilja af hverju  þessi úrræði hafi ekki náð að  stytta biðlista. Biðlisti barna er nú í dag 2498 en var fyrir rúmum mánuði 2450. Hvernig má þetta vera með öll þessu fínu og dýru úrræði? Aftur er hér nefnt að þessi sami listi var 400  börn áirð 2018.

Hávær hróp berast frá skólasamfélaginu vegna myglu og raka vanda í fjölmörgum skólum borgarinnar. Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski á skólastarfi vegna myglu og raka. Skaðsemi og önnur áhrif af þessu eru með öllu óljós.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins ætlar að nefna hér Laugarnesskóla en starfsfólk og börn hafa liðið fyrir andvaraleysi meirihlutans að taka á myglu- og rakavanda skólans. Það er með ólíkindum að það taki svona langan tíma að hefja viðgerðir og undirbúa viðbyggingu. Orðið  ,,að stilla upp” er notað þegar skólasamfélagið ýtir við málinu. Sagt er að“framkvæmdaaðilar séu að stilla upp”. Hvað er átt við nákvæmlega og hversu lengi verða framkvæmdaaðilar að stilla upp?? 

 

Nýlega barst ályktun frá fulltrúum starfsfólks Laugarnesskóla en í of mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Einnig hafa þau þurft ítrekað að skipta um stofur meðan plástrað er yfir myglu og rakaskemmdir. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu.  Frá því í haust hefur ekki verið hægt að kenna í hluta heimilisfræði stofunnar vegna viðhaldsframkvæmda. Þessum framkvæmdum er enn ekki lokið og hafa iðnaðarmenn ekki sést í marga mánuði.  En þetta er svo sannarlega ekki eina dæmis, heldur eru þau fjölmörg. 

Eins og ég sagði í fyrri umræðu í ræðu, þá er það ekki bara eitthvað eitt sem er í alvarlegum ólestri í borginni heldur fjölmargt og allt sem má rekja til stjórnunar og reksturs borgarinnar. Þjónusta við fólkið hefur liðið fyrir ranga forgangsröðun og bruðl með skattfé.

 

Framvinduskýrslan

Þegar horft er til framvinduskýrslunnar þá eru þar margir liðir sem kalla fram spurningar. Ef við grípum niður í þann málaflokk sem Flokki fólksins finnst að sérlega hafi verið farið illa með fjármagn þá vakna margar spurningar. Það er skoðun borgarfulltrúa Flokks fólksins að opinn tékki frá meirihlutanum til ÞON til að leika sér í tilrauna smiðjum, á stóran þátt í þeim fjárhagserfiðleikum sem Reykjavík er í núna. Þjónustu og nýsköpunarsvið hefur fengið ómælt fjármagn til að leika sér í uppgötvunar- tilrauna og þróunarleikjum sem er hlutverk einkaframtaksins en ekki sveitarfélags.

Í hvað hafa þessi peningar farið / hvaða lausnir eru tilbúnar sem keyptar hafa verið fyrir þetta fjármagn. Áður hefur verið spurt hvar t.d. Gagnsjáin er og af hverju er þetta vesen búið að vera með Hlöðuna og fleira sem er á ábyrgð þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Og svo það sé sagt aftur, að það þarf raunverulega að handskrifa 6-7 blaðsíður til að innrita barn sitt í leikskóla? 

 

Og samt er ekkert lát á fjárstraumi meirihlutans til sviðsins. Ef horft er á þessa milljarða þá er þarna líka  tölvukaup og önnur búnaðarkaup sem auðvitað nýtast í uppfærslum á tölvubúnaði. En eins og áður hefur komið fram hjá Flokki fólksins þá er keyptur dýr búnaður – MacBook Pro handa borgarfulltrúum og annað sérvalið starfsfólk sem hefur enga þörf fyrir að vera með svo dýran búnað.

 Og áfram heldur þenslan. Nú er verið að auglýsa eftir enn fleira starfsfólki í miðjum sparnaðar leiðangri borgarinnar. Nú er sviðið að ráða til sín bæði þróunarstjóra og tæknistjóra til þess að reyna að finna upp og þróa eitthvað enn meira – þrátt fyrir að lítið hafi orðið til af nýsköpuðum og fullkláruðum lausnum Reykjavíkurborgar hingað til. Áfram er haldið með gríðarmiklar notendarannsóknir á hegðun borgarbúa sem virðast hegða sér að mati sviðsins með einhverjum hætti, allt öðruvísi en aðrir íbúar annarra borga. Þess vegna virðist þjónustu og nýsköpunarsviði, illmögulegt að finna upp stafrænar lausnir við hæfi miðað við það hversu lítið hefur orðið til upp úr öllum þessum rannsóknum sviðsins fyrir alla þessa milljarða. Óhætt er að fullyrða að ekkert sveitarfélag hefur lagt í eins langvarandi og djúpstæðar notendarannsóknir og Reykjavíkurborg.

 

Að lokum vil ég vísa í og fá að lesa úr pistli eftir Valgeir  Magnússon  sem birtist á vef fjölmiðla með leyfi forseta, pistill sem lýsir ástandinu vel og sýnir líka að það eru fleiri sem eru búnir að gefast upp á þessum meirihluta en Flokkur fólksins.

“Borg geng­ur ekki út á mjög marga hluti í grunn­inn. Þetta er okk­ar sam­eig­in­legi rekst­ur og snýst um að hafa göt­urn­ar opn­ar, leik­skól­ana í gangi, grunn­skóla, sækja ruslið og vinna með það, hugsa um gamla fólkið og fatlaða. Svo þarf að skipu­leggja og út­hluta lóðum fyr­ir hús­næði og sjá um allskyns skrán­ing­ar og skjöl­un. Svo er hægt að bæta við ýms­um verk­efn­um sem hver meiri­hluti set­ur odd­inn hverju sinni. En grunn­inn tök­um við aldrei í burtu. Hann verður að vera í lagi. Þetta er bara rekst­ur í raun­inni. Rekst­ur á okk­ar sam­eig­in­legu hlut­um. Fólk get­ur haft skoðun á mik­il­væg­is­röðinni en þetta er samt bara rekst­ur. Í rík­is­mál­um get­ur verið vinstri og hægri póli­tík, en í borg er þetta aðallega bara rekst­ur.

En hvernig snú­um við rekstri sem tap­ar 15,6 millj­örðum á einu ári? (En það var tap á rekstri borg­ar­inn­ar árið 2022, sama hvaða umbúðum ein­hverj­ir reyna að pakka niður­stöðunni í. Aðrar töl­ur eru bara rekstr­ar­ár­ang­ur dótt­ur­fyr­ir­tækja eins og Orku­veit­unn­ar og fleiri.) Tapið er svo mikið og vaxta­kostnaður­inn svo svaka­leg­ur að borg­in er stödd á mjög hættu­leg­um stað. Það þarf annaðhvort að auka tekj­urn­ar eða minnka kostnaðinn, nema hvort tveggja sé. Það eru eng­ar aðrar töfra­lausn­ir til. Ef Icelanda­ir væri að tapa 15,6 millj­örðum á ári myndu þau gera breyt­ing­ar?

Svarið er já, því ann­ars færi fyr­ir­tækið á haus­inn. Það yrði ráðinn ein­stak­ling­ur í brúna sem væri mik­ill rekst­arein­stak­ling­ur, sem þorir að taka óvin­sæl­ar ákv­arðanir hvað kostnað varðar og hefði hug­mynd­ir um hvernig hægt væri að auka tekj­urn­ar. Ein­stak­ling­ur sem þyrfti að velja hvað er nauðsyn­legt að hafa og hvað er gott að hafa (must have vs nice to have). Svo er bara spurn­ing um hvað af því sem er gott að hafa yrði látið víkja á meðan rekstr­in­um yrði snúið við.

Ein­ar Þor­steins­son má eiga það að hann kem­ur vel fyr­ir og var mjög góður að spyrja spurn­inga í Kast­ljós­inu. En hef­ur hann rekið stór­fyr­ir­tæki? Nei. Hef­ur hann tekið við rekstri á gjaldþrota stór­fyr­ir­tæki? Nei. Er hann rétti maður­inn til að snúa þess­um rekstri? Lík­lega ekki. Ég vor­kenni Ein­ari, sem hélt að hann væri að fara í mjög áhuga­vert starf en end­ar í starfi sem hann að öll­um lík­ind­um ræður á eng­an hátt við. Starf þar sem hann mun þurfa að velja á milli þess að verða óvin­sæll fyr­ir óvin­sæl­ar ákv­arðanir eða óvin­sæll fyr­ir að safna skuld­um.

Vanda­málið er að póli­tík­us­ar í dag taka ekki óvin­sæl­ar ákv­arðanir. Hvernig er þá hægt að snúa rekstri borg­ar­inn­ar við? Það er bara ein leið sem ég sé; að ráða for­stjóra í verkið, rekstr­arein­stak­ling með reynslu af slík­um verk­efn­um. Póli­tík­us­arn­ir geta séð um að hugsa um stefnu­mót­andi ákv­arðanir en eins og staðan er núna verður rekst­ur­inn að vera í hönd­um at­vinnu­mann­eskju sem veit hvað hún er að gera. Hana þarf að ráða í vinnu. Þannig mann­eskja get­ur valið úr störf­um og fer ekki í at­vinnu­viðtal við alla borg­ar­búa til að láta draga sig upp úr drullupolli.
Endir

Kæra borgarstjórn.

Það er orðið alveg ljóst að núverandi meirihluti hefur ekki það sem þarf til þess að leysa úr þeim fjárhagsvanda sem fulltrúar hans sjálfs hafa komið borginni í með óráðsíu undanfarinna ára. Sú óráðsía heldur áfram athugasemdarlaust, samanber glórulausan fjáraustur meirihlutans á milljörðum í stefnulausa tilraunaleiki þjónustu og nýsköpunarsviðs.

 

ENDIR

Undirritun með fyrirvara

Borgarfulltrúi Flokks fólksins undirritar Ársreikning 2022 með fyrirvara að vegna skekkju/villu sem kom í ljós við endurskoðun þar sem verðbætur í sjóðstreymi reyndust oftaldar á þriðja milljarð og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. Vegna þessa telur borgarfulltrúi Flokks fólksins ekki hægt að treysta fjármálalegum upplýsingum frá borginni. Einnig er skrifað undir með fyrirvara vegna þess að fari hefur verið með fjármagn af lausung t.d.  í stafræna umbreytingu og að ekki hefur verið forgangsraðað með  þarfir borgarbúa að leiðarljósi .